Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 378. máls.

Þingskjal 455  —  378. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008,
með síðari breytingum (hækkun skrásetningargjalda).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 24. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „45.000 kr.“ í a-lið kemur: 60.000 kr.
     b.      Við málsgreinina bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Háskóla er heimilt að skipta innheimtu skrásetningargjalds skv. a-lið hlutfallslega yfir skólaárið.

2. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2012.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Kveðið er á um fjárhæð skrásetningargjalda í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri í 24. gr. laga um opinbera háskóla, nr. 85/2008. Gjaldið hefur verið 45.000 kr. frá árinu 2005 en var áður 32.000 kr. Hækkun á árinu 2005 var byggð á tölum úr bókhaldi Háskóla Íslands. Um skrásetningargjald í Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólanum á Hólum fer eftir 15. gr. laga um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999. Samkvæmt þeim lögum tekur yfirstjórn hverrar stofnunar, þ.e. Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólans á Hólum, „ákvörðun um fjárhæð skrásetningar- og kennslugjalda sem nemendum er gert að greiða við upphaf skólaárs. Skrásetningar- og kennslugjöld skulu taka mið af sannanlegum kostnaði vegna innritunar, pappírsvara og kennsluefnis sem skólinn lætur nemendum í té og nauðsynlegt er vegna starfsemi hans.“
    Í forsendum frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2012 eru kynnt þau áform að hækka skrásetningargjöld í opinberum háskólum, þ.e. Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri, úr 45.000 kr. í 60.000 kr. Er það í samræmi við óskir háskólanna og við það miðað að fjárhæð skrásetningargjaldanna renni óskipt til þeirra. Því er ekki gert ráð fyrir því í forsendum frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2012 að innheimta gjaldanna komi til frádráttar fjárveitingum til ríkisháskólanna á fjárlögum. Skrásetningargjöld í Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólans á Hólum hafa fylgt fjárhæð skrásetningargjalda í Háskóla Ísland og Háskólanum á Akureyri og má því búast við að yfirstjórnir fyrrnefndu skólanna muni hækka þau verði frumvarpið að lögum.
    Með frumvarpinu er lögð til hækkun skrásetningargjalds í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri úr 45.000 kr. í 60.000 kr. Um ráðstöfun gjaldanna segir í a-lið 1. mgr. 24. gr. laganna að álögð skrásetningargjöld skuli „eigi skila háskóla hærri tekjum en sem nemur samanlögðum útgjöldum háskólans vegna nemendaskráningar og þjónustu við nemendur sem ekki telst til kostnaðar við kennslu og rannsóknastarfsemi“. Skráningargjaldið er þannig í eðli sínu þjónustugjald, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 836/1993.
    Ósk um hækkun skrásetningargjalda kemur frá ríkisháskólunum að undangenginni samþykkt háskólaráðs Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Í háskólaráði sitja m.a. fulltrúar nemenda. Þegar greidd voru atkvæði um tillögu um hækkun skrásetningargjalds í háskólaráði Háskóla Íslands sátu fulltrúar nemenda hjá en létu bóka kröfu sína um að tekið yrði tillit til hækkunarinnar í úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Ráðherra hefur haldið fund með stúdentaráði Háskóla Íslands um málið. Þar komu fram óskir um að skipta mætti eða dreifa greiðslu skráningargjalds á lengri tíma. Í b-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að háskólunum verði heimilað að mæta þessum óskum námsmanna.
    Að mati mennta- og menningarmálaráðuneytisins má ætla að 33% hækkun á skráningargjaldi opinberu háskólanna muni mæta þeim aukna kostnaði sem þeir hafa orðið fyrir síðan gjaldinu var síðast breytt. Til samanburðar má nefna að vísitala neysluverðs hækkaði um tæp 47% frá september 2005 til september 2010 en almenn launavísitala um tæp 42% frá ágúst 2005 til ágúst 2010.
    Ætla má að hækkun skrásetningargjaldsins hafi áhrif á fjárhag námsmanna. Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur ekki tekið ákvörðun um hvort námslán verði veitt fyrir hækkuðum skrásetningargjöldum. Núna er ekki lánað fyrir skrásetningargjöldum. Lánasjóðurinn veitir aðeins lán fyrir þeim hluta skólagjalda sem er umfram gildandi skrásetningargjald, þ.e. umfram 45.000 kr. Stjórn Lánasjóðins mun ákveða í tengslum við útgáfu úthlutunarreglna fyrir skólaárið 2012–2013 hvort veitt verði lán vegna hækkunar á skrásetningargjöldum.
    Lagt er til að frumvarp þetta, verði það að lögum, öðlist gildi 1. janúar 2012 í samræmi við gildistökudag fjárlaga fyrir árið 2012.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla,
nr. 85/2008, með síðari breytingum (hækkun skrásetningargjalda).

         Með frumvarpi þessu er lagt til að skrásetningargjöld sem nemendur greiða í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri verði 60.000 kr. í stað 45.000 kr. Skrásetningargjöld skólanna hafa verið 45.000 kr. frá árinu 2005 og skrásetningargjöld í öðrum háskólum hafa tekið mið af þeirri fjárhæð. Skrásetningargjöld í Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólanum á Hólum eru ákvörðuð af yfirstjórn hvors skóla, en þau hafa fylgt fjárhæð skrásetningargjalda í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri og má því búast við að þau hækki einnig verði frumvarp þetta að lögum. Verði frumvarp þetta að lögum öðlast það gildi 1. janúar 2012 en hækkun skrásetningargjalda mun taka gildi seinni hluta árs 2012 fyrir skólaárið 2012–2013.
    Ólíkt því sem á við um flestöll önnur gjöld fyrir opinbera þjónustu hafa skrásetningargjöld ríkisrekinna háskóla ekki verið hækkuð frá árinu 2005 þrátt fyrir að allur tilkostnaður við reksturinn hafi aukist verulega vegna launa- og verðlagshækkana aðfanga frá þeim tíma. Hefur hlutdeild skrásetningargjaldanna í fjármögnun skólanna þar með orðið minni.
    Í frumvarpi til fjárlaga 2012 eru kynnt þau áform að hækka fjárhæð skrásetningargjalda opinberu háskólanna í samræmi við verðlagsþróun og í tengslum við 2. umræðu fjárlaga er gert ráð fyrir að óskað verði eftir auknum fjárheimildum til skólanna til að ráðstafa hærri ríkistekjum af gjöldunum.
    Við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólann á Hólum stunda samanlagt tæplega 17.000 nemar nám. Skrásetningargjöldin teljast til ríkistekna og hækkun þeirra eykur tekjur framangreindra skóla samanlagt um 253,5 m.kr. og er gert ráð fyrir að fjárheimildir háskólanna og þar með útgjöld ríkissjóðs aukist sem því nemur.