Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 345. máls.

Þingskjal 421  —  345. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um vitamál, nr. 132/1999,
með síðari breytingum (hækkun vitagjalds).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    Í stað „130,12 kr.“ og „4.900 kr.“ í 2. mgr. 7. gr. laganna kemur: 136,62 kr.; og 5.145 kr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu. Það var til kynningar á vef ráðuneytisins í 14 daga og var jafnframt kynnt á fundi siglingaráðs, samráðsvettvangs hagsmunaaðila á sviði siglinga.
    Fjárhæð vitagjalds var síðast breytt í desember 2010. Þá var ákveðið að vitagjald skyldi vera 130,12 kr. af hverju brúttótonni skips. Hér er lagt til að vitagjald hækki um 5% í 136,62 kr. Lagt er til að lágmarksgjald verði jafnframt hækkað um 5%, þ.e. í 5.145 kr. úr 4.900 kr. Það var síðast hækkað í desember 2009 í 4.900 kr. úr 3.500 kr. Þessi hækkun er í samræmi við verðlagsbreytingar frá síðustu hækkun gjaldsins. Á árinu 2011 var álagt vitagjald á íslensk skip 32.092.518 kr. Verði gjaldið hækkað um 5% má áætla að álagt vitagjald á íslensk skip verði á árinu 2012 33.697.144 kr. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012 er vitagjald áætlað 257.7 millj. kr. Verði vitagjaldið hækkað um 5% má áætla að á árinu 2012 innheimtist um 270,6 millj. kr. í vitagjald miðað við óbreytta skipaumferð og stærð skipaflota. Mun gjaldtakan snerta skip sem sigla við strendur landsins og hafa viðkomu í höfnum landsins og er ætlað að standa straum af kostnaði við rekstur og framkvæmdir á vegum Siglingastofnunar Íslands. Mun hækkunin hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir þá sem gjaldið greiða. Nauðsynlegt er að slík gjöld taki breytingum í samræmi við verðlagsbreytingar enda tekur annar kostnaður stofnunarinnar sem gjaldinu er ætlað að standa undir einnig breytingum í samræmi við breytingar á almennu verðlagi.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vitamál,
nr. 132/1999, með síðari breytingum (hækkun vitagjalds).

    Í frumvarpi þessu er lögð til 5% hækkun á vitagjaldi. Um er að ræða hækkun á gjaldinu með tilliti til verðlagsbreytinga á sömu forsendum og gert hefur verið ráð fyrir í hækkunum á margvíslegum öðrum gjöldum í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012.
    Í fjárlagafrumvarpinu er reiknað með að tekjur af vitagjaldi verði 257,7 m.kr. Verði þetta frumvarp að lögum má ætla að tekjur af vitagjaldi hækki um 12,9 m.kr. og verði 270,6 m.kr., miðað við óbreyttar forsendur um skipaumferð og stærð skipaflota.
    Þótt gjaldið sé markað Siglingastofnun er ekki gert ráð fyrir að hækkun þess leiði til aukinna útgjalda stofnunarinnar þar sem þegar er búið að gera ráð fyrir verðlagshækkunum í fjárheimildum hennar í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012.
    Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.