Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 390  —  1. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hóf störf 5. október sl. Frá því að nefndin hóf störf við afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið 24 fundi og átt viðtöl við fjölmarga aðila, m.a. fulltrúa ráðuneyta, Ríkisendurskoðunar, stofnana og sveitarfélaga.
    Nefndin óskaði bréflega eftir álitum fastanefnda þingsins um þá þætti frumvarpsins sem varða málefnasvið hverrar um sig. Nefndirnar hafa skilað álitum og eru þau birt sem fylgiskjöl með nefndarálitinu.
    Fjárlaganefnd hefur unnið í samvinnu við fagráðuneyti að breyttu fyrirkomulagi við úthlutun styrkveitinga sem kynnt var í frumvarpinu. Markmiðið með þessum breytingum er að gera úthlutun fjármuna á vegum ríkisins gagnsærri en verið hefur, og auka þannig traust á því ferli sem liggur að baki því hvernig fjármunum ríkisins er skipt á einstök verkefni. Gert er ráð fyrir að Alþingi hætti úthlutunum á styrkjum til ýmissa verkefna á vegum félaga, samtaka og einstaklinga en úthlutunin mun flytjast til lögbundinna sjóða, menningarráða landshluta, ráðuneyta eða annarra sem sjá um eða bera ábyrgð á fjárveitingum til viðkomandi málaflokka. Þessi breyting er liður í því að stuðla að skilvirkara verklagi við fjárlagagerð þingsins þannig að vinna fjárlaganefndar og umræður í þinginu geti beinst meira að markmiðum ríkisfjármála, heildarstærðum, forgangsröð og áherslum í málaflokkum.
    Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 2. umræðu nema samtals 4.084,6 m.kr. til hækkunar á sundurliðun 2, þ.e. fjármálum ríkisaðila í A-hluta.
    Tekjuáætlun frumvarpsins hljóðaði upp á 521,4 milljarða kr., en sú áætlun hefur nú verið lækkuð um rúmar 35 m.kr.
    Með breytingum á 5. gr. er annars vegar lögð til 1.600 m.kr. lækkun á lánveitingum til hlutafélaga um vegaframkvæmdir í ljósi nýrrar áætlunar um lánsfjárþörf, og hins vegar 10.000 m.kr. hækkun á heimild til veitingar ríkisábyrgðar á lántökum Landsvirkjunar til að mæta auknum fjárfestingum og auðvelda endurfjármögnun eldri skulda félagsins fyrir gjalddaga, gefist hagstæð tækifæri til þess.
    Nokkur mál bíða 3. umræðu.
    Hér á eftir fara skýringar á breytingartillögum meiri hlutans við sundurliðun 2.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 25. nóvember 2011.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Björn Valur Gíslason.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.



Björgvin G. Sigurðsson.


Árni Þór Sigurðsson.




Fylgiskjal I.


Álit

um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012 (02 innanríkisráðuneyti
og 06 mennta- og menningarmálaráðuneyti).


Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um þá hluta frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2012 sem eru á málefnasviði hennar, sbr. beiðni fjárlaganefndar frá 4. nóvember 2011 þar að lútandi. Á fund nefndarinnar komu Bryndís Helgadóttir, Jón Magnússon og Þórunn J. Hafstein frá innanríkisráðuneyti og Arnór Guðmundsson, Auður Björg Árnadóttir, Gísli Þór Magnússon, Jenný Bára Jensdóttir og Marta Guðrún Skúladóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Innanríkisráðuneyti.
    Nefndin fjallaði um þá málaflokka innanríkisráðuneytis sem heyra undir nefndina, þ.e. dóms- og löggæslumál, mannréttindamál, ríkisborgararétt, neytendamál og málefni þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga. Heildargjöld innanríkisráðuneytis árið 2012 eru áætluð um 70.075 millj. kr. á rekstrargrunni en þar undir heyra einnig málaflokkar sem eru ekki á málefnasviði nefndarinnar, þ.e. vega- og umferðarmál, siglingamál, póst- og fjarskiptamál og sveitastjórnarmál. Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að fjárveitingar til verkefna ráðuneytisins markist nokkuð af áframhaldandi aðhaldsráðstöfunum í samræmi við áætlun ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum.
    Hagræðingarkrafa til velferðarmála, skóla og löggæslu sé hins vegar nálægt helmingi lægri en hvað aðra málaflokka varðar.
    Heildarfjárveiting til dómstóla hækkar um 23 millj. kr. þegar almennar verðlagsbreytingar eru frátaldar en að þeim meðtöldum hækka útgjöldin um 219 millj. kr. milli ára.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að dregið verði úr útgjöldum til málaflokksins sem nemur 17 millj. kr. eða 0,8% á verðlagi gildandi fjárlaga.
    Heildarfjárveiting til löggæslustofnana og öryggismála lækkar um 837 millj. kr. frá gildandi fjárlögum þegar almennar verðlagsbreytingar eru frátaldar en að þeim meðtöldum lækka útgjöldin um 51 millj. kr. milli ára. Gert er ráð fyrir því að dregið verði úr útgjöldum málaflokksins sem nemur 292 millj. kr. eða 2,2% á verðlagi gildandi fjárlaga. Gerð er tillaga um 58 millj. kr. lækkun fjárheimilda embættis ríkislögreglustjóra að raungildi og vegur þar þyngst sameining efnahagsbrotadeildar þess embættis við embætti sérstaks saksóknara. Sameiningin leiðir til 124 millj. kr. millifærslu til hins sameinaða embættis.
    Heildarfjárveiting til sýslumanna lækkar um 89 millj. kr. frá gildandi fjárlögum að verðlagsbreytingum frátöldum en að þeim meðtöldum hækka útgjöldin um 221 millj. kr. á milli ára. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að dregið verði úr útgjöldum til sýslumanna sem nemur 78 millj. kr. eða 2% á verðlagi gildandi fjárlaga. Ákveðið hefur verið að umsýsla með þjóðlendum, sem sýslumaður Snæfellinga hefur farið með á grundvelli þjónustusamnings, færist til forsætisráðuneytisins. Því er gert ráð fyrir því að framlag til þess embættis lækki um 10 millj. kr.
    Heildarfjárveiting til fangelsismála lækkar um 37 millj. kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum verðlagsbreytingum en að þeim meðtöldum hækka útgjöld til málaflokksins um 73 millj. kr.
    Heildarfjárveiting til kirkjumála lækkar um 153 millj. kr. frá gildandi fjárlögum þegar frá eru taldar almennar verðlagsbreytingar en að þeim meðtöldum hækka útgjöldin um 4 millj. kr. milli ára. Gert er ráð fyrir því að dregið verði úr útgjöldum til málaflokksins um 3% á verðlagi gildandi fjárlaga.
    Heildarfjárveiting til neytendamála hækkar um 29 millj. kr. frá gildandi fjárlögum þegar verðlagsbreytingar eru frá taldar en að þeim meðtöldum hækka útgjöldin um 42 millj. kr. Undir þennan málaflokk heyrir Neytendastofa og talsmaður neytenda. Gert er ráð fyrir því að aðhaldsmarkmið um lækkun útgjalda ríkisins taki því sem næst ekkert til þessa málaflokks eða aðeins 0,8 millj. kr. á verðlagi gildandi fjárlaga.
    Heildarfjárveiting til landsskráa hækkar um 9 millj. kr. frá gildandi fjárlögum þegar almennar verðlagsbreytingar eru frátaldar en að þeim meðtöldum hækka útgjöldin um 66 millj. kr. milli ára. Undir þennan málaflokk heyrir Þjóðskrá Íslands sem er sameinað embætti Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands.
    Nefndin kallaði eftir gögnum um kostnaðarmat á byggingu nýs fangelsis og ítrekaði það viðhorf að stefna bæri að því að endurnýja gæsluvarðhaldsrými á höfuðborgarsvæðinu en byggja nýja öryggisálmu við Litla-Hraun. Óskað var formlega eftir gögnum um kostnað við þessa kosti. Miklar efasemdir komu fram í nefndinni um þá fyrirætlun að byggt verði annað öryggisfangelsi á Hólmsheiði, nokkra tugi kílómetra frá Litla-Hrauni á Eyrarbakka, og komu fram efasemdir um hagkvæmni þess. Meiri hlutinn beinir þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að þessi áform verði endurskoðuð og að í staðinn verði byggt komu- og gæsluvarðahaldsrými í Reykjavík í stað fangelsisins á Skólavörðustíg og Kvennafangelsisins í Kópavogi og bætt verði við nýrri öryggisálmu við Litla-Hraun og því sem henni fylgir. Hagkvæmni þess að reka tvö öryggisfangelsi á sama atvinnusvæði blasir ekki við og því er mikilvægt að þessi áform verði endurmetin hið fyrsta.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Heildargjöld mennta- og menningarmálaráðuneytisins eru áætluð um 69.813,3 millj. kr. á rekstrargrunni en frá dragast sértekjur að fjárhæð 8.032,6 millj. kr. Samkvæmt frumvarpinu hækka útgjöld ráðuneytisins um 1.324,2 millj. kr. á verðlagi gildandi fjárlaga en að meðtöldum almennum verðlags- og gengisbreytingum hækka útgjöldin um 4.646,4 millj. kr. milli ára eða sem svarar 8,1%. Fjárveitingar til málaflokksins markast nokkuð af áframhaldandi aðhaldi í samræmi við áætlun ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum en hagræðingarkrafa til velferðarmála, skóla og löggæslu er nær helmingi lægri en framlög til annarra málaflokka eins og áður segir.
    Heildarfjárveiting til háskóla og rannsókna lækkar um 41,6 millj. kr. frá fjárlögum gildandi árs þegar frá er talin 1.178,3 millj. kr. hækkun vegna kjarasamninga og almennra verðlagsbreytinga. Undir þennan málaflokk heyrir Háskóli Íslands og tengdar stofnanir, aðrir háskólar og háskólastofnanir, þjónustu- og rannsóknarstofnanir, rannsóknarsjóðir og aðrir liðir sem tengjast háskóla- og rannsóknarstarfsemi.
    Heildarfjárveiting til framhaldsskóla hækkar um 1.988,6 millj. kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum verðlagsbreytingum sem nema 1.380,2 millj. kr. Gert er ráð fyrir því að dregið verði úr útgjöldum málefnaflokksins um 369,4 millj. kr. á verðlagi gildandi fjárlaga til að mæta markmiðum um samdrátt ríkisútgjalda. Sá samdráttur jafngildir 2% lækkun frá gildandi fjárlögum. Hinn 19. apríl 2011 samþykkti ríkisstjórnin vinnumarkaðsaðgerðir, þ.m.t. menntunarátak, og skýrast breytingar á framlögum til þessa málaflokks af þeim. Lagt er til að 1.790 millj. kr. framlag verði veitt til átaksins og eru eftirfarandi atriði það helsta sem fellur þarna undir: Kennslukostnaður við námstækifæri fyrir atvinnuleitendur, skólavist í framhaldsskólum fyrir nemendur undir 25 ára, skilin milli framhaldsskóla og framhaldsfræðslu gerð sveigjanlegri, aukið framboð á raunfærnimati og náms- og starfsráðgjöf innan framhaldsfræðslunnar, nýr þróunarsjóður til eflingar starfstengdu námi og nýr vinnustaðanámssjóður sem er ætlað að mæta kostnaði vegna starfsnáms á vinnustöðum.
    Heildarfjárveiting til málefna grunnskólans lækkar um 34,7 millj. kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum verðlagsbreytingum.
    Heildarfjárveiting til námsaðstoðar lækkar um 585 millj. kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum verðlagsbreytingum en hér undir heyrir Lánasjóður íslenskra námsmanna og jöfnun á námskostnaði.
    Heildarfjárveiting til safna og listastofnana lækkar um 148,3 millj. kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum en að þeim meðtöldum hækka útgjöld til málaflokksins um 367,1 millj. kr. milli ára.
    Ráðuneytið er aðili að samningum við samtök, einkaaðila og sveitarfélög um ýmis verkefni. Fram kemur í frumvarpinu að unnið hafi verið að því að endurbæta samninga og eftirlit með þeim m.a. með því að nota sérstakan hugbúnað til að halda utan um eftirlit.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að endurskoða forgangsröðun fjárveitinga í menntamálum og auka framlög til háskóla og framhaldsskóla sem njóta lægri hlutdeildar fjárveitinga en almennt gerist hjá OECD-ríkjunum. Samhliða er brýnt að auka gæði háskólastarfs og bæta nýtingu fjármuna með auknu samstarfi og/eða samruna háskóla og beinir nefndin því til ráðherra að hraða þeirri vinnu sem kostur er.
    Meiri hlutinn minnir á nýlega kortlagningu á hagrænum áhrifum skapandi greina og ítrekar mikilvægi þess að tekið verði tillit til niðurstaðna hennar við ákvarðanatöku í framtíðinni. Þá ítrekar nefndin mikilvægi þess að framlög til kvikmyndagerðar á fjárlögum verði aukin enda eru fjárfestingar í greininni hagkvæmar en mikill samdráttur hefur orðið í framlögum til greinarinnar. Minnt er á að af hálfu samráðsvettvangs um skapandi greinar hefur verið lögð áhersla á rannsóknir og framhaldsmenntun í skapandi greinum í Listaháskólanum og leggur nefndin áherslu á að Listaháskólanum verði veitt framlag til að þróa slíkt nám.
    Meiri hlutinn styður áform um að nýtt verknámshús, Hamar, verði byggt við Fjölbrautaskóla Suðurlands og leggur til að á fjárlögum fyrir árið 2012 verði fyrstu framlögin til þess veitt, í samræmi við áætlanir skólans um framkvæmdina. Bent er á að þá geti sveitarfélögin á svæðinu leyst út 140 millj. kr. sem þau hafa safnað í sjóð til verksins og hafist handa við undirbúning og hönnun hússins strax á næsta ári. Meiri hlutinn leggur áherslu á að mennta- og menningarmálaráðuneytið leggi til fyrsta framlag til verknámshússins fyrir 2. umræðu frumvarpsins og að undirritaður verði samningur við viðkomandi héraðsnefndir um framkvæmdina. Bygging hússins er mikilvægt skref í þá átt að efla starfsnám í landinu og vinna þannig gegn miklu brottfalli framhaldsskólanema.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að tryggt sé í fjárlögum fyrir árið 2012 að jöfnunarstyrkir til framhaldsskólanemenda lækki ekki. Einnig leggur nefndin til að farið verði yfir fjárframlög til þekkingarsetra með það í huga að sem mest jafnræði ríki á milli landssvæða að teknu tilliti til hlutverka og starfsemi þeirra.
    Björgvin G. Sigurðsson skrifar undir álit þetta með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd sem og Þuríður Backman sem er varamaður í fjárlaganefnd.

Alþingi, 19. nóvember 2011.

Björgvin G. Sigurðsson, formaður, með fyrirvara.
Skúli Helgason,
Þráinn Bertelsson,
Oddný G. Harðardóttir,
Þuríður Backman, með fyrirvara.




Fylgiskjal II.


Álit

um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012
(04 Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og 11 Iðnaðarráðuneyti).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


Inngangur.
    Atvinnuveganefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. bréf fjárlaganefndar dags. 4. nóvember 2011. Þar sem síðustu breytingar á þingskapalögum gerðu ráð fyrir því að fallið yrði frá þeirri framkvæmd að fjárlaganefnd vísi einstökum þáttum frumvarps til fjárlaga til fagnefnda verður að ganga út frá því að álitsbeiðnin styðjist við 3. mgr. 10. gr. bráðabirgðastarfsreglna um fastanefndir Alþingis.

Viðmið fjárlagafrumvarpsins.
    Almenn viðmið við gerð fjárlagafrumvarpsins um samdrátt í útgjöldum 2012 voru að draga saman um 3% í almennri stjórnsýslu og þjónustu og 1,5% í velferðarmálum, svo sem heilbrigðisþjónustu, skólamálum, löggæslu, bótakerfum og sjúkratryggingum. Gerir frumvarpið ráð fyrir því að útgjöld ríkissjóðs lækki um 6,6 mia.kr. vegna framangreindra almennra aðgerða en því tilviðbótar lækki útgjöld um 2,2 mia.kr. vegna sértækra aðhaldsaðgerða, þ.e. samanlagt um 2,1% lækkun á veltu fjárlaga 2011 þegar undanskilin eru vaxtagjöld og óreglulegir liðir. Sparnaðaraðgerðir í rekstri nema samtals um 4,4 mia.kr. og eru 2,3% af veltu gildandi fjárlaga. Þá er misjafnt hvernig ráðuneyti útfæra sparnaðaraðgerðir í rekstri en leitast var við að byggja á forgangsröðun og faglegu mati á verkefnum í samræmi við tillögur ríkisstjórnar. Markmið um samdrátt í rekstrarútgjöldum 2012 eru að ná fram 1,5–3% lækkun rekstrarkostnaðar. Þannig er gert ráð fyrir 3,2% lækkun rekstrarútgjalda á rekstrargrunni í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu en 1,9% í iðnaðarráðuneytinu.

Fundur atvinnuveganefndar um viðfangsefnið.
    Nefndin fékk á sinn fund Sigurgeir Þorgeirsson og Arndísi Á. Steinþórsdóttur frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Kristján Skarphéðinsson og Jón Óskar Hallgrímsson frá iðnaðarráðuneyti, Ólaf S. Ástþórsson og Vigni Thoroddsen frá Hafrannsóknastofnuninni og Sigurð Örn Hansson og Stefán Guðmundsson frá Matvælastofnun.
    Á fundi nefndarinnar kom fram að heildarútgjöld sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis árið 2012 eru áætluð 21.133 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 1.755 m.kr. en þær nema 8,3% af heildargjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru 19.378 m.kr. og af þeirri fjárhæð eru 16.640 m.kr. fjármagnaðar með beinu framlagi úr ríkissjóði og 2.738 m.kr. innheimtar af ríkistekjum. Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 4.144 m.kr. og hækka því um 258 m.kr. milli ára. Rekstrarfjárveitingar flestra stofnana og verkefna sem heyra undir ráðuneytið eru lækkaðar alls um 124,7 m.kr. vegna áforma um hagræðingu í rekstrarkostnaði ríkissjóðs. Neyslu- og rekstrartilfærslur hækka um 491,8 m.kr. og verða 15.094 m.kr. Viðhalds- og stofnkostnaður er áætlaður 140,5 m.kr. og lækkar um 3,9 m.kr. milli ára vegna aðhaldsaðgerða í ríkisútgjöldum. Loks er gert ráð fyrir að skuldbindandi samningar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur gert nemi um 11.547 m.kr. á yfirstandandi ári, samtals munu samningarnir því nema um 60% af heildarútgjöldum ráðuneytisins á árinu 2012.
    Heildarútgjöld iðnaðarráðuneytisins árið 2012 eru áætluð 6.127 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 806 m.kr. en þær nema 13,2% af heildargjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru 5.320 m.kr. og af þeirri fjárhæð eru 5.319 m.kr. fjármagnaðar með beinu framlagi úr ríkissjóði og 1 m.kr. innheimt af ríkistekjum. Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 1.474,4 m.kr. og hækka því um 98,9 m.kr. milli ára. Rekstrarfjárveitingar flestra stofnana og verkefna sem heyra undir ráðuneytið eru lækkaðar alls um 26 m.kr. vegna áforma um hagræðingu í rekstrarkostnaði ríkissjóðs. Neyslu- og rekstrartilfærslur hækka um 267,3 m.kr. og verða 3.530,4 m.kr. Viðhalds- og stofnkostnaður er áætlaður 48 m.kr. og er það óbreytt fjárhæð á milli ára. Loks er gert ráð fyrir að skuldbindandi samningar sem iðnaðarráðuneytið hefur gert nemi um 410 m.kr. á yfirstandandi ári, samtals munu samningarnir því nema um 6,7% af heildarútgjöldum ráðuneytisins á árinu 2012.
    Sérstök athygli var vakin af hálfu beggja ráðuneyta á áformum um að gera breytingar á fyrirkomulagi sem verið hefur á úthlutunum á styrkjum af tilteknum óskiptum fjárheimildaliðum og sambærilegum sérgreindum viðfangsefnum fjárlaga til margvíslegra samtaka, safna, lista- og menningarverkefna, íþróttaviðburða og atvinnuþróunar. Einnig kom fram að þar sem vinnu að útfærslu breyttrar framsetningar þessara fjárheimilda var ekki að fullu lokið við lokun talnabálks fjárlagafrumvarpsins þá sé framsetning þeirra óbreytt í frumvarpinu. Af þessum sökum væri gert ráð fyrir að fluttar verði breytingartillögur um framsetningu fjárheimildanna í samræmi við nýtt fyrirkomulag við 2. umræðu frumvarpsins.

Matvælastofnun.
    Í frumvarpinu kemur fram að heildarfjárveiting til Matvælastofnunar 2012 væri áætluð 1.054 m.kr. og það jafngildi 40,8 m.kr. raunhækkun frá gildandi fjárlögum. Eru breytingar fjárheimildar skýrðar með a) hagræðingarkröfu upp á 28,2 m.kr., b) niðurfalli tímabundins framlags að fjárhæð 1,5 m.kr. vegna reglugerðar, c) upptöku tímabundins framlags að fjárhæð 2,5 m.kr. vegna sömu reglugerðar, d) breytingum á verkefnum að fjárhæð 51 m.kr., e) aukinna útgjalda vegna salmonellurannsókna að fjárhæð 6 m.kr., f) tryggingar velferðar dýra og veitingar dýralæknaþjónustu að fjárhæð 17 m.kr. og g) launa- og verðlagsbóta sem nemi samtals 68,9 m.kr. Á fundi nefndarinnar kom fram sú skýring af hálfu fulltrúa stofnunarinnar að kostnaðaraukningin skv. d-lið hér að framan útskýrist af yfirtöku eftirlitsverkefna með framleiðslu sjávarafurða og að í raun fælist í því að verið væri að búa til réttan grunn fyrir stofnunina að vinna eftir. Þá kom fram að gert væri ráð fyrir því að stofnunin yrði rekin með tapi árið 2012 en hún ætti 67 m.kr. í sjóði sem hún mundi nýta til að milda hagræðingarkröfu frumvarpsins. Einnig kom fram að samsöfnuð hagræðingarkrafa á stofnunina árin 2009 til og með árinu 2012 næmi um 210 m.kr. Bentu fulltrúarnir á að gripið hefði verið til ýmissa sparnaðaraðgerða, svo sem lækkun launa, minnkun á rannsóknum, minni prentun og minnkun á erlendri hagsmunagæslu auk þess sem stofnunin hefði tekið í notkun ýmsa nýja tækni í því skyni að spara við sig í mannauð. Að auki hefði stofnunin þurft að ráðast í ýmsar skuldbindingar, m.a. vegna aukinnar starfsemi á umdæmisskrifstofum hennar.

Hafrannsóknastofnunin.
    Hvað Hafrannsóknastofnunina varðar kemur fram í frumvarpinu að fjárheimild til hennar árið 2012 verði 1.332 m.kr. og að rekstrarútgjöld hennar dragist því saman um 38,7 m.kr. að raungildi frá gildandi fjárlögum. Er lækkunin skýrð með vísun til sparnaðaraðgerða til að ná markmiðum um lækkun ríkisútgjalda. Á fundi nefndarinnar kom fram að niðurskurður til stofnunarinnar frá 2009 væri um 22% og að ársverkum hefði því fækkað hjá henni. Sérstaklega var rætt um vöktun nytjastofna enda er hún meðal stærstu og dýrustu verkefna stofnunarinnar og fara um 70–80% af ráðstöfunarfé hennar í þau verkefni. Ræddu fulltrúar stofnunarinnar mikilvægi þessara verkefna og nefndu að á undanförnum árum hafi stofnunin skorið niður umhverfisrannsóknir og líffræðirannsóknir til þess að geta haldið stórum vöktunarverkefnum úti enda væru þau forsenda fyrir ráðgjöf sem þyrfti að hafa forgang. Hvað raunhæfar leiðir til sparnaðar nefndu fulltrúar stofnunarinnar fækkun úthaldsdaga á rannsóknarskipum um u.þ.b. tíu daga á skip, þ.e. úr 190 dögum í 180 daga og úr 150 dögum í 140 daga. Ekki væri gert ráð fyrir því að segja upp starfsfólki en ekki yrði ráðið í þær stöður sem losnuðu. Þá var það mat fulltrúanna að með þeim niðurskurði sem kæmi fram í frumvarpinu væri stofnunin komin að neðri mörkum varðandi það að halda úti rekstri tveggja rannsóknarskipa. Bentu þeir á að umhverfisaðstæður við Ísland hafi breyst nokkuð síðastliðin ár sem aftur hefði haft í för með sér aukið úthald rannsóknarskipa vegna komu nýrra nytjastofna á Íslandsmið, svo sem makríls og kolmunna. Þannig hefði kostnaður vegna rannsókna á makríl t.d. numið um 70 m.kr. á þessu ári. Þá ræddu fulltrúarnir og nefndarmenn stöðu Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og möguleg áhrif breytinga á fjárhagsstöðu hans á Hafrannsóknastofnunina þar sem hún hefur þegið árleg framlög úr sjóðnum. Við það tilefni kom fram að stofnunin væri dugleg að sækja fé í samkeppnissjóði. Að lokum kom fram að hækkanir á olíuverði hefðu veruleg áhrif á rekstrarkostnað en olíuverð hefur hækkað um 53% frá árinu 2009 eða sem næmi 80 m.kr. hækkun rekstrarkostnaðar rannsóknarskipa. Kom fram að slík hækkun væri langt umfram verðlagsbreytingar.

Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar.
    Á fundi nefndarinnar var rætt um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir fjárheimild til þess liðar að fjárhæð 153,5 m.kr. sem er lækkun um 3,5 m.kr. að raungildi frá gilandi fjárlögum. Í máli fulltrúa iðnaðarráðuneytisins kom fram að framangreind lækkun væri vegna áforma um útgjaldaaðhald. Þá kom fram að fjárþörfin vegna slíkrar endurgreiðslu gæti á þessu ári orðið töluvert há. Þá kom fram að þessar háu endurgreiðslufjárhæðir væru tilkomnar vegna þess að um 10 kvikmyndir hafi verið framleiddar á þessu ári en þær hafi flestar verið í undirbúningi frá árinu 2008 en vinnu við þær hafi verið frestað á þeim tíma. Þá hafi tvær stórar kvikmyndir, þar af önnur erlend, tekið til sín mest fjármagn. Var fyrirsjáanlegum háum endurgreiðslum lýst sem snjóhengju. Við þetta tilefni lýstu nokkrir nefndarmenn töluverðum áhyggjum af því að ekki væri þak á þeim kostnaði sem gæti fallið á ríkissjóð vegna endurgreiðslna til kvikmyndagerðar.

Aðildarumsókn að ESB.
    Kostnaður ríkissjóðs vegna aðildarumsóknar Íslands að ESB var ræddur sérstaklega á fundum nefndarinnar. Eins og fram kemur í frumvarpinu óskar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið eftir 35 m.kr. fjárveitingu, m.a. vegna þátttöku í aðildarviðræðum Íslands við ESB á þeim grundvelli að samningar um sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál verði meðal þeirra kafla sem erfiðast yrði að ná samningum um og að verkefnaálag aukist tímabundið vegna þess. Þá er fjárveitingunni ætlað að standa undir útgjöldum vegna verkefnis í tengslum við innleiðingu á hundruðum ESB-gerða. Kom fram hjá fulltrúum ráðuneytisins að fjárveitingin næmi um 3% af rekstrarkostnaði ráðuneytisins. Einnig kom fram að vinnuálag starfsmanna ráðuneytisins hefur aukist vegna aðildarumsóknarinnar. Þá er einnig mikið vinnuálag á starfsmönnum Hafrannsóknastofnunarinnar, Fiskistofu og ráðuneytisins vegna þessa. Þá kom fram að mikil vinna hefði á sama tíma lent á starfsmönnum Matvælastofnunar við innleiðingu nýrrar matvælalöggjafar og aðildarumsóknar Íslands. Að auki kom fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefði ekki þegið greiðslur frá þriðja aðila vegna ESB-umsóknarinnar utan þess sem utanríkisráðuneytið hefði greitt fyrir nokkrar ferðir starfsmanna ráðuneytisins til útlanda. Hvað iðnaðarráðuneytið varðar kemur m.a. fram í frumvarpinu að gert sé ráð fyrir að fjárheimild fjárlagaliðarins 11-599 hækki um 304 m.kr. að raungildi frá gildandi fjárlögum m.a. vegna 37 m.kr. tímabundins framlags til viðfangsins 1.52, til að ráðstafa styrk frá ESB. Þannig er gert ráð fyrir því að tillagan hafi lítil áhrif á ríkissjóð vegna þess að styrkurinn komi þar á móti færður á tekjuhlið ríkissjóðs. Er ætlunin að nýta fjármagnið til þess að mögulegt verði að vinna að verkefninu Katla, jarðvangur. Ekki kom fram hjá fulltrúum iðnaðarráðuneytisins að það yrði fyrir sérstökum kostnaði eða starfsmenn þess fyrir auknu vinnuálagi vegna ESB-umsóknarinnar.

Álit meiri hlutans.
    Meiri hlutinn tekur fram að hann er sammála þeim almennu viðmiðum og forsendum sem frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012 byggjast á. Þá er það mat hans að ekki sé annað að sjá en að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti hafi tekist nokkuð vel að uppfylla þessi viðmið. Að sjálfsögðu verður að taka með í reikninginn að eftir því sem lengra líður frá árinu 2008 og fleiri niðurskurðarár bætast í safnið þá verður allur niðurskurður í rekstri ríkisins sársaukafyllri og erfiðari. Þannig má almennt gera ráð fyrir því að niðurskurður til lengri tíma reyni á styrk ráðuneyta og stofnana framkvæmdarvaldsins og auki álag á starfsmenn þeirra.
    Þrátt fyrir framangreint hefur meiri hlutinn ákveðnar áhyggjur af nokkrum þeim þáttum sem hér hafa komið fram. Í fyrsta lagi virðist álag á marga starfsmenn Matvælastofnunar orðið nokkuð mikið enda virðist stofnunin hafa tekið við nokkuð mörgum verkefnum á sama tíma og niðurskurður fjárframlaga til hennar slagar hátt í að nema því fjárframlagi sem henni eru ætluð vegna aukins verkefnaálags. Í öðru lagi virðist niðurskurður framlaga til Hafrannsóknastofnunarinnar vera farinn að nálgast hættumörk. Fram hefur komið að verkefni stofnunarinnar séu að aukast og á sama tíma kunni óvissa um fjármögnun hennar að vera að aukast vegna takmarkana á möguleikum til að nálgast fé úr samkeppnissjóðum. Í þriðja og síðasta lagi hefur meiri hlutinn nokkrar áhyggjur af því tímabundna álagi sem virðist vera á stjórnsýslunni vegna aðildarumsóknar Íslands að ESB.
    Er það álit meiri hlutans að þrátt fyrir að frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012 eigi eflaust eftir að færa fjármál ríkisins enn nær þeim nauðsynlega bata sem hagkerfi landsins þarf að ná þá verði ekki hjá því komist að hafa framangreind atriði í huga við vinnslu þess.
    Björn Valur Gíslason skrifar undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.

Alþingi, 22. nóvember 2011.

Kristján L. Möller, formaður,
Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Magnús Orri Schram,
Ólína Þorvarðardóttir,
Björn Valur Gíslason, með fyrirvara.




Fylgiskjal III.


Álit

um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012
(04 Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og 11 Iðnaðarráðuneyti).

Frá 1. minni hluta atvinnuveganefndar.


Inngangur.
    Vinna atvinnuveganefndar við undirbúning álits til fjárlaganefndar einskorðaðist við fundi með fulltrúum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis. Einnig mættu á fund nefndarinnar fulltrúar tveggja stórra stofnana fyrrgreinda ráðuneytisins, Matvælastofnunar (MAST) og Hafrannsóknastofnunarinnar. Álit 1. minni hluta er því þeim takmörkunum háð sem leiðir af því að hafa einvörðungu nálgast upplýsingar um þessi mál út frá þessum forsendum.
    Það er sammerkt með báðum þessum ráðuneytum að fjárlagatillögurnar sem liggja fyrir í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 lúta almennum kröfum um hagræðingu sem birtist í frumvarpinu, með undantekningum þó sem nánar verður vikið að hér á eftir.

Sjávarútvegs- og landbúnaðaráðuneyti.
    Sérstaða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins við fjárlagagerð felst í því að tveir þættir eru ráðandi í útgjöldum þess, annars vegar búvörusamningarnir og hins vegar umfangsmikil rannsóknar og þróunarstarfsemi. Sú ákvörðun var lögð til grundvallar við fjárlagagerðina að hvað búvörusamningana áhrærir yrði fylgt þeim samningum sem gerðir hafa verið af hálfu ríkisvaldsins við bændur. Útgjöld vegna þeirra nema um helmingi af heildarútgjöldum ráðuneytisins. Af því leiðir að heildarniðurskurður ráðuneytisins verður í heild minni að hlutfalli en sem nemur hagræðingarkröfunni.
    Nýir búvörusamningar voru gerðir við bændur 2009. Samningarnir eru vísitölubundnir en með samþykkt fjárlaga það ár var ákveðið að skerða þær greiðslur þannig að bændur nutu ekki fullra verðlagsbóta. Samningarnir gerðu ráð fyrir verðlagsbótum en með takmörkunum þó, þannig að verðlagsbæturnar yrðu aldrei meiri en 5%. Vegna verðlagsþróunar á tímabilinu frá 2009 hefur þetta leitt til skerðingar hvað mjólkursamningana áhrærir um 7,2–9,6% og hvað varðar sauðfjárframleiðsluna 6,4–8,6%.
    Jafnframt þessu var ákveðið að lækka greiðslur vegna svokallaðra búnaðarlagasamninga verulega og í fjárlögum yfirstandandi árs voru framlög vegna Framleiðnisjóðs skorin niður um 90%. Inneign sjóðsins gerði honum kleyft að halda áfram starfsemi sinni, þó í mjög skertri mynd á þessu ári. Segja má að þessari stefnu sé haldið áfram með því að framlög til sjóðsins nema um 25 millj. kr. á næsta ári samkvæmt frumvarpinu, sem er hækkun frá gildandi fjárlögum um 10 millj. kr. Ljóst er að þetta skerðir mjög starfsgetu sjóðsins. Einnig verður að vekja athygli á því að landbúnaðarháskólarnir, einkanlega á Hvanneyri, hafa fengið umtalsvert fé úr sjóðnum í gegnum tíðina. Þessi stefnumörkun veldur því að rannsóknarfé skólanna mun minnka sem þessu nemur. Þá verður ekki á næsta ári, fremur en á yfirstandandi ári, gert ráð fyrir fjármunum úr ríkissjóði til Lífeyrissjóðs bænda sem áður hafði tíðkast. Þessi ákvörðun hefur ekki áhrif á Lífeyrissjóð bænda heldur mun koma fram í lækkandi ráðstöfunartekjum bænda þar sem þeir þurfa að reiða fram þetta mótframlag sem greitt hefur verið úr ríkissjóði fram til þessa. Er annars vegar um að ræða 8% skerðingu vegna greiðslu mótframlags og hins vegar kemur til viðbótar 0,7% þynging við útreikning tryggingagjaldsins.
    Á árinu 2007 var ákveðið að verkefni Skógræktar og Landgræðslu yrðu flutt undir umhverfisráðuneytið úr landbúnaðarráðuneytinu og tók sú ákvörðun gildi í ársbyrjun 2008. Jafnframt var ákveðið að eyrnamerkja sérstaklega rannsóknarfé til þessara málaflokka sem rynnu til Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Tilgangurinn var sá að tryggja að skólinn gæti áfram sinnt landbúnaðartengdum rannsóknum á þessu sviði. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið lét nefndinni í té er ljóst að þessar fjárveitingar hafa lækkað umtalsvert að raungildi og verður svo einnig, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Framreiknuð til verðlags hvers árs má sjá að þau hefðu átt að nema um 230 millj. kr. en fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að þessi upphæð nemi um 180 millj. kr. Þetta hefur ásamt skerðingu á Framleiðnisjóði áhrif á getu skólans til þess að standa undir áformuðum rannsóknum.

Hafrannsóknastofnunin.
    Hafrannsóknastofnunin hefur lotið almennri hagræðingarkröfu. Stofnunin hefur hins vegar notið umtalsverðra fjárveitinga úr svokölluðum VS-sjóði, Verkefnasjóði sjávarútvegsins. Tekjugrunnur sjóðsins er hins vegar óvissu háður. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins virðist þróunin vera sú nú um stundir að tekjur sjóðsins hafa dregist saman. Má því ætla að fjármunir sem þaðan renna til Hafrannsóknastofnunarinnar muni dragast saman. Af öðrum brúttótekjum stofnunarinnar er helst að nefna tekjur vegna togara- og netaralls o.fl. um 250 millj. kr. Um 80% kostnaðar stofnunarinnar fara til svokallaðra vöktunarverkefna, þ.e. verkefna sem lúta að vinnu við stofnstærðarmælingar og skyldra hluta. Undan þeim verkefnum verður ekki vikist. Því blasir við að skorið verði niður í öðrum verkefnum, svo sem verkefnum á sviði umhverfismælinga, t.d. vegna lotlagsbreytinga, og ýmissa annarra verkefna. Stofnunin glímir eðli málsins samkvæmt líka við að hækkun olíuverðs kemur illa við reksturinn. Olíuverð hefur hækkað um 53% frá árinu 2009 og veiðarfærakostnaður fylgir mjög þeirri verðþróun. Þessum vanda hefur ekki verið mætt með sérstökum fjárveitingum.

Matvælastofnun.
    Matvælastofnun hefur samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar tekið á sig hagræðingarkröfu upp á um 210 millj. kr. frá árinu 2009 til og með fjárlagafrumvarps næsta árs. Á sama tíma hefur stofnunin axlað ný verkefni, einkanlega vegna nýrrar matvælalöggjafar. Var gert ráð fyrir þeirri kostnaðaraukningu í fjárlögum 2007, 2009, 2010 og 2011. Innleiðingu löggjafarinnar er lokið og sá kostnaður fellur því niður. Hins vegar kallar löggjöfin á aukinn rekstrarkostnað. Honum verður að hluta a.m.k. mætt með þóknunarframlögum, svo sem vegna eftirlits sem skoðunarstofur önnuðust áður en stofnunin hefur nú yfirtekið þá starfsemi. Af þeim upplýsingum sem fram komu á fundi með fulltrúum stofnunarinnar, má ætla að eftir að tekið hefur verið tillit til hagræðingarkröfunnar og þeirra fjármuna sem stofnunin fékk vegna matvælalöggjafarinnar séu fjárveitingar til hennar nokkurn veginn á pari. Stofnunin átti um 76 millj. kr. varasjóð í upphafi árs vegna þess að greiðslur til hennar vegna innleiðingar matvælalöggjafar bárust hraðar inn en nam áföllnum kostnaði. Gengið hefur á þennan sjóð á þessu ári vegna tapreksturs hennar.

Iðnaðarráðuneyti.
    Í umfjöllun um fjárlagaliði þessa ráðuneytis verða gerðir að umtalsefni þrír fjárlagaliðir: Niðurgreiðslur vegna húshitunarkostnaðar, Byggðastofnun og endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar.

Niðurgreiðslur vegna húshitunarkostnaðar.
    Niðurgreiðslur vegna húshitunarkostnaðar hafa farið lækkandi á síðustu árum. Er áætlað að þær muni nema tæpum 1,2 milljörðum kr. á næsta ári. Þessi fjárlagaliður hefur tekið á sig hlutfallslegar skerðingar. Innan hans er stærsta útgjaldatalan beinar niðurgreiðslur til þess að lækka húshitunarkostnað á köldum svæðum. Einnig er varið fjármunum af þessum fjárlagalið til óbeinna ráðstafana sem eiga að stuðla að lækkun húshitunarkostnaðar. Sú stefna hefur verið mörkuð að láta þær skerðingar sem þessi fjárlagaliður hefur tekið á sig bitna sem minnst á beinum niðurgreiðslum.
    Fram kom að nú sé að störfum nefnd sem vinni að tillögum um frekari aðgerðir. Ljóst má vera að slíkt kallar á fjárveitingar ríkisins strax á næsta ári.

Staða Byggðastofnunar.
    Byggðastofnun er í þeirri stöðu að eiginfjárhlutfall hennar er fyrir neðan lögbundið lágmark og starfar hún nú á tímabundinni undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu. Fé var veitt á fjárlögum þessa árs til þess að styrkja eiginfjárgrunninn og fyrir liggur það mat stofnunarinnar og iðnaðarráðuneytisins að 2 milljarða kr. vanti til þess að styrkja eigið fé hennar. Ljóst er að þessi staða torveldar mjög stofnuninni að vera virkur gerandi í lánveitingum á svæðum þar sem örðugt hefur verið um útvegun lánsfjár til fjárfestinga. Óhjákvæmilegt er því að taka afstöðu til þess hvernig þessum málum verði skipað. Starfsemi stofnunarinnar á undanþágu er ekki líkleg til þess að skila árangri í byggðalegu tilliti.

Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar.
    Upplýst var á fundi atvinnuveganefndar með fulltrúum iðnaðarráðuneytisins að verulegt fé vanti til þess að standa við skuldbindingar varðandi endurgreiðslur á kostnaði vegna kvikmyndagerðar. Lögin fela í sér að slíkar endurgreiðslur geti numið allt að 20% af kostnaði hverrar kvikmyndar auk styrkja frá Kvikmyndasjóði, samtals allt að 50% af heildarkostnaði. Augljóst er hins vegar að fjárlög hljóta að ráða því hversu hraðar slíkar útgreiðslur úr ríkissjóði geti orðið. Það er ótækt verklag að áætla fjármuni til viðfangsefnisins en kalla síðan eftir margföldun fjárveitingarinnar í gegnum fjáraukalög, eins og nú á sér stað. Þetta fyrirkomulag verður því að taka til endurmats. Leggja þarf mat á árangur þessarar aðferðar, hverju hún hefur skilað í aukinni atvinnusköpun og skatttekjum, skiptingu þessarar endurgreiðslu á milli innlendrar og erlendrar kvikmyndagerðar og með hvaða hætti hún hafi stuðlað að eflingu íslenskrar kvikmyndagerðar.

Lokaorð.
    Fyrsti minni hluti áréttar að umfjöllun hans um fjárlagafrumvarpið er háð þeim annmörkum sem bent var á í upphafi þessa álits. 1. minni hluti telur að fyrir fjárlagagerð á næsta ári verði farið yfir það hver eigi að vera aðkoma einstakra fagnefnda að vinnu við fjárlagagerðina. Þar þarf að hafa í huga að ekki verði um tvíverknað að ræða og hvort hægt sé að leggja skýrari línur um verkaskiptingu fagnefndanna og fjárlaganefndar til þess að tryggja að fjárlagavinnan verði sem markvissust og skili sem bestum árangri.

Alþingi, 17. nóvember 2011.

Einar K. Guðfinnsson,
Jón Gunnarsson.




Fylgiskjal IV.


Álit

um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012
(04 Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og 11 Iðnaðarráðuneyti)

Frá 2. minni hluta atvinnuveganefndar.


Inngangur.
    Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012 var lagt fram á Alþingi 1. október síðastliðinn. Hinn 7. nóvember barst atvinnuveganefnd bréf frá formanni fjárlaganefndar, dags. 4. nóvember, þar sem þess var óskað að veitt væri álit á fjárlagafrumvarpinu eigi síðar en 17. nóvember. Ljóst er því að fagnefndum þingsins var ætlaður skammur tími til þess að kynna sér þá þætti frumvarpsins er snúa að málefnasviði þeirra og kalla til þá gesti sem nauðsynlegt væri að ræða við vegna málsins. Á sama tíma stóðu yfir umræður um fjáraukalög 2011. Þá fundaði nefndin á sama tíma um ýmis þörf en ótengd mál. Vegna tímaskorts tókst nefndinni aðeins að kalla á sinn fund fulltrúa frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, iðnaðarráðuneytinu, Hafrannsóknastofnuninni og Matvælastofnun. Kann að vera að álit þetta innihaldi því umfjöllun um færri þætti en eðlilegt mætti annars telja.
    Frumvarpið byggist á sams konar forsendum og fjárlagafrumvarpið 2011. Áfram er stefnt að jöfnuði í rekstrarafkomu ríkisins, þ.e. að frumjöfnuði verði náð á tilteknu ári og heildarjöfnuði um tveimur árum seinna. Þó svo að fram komi að ríkisfjármálastefnan hafi verið endurskoðun felst sú endurskoðun aðallega í því að tímasetningum helstu áfanga hennar hefur verið frestað. Þá var í frumvarpi fyrir árið 2011 stefnt að 9% samdrætti í rekstrarútgjöldum stjórnsýslu- og eftirlitsstofnana, 7,5% hjá háskólum og 5% hjá framhaldsskólum, heilbrigðisstofnunum, stofnunum fyrir fatlaða og lögregluembættum. Fyrir árið 2012 er stefnt að 3% samdrætti hjá stjórnsýslu- og eftirlitsstofnunum, en 1,5% hjá öðrum. Bent hefur verið á að harkalegur niðurskurður gildandi fjárlaga hafi í mörgum tilvikum rist inn að beini. Nú virðist ríkisstjórnin ætla sér að rista dálítið dýpra.

Viðræður um aðild Íslands að ESB.
    Á fundum nefndarinnar var gestum tíðrætt um hve mikið álag væri á starfsmönnum stjórnsýslunnar þessa dagana. Í öllum tilvikum virðast viðræður um aðild Íslands að ESB hafa töluvert með það að gera. Var m.a. rifjað upp að fyrir um ári hafi komið fram það mat að til þess að tryggja eðlilegan gang í vinnu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins vegna aðildarviðræðnanna þannig að ekki kæmi niður á annarri starfsemi eða starfsmönnum þyrfti það að fjölga starfsmönnum um 2–3. Að sama skapi þyrfti starfsmönnum Fiskistofu að fjölga um 1–2 og starfsmönnum Matvælastofnunar um 4–5. Nú liggur fyrir að starfsmönnum ráðuneytisins og framangreindra stofnana var ekki fjölgað enda fékkst ekki fjárveiting til þess. Því er ljóst að vinna í kringum aðildarviðræðurnar hefur tekið mikinn toll af starfseminni. Á fundi nefndarinnar kom fram að starfsmenn ráðuneyta og stofnana hafa oft og tíðum unnið vinnu tengda aðildarviðræðunum á kvöldin og um helgar án þess að þóknun væri greidd fyrir. Þó svo að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafi farið fram á aukin fjárframlög vegna vinnu við samningskafla um landbúnað og sjávarútveg þá virðist sú beiðni rökstudd sérstaklega með vísan til vinnu sem inna þarf af hendi sérstaklega vegna stigs erfiðleika ákveðinna þátta aðildarviðræðnanna. Af frumvarpinu er ekki að sjá að gert sé ráð fyrir því að létta álagi af starfsmönnum árið 2012. Virðist 2. minni hluta sem vinna tengd aðildarviðræðum Íslands og ESB auki verulega á þann vanda sem stofnanir framkvæmdarvaldsins standa frammi fyrir í ljósi hagræðingarkröfu vegna niðurskurðar í ríkisrekstri.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
Matvælastofnun.
    Í máli fulltrúa Matvælastofnunar á fundi nefndarinnar kom fram að stofnunin hefði fengið aukin framlög á fjárlögum frá árinu 2007 til að standa straum af innleiðingu matvælalöggjafar Evrópusambandsins. Hefðu uppsafnaðar fjárheimildir frá þeim tíma numið um 156 millj. kr. Á móti kæmi að uppsöfnuð hagræðingarkrafa frá árinu 2009 til og með fjárlagaárinu 2012 næmi um 210 millj. kr. án þess að dregið hefði verið úr kröfum til innleiðingarferlis stofnunarinnar. Þannig hefði stofnunin undanfarin ár m.a. þurft að taka á sig ýmsan kostnað eins og t.d. opnun umdæmisskrifstofa víða um land. Þá kom fram að hluti af viðbrögðum stofnunarinnar væri að draga úr rannsóknum.
    Annar minni hluti átelur að svona skuli staðið að málum. Á sama tíma og Matvælastofnun er falið að innleiða flóknar reglur sem hafa mikla og mikilvæga þýðingu fyrir matvælaframleiðslu í landinu og staðið er í umtalsverðum niðurskurði er íslenskt stjórnkerfi yfirkeyrt með vinnu vegna aðildarviðræðna við ESB.
    Samkvæmt athugasemdum við frumvarp til fjárlaga er farið fram á að Matvælastofnun fái 17 millj. kr. fjárveitingu í því skyni að tryggja velferð dýra og veita dreifðum byggðum landsins reglubundna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu. Á fundi nefndarinnar kom m.a. fram í máli fulltrúa stofnunarinnar að mjög hafi dregist að fá dýralækna á ákveðin þjónustusvæði, m.a. þar sem fjármögnun hafi skort. Þá standi fjármögnun samninga um vaktsvæði dýralækna enn yfir. Að mati 2. minni hluta er auðsætt að þeir fjármunir sem eru ætlaðir til þess að koma framangreindum verkefnum af stað eru ekki nægjanlegir. Er verulega gagnrýni vert hve þessi verkefni hafa dregist, m.a. vegna ónógrar fjármögnunar. Bent skal á að enn er eftir að gera samninga um nokkur svæði.

Búvörusamningar.
    Heildarfjárveitingar vegna búvöruframleiðslu eru óbreyttar frá gildandi fjárlögum að nafnvirði. Er um það í frumvarpinu m.a. vísað til samkomulags sem gert var milli ríkis og bændasamtakanna árið 2009 en samkvæmt því verða framlög óbreytt frá þessu fjárlagaári og verðlagsbætur verða 5%. Af upplýsingum sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið kom á framfæri við nefndina eftir fund þess með henni má sjá að framangreint samkomulag hefur haft í för með sér umtalsverðar skerðingar á framlögum til bænda. Virðist skerðingin hafa legið á bilinu 6,5–9,6%, mismunandi milli ára. Að mati 2. minni hluta er með þessu móti verið að höggva margsinnis í sama knérunn enda er þegar búið að afleggja einhliða greiðslur til Lífeyrissjóðs bænda. Bændur eru því búnir að taka á sig enn meiri raunskerðingu en lesa má úr skýringum frumvarpsins á skerðingum á búvörusamningum.

Nýsköpun og rannsóknir í landbúnaði.
    Samkvæmt skýringum frumvarpsins er gert ráð fyrir 9,7 millj. kr. hækkun framlags til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Má þar einnig sjá að lækkun fjárframlaga til sjóðsins frá ríkisreikningi 2010 nemur 82,4% þrátt fyrir framangreinda hækkun. Samkvæmt skýringum við fjárlagafrumvarpið 2011 voru fjárframlög til sjóðsins það ár lækkuð um 133 millj. kr. vegna aðhaldsaðgerða í ríkisútgjöldum. Á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar árið 2010 kom fram í máli fulltrúa sjóðsins að niðurskurðurinn fæli í raun í sér að sjóðurinn væri lagður niður. Til jafnaðar fékk sjóðurinn 185 millj. kr. á ári fram til þess tíma á grundvelli laga og samninga við ríkisvaldið. Hefur sjóðurinn stundað styrkveitingar til verkefna sem hafa í för með sér atvinnuuppbyggingu og nýsköpun. Í ljósi fyrri niðurskurðar er það mat 2. minni hluta að hækkun framlags til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins sé það smá að hún skipti ekki höfuðmáli hvað rekstur sjóðsins varðar. Má því segja að með því að ekki er um frekari hækkun að ræða ásamt því sem að öðru leyti hefur verið skorið niður þegar kemur að nýsköpunar- og rannsóknastyrkjum til landbúnaðar sé niðurskurður á þessu sviði stórfelldur. Er að minnsta kosti óhætt að fullyrða að sá niðurskurður er kominn langt umfram þann niðurskurð sem hefur átt sér stað á öðrum sviðum nýsköpunar og rannsókna.

Hafrannsóknastofnunin.
    Á fundi nefndarinnar kom fram að fjárframlög til Hafrannsóknastofnunarinnar hafa lækkað um 22–25% frá árinu 2009. Hefur framangreind lækkun leitt til þess að ársverkum hefur fækkað verulega m.a. vegna þess að úthaldsdögum rannsóknaskipa hefur fækkað stórlega. Allt þetta kemur beint niður á rannsóknum og vöktun og rýrir þannig framtíðarmöguleika til að sækja fram á sviði sjávarútvegs og skapa með því meiri vöxt innan greinarinnar. Stefnumörkun ríkisstjórnar virðist einblína á kosti þess að veita fjármunum til rannsókna í samkeppnissjóði. Hér skal ekki efast um að slíkt á vel við þegar kemur að rannsóknum í háskóla sem ekki hafa tilgreindum og reglubundnum rannsóknaverkefnum að sinna. Mestur hluti starfsemi Hafrannsóknastofnunarinnar er hins vegar vöktun auðlindar þjóðarinnar. Afrakstur téðrar vöktunar er grundvöllur veiðiráðgjafar og ábyrgrar nýtingar fiskstofna til langs tíma litið. Því er nauðsynlegt að starfsemi stofnunarinnar sé tryggð með beinum fjárframlögum en henni sé ekki gert að eltast við fjármagn til skyldubundinna verkefna í samkeppnissjóðum. Þá má benda á að kostnaður stofnunarinnar við rannsóknir hefur aukist verulega síðustu ár vegna hækkunar á olíuverði um u.þ.b. 53% frá árinu 2009, eða um 80 millj. kr. á ári. Ekki hefur verið tekið tillit til þess hluta olíuverðshækkunar sem er umfram verðlag í fjárlögum síðustu ár.

Iðnaðarráðuneyti.
Byggðastofnun.
    Óumdeilt er að Byggðastofnun hefur veigamiklu hlutverki að gegna þegar kemur að fjármögnun nýsköpunarverkefna á landsbyggðinni. Á fundi nefndarinnar kom fram að staða sjóðsins væri óljós, hann þyrfti á verulegri fjárinnspýtingu að halda þar sem eiginfjárhlutfall (CAD-hlutfall) sé undir viðmiðunarmörkum og hann rekinn á grundvelli undanþáguheimildar. 2. minni hluti telur ákaflega mikilvægt að Byggðastofnun verði gert fært að sinna því mikilvæga hlutverki að styðja við nýsköpun á landsbyggðinni. Enn virðist stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum sjóðsins ekki fela í sér svör um það hvernig hægt sé að tryggja eðlilega starfsemi sjóðsins.

Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.
    Samkvæmt skýringum frumvarpsins er gert ráð fyrir að fjárveitingar til niðurgreiðslu húshitunar verði 1.172 millj. kr. árið 2012. Á fundi nefndarinnar kom fram að framtíðarfyrirkomulag niðurgreiðslna væri til skoðunar í nefnd á vegum ráðuneytisins. 2. minni hluti bendir á að niðurgreiðslur vegna húshitunar og auknar greiðslur vegna notenda utan samveitna eru tiltölulega stór hluti fjárframlaga á málefnasviði iðnaðarráðuneytisins. Að mati 2. minni hluta er löngu tímabært að fara ítarlega ofan í þessi mál og marka í kjölfarið skýra stefna um jöfnuð í húshitunarkostnaði.
    Þá er fullt tilefni til að taka til verulegrar skoðunar þá þætti raforkulaga sem snerta dreifingu raforku til annarra stórnotenda en stóriðju. Hefur nefndinni ítrekað verið bent á að garðyrkjubændur greiði óeðlilega hátt verð fyrir raforku og að hið sama kunni að eiga við um ýmsa aðra aðila.
    Annar minni hluti hvetur til þess að framangreindir þættir verði teknir til skoðunar hið fyrsta þannig að skapað verði meira gagnsæi og einfaldara og sanngjarnara kerfi um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar um raforkuverð til stórnotenda.

Ferðamál og markaðsstarf.
    Af skýringum við frumvarpið má sjá að ætlunin er að verja umtalsverðum fjármunum í ferðamála- og markaðsstarf. Þannig er áætlað að veita 300 millj. kr. tímabundið í ferðaþjónustuátakið Ísland allt árið. Um verulega fjárhæð er að ræða og hafa heyrst efasemdaraddir um að fjármunum til ferðamála hafi ávallt verið ráðstafað af skynsemi. Að mati 2. minni hluta er sérstaklega mikilvægt að vel sé með þetta fé farið og að markaðsstarfinu verði þannig háttað að það nýtist til að byggja upp heilsársferðaþjónustu á landinu öllu.

Alþingi, 21. nóvember 2011.

Sigurður Ingi Jóhannsson.



Fylgiskjal V.


Álit

um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012 (12 Efnahags- og viðskiptaráðuneyti).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

    Fjárlaganefnd óskaði eftir áliti efnahags- og viðskiptanefndar á þeim hluta fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2012 sem er á málefnasviði nefndarinnar fyrir 17. nóvember, sbr. erindi sem sent var nefndarmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd á tölvupósti 7. nóvember sl.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Gunnar Pálsson, Rögnvald Jóhann Sæmundsson, Benedikt Árnason og Sonju Bjarnadóttur frá Samkeppniseftirlitinu og Gunnar Andersen, Ingibjörgu Stefánsdóttur, Lindu Kolbrúnu Björgvinsdóttur, Hjálm Nordal, Brynjar Harðarson, Tómas Brynjólfsson og Gísla Kjartansson frá Fjármálaeftirlitinu.
    Heildarútgjöld efnahags- og viðskiptaráðuneytisins árið 2012 eru áætluð 3.833 millj. kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 112 millj. kr. sem nema 2,9% af heildarútgjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru 3.721 millj. kr. og af þeirri fjárhæð eru 1.696 millj. kr. fjármagnaðar með beinu framlagi úr ríkissjóði og 2.025 millj. kr. innheimtar af ríkistekjum.
    Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að ríkisútgjöld næsta árs verði dregin saman um 8,6 milljarða kr. og þar af skerðist framlög til almennrar stjórnsýslu og þjónustu um 3% en til velferðarmála um 1,5%. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið og undirstofnanir sem undir það heyra koma samkvæmt því til með að spara sem nemur 3% af veltu fjárlaga 2011. Helstu stofnanir sem heyra undir ráðuneytið eru Fjármálaeftirlitið, Hagstofa Íslands, Samkeppniseftirlitið og Einkaleyfastofa en fyrstnefnda stofnunin og sú síðasttalda fjármagna starfsemi sína af mörkuðum tekjum.
    Fulltrúar Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins komu á fund nefndarinnar til að ræða fjárhagsramma sinna stofnana fyrir næsta ár en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á fjárveiting til Fjármálaeftirlitsins að nema 1.387 millj. kr. á næsta ári, sem er hækkun um 60 millj. kr. frá fyrra ári, og 325,8 millj. til Samkeppniseftirlitsins, sem er hækkun um 11,5 millj. kr. frá fyrra ári. Hækkanir skýrast aðallega af launa og verðlagsbreytingum. Hagræðingaráform ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir að rekstrarútgjöld Fjármálaeftirlitsins skerðist um 40 millj. kr. en 9,4 millj. kr. í tilviki Samkeppniseftirlitsins. Af hálfu fulltrúa umræddra stofnana var á það bent að sérstakar aðstæður í atvinnulífinu í kjölfar hrunsins hefðu haft í för með sér aukið verkefnaálag.
    Fulltrúar Samkeppniseftirlitsins vísuðu til fjárlagaerindis stofnunarinnar frá mars á þessu ári þar sem lagt var til að framlög ykjust um 105 millj. kr. í ljósi þess að almennt verkefnaálag hefði aukist um 30%. Þar af stæði til að 30 millj. kr. yrði ráðstafað í sérstakar aðgerðir til að hraða endurreisn atvinnulífsins, 35 millj. kr. í aðgerðir til að hraða mikilvægustu rannsóknum eftirlitsins og 40 millj. kr. vegna aukningar í almennu samkeppniseftirliti að öðru leyti í framhaldi af bankahruninu. Fulltrúar Fjármálaeftirlitsins afhentu yfirlit yfir rekstraráætlun 2012 þar sem m.a. kom fram að fjöldi starfsmanna væri 117 og að til skemmri tíma væri þörf á að fjölga þeim um 26 en að óbreyttu yrði áætlaður fjöldi starfsmanna í árslok 2015 kominn niður í 104.
    Meiri hlutinn gerir ekki athugasemdir við tillögur fjárlagafrumvarpsins um fjárveitingar til málaflokka efnahags- og viðskiptaráðuneytisins. Bent skal á að samkvæmt fjárlögum ársins 2011 nam fjárveiting til Fjármálaeftirlitsins tæplega 1.330 millj. kr., sem var rúmlega 300 millj. kr. hækkun frá fyrra ári, og á fjáraukalögum 2011 komu 310 millj. kr. til viðbótar. Fjárheimildir Samkeppniseftirlitsins samkvæmt fjárlögum þessa árs námu tæpum 315 millj. kr., sem var tæplega 30 millj. kr. hækkun frá fyrra ári.

Alþingi, 24. nóvember 2011.

Helgi Hjörvar, formaður,
Þráinn Bertelsson,
Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Oddný G. Harðardóttir,
Amal Tamimi.




Fylgiskjal VI.


Álit

um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012
(00 Æðsta stjórn ríkisins og 01 Forsætisráðuneyti).

Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


    Nefndin hefur að beiðni fjárlaganefndar dags. 12. nóvember sl. fjallað um þá hluta frumvarps til fjárlaga sem varða æðstu stjórn ríkisins og forsætisráðuneyti.
    Á fund nefndarinnar komu Óðinn Helgi Jónsson, Eydís Eyjólfsdóttir og Sigurður Snævarr frá forsætisráðuneyti.
    Athygli nefndarinnar var vakin á því að samkvæmt nýjum þingsköpum fjalli fjárlaganefnd ein um fjárveitingar ríkisins og taldi skrifstofa Alþingis því að henni bæri ekki að mæta á fund nefndarinnar.
    Í ljósi þessa telur nefndin rétt að vekja einungis athygli á fjárlagatillögum sem varða þær tvær stofnanir Alþingis sem eru órjúfanlegur hluti af eftirlitshlutverki nefndarinnar, þ.e. umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar.

Umboðsmaður Alþingis.
    Framlög til umboðsmanns Alþingis eru 116,3 m.kr. sem jafngildir 3,3 m.kr. lækkun að raungildi frá gildandi fjárlögum í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um 3% samdrátt í stjórnsýslu og almennri þjónustu. Nefndin átti fund með umboðsmanni Alþingis þar sem fram kom að starfsmenn hjá embættinu væru átta og hefði fækkað um þrjú stöðugildi frá árinu 2008, m.a. um stöðugildi aðstoðarmanns umboðsmanns. Þá kom einnig fram að kvörtunum sem berast til umboðsmanns hefði fjölgað verulega á árinu 2011 miðað við síðustu ár og í lok október voru kvartanir 41,4% fleiri en á sama tíma 2010. Í lok dags 7. nóvember 2011 höfðu 456 mál verið skráð á árinu en samtals 377 mál voru skráð allt árið 2010. Þessi mikla aukning mála hefur orðið til þess að afgreiðslutími hefur lengst og minni tími gefst því til frumkvæðisathugana. Nefndin bendir á að embættið er lítið og því er niðurskurður tilfinnanlegri og hagræðing erfiðari en gerist hjá stærri embættum. Nefndin telur einsýnt að ekki sé unnt að ganga lengra í niðurskurði til embættisins, ekki síst þegar litið sé til síaukins málafjölda. Embættinu er samkvæmt lögum fengið það mikilvæga hlutverk að gæta réttaröryggis borgaranna gagnvart stjórnvöldum og telur nefndin nauðsynlegt að tryggja embættinu næga fjármuni til þess að það geti rækt hlutverk sitt með sóma og veitt stjórnvöldum raunverulegt aðhald.

Ríkisendurskoðun.
    Framlög til Ríkisendurskoðunar samkvæmt frumvarpinu eru 410,4 m.kr. og er raungildislækkun því um 12 m.kr. sem er í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um 3% samdrátt hjá stjórnsýslustofnunum. Nefndin átti fund með Ríkisendurskoðun þar sem fram kom að það stefndi í að stofnunin væri rekin með um 24 m.kr. halla á þessu ári en ætti á móti uppsafnaðan rekstrarafgang frá umliðnum árum upp á tæpar 70 m.kr. Starfsmenn Ríkisendurskoðunar eru 48 talsins og hefur sá fjöldi verið nánast óbreyttur síðustu fimm ár, þ.e. frá 47 til 49 í árslok. Nefndin telur nauðsynlegt að stofnunin fái þá fjármuni sem hún þarf til að sinna því áríðandi eftirlitshlutverki sem henni er fengið samkvæmt lögum. Engu síður vill nefndin vekja athygli á því að niðurskurður í kjölfar hrunsins hefur ekki gengið eins nærri stofnuninni og embætti umboðsmanns Alþingis þegar litið er til stærðar stofnunarinnar, fjölda starfsmanna og möguleika til að afla sértekna.

Alþingi, 21. nóvember 2011.

Valgerður Bjarnadóttir, formaður,
Álfheiður Ingadóttir,
Róbert Marshall,
Jónína Rós Guðmundsdóttir,
Birgir Ármannsson,
Vigdís Hauksdóttir,
Margrét Tryggvadóttir.




Fylgiskjal VII.


Álit
um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2011
(06 innanríkisráðuneyti og 14 umhverfisráðuneyti)

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Umhverfis- og samgöngunefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. bréf fjárlaganefndar frá 4. nóvember 2011. Nefndin fékk á sinn fund Hrafnhildi Þorvaldsdóttur frá umhverfisráðuneytinu, Jón Magnússon, Birnu Hreiðarsdóttur, Rúnar Guðjónsson og Þorstein Hermannson frá innanríkisráðuneytinu og Stefán Erlendsson frá Vegagerðinni.
    Málefnasvið nefndarinnar snýr annars vegar að umhverfisráðuneytinu og hins vegar að innanríkisráðuneytinu en í ársbyrjun 2011 voru samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og dómsmála- og mannréttindaráðuneyti sameinuð í innanríkisráðuneyti. Fyrst verða reifuð þau álitaefni er snúa að umhverfisráðuneytinu.

Umhverfisráðuneytið.
    Heildarútgjöld umhverfisráðuneytisins árið 2012 eru áætluð um 10.726 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 2.132 m.kr. en þær nema um 20% af heildarútgjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru 8.594 m.kr. og af þeirri fjárhæð eru 4.390 m.kr. fjármagnaðar með beinu framlagi úr ríkissjóði og 4.202 m.kr. innheimtar af ríkistekjum. Útgjöld ráðuneytisins aukast um 1.456,7 m.kr. á verðlagi fjárlaga 2011 en þegar tekið er tillit til áhrifa almennra verðlags- og gengisbreytinga hækka útgjöldin um 1.762,7 m.kr. milli ára eða sem svarar til um 20%. Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 5.079,4 m.kr. og hækka þau um 460,2 m.kr. frá gildandi fjárlögum
    Nefndin hefur tekið til umfjöllunar og meðferðar þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem snýr að nefndinni og kynnt sér samdráttartillögur ráðuneytisins. Nefndin telur sýnt að ráðuneytið hefur mætt þeim samdráttarmarkmiðum sem gerð var krafa um með því að skera niður útgjöld til einstakra liða. Þó er skerðingin mismikil sem einstakar stofnanir og verkefni verða fyrir enda var hún útfærð eftir forgangsröð og áherslum ráðuneytisins. Nefndin vill þó árétta mikilvægi þess að í efnahagsþrengingum sé ekki gengið nærri stofnunum og verkefnum og leitast verði við að forðast fækkun starfa. Einnig vill nefndin árétta nauðsyn þess að ráðuneytið og ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að efla umgjörð um og rekstrarskilyrði frjálsra félagasamtaka sem starfa á sviði umhverfismála á Íslandi.
    Með lögum nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, var sett á fót ný úrskurðarnefnd sem á að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála. Nefndin á að taka til starfa í ársbyrjun 2012 og tekur þá við hlutverki úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál og úrskurðarnefndar hollustuhátta og mengunarvarna sem jafnframt verða lagðar niður. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir að hin nýja nefnd fái 13 m.kr. fjárveitingu á fjárlögum. Við meðferð frumvarps um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komu fram gagnrýnisraddir varðandi málsrekstur í núverandi úrskurðarnefndum, þá einkum með hliðsjón af málshraða. Meiri hlutinn vill í þessu sambandi árétta það sem fram kom í nefndaráliti meiri hluta umhverfisnefndar að mikilvægt sé að stuðlað verði að því að hin nýja úrskurðarnefnd geti starfað hratt og vel. Nauðsynlegt er að leitast við að ljúka málsmeðferð í úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála áður en hin nýja nefnd tekur til starfa og huga verður að sérstakri fjárveitingu í þessu skyni, en fram kom við meðferð málsins að nefndin eigi eftir að úrskurða í málum meira en árs. Meiri hlutinn telur einsýnt að ekki sé varið nægilegu fjármagni í þetta verkefni og leggur á það áherslu að það sé erfiðleikum bundið að fara af stað með nýja nefnd sem situr undir klyfjum frá starfsemi eldri nefnda.
    Nefndin ræddi sérstaklega um náttúrustofur en skv. 9. gr. laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur er ráðherra heimilt að leyfa starfsrækslu allt að átta náttúrustofa sem starfi á vegum sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir 83,7 m.kr. fjárveitingu til þeirra en það jafngildir 40,1 m.kr. lækkun að raungildi frá gildandi fjárlögum. Lækkunin skýrist af því að niður eru felld samtals 38,4 m.kr. framlög sem veitt eru tímabundið í fjárlögum fyrir árið 2011 og þar er um að ræða 6,4 m.kr. framlög hjá hverri stofu. Meiri hlutinn telur brýnt að tryggja að svæðisbundnar rannsóknir séu í öruggum höndum hjá viðkomandi náttúrustofu. Mikilvægt er að gera beina samninga við hverja stofu fyrir sig og vill meiri hlutinn beina því til fjárlaganefndar að festa þessi framlög í sessi frekar en að veita þau tímabundið til eins árs í senn. Ekki er réttmætt að setja sömu hagræðingarkröfu á allar náttúrustofur heldur þarf að setja skýran ramma og nauðsynlegt er að líta til sérverkefna hverrar náttúrustofu fyrir sig.

Innanríkisráðuneytið.
    Heildarútgjöld innanríkisráðuneytisins árið 2012 eru áætluð um 70.075 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 8.835 m.kr. en þær nema 12,6% af heildarútgjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru 61.240 m.kr. og af þeirri fjárhæð eru 44.087 m.kr. fjármagnaðar með beinu framlagi úr ríkissjóði og 17.079 m.kr. innheimtar af ríkistekjum. Útgjöld ráðuneytisins dragast saman um 931 m.kr. á verðlagi fjárlaga fyrir árið 2011 en þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum verðlags- og gengisbreytingum hækka útgjöld um 1.335 m.kr. milli ára eða sem svarar til 2,2%. Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 29.982 m.kr. og hækka þau um 1.982 m.kr. frá gildandi fjárlögum.
    Nefndin hefur tekið til umfjöllunar og meðferðar þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem snýr að nefndinni og kynnt sér samdráttartillögur ráðuneytisins. Eins og greint var frá að framan, þá voru samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og dómsmála- og mannréttindaráðuneyti sameinuð í innanríkisráðuneyti í ársbyrjun. Framsetning á útgjöldum ráðuneytisins í frumvarpinu hefur verið aðlöguð vegna flutnings á verkefnum milli eldri ráðuneytanna sem gerð var í gildandi fjárlögum fyrir yfirstandandi ár í tengslum við breytta verkaskiptingu Stjórnarráðsins.
    Meiri hlutinn vill vekja athygli á því að þeir málaflokkar sem heyra undir innanríkisráðuneytið og lúta að málefnasviði nefndarinnar hafa á síðastliðnum árum þurft að þola mikinn niðurskurð. Nefndin vill því árétta að nauðsynlegt er að vanda vel til verka og tryggja eins og framast er unnt að þjónusta skerðist sem minnst. Í ljósi erfiðrar stöðu ríkissjóðs liggur fyrir að ekki er bolmagn til að standa undir jafn öflugri uppbyggingu samgöngukerfa og innviða og á fyrri árum. Þetta leiðir af sér að óhjákvæmilegt er að hægja verulega á nýframkvæmdum en meiri hlutinn vill engu að síður leggja mikla áherslu á að veita áfram fjármagn til að viðhalda samgöngumannvirkjum. Í þessu sambandi vill meiri hlutinn benda á mikilvægi þess að reynt verði að ráðast í verkefni sem líkleg eru til að skapa atvinnu og leggur áherslu á ýmis viðhaldsverkefni í öryggismálum og vegagerð.
    Fram kemur í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að vinna eigi áætlun um sjálfbærar samgöngur í samvinnu við sveitarfélögin, með það að markmiði að draga úr þörf fyrir einkabílinn. Í slíkri stefnu verði almenningssamgöngur um allt land stórefldar og fólki auðveldað að komast leiðar sinnar gangandi eða á reiðhjóli. Áætlað er að almenningssamgöngur verði sjálfsagður hluti samgönguáætlunar. Meiri hlutinn fagnar þessum áherslum og áréttar m.a. í því samhengi að skoða þann möguleika að setja upp safnstöðvar sem yrðu staðsettar í úthverfum Reykjavíkur og aðliggjandi sveitarfélögum. Út frá þeim mætti hafa tíðar ferðir til helstu áfangastaða. Starfshópur um grunnnet almenningssamgagna og hjólreiðastiga var skipaður af samgönguráði í nóvember 2010 og skilaði starfshópurinn fyrstu tillögum til umræðu í mars á þessu ári. Þar kemur fram að áætlaður kostnaður við rekstur grunnnets almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og á suðvestursvæðinu miðað við verðlag og tíðni ferða í desember 2010, sé um 1.070 m.kr. á ári. Í samkomulagi innanríkisráðherra og fjármálaráðherra við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að ríkið ætli að leggja viðbótarfjármuni í almenningssamgöngur gegn því meðal annars að stórframkvæmdum verði frestað á höfuðborgarsvæðinu og skipulag svæðisins taki mið af auknum almenningssamgöngum. Í frumvarpi til fjárlaga 2012 er gert ráð fyrir því að veitt verði 200 m.kr. framlag til reksturs almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Meiri hlutinn telur brýnt að reyna eftir megni að auka þetta fjárframlag til almenningssamgangna enda er um að ræða forgangsverkefni í uppbyggingu samgöngumála til framtíðar. Mikilvægt er að í það minnsta að frá og með árinu 2013 verði framlagið aukið í samræmi við gefin fyrirheit.
    Rætt var um öryggi ferðamanna á fundi nefndarinnar 22. nóvember sl. Í því sambandi var fjallað um boðunarkerfi fyrir ferðamenn á hættuslóð en símafélögin í samvinnu við Neyðarlínuna og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra eru að vinna að útkallskerfi til að aðvara ferðamenn og aðra sem eru með gsm-síma á hættuslóð um tafarlausa hættu. Fram kom á fundinum að verkið væri komið nokkuð áleiðis en staðfestingu skorti varðandi fjárheimildir. Til að ljúka málinu með þeim hætti að kerfið fullnægi þeim kröfum sem til þess er gert, þ.e. að boð verði send innan 5 mínútna eftir að tilkynning um hættuástand hefur borist Neyðarlínunni, þarf um 20 m.kr., annars vegar vegna kostnaðar hjá símafélögunum og hins vegar vegna hugbúnaðar til að sækja og senda í gegnum kerfi símafélaganna. Neyðarlínan mun bera kostnað sem að henni snýr, lögreglu og samhæfingarstöðinni. Viðstaddir nefndarmenn voru einhljóða sammála um að brýnt væri að leggja fjármagn í þetta verkefni í ljósi mikilvægis þess fyrir öryggi allra ferðamanna á Íslandi.
    Þór Saari áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.
    Þuríður Backman skrifar undir með fyrirvara sem varamaður í fjárlaganefnd.
    Árni Johnsen var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 24. nóvember 2011.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður,
Ólína Þorvarðardóttir,
Þuríður Backman, með fyrirvara,
Róbert Marshall,
Mörður Árnason.




Fylgiskjal VIII.


Álit

um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012 (03 Utanríkisráðuneyti).

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.


    Utanríkismálanefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. bréf fjárlaganefndar frá 4. nóvember sl. Nefndin fékk á sinn fund Einar Gunnarsson, Pétur Ásgeirsson, Hermann Ingólfsson og Mörtu Jónsdóttur frá utanríkisráðuneyti. Þá bárust nefndinni tölulegar upplýsingar og frekari gögn frá ráðuneytinu.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að fjárveiting til utanríkisráðuneytis árið 2012 nemi um 9.745 m.kr. á rekstrargrunni sem samsvarar um 2% lækkun frá fjárlögum 2011. Í frumvarpinu segir að útgjaldabreytingum milli ára megi skipta í þrjá þætti. Í fyrsta lagi verða gerðar ráðstafanir til að lækka útgjöld ráðuneytisins um 237 m.kr. í samræmi við markmið sem ríkisstjórnin hefur sett í áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum. Í öðru lagi er um að ræða ýmsar breytingar á útgjaldaskuldbindingum sem falla til á árinu 2012, en þær nema 313 m.kr. Á móti því vega, í þriðja lagi, tímabundin framlög til ýmissa verkefna sem falla niður og nema 191 m.kr. Nettólækkun vegna breytinga á útgjaldaskuldbindingum er því alls 741 m.kr.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir verulegri hækkun framlaga til þróunarmála í samræmi við ályktun Alþingis nr. 41/139 frá 10. júní 2011 um áætlun um alþjóðalega þróunarsamvinnu Íslands 2011–2014. Samkvæmt áætluninni eru framlög til þróunarmála á árinu 2012 óbreytt sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu frá fyrra ári en hagvöxtur kallar á hækkun framlaga. Gert er ráð fyrir að heildarútgjöld til þróunarmála verði 3.115 m.kr. Framlög til Þróunarsamvinnustofnunar (ÞSSÍ) hækka um 61 m.kr í 1.227 m.kr og framlög til þróunarmála og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi sem fer í gegnum utanríkisráðuneytið hækka um 279 m.kr., í 1.556 m.kr. Þá telst til þróunarhjálpar hluti framlaga til Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Fram kom við umfjöllun nefndarinnar að á næsta ári er áætlað að hefja á ný reglulega móttöku flóttamannahópa í samvinnu við velferðarráðuneytið, Rauða krossinn og fleiri aðila.
    Samkvæmt frumvarpinu verða framlög vegna sendiskrifstofa erlendis 2.800 m.kr. Það er um 113 m.kr. hækkun frá fjárlögum fyrra árs en engu að síður veruleg raunlækkun ef tillit er tekið til launa-, verðlags- og gengisbreytinga, sem nema 236 m.kr. til hækkunar en þar af eru áhrif gengisbreytinga um 130 m.kr. en útgjöld sendiskrifstofa eru að stórum hluta bundin í erlendri mynt. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram, sem dæmi um hagræðingu á þessu sviði, að árið 2005 nam kostnaður við rekstur sendiskrifstofa 0,57% af ríkisútgjöldum en árið 2011 er ráðgert að hlutfallið verði 0,52% þrátt fyrir hrun krónunnar. Á árunum 2009–2010 var sex sendiskrifstofum lokað og eru sendiskrifstofur Íslands nú 21 talsins en auk þess hafa þrjár skrifstofur ÞSSÍ stöðu sendiráðs. Þetta er svipaður fjöldi og á árunum 2002 til 2004 en útsendir starfsmenn eru nú um það bil fjórðungi færri en þeir voru á því tímabili. Þeir eru nú 50 en voru 70 árið 2004.
    Framlög til þróunarsjóðs EFTA lækka um 920 m.kr miðað við fjárlög fyrra árs. Sjóðurinn er nú að greiða út styrki vegna tveggja framkvæmdatímabila, annars vegar vegna tímabilsins 2004–2009 og hins vegar vegna tímabilsins 2012–2014, en lækkunin skýrist af því að greiðslum vegna fyrra tímabilsins er að ljúka en greiðslur vegna seinna tímabilsins koma ekki til framkvæmda að neinu ráði fyrr en eftir árið 2012.
    Þrátt fyrir hagræðingu og niðurskurð hefur utanríkisráðuneytið tekið að sér ný verkefni stór og smá samkvæmt ályktunum Alþingis og nægir í því efni að nefna yfirstandandi aðildarviðræður við Evrópusambandið, áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011– 2014, stefnu Íslands í málefnum norðurslóða og mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Meiri hlutinn telur að vel hafi tekist til með hagræðingu í rekstri utanríkisráðuneytisins á síðustu árum jafnframt því sem ráðuneytið hefur sinnt hlutverki sínu í alþjóðasamskiptum Íslendinga á erfiðum tímum.
    Birgitta Jónsdóttir er áheyrnarfulltrúi í utanríkismálanefnd og er samþykk áliti þessu.
    Árni Þór Sigurðsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifa undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.

Alþingi, 24. nóvember 2011.

Árni Þór Sigurðsson, formaður, með fyrirvara,
Sigmundur Ernir Rúnarsson, með fyrirvara,
Helgi Hjörvar,
Álfheiður Ingadóttir,
Oddný G. Harðardóttir.




Fylgiskjal IX.


Álit

um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012 (03 Utanríkisráðuneyti).

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.


    Utanríkismálanefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar.
    Við umfjöllun nefndarinnar um frumvarpið var fyrirspurnum um kostnað vegna umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu beint til utanríkisráðuneytisins. Minni hluti nefndarinnar gagnrýnir ógagnsæi þegar kemur að kostnaði við aðildarumsóknina og hefur einkum þrenns konar athugasemdir við svör sem bárust frá ráðuneytinu.
    Í fyrsta lagi kemur þar fram að á árunum 2010 og 2011 var veitt samtals 400 m.kr. fjárheimild vegna kostnaðar við umsóknina og að þar af hafa tæplega 188 m.kr verið nýttar. Uppsöfnuð fjárheimild á þessum lið verður um 200 m.kr í lok árs 2011 og stafar af því að kostnaður vegna samningaviðræðna hefur fallið til síðar en áætlað var. Þá kemur fram að auknar fjárveitingar til Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins vegna aðildarumsóknarinnar á fjárlögum áranna 2009–2012 nema 590 m.kr. og þar af hafa 202 m.kr verið nýttar. Það skýtur því skökku við að utanríkisráðherra sagði á opnum fundi utanríkismálanefndar og atvinnuveganefndar 23. nóvember sl. að stærstur hluti kostnaðar vegna umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu hefði þegar fallið til og fær minni hlutinn vart séð að samræmi sé á milli skriflegra svara ráðuneytisins og ummæla ráðherra. Í ljósi þeirra ummæla má spyrja hvort ekki sé tilefni til þess að fella niður hluta þeirra fjárveitinga sem ætlað er til aðildarviðræðnanna á næsta ári.
    Í öðru lagi kemur fram í svörum ráðuneytisins að launakostnaður starfsmanna sem fluttir hafa verið að meira eða minna leyti til starfa vegna aðildarviðræðnanna sé ekki metinn til kostnaðar við aðildarumsóknina. Ráðuneytið ber því við að flókið sé að meta þann kostnað. Minni hlutinn telur með öllu óásættanlegt að ekki sé allt vinnuframlag til aðildarferlisins metið til kostnaðar enda hafi stjórnvöld haft uppi stór orð um opið og gagnsætt ferli þar sem allt yrði uppi á borðum. Almenningur á Íslandi á rétt á að vita nákvæmlega hve miklu fé er varið í aðildarumsóknina og hér verður ráðuneytið að gera bragarbót á.
    Í þriðja lagi vekur athygli að í svörum ráðuneytisins segir að þeir sem starfa að aðildarumsókninni séu fyrst og fremst starfsmenn sem áður unnu að verkefnum vegna EES-samningsins. Þeir hafa ýmist bætt við sig eða alfarið horfið til starfa vegna aðildarviðræðnanna. Minni hlutinn telur þá spurningu óneitanlega vakna hvort EES-samningnum sé ekki sinnt sem skyldi meðan á aðildarviðræðum stendur og hvaða afleiðingar vanræksla slíkrar hagsmunagæslu geti haft.
    Þá kemur fram í greinargerð um utanríkisráðuneytið í fjárlagafrumvarpinu að sparnaðaráform á árinu 2012 kalla á margvíslegar hagræðingaraðgerðir og forgangsröðun verkefna. Ráðuneytið hefur gert skilmerkilega grein fyrir hagræðingaraðgerðum við rekstur sendiskrifstofa erlendis en gat ekki nefnt dæmi um forgangsröðun einstakra verkefna þrátt fyrir spurningar þar um. Minni hlutinn telur að skýrar áherslur skorti er varðar forgangsröðun verkefna innan ráðuneytisins og þar sé við pólitíska forustu þess að sakast.


Alþingi, 24. nóvember 2011.

Ragnheiður E. Árnadóttir,
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
Gunnar Bragi Sveinsson.




Fylgiskjal X.


Álit

um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012 (08 Velferðarráðuneyti).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Velferðarnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. bréf fjárlaganefndar dagsett 4. nóvember 2011. Nefndin fékk á sinn fund Önnu Lilju Gunnarsdóttur, Önnu Sigrúnu Baldursdóttur, Ágúst Þór Sigurðsson, Dagnýju Brynjólfsdóttur, Einar Njálsson, Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur, Hermann Bjarnason, Hrafnhildi Gunnarsdóttur, Inga Val Jóhannesson, Jón Baldursson, Sturlaug Tómasson og Svein Magnússon frá velferðarráðuneyti, Önnu Þorkelsdóttur, Friðrik Pálsson, Guðjón Sigurðsson, Ingibjörgu Pálmadóttur, Kristján Linnet og Sigurrós Kristinsdóttur frá ráðgjafarnefnd Landspítala – háskólasjúkrahúss, Birgi Gunnarsson og Magnús Ólafsson frá Reykjalundi og Sigurð Erlingsson, Sigurð Jón Björnsson og Gunnhildi Gunnarsdóttur frá Íbúðalánasjóði. Þá hélt nefndin fund með Gunnari Svavarssyni, Helga Má Halldórssyni, Ingólfi Þórissyni, Jóhannesi M. Gunnarssyni og Stefáni Veturliðasyni frá Nýja Landspítalanum ohf.
    Heildargjöld velferðarráðuneytisins árið 2012 eru áætluð um 233,9 milljarðar kr. á rekstrargrunni. Gjöld umfram tekjur eru um 225,3 milljarðar kr. sem nemur tæpum helmingi af áætluðum heildargjöldum fjárlagafrumvarpsins sem eru 539,2 milljarðar kr. Gjöld ráðuneytisins eru að mestu fjármögnuð með beinu framlagi úr ríkissjóði eða um 163,4 milljarðar kr.; rúmir 62 milljarðar eru innheimtir af ríkistekjum og um 329 m.kr. færast til lækkunar á viðskiptahreyfingum ríkissjóðs. Útgjöld ráðuneytisins dragast saman um 2,3 milljarða kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2011 en þegar tekið er tillit til almennra verðlagsáhrifa og gengisbreytinga hækka útgjöldin um 7,6% eða tæpa 16 milljarða kr. milli ára.
    Nefndin fjallaði um þátt velferðarráðuneytisins í fjárlagafrumvarpinu, þar á meðal um jafnréttismál, sem skv. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, heyra ekki undir málefnasvið nefndarinnar heldur allsherjar- og menntamálanefndar.
    Aðhaldsmarkmið ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2012 byggjast á því að draga úr útgjöldum sem nemur 3% í almennri stjórnsýslu og þjónustu og 1,5% í velferðarmálum. Hagræðingarkrafa hjá aðalskrifstofu ráðuneytisins og stjórnsýslu- og eftirlitsstofnunum sem heyra undir velferðarráðuneytið er því 3% samdráttur í útgjöldum. Almenn hagræðingarkrafa til stofnana sem annast heilbrigðisþjónustu, þjónustu við börn, fatlað fólk og aldraða er aftur á móti 1,5%. Vegna endurskoðunar á kostnaði við rekstur sjúkrarýma á árinu 2010 var ekki mögulegt að ná fram hagræðingaráhrifum fyrr en liðið var á árið 2011. Var því ákveðið í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár að fresta lækkun á 3/12 hlutum hagræðingarkröfu nokkurra heilbrigðisstofnana og bætist sú krafa ofan á almennu 1,5% hagræðingarkröfuna í frumvarpinu.

Samantekt.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að tillögur heilbrigðisstofnana um það hvernig þær hyggjast mæta aðhaldskröfu á fjárlögum 2012 verði ræddar ítarlega og tryggt sé að staðinn sé vörður um heilbrigðisþjónustuna og að hagræðingarkröfur í heilbrigðisþjónustunni verði aldrei til þess að dýrari leiðir séu valdar en þær sem skornar eru niður. Meiri hlutinn telur miður að tillögur að endurskipulagi heilbrigðisþjónustu hafi ekki legið til grundvallar við vinnu að fjárlagafrumvarpi og áréttar mikilvægi þess að svo verði við vinnu við fjárlög ársins 2013. Jafnframt leggur meiri hlutinn ríka áherslu á að unnið verði að því að koma á þjónustustýringu, tilvísanakerfi og forvakt á höfuðborgarsvæðinu. Skoða þarf hvernig unnt er að tryggja góða tannheilsu barna og beinir meiri hlutinn því til fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar að skoða álagningu „tappagjalds“ á sykraða gosdrykki. Að auki telur meiri hlutinn vert að fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd skoði breytingu á áfengisgjaldi í samræmi við tillögur meiri hlutans og að áætluð tekjuaukning ríkissjóðs af því verði nýtt til að draga úr niðurskurði í heilbrigðisþjónustu. Vegna athugasemda sem nefndinni hafa borist um þjónustusamninga velferðarráðuneytis beinir meiri hlutinn því til fjárlaganefndar að skoða þessi mál sérstaklega og tryggja að samræmis og hófs sé gætt við niðurskurð til velferðarmála enda er almennt um mjög viðkvæma málaflokka að ræða. Niðurskurður í velferðarmálum verður jafnframt ávallt að vera með þeim hætti að hann gangi ekki of nærri þeirri starfsemi sem um ræðir, að hægt verði áfram að sinna kjarnaþjónustu og að tryggt sé að þegar rofar til í ríkisfjármálum verði unnt að byggja viðkomandi þjónustu upp á nýjan leik og auka við hana. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að vörður sé staðinn um velferðarþjónustu um allt land, að velferðarkerfið sé sem skilvirkast og að í útgjaldasamdrætti séu þeir varðir sem minnst hafa og eru í mestri þörf fyrir velferðarþjónustu og að tryggt sé að hagkvæmasta leiðin sé alltaf valin þegar hægt er.

Heilbrigðisstofnanir og sjúkrahús.
    Nefndin fór yfir þá hagræðingarkröfu sem gerð er til hvers sjúkrahúss og heilbrigðisstofnunar fyrir sig auk þess sem hún fjallaði um málið heildstætt. Meiri hlutinn lýsir yfir áhyggjum af því að ekki verði gengið lengra í hagræðingu án þess að skerða þjónustu og fækka störfum. Telur meiri hlutinn alvarlegt í þessu ljósi að ekki liggi þegar fyrir tillögur einstakra stofnana, utan Landspítalans, um hvernig fyrirhuguðum niðurskurði skuli mætt. Meiri hlutinn fékk þær upplýsingar hjá velferðarráðuneyti að stofnanirnar væru enn að vinna í þessum málum og hefðu frest til 2. desember til að skila inn lokatillögum sínum. Samkvæmt starfsáætlun Alþingis er 3. umræða fjárlaga fyrirhuguð 6. desember nk. Telur meiri hlutinn ljóst að áður en kemur að lokaafgreiðslu fjárlaga þurfi að liggja fyrir hvaða áhrif niðurskurðurinn hefur á einstökum stofnunum, stöðum og landsvæðum. Meiri hlutinn beinir því til fjárlaganefndar að fjalla sérstaklega um þessi atriði þegar tillögurnar liggja fyrir svo tryggt sé að staðinn sé vörður um heilbrigðisþjónustuna og að heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni sé gert mögulegt að bjóða þjónustu í samræmi við þarfir íbúa í hverju heilsugæsluumdæmi eða þjónustusvæði.
    Meiri hlutinn áréttar nauðsyn þess að fyrir liggi stefna og áætlun til langs tíma um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustunnar og innan hvaða fjárhagsramma hún á að starfa. Þar þarf t.d. að skoða staðsetningu, samvinnu, sameiningar stofnana eða eininga og skilgreina starfsemina á hverjum stað með það að markmiði að hún sé fagleg, góð og hagkvæm. Þannig ættu allir aðilar að vita til hvers er ætlast af þeim faglega og fjárhagslega og geta lagað starfsemi sína að þeim römmum sem settir eru. Meiri hlutinn telur að í breytingaferli þurfi að setja eðlileg tímamörk svo öllum gefist tóm til aðlögunar. Sama ábending á við um áætlun í uppbyggingu hjúkrunarrýma, eðlilegt er að fylgja þeim áætlunum sem unnar eru um þörf fyrir slík rými.

Þjónusta sérfræðilækna og tilvísanakerfi.
    Meiri hlutinn telur að tryggja þurfi að frekari niðurskurður í heilbrigðisþjónustu leiði ekki til stóraukinna útgjalda úr ríkissjóði til sérfræðilækna og einkarekinna lækna- og skurðstofa. Bendir meiri hlutinn á að útgjöld ríkisins til sérfræðilækninga hafa aukist um 7% frá árinu 2008 meðan dregið hefur úr útgjöldum opinberra heilbrigðisstofnana um 22%. Í frumvarpi til fjáraukalaga 2011 er gert ráð fyrir 1.159 m.kr. framlagi til að mæta hækkun á útgjöldum vegna sérfræðilækna á yfirstandandi ári en auk þess hefur Sjúkratryggingastofnun óskað eftir 1.700 m.kr. magnaukningu á kaupum á sérfræðilæknaþjónustu á næsta ári, 2012, umfram þá hækkun sem fram kemur í frumvarpinu.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að tryggja að þjónusta heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa sé nægileg til að auka ekki að óþörfu ásókn til sérfræðilækna sem oftast er mun dýrara fyrir ríkið að greiða en þjónustu á heilbrigðisstofnun, og ekki tryggt að þjónustan sé betri í öllum tilvikum. Fram kom fyrir nefndinni að um magnaukningu hefur verið að ræða í greiðslum til sérgreinalækna og á tilteknar sérgreinar. Nefndin hefur óskað eftir sundurliðun yfir þennan útgjaldalið og þær breytingar sem á honum hafa orðið og leggur meiri hlutinn til að magnaukning (stærri pottar) renni til heilbrigðisstofnana úti á landi sem geti þá samið um kaup á þjónustu sérgreinalækna eftir þörfum.
    Í tengslum við vinnu sína við fjárlagafrumvarpið kynnti nefndin sér nýlegar tillögur ráðgjafarhóps velferðarráðherra frá október sl. um skipulag heilbrigðisþjónustu og ráðstöfun fjármuna. Þar kemur fram að miðað við samanburðarlönd Íslands eru heimsóknir til sérfræðilækna hlutfallslega fleiri hér og óheft aðgengi sé þar líkleg ástæða. Með þessu fyrirkomulagi sé hætta á ofnotkun á þjónustunni. Meiri hlutinn tekur undir tillögur ráðgjafarhópsins um nauðsyn þess að koma upp þjónustustýringu, með tilvísanakerfi.
    Í áliti meiri hluta heilbrigðisnefndar um fjárlög ársins 2011 kom fram að nauðsynlegt væri að fara í gagngerar skipulagsbreytingar og stefnumörkun um heildstæða framtíðarskipan heilbrigðisþjónustu á landinu öllu. Í álitinu kom einnig fram að með „slíku endurmati er mögulegt að draga markvisst úr útgjöldum málaflokksins og halda jafnframt uppi gæðum þjónustunnar og öryggi sjúklinga.“ Telur meiri hlutinn jákvætt að vinna ráðgjafarhópsins og „Boston Consulting Group“ liggur nú fyrir en telur jafnframt mjög miður að tillögur hópsins hafi ekki verið lagðar til grundvallar við fjárlagavinnuna. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að hagræðing í ríkisrekstri sé grundvölluð á góðum upplýsingum og skýrri stefnumörkun. Ná þarf fram hagkvæmni og réttlátri stýringu almannafjár án þess að þjónusta við sjúklinga eða öryggi þeirra sé skert.
    Meiri hlutinn leggur ríka áherslu á að horft verði á heilbrigðisþjónustu heildstætt og að þjónustunni sé beint á rétt þjónustustig. Meiri hlutinn telur ljóst að koma verði á þjónustustýringu í heilbrigðiskerfinu þar sem þjónustuþörf ráði streymi sjúklinga milli heilsugæslu, sérfræðinga og sjúkrahúsa. Meiri hlutinn ítrekar að styrkja þurfi heilsugæsluna til að tryggja að sjúklingar leiti á viðeigandi þjónustustig. Telur meiri hlutinn jákvætt að í framangreindum tillögum um skipulag heilbrigðisþjónustu sé m.a. lagt til að heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu verði endurskipulögð.

Landspítalinn.
    Nefndin ræddi sérstaklega málefni Landspítalans – háskólasjúkrahúss (LSH). Ráðgjafarnefnd LSH kynnti nefndinni m.a. áhyggjur sínar af áhrifum frekari niðurskurðar á starfsemi LSH og starfsfólk spítalans. Lagði hún m.a. til að opnuð yrði deild á Landakoti sem nú er lokuð, fyrir þá sjúklinga sem ekki væru mikið veikir en teppa dýrari sjúkrarúm á Hringbraut og í Fossvogi. Hefði þetta því hagræðingaráhrif. Nefndin ræddi þetta við fulltrúa velferðarráðuneytisins sem kynnti henni að þessi atriði væru í skoðun, m.a. hvort unnt væri að koma þessum sjúklingum í önnur úrræði og á aðrar stofnanir sem sinnt gætu þörfum þeirra.
    Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að hafa sterkan og traustan Landspítala, sem boðið getur dýra og sérhæfða þjónustu sem sjúklingar hvaðanæva af landinu þarfnast. Mikilvægt er að huga að tækjakosti LSH sem er ekki einungis kominn til ára sinna heldur skortir spítalann fjármagn til að gera við biluð tæki. Gera þarf heildstæða áætlun um hvernig tækja- og tæknibúnaðar spítalans verður endurnýjaður á allra næstu árum og með tilliti til þess að af byggingarkostnaði nýs Landspítala eru 7 milljarðar kr. áætlaðir til tækjakaupa.
    Í tengslum við umfjöllun um þjónustustýringu telur meiri hlutinn afar mikilvægt að horft verði til þess að koma á forvakt við bráðadeildir LSH. Bráðaþjónusta er með dýrustu heilbrigðisþjónustu sem veitt er og mikilvægt er að sjúklingar sem leita til slysadeildar en eiga erindi annað fái viðeigandi þjónustu eða sé vísað þangað sem við á. Þetta minnkar álag á bráðamóttöku og slysadeild, dregur úr kostnaði, styttir biðtíma og tryggir jafnframt að sjúklingar fái þá þjónustu sem þeir þurfa. Meiri hlutinn kynnti sér vinnu við fyrirhugaða byggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Í þeim tillögum sem nú er unnið með er ekki gert ráð fyrir slíkri forvakt. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að tillögur ráðgjafarhóps velferðarráðherra séu nýttar við vinnuna við nýjan Landspítala og rými fyrir þjónustustýringu í formi forvaktar verði tryggt í tengslum við nýbyggingu sjúkrahússins.

Tannlækningar.
    Nefndin ræddi sérstaklega tannlækningar barna. Nefndin hélt nýlega fund þar sem hún fór yfir stöðu mála í þessum efnum og lýsir meiri hlutinn yfir miklum áhyggjum af tannheilsu barna sem er verulega ábótavant. Í fjárlagafrumvarpi er lögð til 261 m.kr. lækkun á framlögum til endurgreiðslu tannlækningakostnaðar og fékk nefndin þær upplýsingar að lækkunin sé til komin vegna ónýttra fjárheimilda en fjárveiting á þennan lið hefur ekki verið fullnýtt á liðnum árum. Vísbendingar eru um að það sé vegna þess að foreldrar treysta sér ekki til að greiða sinn hlut svo og vegna óvissu um heildarkostnað við tannlækningu barns. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að tannlæknar og stjórnvöld nái samningum á allra næstu mánuðum bæði um tannviðgerðir og forvarnir, svo sem flúorskolun, og að komið verði á samræmdri gjaldskrá. Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að stjórnvöld, svo og fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd kanni möguleika á því að leggja „tappagjald“ á sykraða drykki til að draga úr neyslu þeirra. Íslendingar hafa slegið met í neyslu sykraðra gosdrykkja og hefur léleg tannheilsa unglinga, einkum drengja, verið rakin til mikils gosdrykkjaþambs. Bent hefur verið á að hærra verð, t.a.m. í formi „tappagjalds“, gæti dregið úr þessari neyslu sem mundi aftur draga úr hættu á offitu. Meiri hlutinn bendir á að með slíku gjaldi mætti styrkja tekjustofna ríkissjóðs og gera hann betur í stakk búinn til að auka fjárframlög til niðurgreiðslu á tannlækningakostnaði og til forvarna.

Bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga.
    Bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga hækkuðu á árinu til samræmis við krónutöluhækkun lægstu launa í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Nam sú hækkun um 8,1% þar sem miðað var við lágmarkshækkun kjarasamninga sem var 12 þús.kr. Stefnt er að 3,5% hækkun flestra bótaflokka á næsta ári til samræmis við kjarasamninga. Þar er þó ákvæði um að laun hækki ekki minna en um 11 þús.kr. Samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu reyndist ekki unnt að miða við þá lágmarkstölu þar sem hækkun hefði þá numið um 6,8% og útgjöld ríkisins orðið langt umfram áætlun. Meiri hlutinn fagnar því að bótaþegum var á yfirstandandi ári tryggð sambærileg kjarabót og almennum launþegum, hann áréttar jafnframt mikilvægi þess að bótaþegar dragist ekki aftur úr hvað varðar kjarabætur.
    Mæðra- og feðralaun, umönnunargreiðslur, barnalífeyrir vegna menntunar, bifreiðakostnaður og barnalífeyrir taka samkvæmt frumvarpinu ekki sömu hækkunum og aðrir flokkar. Nefndin óskaði sérstaklega upplýsinga um kostnað við það að hækka þessa flokka til samræmis við aðra, þ.e. um 3,5%. Kostnaður við það næmi samtals 220 m.kr. Hagræðingarkrafa ráðuneytisins í tilfærslukerfum er 1.739 m.kr. og var nefndinni kynnt það mat ráðuneytisins að nauðsynlegt væri að hagræðingarkrafan tæki einnig til bótakerfisins sem er 30,4% af heildarútgjöldum ráðuneytisins árið 2012. Enn fremur að þessir bótaflokkar væru almennt ekki taldir til grunnframfærslu og að þeir hefðu tekið 8,1% hækkun á síðasta sumri. Telur meiri hlutinn mikilvægt að staða barna og barnafjölskyldna sé skoðuð sérstaklega í fjárlagagerðinni, og tryggt að áhersla stjórnvalda um að standa vörð um hag barna sé höfð að leiðarljósi í hagræðingaraðgerðum.
    Þá telur meiri hlutinn jafnframt vert af þessu tilefni að benda á misræmi sem gætir í bótakerfi ríkisins í bótum, lífeyri og uppbótum til barnafólks. Til að mynda er barnalífeyrir skattfrjáls en uppbót á atvinnuleysisbætur vegna barna á framfæri hins atvinnulausa teljast til tekna og skattlagðar sem slíkar. Telur meiri hlutinn mikilvægt að réttlæti og jafnræði sé tryggt í bótakerfum ríkisins og leggur áherslu á að heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins sem nú er unnið að verði flýtt. Slík vinna ætti að stuðla að réttlátri skiptingu almannafjár.

Fæðingarorlof.
    Meiri hlutinn telur einnig ríkt tilefni til að hafa áhyggjur af ástæðum áætlaðrar útgjaldalækkunar úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt frumvarpinu er áætluð lækkun um rúman 1 milljarð kr. vegna þess að dregið hefur úr þátttöku foreldra í fæðingarorlofi auk þess sem fæðingum hefur fækkað. Í skýrslu velferðarráðherra um fæðingar- og foreldraorlof (þskj. 1920, 542. mál, 139. þing) koma fram upplýsingar sem bera með sér að þær skerðingar sem gerðar voru á greiðslum í fæðingarorlofi á árunum 2009–2010 hafi haft mikil áhrif á töku foreldra á fæðingarorlofi og þá sérstaklega feðra. Þar kemur t.d. fram að feðrum sem fengu greiðslur úr fæðingarorlofi fækkaði um 5,3% milli áranna 2009 og 2010 þrátt fyrir að fleiri börn hafi fæðst þessi ár en árin á undan. Í skýrslu velferðarráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála sem gefin var út í tilefni jafnréttisþings 2011 kemur jafnframt fram að feðrum með yfir 400.000 krónur í mánaðartekjur sem nýta sér fæðingarorlof fækkaði um 7% á milli áranna 2009–2010. Það er mat Fæðingarorlofssjóðs að ástæður þessa séu lækkun á hámarksgreiðslum úr sjóðnum auk þess sem aðstæður á vinnumarkaði geti hafa haft áhrif þar á. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi sjóðsins og fæðingarorlofskerfisins. Meiri hlutinn telur mikilvægt að sjóðurinn sé sjálfbær og sá hluti tryggingagjalds sem honum er markaður sé nægilegur til að mæta útgjöldum hans. Þær skerðingar sem gerðar voru á fæðingarorlofi á árunum 2009– 2010 hafa þegar haft áhrif á töku foreldra á fæðingarorlofi og þá sérstaklega feðra. Um leið og rofar til í ríkisfjármálum telur meiri hlutinn brýnt að hafist verði handa við að byggja aftur upp fæðingarorlofskerfið og draga skipulega úr þeim skerðingum sem gerðar hafa verið um leið og horft er til enn frekari uppbyggingar sjóðsins.

Þjónustusamningar velferðarráðuneytis við samtök, einkaaðila og sveitarfélög.
    Í upphafi árs varð yfirfærsla á málefnum fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga. Vegna þessa lækka útgjöld velferðarráðuneytis frá yfirstandandi ári um tæpa 11 milljarða kr. Starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda og sjónskerta og Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands heyrir þó enn undir ríkið. Við yfirfærsluna var ríkinu jafnframt falið að greiða kostnað við verndaða vinnustaði og annast Vinnumálastofnun samningagerð við vinnustaðina og eftirlit með þeim. Samkvæmt frumvarpinu eru lagðar til um 61,9 millj. kr. í þetta viðfangsefni. Nefndinni voru kynntar áhyggjur af því að starfsemi þessara vinnustaða væri í hættu vegna hárrar niðurskurðarkröfu. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir hækkun á framlagi samkvæmt samningi til verndaðra vinnustaða ÖBÍ, Múlalundar og Blindrafélagsins. Ljóst er að laun starfsmanna þar hafa hækkað til samræmis við kjarasamninga og því er kostnaður við rekstur staðanna meiri en áður. Í frumvarpinu kemur ekki fram hver breytingin er að teknu tilliti til launa- og verðlagshækkana. Nefndin fékk þær upplýsingar frá velferðarráðuneyti að almennt væri 3% hagræðingarkrafa sett á þjónustusamninga ráðuneytisins við samtök, einkaaðila og sveitarfélög til samræmis við aðhaldsmarkmið ríkisstjórnarinnar. Undir þessa samninga heyra jafnframt sjúkraflutningar og áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að tryggja að því verkefni sé sinnt með fullnægjandi hætti með öryggi og þjónustu við sjúklinga að leiðarljósi. Meiri hlutinn beinir því til fjárlaganefndar að skoða samninga við velferðarráðuneytið sérstaklega og tryggja að samræmis og hófs sé gætt við niðurskurð til velferðarmála enda er almennt um mjög viðkvæma málaflokka að ræða. Þá áréttar meiri hlutinn mikilvægi réttindagæslu fatlaðs fólks sem var stórefld í tengslum við yfirflutning málaflokksins til sveitarfélaganna og minnir fjárlaganefnd á að gæta vel að fjárheimildum til þessa málasviðs.
    Meiri hlutinn telur jafnframt rétt að vekja athygli fjárlaganefndar á því að Reykjalundur hefur ekki fengið endurgreiddan kostnað á S-merktum lyfjum á yfirstandandi ári, en á Reykjalundi hefur farið fram endurhæfing hjarta- og lungnaþega sem þurfa á sérhæfðum og dýrum S-merktum lyfjum að halda. Telur meiri hlutinn mikilvægt að tryggja jafnræði milli heilbrigðisstofnana í þessum efnum. Þá hafa forsendur Reykjalundar breyst nokkuð enda hefur hann frá árinu 1944 verið undanþeginn greiðslu kostnaðar við notkun á heitu vatni. Þessi undanþága hefur nú verið felld niður og því er til kominn nýr útgjaldaliður fyrir Reykjalund. Meiri hlutinn beinir því til fjárlaganefndar að skoða þessi atriði sérstaklega í tengslum við samning ráðuneytisins við Reykjalund fyrir næsta fjárlagaár og þá jafnframt þessi óvæntu útgjöld á yfirstandandi ári.
    Nefndin ræddi jafnframt nokkuð málefni Samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ) en nefndin hélt fyrir nokkru fund með samtökunum í húsnæði þeirra. Þar kom fram að framlög til SÁÁ hefðu verið meira og minna óbreytt frá aldamótum og fram til ársins 2008. Síðan þá hafi framlög til samtakanna verið skorin niður um rúm 20%. Meiri hlutinn bendir á að hjá samtökunum fer á öllum starfsstöðum fram mikilvæg vinna sem standa þarf vörð um. Tryggja þarf að samtökin hafi bolmagn til að inna hana af hendi og að þegar rofar til í ríkisfjármálum verði aukin framlög til þessa mikilvæga málaflokks. Niðurskurður í velferðarmálum verður jafnframt ávallt að vera með þeim hætti að hann gangi ekki of nærri þeirri starfsemi sem um ræðir, að hægt verði áfram að sinna kjarnaþjónustu og að tryggt sé að þegar rofar til í ríkisfjármálum verði unnt að byggja viðkomandi þjónustu upp á nýjan leik og auka við hana.

Húsnæðismál.
    Nefndin fjallaði um húsnæðismál og Íbúðalánasjóð. Telur meiri hlutinn brýnt að starfshópur sá sem hefur til umfjöllunar nýtt húsnæðisbótakerfi ljúki störfum sem fyrst. Mikilvægt er að endurskoða viðmið og reglur sem gilda um húsaleigubætur og koma á nýju húsnæðisbótakerfi. Íbúðalánasjóður er lánastofnun sem heyrir undir C-hluta fjárlaga. Í fjárlögum þessa árs var samþykkt allt að 33 milljarða kr. viðbótarframlag til sjóðsins til að mæta afskriftaþörf næstu ára og tryggja eiginfjárstöðu hans. Á fundi nefndarinnar með Íbúðalánasjóði og velferðarráðuneyti kom fram að varúðarniðurfærsla í reikningum sjóðsins væri enn um 30 milljarðar kr. en ekki liggur enn fyrir hver afskriftaþörf hans er. Ásókn í svokallaða 110% leið var ekki eins mikil og búist hafði verið við en það var mat sjóðsins að um 1.500 lántakar hans væru í mjög miklum vanda og yrði ekkert að gert lægi ljóst fyrir að sjóðurinn mundi þurfa að taka yfir þónokkuð af fasteignum sem gæti aftur leitt til aukinna afskrifta. Nefndinni var þó jafnframt kynnt að sjóðurinn ynni ásamt velferðarráðuneyti og umboðsmanni skuldara að því að leita lausna fyrir þessi 1.500 heimili. Meiri hlutinn telur að skoða þurfi gaumgæfilega hvort heimildir sjóðsins vegna 110% leiðarinnar séu of þröngar og bregðast við því ef þörf krefur.

Tekjuhlið fjárlaga.
    Samhliða umfjöllun sinni um útgjaldahlið fjárlagafrumvarpsins hefur nefndin fjallað um þá þætti frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem falla undir málefnasvið hennar og mun skila efnahags- og viðskiptanefnd áliti um það mál (þskj. 200, 195. mál). Í því frumvarpi er m.a. lögð til hækkun á gjaldi á áfengi og á tóbak sem nefndin tók til sérstakrar umfjöllunar og kynnti sér m.a. tillögur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) til breytingar á þeim gjöldum. Telur meiri hlutinn vert að nefna hér að í áliti meiri hluta nefndarinnar til efnahags- og viðskiptanefndar er lagt til í samræmi við tillögur ÁTVR að tóbaksgjald verði hækkað um 7,5% í stað þeirra 5,1% sem frumvarpið gerir ráð fyrir og að álagning smásala verði 20% af söluverði frá ÁTVR. Álagning smásala á tóbak hefur undanfarna áratugi hækkað úr rúmum 16% í um og yfir 30%. Smásalar hafa því hag af því að keppa innbyrðis í verðum sem er söluhvetjandi og ekki í samræmi við heilbrigðismarkmið stjórnvalda. Breytingin hefur lýðheilsusjónarmið til grundvallar en ætti jafnframt að auka tekjur af tóbaksgjaldi um 116 m.kr. án þess þó að hafa verðlagsáhrif. Að auki tekur nefndin undir það að gjald á tóbak sem reiknað er eftir vigt verði samræmt þannig að gjald á neftóbak verði hið sama og á tóbak annað en sígarettur. Áætluð tekjuaukning af því er um 250 m.kr. miðað við 0,9% samdrátt í sölu á neftóbaki. Meiri hlutinn telur mikilvægt að hið minnsta verði skoðað að færa gjald á neftóbaki nær því gjaldi sem lagt er á annað tóbak með tilheyrandi tekjuaukningu fyrir ríkissjóð. Leggur nefndin ríka áherslu á að þessar breytingar nái fram að ganga og horft verði til þess að fjármunir sem nást fram með þessum hætti séu nýttir til að draga úr niðurskurði í heilbrigðismálum.

Alþingi, 21. nóvember 2011.

Álfheiður Ingadóttir, formaður,
Jónína Rós Guðmundsdóttir,
Amal Tamimi,
Kristján L. Möller,
Valgerður Bjarnadóttir.




Fylgiskjal XI.


Álit

um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012 (08 Velferðarráðuneyti).

Frá 1. minni hluta velferðarnefndar.

Heilbrigðisstofnanir.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 1,5% hagræðingarkröfu til stofnana sem annast heilbrigðisþjónustu. Því til viðbótar kemur hagræðingarkrafa sem frestað var á árinu 2011.
    Í máli gesta sem komu á fund nefndarinnar kom fram að enn liggja ekki fyrir formlegar tillögur einstakra heilbrigðisstofnana, fyrir utan Landspítalans, um hvernig fyrirhuguðum niðurskurði skuli mætt. 1. minni hluti gagnrýnir harkalega hvernig staðið er að undirbúningi fyrir fjárlagagerðina. Öllum má vera ljóst að ekki verður gengið lengra í hagræðingu án þess að draga úr þjónustu og fækka störfum. Því sé sérstaklega alvarlegt að ekki liggi fyrir tillögur einstakra stofnana, utan Landspítalans, um hvernig fyrirhuguðum niðurskurði skuli mætt til að þingmenn geti tekið afstöðu til þeirra tillagna og metið áhrif á heilbrigðisþjónustu á viðkomandi landsvæðum.
    Það er álit 1. minni hluta að nauðsynlegt verði fyrir velferðarnefnd að fjalla aftur um fjárlagafrumvarpið þegar tillögur stofnananna liggja fyrir og um hugsanlegar breytingartillögur fjárlaganefndar á fjárlagaramma heilbrigðismála.
    Í skýrslunni Samanburður fjárveitinga til heilbrigðisstofnana sem Capacent vann fyrir fjögur sveitarfélög í Þingeyjarsýslum, Norðurþing, Tjörneshrepp, Skútustaðahrepp og Þingeyjarsveit, og sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar (Capacent, 2011) er staðfest með tölulegum gögnum að niðurskurður hefur komið mjög misjafnlega við einstakar stofnanir og við einstaka þætti í heilbrigðisþjónustunni. Þegar skoðað er hvernig niðurskurður hefur verið eftir stofnunum kemur fram að hann hefur verið frá -17,4% (Landspítalinn) yfir í -34,8% hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Næstmestur niðurskurður hefur verið hjá Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki (34,1%) og Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja (32,8%).
    Afleiðingin er að íbúar á þessum svæðum búa við umtalsvert breytta og skerta þjónustu. Öfugt við þróun fjárveitinga til heilbrigðisstofnana hafa fjárveitingar til sérfræðilækna hækkað frá 2008. Sú þjónusta er misdreifð um landið, og íbúar höfuðborgarsvæðisins nýta sér þá þjónustu þrefalt meira en íbúar Norðurlands.
    Fyrsti minni hluti mótmælir harðlega því að niðurskurður til heilbrigðisþjónustu komi á þennan máta harðar niður á íbúum einstakra landsvæða, þá sérstaklega í dreifðari byggðum landsins.

Þjónustustýring.
    Í skýrslu ráðgjafarhóps velferðarráðuneytisins um skipulag heilbrigðisþjónustu og ráðstöfun fjármuna kemur fram að útgjöld ríkisins til heilbrigðisþjónustu hafa aukist frá árinu 2008 en að á sama tíma hefur dregið úr fjárveitingum til opinberra heilbrigðisstofnana.
    Mikilvægt er að skipuleggja heilbrigðisþjónustuna þannig að fjármagn nýtist sem best. Í skýrslu ráðgjafarhópsins og skýrslu heilbrigðisráðherra Áfangar í eflingu heilsugæslu segir að ekki sé skortur á heilbrigðisstarfsfólki. Árið 2008 voru 3,7 læknar á hverja 1.000 íbúa á Íslandi en meðaltal OECD var 3,2 læknar á hverja 1.000 íbúa. Vandinn sé frekar hvernig heilbrigðiskerfið sé skipulagt. Þar hefur sérstaklega verið bent á óheft aðgengi að sérfræðilæknum og að ekki sé við lýði þjónustustýring á borð við valfrjálst tilvísanakerfi, t.d. að danskri fyrirmynd. 1. minni hluti tekur því undir tillögur ráðgjafarhóps velferðarráðherra um innleiðingu þjónustustýringar, þ.m.t. um samræmda símsvörun, forvakt á bráðamóttöku og valfrjálst tilvísunarkerfi.
    Þá gagnrýnir 1. minni hluti að þrátt fyrir fjölmargar skýrslur og vinnuhópa á vegum heilbrigðisráðherra og nú velferðarráðherra um stefnu varðandi skipulag heilbrigðiskerfisins skuli ekki liggja fyrir skýr stefnumörkun og þar af leiðandi beiðni um fjárveitingu til að undirbúa slíka skipulagsbreytingu af krafti.

Hjúkrunarrými.
    Almennt hefur verið lögð áhersla á að auka heimaþjónustu á móti því að sjúkra- og hjúkrunarrýmum verði fækkað. Heimahjúkrun ríkisins og félagsleg heimaþjónusta sveitarfélaga er mjög mislangt á veg komin eftir landshlutum.
    Í skýrslunni Samanburður fjárveitinga til heilbrigðisstofnana sem áður var nefnd er fjallað töluvert um hjúkrunarrými. Þar kemur fram að við mat og útreikning á þörfum fyrir slíka þjónustu á árinu 2010 notaði velferðarráðuneytið upplýsingar um biðlista áranna 2010 og 2011, meðaldvalartíma aldraðra á hjúkrunarheimilum og samsetningu hóps aldraðra á öldrunarheimilum. Sú samsetning var svo yfirfærð á biðlistana. Niðurstöður þessara útreikninga endurspeglast þó ekki í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012. Í Þingeyjarsýslum, Skagafirði og á Vestfjörðum eru aðeins um 84% af þeim hjúkrunarrýmum sem reiknireglan gerir ráð fyrir en önnur svæði hafa í einhverjum tilfellum yfir 100% af reiknaðri þörf. Þrátt fyrir þetta er ekki gert ráð fyrir aukningu í Skagafirði eða Þingeyjarsýslum, heldur frekar á höfuðborgarsvæðinu, Austurlandi og víðar.
    Hvetur 1. minni hluti til að þetta verði skoðað sérstaklega.

Íbúðalánasjóður.
    Á fundi velferðarnefndar með Íbúðalánasjóði kom fram að umsóknir um 110% leiðina hefðu reynst um helmingi færri en gert var ráð fyrir. Þrátt fyrir það teldi sjóðurinn ekki ástæðu til að bakfæra hluta af sérstakri varúðarfærslu inn á afskriftareikninga vegna 110% leiðarinnar. Ástæðan væri að starfsmenn sjóðsins telja enn þá líkur á að viðskiptavinir sem eru of skuldsettir eða eiga í erfiðleikum með greiðslubyrði lána sinna mundu ekki geta staðið í skilum við sjóðinn.
    Fyrsti minni hluti telur því mjög brýnt að komið verði til móts við þennan hóp m.a. með breytingu á lögum um Íbúðalánasjóð og að tekið verði á vanda þess hóps sem er með lánsveð.

Safnliðir.
    Fyrsti minni hluti mótmælir því hvernig staðið hefur verið að breytingum á úthlutun svokallaðra safnliða Alþingis. Nauðsynlegt var að endurskoða fyrirkomulag úthlutunar. Lagði 1. minni hluti áherslu við fjárlagagerð ársins 2011 á að sú breyting yrði þannig að sérfræðingar og/eða sjóðir ættu að vera fastanefndum Alþingis til ráðgjafar og aðstoðar við afgreiðslu umsóknanna út frá áherslum sem fastanefndir ákvæðu. Þannig yrði betur tryggt að úthlutun fjármuna væri byggð á faglegum forsendum, gætt væri gegnsæis, hlúð að svæðisbundnum þörfum og virkt eftirlit viðhaft með nýtingu fjármuna.
    Í stað þess hefur verið valin sú leið að færa þessa fjárliði í hendur framkvæmdarvaldsins. Ráðherrar munu því skipa ráðgjafarhópa í stað þess að Alþingi fái ráðgjöf og aðstoð við úthlutun. Í stað þess að Alþingi úthluti til verkefnanna í samræmi við tillögur sérfræðinga munu ráðherrar úthluta þeim fjármunum. 1. minni hluti telur ráðherra ekki þurfa frekara fjárveitingarvald á kostnað Alþingis og hafnar því þessu fyrirkomulagi.
    Þar sem skýr vilji virðist þó vera hjá stjórnarmeirihlutanum að veikja Alþingi enn frekar þá leggur 1. minni hluti til að reglum fjárlaganefndar um úthlutun styrkja af safnliðum verði breytt. Í fyrsta lagi að tillögur starfshópanna verði gerðar opinberar ásamt ákvörðun ráðherra. Í öðru lagi að sett verði inn ákvæði um að ráðherra eða starfshópar birti áherslur og skilyrði fyrir styrkveitingu áður en farið er yfir umsóknir. Í 4. gr. reglna um úthlutun styrkja á fjárlagaliðum mennta- og menningarmálaráðuneytis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, umhverfisráðuneytis og velferðarráðuneytis er fjallað um mat á umsóknum og er það mat 1. minni hluta að það sé algjörlega á valdi viðkomandi starfshópa að leggja mat á umsóknirnar á grundvelli þessara reglna, sbr. til að mynda skilyrði 4. gr. þess efnis að matið skuli byggjast á eftirtöldum sjónarmiðum: a) gildi og mikilvægi verkefnis fyrir starfsemi viðkomandi málaflokks, b) gildi og mikilvægi fyrir kynningu og markaðssetningu viðkomandi málaflokks, c) að umsækjanda takist að ná þeim markmiðum sem verkefnið miðar að, d) starfsferli og faglegum bakgrunni umsækjanda og annarra þátttakenda, e) fjárhagsgrundvelli verkefnis og/eða hvort umsækjandi hafi hlotið aðra styrki til sama verkefnis.
    Þarna koma ekki fram neinar upplýsingar um það út frá hverju verður dæmt. Ekki er t.d. horft til þess hvað er mikilvægt fyrir krabbameinssjúka eða Mæðrastyrksnefnd? Hvort er betra fyrir kynningu og markaðssetningu viðkomandi málaflokks að verkefnið sé í fámenninu í Skaftárhreppi eða í fjöldanum í Reykjavík? Skiptir máli að viðkomandi hafi fengið styrk áður eða ekki? Skiptir máli kyn eða staðsetning verkefnisins út frá pólitískri stefnu um störf án staðsetningar eða kynjaða hagstjórn?
    Fyrsti minni hluti hvetur til þess að reglurnar verði endurskoðaðar áður en úthlutun hefst.

Alþingi, 25. nóvember 2011.

Eygló Harðardóttir.