Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 187. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 322  —  187. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur
um viðtöku fjárframlaga frá erlendum aðilum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Á hvaða íslenskri lagastoð hvílir viðtaka 596 millj. kr. fjárframlaga frá erlendum aðilum, sbr. lið 17.2.1 í sundurliðun 1, Tekjur A-hluta, í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012: Styrkir frá Evrópusambandinu vegna aðildarumsóknar Íslands?

    Ísland á eins og önnur umsóknarríki kost á að sækja um framlög úr sérstökum sjóðum m.a. til að standa straum af breytingum á stjórnkerfi, eða stofnunum, sem um kann að semjast, eða til að byggja upp þekkingu innan íslenska stjórnkerfisins á innviðum Evrópusambandsins, þar á meðal sjóðakerfi þess. Öll umsóknarríki hafa skiljanlega notfært sér þetta, enda oft um kostnaðarsamar breytingar að ræða. Eðlilegt er og rökrétt að slíkar breytingar, sem undirbúnar eru eða framkvæmdar vegna aðildar, séu m.a. kostaðar af Evrópusambandinu að stærstum hluta.
    Til að svo verði þurfa stjórnvöld viðkomandi ríkja að samþykkja það með formlegum hætti. Alþingi er æðsta stjórnvald Íslendinga um fjármál ríkisins og fer með fjárveitingarvaldið. Fyrirspurnin virðist byggð á þeim skilningi að umræddum framlögum hafi þegar verið veitt viðtaka. Svo er ekki, enda hvorki fjáraukalagafrumvarp né fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar orðið að lögum þegar fyrirspurnin var fram sett eða henni svarað. Frumvarp til laga er tillaga til Alþingis. Slíkt frumvarp umskapast ekki sem lög fyrr en Alþingi hefur samþykkt það með þeim breytingum sem alþingismenn koma sér saman um. Að framangreindum lagafrumvörpum samþykktum stofnast lagaheimild til þess gernings sem um er spurt. Hér verður ekki seilst um hurð til lokunnar fremur en í öðru sem lög varðar og hann því ekki framkvæmdur fyrr en Alþingi hefur veitt til þess umrædda heimild.