Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 317. máls.

Þingskjal 371  —  317. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt,
með síðari breytingum (listaverk o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)



1. gr.

    2. tölul. 4. gr. laganna orðast svo: Listamenn, að því er varðar sölu þeirra á eigin listaverkum, svo og uppboðshaldarar að því er varðar sölu þessara verka á listmunauppboðum, sbr. lög nr. 28/1998, um verslunaratvinnu.
    Eftirfarandi listaverk falla undir þennan tölulið:
     a.      Verk sem falla undir tollskrárnúmerið 9701.1000, þ.e. málverk, teikningar og pastelmyndir gerðar í höndum að öllu leyti, klippimyndir og áþekk veggskreytispjöld, þó ekki teikningar í nr. 4906 og handmálaðir eða handskreyttir framleiddir hlutir.
     b.      Verk sem falla undir tollskrárnúmerið 9702.0000, þ.e. frumverk af stungum, þrykki og steinprenti.
     c.      Verk sem falla undir tollskrárnúmerið 9703.0000, þ.e. frumverk af höggmyndum og myndastyttum, úr hvers konar efni. Afsteypur af verkum skv. 1. málsl. sem gerðar eru undir umsjón listamanns að hámarki í átta eintökum.
     d.      Veggteppi og veggvefnaðarvara sem falla undir vöruliði 5805 og 6304 í tollskrá í viðauka 1 við tollalög, nr. 88/2005, handgerð af listamanni eftir frumteikningum hans að hámarki í átta eintökum hvert verk.
     e.      Einstakir leirmunir handgerðir að öllu leyti af listamanni og merktir honum.
     f.      Verk úr glerjuðum kopar, handgerð og merkt listamanni, að hámarki í átta eintökum, þó ekki skartgripir eða gull- og silfursmíðavörur.
     g.      Ljósmyndir sem listamaður tekur, eru prentaðar af honum eða undir hans umsjón, áritaðar og númeraðar að hámarki í 30 eintökum.

2. gr.

    Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein er verður 4. gr. A, svohljóðandi:
    Leiki vafi á tollflokkun vöru skv. 2. tölul. 4. gr. geta aðilar sem hagsmuna eiga að gæta, óskað eftir ákvörðun tollstjóra um tollflokkun vöru skv. 21. gr. tollalaga.
    Ákvörðun tollstjóra um tollflokkun listaverka má skjóta til ríkistollanefndar, sbr. 118. gr. tollalaga.
    Ákvörðun tollyfirvalda um tollflokkun listaverka er bindandi fyrir ríkisskattstjóra og aðra aðila sem óska eftir tollflokkun hjá tollstjóra.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „rannsaka“ í 2. mgr. kemur: fara yfir.
     b.      Í stað orðanna „rannsaka skýrslu sérstaklega“ í 3. mgr. kemur: meta hvort skýrslan þarfnist sérstakrar skoðunar.

4. gr.

    4. tölul. 1. mgr. 36. gr. laganna orðast svo: Listaverk sem falla undir 2. tölul. 4. gr. og listamaðurinn sjálfur flytur inn.

5. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2011“ í ákvæði til bráðabirgða X í lögunum kemur: 31. desember 2012.

6. gr.

     Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2011“ í ákvæði til bráðabirgða XI í lögunum kemur: 31. desember 2012.

7. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „1. janúar 2012“ í 1. og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XV í lögunum kemur: 1. janúar 2013.

8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Tilefni lagasetningar.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um virðisaukaskatt. Meginbreytingin felst í breytingum á 2. tölul. 4. gr. laganna þar sem lagt er til að fleiri listaverk verði felld undir undanþágu ákvæðisins. Ákvæðinu var síðast breytt með lögum nr. 119/1989, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Með þeim lögum urðu uppboðshaldarar einnig undanþegnir skattskyldu að því er varðar sölu þeirra verka listamanna á listmunauppboðum sem falla undir ákvæðið. Í framkvæmd hefur ákvæði 2. tölul. 4. gr. verið túlkað þröngt þar sem um undanþágu er að ræða frá meginreglu laganna um að innheimta beri virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum.
    Í kjölfar tillagna Bandalags íslenskra listamanna um rýmkun ákvæðsins hefur fjármálaráðuneytið farið yfir ákvæði 2. tölul. 4. gr. með það að leiðarljósi að meta hvort fella beri fleiri listaverk þar undir. Ráðuneytið hefur litið til ákvæða dönsku virðisaukaskattslaganna er lúta að undanþágu listamanna frá virðisaukaskatti (d. Lovbekendtgørelse nr. 287 om merværdiafgift – Momsloven). Þar sem dönsku virðisaukaskattslögin eru byggð á virðisaukaskattstilskipun Evrópusambandsins (ESB), nr. 112/2006 (e. VAT Directive 1 ), hefur ráðuneytið einnig litið til tilskipunarinnar við mat á því hvort rétt sé að fella fleiri listaverk undir undanþáguna. Eftir þá skoðun telur ráðuneytið að rétt sé að leggja til að fleiri listaverk verði felld undir undanþágu ákvæðisins.
     Sú breyting sem lögð er til á ákvæði 2. tölul. 4. gr. laganna er í samræmi við 4. mgr. 69. gr. dönsku virðisaukaskattslaganna varðandi tegundir listaverka, tollflokka og fjölda listaverka í tilgreindum tilfellum. Telja verður að rétt sé að fjölga ekki tegundum undanþeginna listaverka frekar en þetta þar sem með því væri gengið lengra en gert er í dönsku lögunum, sem og virðisaukaskattstilskipun Evrópusambandsins.
    Þær breytingar sem lagðar eru til á orðalagi og efni 25. gr. laganna eru gerðar vegna ábendinga frá ríkisskattstjóra.
    Loks er lagt til að bráðbirgðaákvæði X, XI og XV verði framlengd um eitt ár. Um er að ræða þrjár heimildir til endurgreiðslna á virðisaukaskatti sem taldar eru hafa gefist vel. Sú ákvörðun að taka upp 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað er talin hafa leitt til þess að heimili hafi ráðist í framkvæmdir og viðhaldsverkefni sem þau hefðu annars ekki gert. Fyrir liggur að á árinu 2010 réðust heimili í heldur fleiri en smærri viðhaldsverkefni en á árinu 2009, enda umsóknarfjöldinn meiri. Umrædd 100% endurgreiðsla virðisaukaskatts hefur því reynst vel og ætla má að aðgerðirnar hafi dregið úr atvinnuleysi á árunum 2009 og 2010, sbr. nánari upplýsingar í athugasemdum við 5. gr.

II. Meginefni frumvarpsins.
    Megintillaga frumvarpsins felst í því að rýmka ákvæði 2. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988 svo að fleiri listaverk listamanna falli undir ákvæðið. Í því sambandi hefur verið horft til ákvæða dönsku virðisaukaskattslaganna nr. 287/2011 sem og virðisaukaskattstilskipunar ESB nr. 112/2006, þar sem undanþáguákvæði dönsku laganna byggist á tilskipuninni. Skilgreining frumvarpsins á því hvaða listaverk verða felld undir undanþágu ákvæðisins er gerð að fyrirmynd dönsku virðisaukaskattslaganna. Rétt er þó að geta þess að dönsku lögin eru í nokkrum fleiri atriðum frábrugðin lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem undanþága listamanna vegna virðisaukaskatts í Danmörku er háð því skilyrði að ekki sé selt fyrir hærri upphæð en DKR 300.000 á yfirstandandi eða fyrra almanaksári. Um þá sölu sem fer umfram þau mörk gildir svo sérstök skattverðsregla. Þessi fjárhæðartakmörkun er hvorki til staðar í íslensku lögunum né heldur í frumvarpi þessu þar sem öll sala listamanna á verkum sem falla undir ákvæði 2. tölul. 4. gr. laganna er undanþegin virðisaukaskatti. Einnig er sá munur á íslensku og dönsku lögunum að sala erfingja listamanna fellur undir danska ákvæðið.
    Þá er lögð til breyting á 2. og 3. mgr. 25. gr. laganna. Í 1. málsl. 2. mgr. 25. gr. kemur fram að ríkisskattstjóri skuli rannsaka virðisaukaskattsskýrslur og leiðrétta ef þær eða einstakir liðir þeirra eru í ósamræmi við lög. Í 3. mgr. 25. gr segir að sé innskattur á einhverju uppgjörstímabili hærri en útskattur skuli ríkisskattstjóri rannsaka skýrslu sérstaklega. Með hliðsjón af eftirlitshlutverki ríkisskattstjóra og verkaskiptingu ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra er talið rétt að breyta ákvæðinu.
    Lagt er til að bráðabirgðaákvæði X, er varðar heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða og almenningsvagna til þeirra sem hafa leyfi til fólksflutninga í atvinnuskyni, verði framlengt um eitt ár, eða til 31. desember 2012. Einnig er lögð til framlenging á bráðabirgðaákvæði XI, er lýtur að heimild til að fella niður og endurgreiða virðisaukaskatt af vetnisbifreiðum og sérhæfðum varahlutum í þær sem fluttar eru inn í rannsóknarskyni. Lagt er til að ákvæðið verði framlengt til 31. desember 2012. Þá er lögð til framlenging á bráðabirgðaákvæði XV til 1. janúar 2013. Ákvæðið lýtur að heimild til endurgreiðslu 100% virðisaukaskatts til byggjenda og eigenda íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis vegna kaupa á vinnu, auk húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga.

III. Samráð og mat á áhrifum.
    Frumvarpið er samið í fjármálaráðuneytinu og er með því komið til móts við kröfur listamanna um að fella beri fleiri listaverk undir ákvæðið og færa það í sama horf og gildir í Danmörku. Frumvarpið hefur fyrst og fremst áhrif á þá listamenn sem selja listaverk sem lagt er til að muni framvegis falla undir ákvæði 2. tölul. 4. gr. laganna. Verði frumvarpið að lögum mun sala þeirra á umræddum verkum ekki vera virðisaukaskattsskyld eins og nú er.
    Þá mun frumvarpið hafa áhrif á þá sem flytja inn þær bifreiðar sem falla undir bráðabirgðaákvæði laganna sem lagt er til að verði framlengd. Sú framlenging sem lögð er til á heimild til endurgreiðslu 100% virðisaukaskatts vegna endurbóta á húsnæði er til samræmis við viljayfirlýsingu ríkissstjórnarinnar sem gefin var í tengslum við gerð kjarasamninga í maí sl. Talið er að áhrifin af endurgreiðslunni hafi verið jákvæð og þau hafi stuðlað að minna atvinnuleysi hjá iðnaðarmönnum.
    Samráð var haft við embætti ríkisskattstjóra og tollstjóra við vinnslu frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að undanþága listamanna frá skattskyldu vegna sölu á eigin listaverkum og uppboðshaldara á sölu þessara verka á listmunauppboðum verði rýmkuð. Ákvæðið er í samræmi við sambærilegt ákvæði dönsku virðisaukaskattslaganna þar sem skilgreint er hvaða listaverk listamanna skuli falla undir undanþáguna. Til viðbótar þeim listaverkum sem nú falla undir ákvæði 2. tölul. 4. gr. laganna, og eru í tollskrárnúmerum 9701.1000– 9703.0000, er lagt til að ákvæðið skuli að ákveðnum skilyrðum uppfylltum ná til handgerðra veggteppa og veggvefnaðarvara, einstakra verka úr leir, handgerðra verka úr glerjuðum kopar og ljósmynda. Undir ákvæðið falla hins vegar ekki endurgerðir listaverka í fjöldaframleiðslu. Þá falla handiðnaðarvörur með einkennum verslunarvöru ekki undir ákvæðið jafnvel þó að slíkir munir séu gerðir af listamönnum. Þannig fellur sala nytjamuna sem telja verður að eigi sér hliðstæður í almennri verslunarvöru almennt ekki undir ákvæðið hvort sem munirnir eru verksmiðjuframleiddir eða handunnir, þrátt fyrir að þeir hafi einnig listrænt gildi sem kann að njóta verndar höfundalaga, nr. 73/1972. Þar sem um tæmandi talningu er að ræða í ákvæðinu fellur t.d. fatnaður, handtöskur, skartgripir, hárskraut, leikföng, skálar, kertastjakar, vasar, tréskurðarhandverk og textílvörur, t.d. púðar, ekki undir ákvæðið. Við mat á því hvaða vörur falla þarna undir ber að líta til þess að um undanþáguákvæði er að ræða sem ekki verður skýrt rýmri skýringu en orðalag þess gefur til kynna.
    Í a-lið er kveðið á um að listaverk sem falla undir tollskrárnúmerið 9701.1000 séu undanþegin virðisaukaskatti. Samsvarandi skilgreiningu er að finna í núgildandi lögum. Í samræmi við uppsetningu ákvæðisins í viðauka IX í virðisaukaskattstilskipun ESB eru þau listaverk sem fallið geta undir ákvæðið talin upp til skýringarauka. Undir ákvæðið falla ekki teikningar undir vöruliðnum 4906, þ.e. uppdrættir og teikningar til notkunar í húsagerð, verkfræði, iðnaði o.s.frv., sem og handmálaðir eða handskreyttir framleiddir hlutir.
    Í b-lið kemur fram að listaverk sem falla undir tollskrárnúmerið 9702.0000 séu með sama hætti undanþegin virðisaukaskatti. Um er að ræða samsvarandi skilgreiningu og í núgildandi lögum. Undir ákvæðið falla þannig myndir sem þrykktar eru beint í svörtu og hvítu eða í lit með einni eða fleiri plötum sem listamaður hefur gert að öllu leyti í höndunum án tillits til þeirra aðferða eða efnis sem hann notar, þó ekki með neins konar vélrænum eða ljósvélrænum aðferðum. Líkt og í a-lið er til skýringarauka lagt til að þau listaverk séu talin upp sem falla undir stafliðinn.
    Í c-lið kemur fram að listaverk sem falla undir tollskrárnúmerið 9703.0000 séu undanþegin virðisaukaskatti líkt og í núgildandi lögum. Þá er lögð til sú breyting að afsteypur af þeim verkum sem falla undir tollskrárnúmer 9703.0000 séu undanþegnar að hámarki í átta eintökum, séu þær gerðar undir umsjón listamannsins. Ekki skiptir máli samkvæmt ákvæðinu úr hvaða efni eða á hvaða formi afsteypurnar eru gerðar, að því gefnu að um sé að ræða nákvæmar afsteypur af þeim verkum sem falla undir tollskrárnúmer 9703.0000. Til skýringarauka eru þau listaverk talin upp sem fallið geta undir stafliðinn.
    Með d-lið er lagt til að veggteppi og veggvefnaðarvara undir vöruliðunum 5805 og 6304 sem handgerð eru af listamanni eftir frumteikningum hans, séu þau gerð að hámarki í átta eintökum hvert um sig, skuli falla undir ákvæðið. Undir þennan staflið falla ekki nytjahlutir svo sem rúmteppi, gólfteppi, púðar og aðrar heimilisvörur.
    Lagt er til í e-lið ákvæðisins að einstakir leirmunir sem handgerðir eru að öllu leyti af listamanni og merktir af honum skuli vera undanþegnir virðisaukaskatti. Undir þennan staflið falla hvorki verksmiðjuframleiddir né handunnir leirmunir eða leirlistmunir sem eiga sér hliðstæður í almennri verslunarvöru. Þá fellur heldur ekki undir ákvæðið fjöldaframleiddur handgerður borðbúnaður heldur aðeins þeir listmunir þar sem hvert verk er sérstakt og einstakt að útliti og gerð. Að jafnaði falla einungis undir þennan tölulið verk sem hafa ekkert nytjagildi heldur einungis listrænt gildi.
    Í f-lið er lagt til að verk úr glerjuðum kopar, handgerð að hámarki í átta eintökum og merkt af listamanninum skuli falla undir undanþágu ákvæðisins. Áréttað er í ákvæðinu að það geti aldrei átt við um skartgripi eða gull- og silfursmíðavörur. Undir þennan staflið falla ekki nytjahlutir eins og matarílát eða borðbúnaður.
    Með g-lið er lagt til að ljósmyndir sem listamaður tekur og sem prentaðar eru af honum eða undir hans umsjón og áritaðar og númeraðar af honum skuli falla undir ákvæðið. Ljósmyndirnar mega vera af öllum stærðum og gerðum en þó að hámarki í 30 eintökum hver. Ákvæðið tekur ekki undir neinum kringumstæðum til sölu á ljósmyndaþjónustu heldur einungis til sölu á vöru þ.e. ljósmyndum. Starfsemi ljósmyndastofa og annarra sem taka myndir gegn gjaldi verður því aldrei felld undir ákvæðið. Þá tekur undanþágan einungis til sölu á áþreifanlegri vöru í stykkjatali, þ.e. prentuðum ljósmyndum, en ekki sölu sem felst í rafrænni afhendingu á ljósmyndum.
    Í þeim tilvikum þar sem verk sem falla undir 2. tölul. 4. gr. laganna eru innrömmuð falla einnig undir ákvæðið rammar um þau enda sé verðmæti rammanna og gerð í eðlilegu samræmi við þau listaverk sem falla undir ákvæðið.

Um. 2. gr.

    Lagt er til að við lögin bætist nýtt ákvæði sem verður 4. gr. A. Um er að ræða heimild fyrir þá aðila sem eiga hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort tiltekin listaverk listamanns falli undir 2. tölul. 4. gr. laganna. Um er að ræða svipaða heimild og nú er til staðar í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 97/1987, um vörugjald. Telja verður rétt að þeir aðilar sem hagsmuna eiga að gæta geti farið fram á tollflokkun hjá tollyfirvöldum vegna listaverka sinna. Heimildin takmarkast að jafnaði við viðkomandi listamann og uppboðshaldara. Ljóst er að í einhverjum tilfellum geta ágreiningsmál risið um það hvaða listaverk falli undir ákvæðið. Þannig verður að telja eðlilegt að ákvörðun um tollflokkun vöru sé jafnan í höndum tollstjóra þar sem hann býr yfir sérþekkingu á tollflokkun vara. Jafnframt tryggir fyrirkomulagið að samræmi verði í tollflokkun á innfluttum listaverkum listamanns, sem og þeim listaverkum hans sem seld eru innan lands.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að breytt verði orðnotkun í 2. mgr. 25. gr. laganna. Í ákvæðinu er notað orðið „rannsaka“. Verkaskiptingu á sviði skatteftirlits og skattrannsókna er hagað þannig að ríkisskattstjóri fer með skatteftirlit á landinu öllu en skattrannsóknarstjóri ríkisins fer með rannsókn skattsvikamála og refsimeðferð þeirra, sbr. reglugerð nr. 373/2001 um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna. Þar sem ríkisskattstjóri fer með eftirlitshlutverk á þessu sviði en skattrannsóknarstjóri með rannsóknarhlutverkið fer betur á því að ákvæðið sé sniðið að eftirlitshlutverki ríkisskattstjóra.
    Í 3. mgr. 25. gr. núgildandi ákvæðis er lögð sú skylda á ríkisskattstjóra að rannsaka sérstaklega þær skýrslur þar sem innskattur á uppgjörstímbili er hærri en útskattur. Á árinu 2010 bárust embætti ríkisskattstjóra u.þ.b. 25.400 inneignarskýrslur sem rannsaka þurfti sérstaklega samkvæmt málsgreininni. Þar sem um mikinn fjölda inneignarskýrslna er að ræða verður að telja óraunhæft að leggja þá ótvíræðu skyldu á stofnunina að rannsaka sérstaklega allar inneignarskýrslur. Mun vænlegra til árangurs í eftirliti er að mögulegt sé að meta inneignarskýrslur og skoða þær skýrslur sérstaklega sem ríkisskattstjóri telur þörf á. Þess vegna er lagt til að ríkisskattstjóri geti metið hvort inneignarskýrslur þarfnist sérstakrar skoðunar. Ríkisskattstjóra ber að beita hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum við val sitt á þeim inneignarskýrslum sem til skoðunar koma samkvæmt ákvæðinu.

Um 4. gr.

    Í ákvæði þessu er lagt til að 36. gr. laganna endurspegli þær breytingar sem gerðar eru á 2. tölul. 4. gr. Þau listaverk sem falla 2. tölul. 4. gr., verði frumvarpið að lögum, skulu með sama hætti vera undanþegin virðisaukaskatti við innflutning, að því gefnu að listamaðurinn sjálfur flytji listaverkin inn.

Um 5. gr.

    Lagt er til að bráðabirgðaákvæði X verði framlengt til 31. desember 2012.
    Bráðabirgðaákvæði X kveður á um heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða og almenningsvagna til þeirra sem leyfi hafa til fólksflutninga í atvinnuskyni. Bráðabirgðaákvæðið var lögfest með lögum nr. 57/2001, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 163/2010 var lagt til að framlengja gildistíma bráðabirgðaákvæðisins. Í meðförum þingsins var frumvarpinu breytt og heimildin látin ná til almenningsvagna og einnig var sú ákvörðun tekin að uppfæra mengunarstaðalinn upp í EURO 5 staðal. Á síðustu missirum hefur umræða átt sér stað um virkar aðgerðir til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Bifreiðar sem uppfylla EURO 5 staðal hafa verið framleiddar frá því í október 2008. Lagt er til, með vísan til umhverfissjónarmiða, að miðað sé við EURO 5 mengunarstaðal í ákvæðinu líkt og nú er gert þar sem í auknum mæli eru gerðar meiri kröfur til bifreiða vegna mengunar.

Um 6. gr.

    Lagt er til að bráðabirgðaákvæði XI verði framlengt til 31. desember 2012. Í ákvæðinu er heimild til að fella niður eða endurgreiða virðisaukaskatt að fullu af vetnisbifreiðum, svo og sérhæfðum varahlutum í þær, sem fluttar eru inn í rannsóknarskyni og hafa í för með sér hverfandi mengun. Niðurfellingin og endurgreiðslan miða að því að gera virðisaukaskattsumhverfi vetnisbifreiða hagstæðara.

Um 7. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að gildistími bráðabirgðaákvæðis XV verði framlengdur til 1. janúar 2013.
    Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að endurgreiða 100% þess virðisaukaskatts sem byggjendur íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað og af vinnu manna við endurbætur eða viðhald húsnæðisins. Jafnframt nær sama heimild til byggjenda íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis vegna þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess háttar húsnæðis og vegna þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess háttar húsnæðis. Heimildin nær einnig til húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga.
    Eftirfarandi yfirlit sýnir heildarfjárhæðir og endurgreiddan virðisaukaskatt á árunum 2008–2010 í millj. kr. vegna umsókna um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.

2008 Jan–feb Mar–apr Maí–jún Júl–ágú Sept–okt Nóv–des Samtals
Vinna á staðnum 404,6 687,1 931,0 1.125,3 1.229,3 2.749,6 7.126,9
Endurgreiðsla vegna endurbóta 59,5 101,0 136,9 165,4 180,7 404,2 1.047,7
2009 Jan–feb Mar–apr Maí–jún Júl–ágú Sept–okt Nóv–des Samtals
Vinna á staðnum 790,9 616,8 1.047,1 1.424,7 1.711,5 2.473,9 8.064,9
Endurgreiðsla vegna endurbóta 116,2 151,1 256,5 349,1 419,3 606,1 1.898,3
2010 Jan–feb Mar–apr Maí–jún Júl–ágú Sept–okt Nóv–des Samtals
Vinna á staðnum 563,2 768,2 1.136,7 1.495,6 1.869,9 2.396,7 8.230,3
Endurgreiðsla vegna endurbóta 143,6 195,9 289,9 381,3 476,8 611,2 2.098,7

Um 8. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988,
um virðisaukaskatt, með síðari breytingum (listaverk o.fl.).

    Í frumvarpinu eru lagðar til eftirtaldar breytingar á lögum um virðisaukaskatt. Í fyrsta lagi er lagt til að fjölga þeim tegundum listaverka sem undanþegin eru virðisaukaskatti. Í öðru lagi er lagt til að gildisákvæði þriggja bráðabirgðaákvæða verði framlengt um eitt ár og falli úr gildi um áramótin 2012–2013. Um er að ræða bráðabirgðaákvæði X er varðar heimild til endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða og almenningsvagna til þeirra sem hafa leyfi til fólksflutninga í atvinnuskyni, bráðabirgðaákvæði XI um heimild til að fella niður og endurgreiða virðisaukaskatt af vetnisbifreiðum og sérhæfðum varahlutum í þær sem fluttar eru inn í rannsóknarskyni og bráðabirgðaákvæði XV um heimild til endurgreiðslu 100% virðisaukaskatts til byggjenda og eigenda íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis vegna kaupa á vinnu, auk húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga. Í þriðja lagi eru lagðar til lítils háttar breytingar er varða verklag og verkaskipti á skattrannsóknum og eftirlitshlutverki vegna mismunar á virðisaukainnskatti og -útskatti.
    Þær breytingar frumvarpsins sem hafa fjárhagsleg áhrif á afkomu ríkissjóðs varða undanþágu á skattskyldu virðisaukaskatts á listaverkum og framlengingu framangreindra þriggja bráðabirgðaákvæða. Engar tölulegar upplýsingar liggja fyrir um sölu slíkra listaverka sem bætast við undanþágu virðisaukaskattslaganna en ætla má að áhrif á tekjur ríkissjóðs séu óveruleg. Varlega áætlað gæti tekjutap ríkissjóðs numið um 100 m.kr. á ári vegna bráðabirgðaákvæða X um hópferðabifreiðar og XI um vetnisbifreiðar en mikið hefur dregið úr innflutningi og nýskráningu slíkra farartækja á undanförnum árum. Þess má geta að bæði bráðabirgðaákvæði X um hópferðabifreiðar og XI um vetnisbifreiðar hafa verið í gildi um nokkurra ára skeið og hafa á þessum tíma verið margsinnis framlengd. Því er með frumvarpinu í raun verið að viðhalda núverandi skattheimtu óbreyttri um eitt ár til viðbótar.
    Af því gefnu að bráðabirgðaákvæði XV um endurgreiðslu á virðisaukaskatti af vinnu vegna framkvæmda við íbúðar- og frístundahúsnæðis auki framkvæmdir fremur en eingöngu að flýta þeim um nokkur ár má gera ráð fyrir að frumvarpið leiði til rúmlega 800 m.kr. tekjutaps fyrir ríkissjóð. Samkvæmt ákvæði 42. gr. laga um virðisaukaskatt er heimilt að endurgreiða 60% af virðisaukaskatti sem greiddur hefur verið af vinnu manna á byggingarstað. Því hefur ríkissjóður verið að veita sambærilega skattastyrki um langt árabil. Með bráðabirgðaákvæðinu er verið að rýmka þessa heimild en hún var sett í lögin snemma árs 2009. Á þeim tíma hafa endurgreiðslur virðisaukaskatts vegna þessa aukist um 100% frá því sem þær voru á árinu 2008. Endurgreiðslurnar námu á síðasta ári rúmum 2 milljörðum króna. Því má ætla að tekjutap ríkissjóðs gæti numið rúmlega 800 m.kr. á næsta ári miðað við óbreytt umfang. Hins vegar var það tilgangur með bráðabirgðaákvæðinu að hleypa lífi í annars daufan byggingariðnað og af framangreindu má ætla að þeim markmiðum hafi að einhverju leyti verið náð þannig að ríkissjóður hafi haft aðrar tekjur af starfsemi sem annars hefði ekki farið fram í sama mæli. Aðgerðin geti því dregið úr atvinnuleysisbótum og skapað tekjur fyrir ríkissjóð auk þess sem sú starfsemi sem nýtur 100% endurgreiðslu er með þessu fyrirkomulagi síður stunduð án lögbundinnar tekjuskráningar.
    Af framansögðu er ljóst að verði frumvarpið lögfest eru heildaráhrif á ríkissjóð nokkuð óljós þar sem annars vegar gætir neikvæðra áhrifa vegna lægri tekna ríkissjóðs af virðisaukaskatti og hins vegar jákvæðra áhrifa af auknum umsvifum í byggingariðnaði en engin úttekt á þessum hagrænu áhrifum liggur fyrir af hálfu fjármálaráðuneytis þannig að hægt sé að meta þau í fjárhæðum.
Neðanmálsgrein: 1
    1     Virðisaukaskattstilskipun ESB nr. 112/2006: „Council Directive 2006/112/EC of 28 November 2006 on the common system of value added tax.“