Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 346. máls.

Þingskjal 422  —  346. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað,
nr. 15/2005, með síðari breytingum (lagasafn).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:

Lagasafn.


    Ráðherra sér um útgáfu lagasafns. Útgáfa lagasafns getur verið í rafrænu eða prentuðu formi. Ráðherra er heimilt að fela öðrum að sjá um útgáfu lagasafns. Komi fram misræmi milli texta í útgáfu lagasafns og þess texta sem birtur er í A-deild Stjórnartíðinda gildir texti Stjórnartíðinda, sbr. 2. gr.
    Með ábyrgð og umsjón á útgáfu lagasafns fer sérstök þriggja manna ritstjórn sem ráðherra skipar til fimm ára í senn. Skal einn tilnefndur af forseta Alþingis, en tvo skipar ráðherra án tilnefningar og skal annar þeirra vera ritstjóri og fullnægja skilyrðum til að gegna embætti héraðsdómara, að undanskildu skilyrði 4. mgr. 31. gr. laga um dómstóla.
    Ráðherra tekur ákvörðun um útgáfu lagasafns í prentuðu formi, að fenginni tillögu ritstjórnar.
    Heimilt er að selja prentuð eintök af lagasafni gegn gjaldi sem nemur kostnaði við vinnu, undirbúning og umsjón með útgáfu þess, prentun og sölu. Skal gjaldið renna til greiðslu kostnaðar af prentuðu útgáfunni.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi lög um laganefnd, nr. 48/1929.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Ritstjórn lagasafnsins sem skipuð var 16. mars 2011 heldur áfram störfum þar til ný ritstjórn hefur verið skipuð samkvæmt lögum þessum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum innanríkisráðherra. Voru frumvarpsdrög send til umsagnar til skrifstofu Alþingis og forsætisráðuneytisins. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, m.a. til þess að treysta grundvöll útgáfu lagasafns sem gefið hefur verið út í prentuðu formi frá árinu 1931 og sem birt hefur verið á vefsvæði Alþingis. Tilefni þessara lagabreytinga er að í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5112/2007 var á það bent að meinbugir væru á lögum þar sem ósamræmi væri á milli ákvæða laga nr. 48/1929, um laganefnd, annars vegar og hins vegar 17. tölul. 3. gr. reglugerðar nr. 177/2007, um Stjórnarráð Íslands, og áralangrar stjórnsýsluframkvæmdar á útgáfu prentaðs lagasafns. Mæltist umboðsmaður til að afstaða yrði tekin til þess hvort tilefni væri til að endurskoða lög nr. 48/1929, um laganefnd, og/eða umrætt ákvæði reglugerðar um Stjórnarráð Íslands með það í huga að því opinbera málefni að gefa út prentað lagasafn yrði búin skýrari og samræmdari lagaumgjörð og að afstaða væri einnig eftir atvikum tekin til þess hvaða reglur skyldu gilda um tekjur og útgjöld vegna slíkrar útgáfu. Við þessum tilmælum er nú brugðist. Í frumvarpi því sem hér er lagt fram er lagt til að innanríkisráðherra verði falið að skipa ritstjórn lagasafns sem beri ábyrgð á og hafi umsjón með útgáfu lagasafns, hvort heldur í prentuðu formi eða á rafrænu formi. Í gildi er samningur um útgáfu lagasafns í rafrænu formi frá 28. júní 1996 þar sem þáverandi dómsmálaráðherra fól skrifstofu Alþingis að taka að sér uppfærslu rafræns lagasafns. Er ekki gert ráð fyrir að því fyrirkomulagi verði breytt, en ráðherra þó veitt heimild til að semja við aðra aðila sem kynnu að vilja gefa út og selja aðgang að rafrænu formi lagasafns svo sem tíðkast hefur annars staðar á Norðurlöndum. Áfram verði almenningi gefinn kostur á að nálgast þau lög sem í gildi eru á opinberu vefsvæði án kostnaðar, en til greina kæmi að selja aðgang að ítarlegri samantekt birtra laga og dóma.
    Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er brugðist við athugasemdum umboðsmanns Alþingis um útgáfu prentaðs lagasafns. Er lagt til að ráðherra ákveði hvort gefið verði út lagasafn í prentuðu formi, að fenginni tillögu ritstjórnar lagasafns sem ráðherra skipar til fimm ára í senn. Er jafnframt gert ráð fyrir að kostnaður af útgáfu prentaðs lagasafns greiðist úr ríkissjóði, en að tekjur af sölu þess renni að sama skapi til þess að greiða allan þann kostnað sem samfara er útgáfu hins prentaða lagasafns.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með frumvarpi þessu er verið að bregðast við athugasemdum umboðsmanns Alþingis og lagt til að reglur um það hvernig staðið skuli að útgáfu lagasafns verði í lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005. Ekki er á neinn hátt verið að breyta þeim reglum sem gilda um birtingu laga og réttaráhrif slíkrar birtingar. Eingöngu er kveðið á um hvernig staðið skuli að útgáfu lagasafns, hvort heldur í prentuðu eða rafrænu formi, þar sem birt er á aðgengilega hátt safn gildandi laga á hverjum tíma. Í því felst að ritstjórn lagasafnsins er heimilt að fella út úr birtingu lagasafns ákvæði sem hún telur að ekki eigi erindi í útgáfuna hverju sinni. Sem dæmi má nefna að í fyrri útgáfum lagasafns hefur einungis verið birt dagsetning, númer og heiti laga þegar talið hefur verið að birting textans hafi enga eða afar takmarkaða almenna þýðingu.
    Lagt er til að ráðherra skipi þriggja manna ritstjórn lagasafns sem ber ábyrgð á og hefur umsjón með útgáfunni. Ritstjórnarmenn verði skipaðir til fimm ára í senn. Ekki er gert ráð fyrir að skipaðir verði varamenn, en láti einhver aðalamanna af störfum skal ráðherra skipa annan mann í hans stað og rennur skipun hans þá út á sama tíma og skipun aðalmanns samkvæmt upphaflegu skipunarbréfi. Einn aðalmanna er skipaður samkvæmt tilnefningu Alþingis, og er þá til þess litið að skrifstofa Alþingis hefur frá upphafi annast birtingu rafrænnar útgáfu lagasafns og séð um uppfærslu gildandi laga samkvæmt samningi sem gerður var árið 1996. Tvo fulltrúa í ritstjórn lagasafns skipar ráðherra án tilnefningar, en annar þeirra skal uppfylla skilyrði til embættisgengis héraðsdómara. Skal hann jafnframt vera ritstjóri lagasafnsins. Þá er að lokum lagt til að ráðherra taki ákvörðun hverju sinni um hvort gefið skuli út lagasafn í prentuðu formi, að fenginni tillögu ritstjórnar.
    Við mótun tillögu til ráðherra um hvort gefið skuli út lagasafn í prentuðu formi ber ritstjórn m.a. að líta til aukins aðgengis almennings að rafrænni útgáfu lagasafns sem uppfært er að jafnaði tvisvar á ári. Auk þess ber ritstjórn að hafa í huga kostnað við útgáfu prentaðs lagasafns samanborið við væntanlegar tekjur sem kynnu að verða af sölu þess.

Um 2. gr.


    Hér er gerð grein fyrir gildistöku laganna og því að jafnframt falli úr gildi lög um laganefnd, nr. 48/1929.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnartíðindi
og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, með síðari breytingum (lagasafn).

    Í frumvarpinu er lagt til að í lögum nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, verði settar reglur um það hvernig staðið skuli að útgáfu lagasafns. Með því er brugðist við athugasemdum umboðsmanns Alþingis um hvernig útgáfu lagasafnsins skuli háttað. Í frumvarpinu segir að ráðherra muni sjá um útgáfu lagasafns og að hann taki einnig ákvörðun um hvort hún skuli vera í prentuðu formi, að fenginni tillögu ritstjórnar sem hann skipar til fimm ára í senn. Frumvarpið mun ekki hafa áhrif á þær reglur sem gilda um birtingu laga og réttaráhrif slíkra birtinga.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fella úr gildi lög um laganefnd, en í þeim lögum er meðal annars kveðið á um að lagasafn skuli gefið út að nýju á að minnsta kosti 10 ára fresti. Frá 1991 hefur lagasafnið verið gefið út á prentuðu formi á fjögurra ára fresti, síðast 2007. Ekki er áformað að gefa lagasafnið út á yfirstandandi ári og engin ákvörðun hefur verið tekin um hvenær næsta prentaða útgáfa af lögunum verður gefin út. Í frumvarpinu er ekki gerð krafa um að lagasafnið sé gefið út á prentuðu formi á tilteknu árabili en þess skal getið að Alþingi hefur uppfært lagasafnið á rafrænu formi tvisvar á ári, annars vegar eftir vorþing og hins vegar eftir haustþing.
    Frá árinu 2008 hafa árlegar fjárveitingar í fjárlögum vegna útgáfu lagasafns verið um 2,5 m.kr. en árin á undan námu fjárveitingarnar á bilinu 8–13 m.kr. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að selja prentuð eintök af lagasafni gegn gjaldi og að verja tekjum af sölu þess til að greiða allan þann kostnað sem hlýst af útgáfu prentaðs lagasafns, svo sem vinnu, undirbúningi, umsjón með útgáfunni auk prentunar og sölu.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpins muni hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.