Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 380. máls.

Þingskjal 459  —  380. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um almannatryggingar,
lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um
málefni aldraðra, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

1. gr.

    Í stað ártalsins „2011“ í 14. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: 2012.

2. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 69. gr. laganna skulu bætur almannatrygginga, sem og greiðslur skv. 63. gr., hækka um 3,5% á árinu 2012. Fjárhæðir frítekjumarka skv. 16.–18. gr., 21.–22. gr. og 48. gr. skulu þó ekki breytast á árinu 2012.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

3. gr.

    Við 1. mgr. 47. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur hins vegar starfað á innlendum vinnumarkaði skemur en a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. skal Vinnumálastofnun meta hvort viðkomandi umsækjandi um atvinnuleysisbætur teljist hafa starfað á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna þannig að taka skuli, að því marki sem nauðsynlegt er, tillit til starfstímabila hans sem launamanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings, sbr. a- og b-lið 3. gr., í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum enda hafi störf hans veitt honum rétt samkvæmt lögum þess ríkis um atvinnuleysistryggingar.

4. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 62. gr. laganna orðast svo: Heimilt er að veita styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku þeirra sem teljast tryggðir samkvæmt lögum þessum eða töldust tryggðir samkvæmt lögum þessum þegar þátttaka í vinnumarkaðstengdum úrræðum hófst í starfs- eða námstengdum vinnumarkaðsúrræðum.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða X í lögunum:
     a.      Á eftir orðunum „greiðslu atvinnuleysisbóta í“ í 1. mgr. kemur: allt að.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir 1. mgr. á sá sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 42 mánuði ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samtals í þrjá mánuði. Þó getur hinn tryggði hafið þetta þriggja mánaða tímabil þegar viðkomandi hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals í 36 mánuði eða lengur. Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 42 mánuði er óheimilt að greiða honum atvinnuleysisbætur að nýju fyrr en að loknu þessu þriggja mánaða tímabili. Þeir sem hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals í 42 mánuði eða lengur 1. janúar 2012 eiga ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir mánuðina janúar, febrúar og mars 2012. Umrætt þriggja mánaða tímabil telst ekki hluti þess tímabils sem viðkomandi á rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur skv. 1. mgr. 29. gr., sbr. einnig 1. mgr. ákvæðis þessa.
     c.      3. mgr. orðast svo:
                      Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda til 31. desember 2012.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

6. gr.

    Í stað orðanna „1. janúar 2011 til og með 31. desember 2011“ í ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum kemur: 1. janúar 2012 til og með 31. desember 2012.

IV. KAFLI
Gildistaka.

7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um almannatryggingar, lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um málefni aldraðra, með síðari breytingum. Er aðallega um að ræða breytingar á framangreindum lögum í samræmi við forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2012 auk þess sem lagt er til að gerðar verði tilteknar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem ætlað er að koma til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Enn fremur er í frumvarpi þessu lagt til að bætur almannatrygginga, meðlagsgreiðslur og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð hækki um 3,5% frá 1. janúar 2012. Í því skyni að ná fram markmiðum frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2012 er ekki gert ráð fyrir að frítekjumörk vegna tekna lífeyrisþega hækki á árinu 2012. Þó er gert ráð fyrir að tekjumörk sem greiðslur sérstakrar uppbótar vegna framfærslu miðast við hækki um 3,5% til að verja hag tekjulægstu lífeyrisþeganna.
    Þá er í frumvarpi þessu lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða VI í lögum um málefni aldraðra verði framlengdur til 31. desember 2012, en það er gert til að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist frá því sem nú er.     
    Skráð atvinnuleysi hefur verið nokkuð frá október 2008 og hefur því á þessu tímabili reynt meira á atvinnuleysistryggingakerfið en oft áður. Af þeim sökum hefur velferðarráðherra, áður félags- og tryggingamálaráðherra, ásamt aðilum vinnumarkaðarins fylgst náið með framkvæmd laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum. Hefur það meðal annars leitt til þess að ráðherra hefur lagt fram á Alþingi nokkur frumvörp til breytinga á lögunum þar sem lögð hefur verið áhersla á að bæta úr þeim annmörkum sem upp hafa komið í tengslum við framkvæmd laganna og þá ekki síður til að leita nýrra leiða í því skyni að bregðast við breyttum aðstæðum. Við gerð þessa frumvarps hafði velferðarráðuneytið samráð við Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis og Vinnumálastofnun.
    Ljóst er að fjölgað hefur í hópi atvinnuleitenda sem hafa verið án atvinnu til lengri tíma en áætlað er að 2.116 atvinnuleitendur muni hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals í 42 mánuði eða lengur á árinu 2012. Liggur því jafnframt fyrir að leggja þarf aukna áherslu á virkni þessa hóps og stuðla að enn frekari þátttöku þeirra í starfs- og námstengdum vinnumarkaðsúrræðum. Hefur reynsla Vinnumálastofnunar meðal annars verið sú að meiri líkur séu á að þátttaka í starfstengdum vinnumarkaðsúrræðum leiði til þess að atvinnuleitandi verði ekki á atvinnuleysisskrá þremur mánuðum eftir að úrræðinu lauk samanborið við önnur virkniúrræði. Samhliða þykir mikilvægt að tryggja framfærslu þessa hóps innan atvinnuleysistryggingakerfisins í lengri tíma en þá 36 mánuði sem 29. gr. laganna kveður á um. Er því lagt til að tímabilið sem heimilt verði að greiða atvinnuleysistryggingar verði lengt á árinu 2012 í allt að 48 mánuði fyrir þá atvinnuleitendur sem urðu fyrst atvinnulausir 1. mars 2008 eða síðar en þó þannig að atvinnuleitendur eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum í þrjá mánuði eftir að hafa samtals fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 42 mánuði. Enn fremur er lagt til að heimilt verði að veita sérstaka styrki til þeirra sem teljast tryggðir samkvæmt lögunum eða töldust tryggðir þegar þeir hófu þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum eða eftir atvikum til vinnuveitenda sem ráða atvinnuleitendur til að gegna störfum sem teljast til starfs- eða námstengdra vinnumarkaðsúrræða.
    Frumvarp þetta er jafnframt lagt fram í því skyni að koma til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA en stofnunin hefur gert athugasemdir við 1. mgr. 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið er á um samlagningu starfstímabila umsækjenda um atvinnuleysisbætur er flytjast milli aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Samkvæmt gildandi lögum er gert ráð fyrir að umsækjandi um atvinnuleysisbætur þurfi að hafa verið virkur á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. laganna svo komi til álita að leggja saman starfstímabil viðkomandi á ávinnslutímabilinu sem launamanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum enda hafi störf viðkomandi umsækjanda um atvinnuleysisbætur veitt honum rétt samkvæmt lögum þess ríkis um atvinnuleysistryggingar. Eftirlitsstofnun EFTA telur skilyrði um þátttöku á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili of langan tíma í þessu sambandi og telur mikilvægt að hafi umsækjandi um atvinnuleysistryggingar hafið störf á innlendum vinnumarkaði beri að meta hvert tilvik fyrir sig hvað varðar möguleikann á samlagningu starfstímabila í öðrum ríkjum.
    Er því í frumvarpi þessu lagt til að meginreglan verði sú að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur verið á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skuli Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til starfstímabila hans á ávinnslutímabilinu sem launamanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki að þeim samningum sem tilgreindir eru í ákvæðinu enda hafi störf hans veitt honum rétt til atvinnuleysistrygginga samkvæmt lögum þess ríkis um atvinnuleysistryggingar. Hins vegar er lagt til að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur verið skemmri tíma á innlendum vinnumarkaði en síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili skuli Vinnumálastofnun meta í hverju tilviki fyrir sig hvort hann teljist hafa starfað á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna þannig að taka skuli, að því marki sem nauðsynlegt er, tillit til starfstímabila hans í öðru ríki enda hafi störf hans veitt honum rétt til atvinnuleysistrygginga samkvæmt lögum þess ríkis um atvinnuleysistryggingar. Er þessari breytingu ætlað að tryggja að umsækjandi um atvinnuleysisbætur sem hefur hafið störf hér á landi en hefur starfað í öðru aðildarríki að þeim samningum sem tilgreindir eru í ákvæðinu á ávinnslutímabili launamanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings geti átt rétt á atvinnuleysisbótum á grundvelli þess að tekið sé tillit til starfstímabila hans í öðru ríki þrátt fyrir að hafa starfað í skemmri tíma á innlendum vinnumarkaði en síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili enda þótt gert sé ráð fyrir að mál hans verði skoðað sérstaklega hjá Vinnumálastofnun. Þá þykir framangreind breyting jafnframt vera í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið hvað varðar frjálsa för launafólks.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til að fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar, sem er nú 1.315.200 kr. á ári, haldist óbreytt á árinu 2012. Er það í samræmi við ákvæði 2. gr. frumvarpsins um óbreyttar fjárhæðir frítekjumarka lífeyrisþega á árinu 2012.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að bætur almannatrygginga og þar með bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og meðlagsgreiðslur, hækki um 3,5% á árinu 2012. Einnig er gert ráð fyrir að frítekjumörk samkvæmt lögum um almannatryggingar breytist ekki á árinu 2012 en með því verði unnt að draga úr útgjöldum til almannatrygginga sem nemur um 208 millj. kr.

Um 3. gr.

    Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við 1. mgr. 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, þar sem stofnunin telur að skilyrði um að umsækjandi um atvinnuleysisbætur hafi verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili áður en komið geti til samlagningar starfstímabila hans í öðrum aðildarríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið brjóti gegn samningnum sem og reglugerð nr. 1408/71/EBE, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja. Þar sé um að ræða skilyrði um þátttöku á innlendum vinnumarkaði í of langan tíma áður en til samlagningar starfstímabila í öðrum ríkjum getur komið. Fallist hefur verið á þau rök Eftirlitsstofnunar EFTA að ófrávíkjanlegt skilyrði um þátttöku á innlendum vinnumarkaði að lágmarki í einn mánuð áður en komið geti til samlagningar ávinnslutímabila í fleiri en einu ríki samrýmist ekki samningnum um Evrópska efnahagssvæðið á þessu sviði. Engu síður verður það að teljast samrýmast tilgangi samningsins um Evrópska efnahagssvæðið að hafi einstaklingur starfað í skemmri tíma á innlendum vinnumarkaði verði hvert slíkt tilvik metið fyrir sig og þá með hliðsjón af gildandi lögum, reglugerð Evrópusambandsins á sviði almannatrygginga sem og dómafordæmum Evrópudómstólsins. Er því í frumvarpi þessu lagt til að meginreglan verði sú að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur verið á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur skuli Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til starfstímabila hans á ávinnslutímabilinu sem launamanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki að þeim samningum sem tilgreindir eru í ákvæðinu enda hafi störf hans veitt honum rétt samkvæmt lögum þess ríkis um atvinnuleysistryggingar. Hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur hins vegar verið skemmri tíma en einn mánuð á innlendum vinnumarkaði þegar hann sækir um atvinnuleysisbætur skuli Vinnumálastofnun meta í hverju tilviki fyrir sig hvort viðkomandi umsækjandi um atvinnuleysisbætur teljist hafa starfað á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna þannig að taka skuli, að því marki sem nauðsynlegt er, tillit til starfstímabila hans í öðru aðildarríki enda hafi störf hans veitt honum rétt til atvinnuleysistrygginga samkvæmt lögum þess ríkis um atvinnuleysistryggingar. Við það mat ber Vinnumálastofnun meðal annars að líta til atriða eins og þess hvort starf viðkomandi hér á landi hafi verið vinnumarkaðsúrræði sem hann hafi tekið þátt í fyrir tilstuðlan opinberrar vinnumiðlunar í heimaríki þar sem hann hafi verið í virkri atvinnuleit þar í landi eða hvort viðkomandi hafi verið ráðinn til að gegna tilfallandi starfi hér á landi í skilningi laganna í kjölfar atvinnuleitar hans hérlendis. Þessari breytingu er því einkum ætlað að tryggja að umsækjandi um atvinnuleysisbætur sem hefur hafið störf hér á landi en hefur starfað í öðru aðildarríki að þeim samningum sem tilgreindir eru í ákvæðinu á ávinnslutímabili launamanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings geti átt rétt á atvinnuleysisbótum á grundvelli þess að tekið sé tillit til starfstímabila hans í öðru ríki þrátt fyrir að hafa starfað í skemmri tíma á innlendum vinnumarkaði en síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili. Þá þykir framangreind breyting jafnframt vera í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið hvað varðar frjálsa för launafólks.

Um 4. gr.

    Ljóst er að þær efnahagsþrengingar sem riðu yfir innlendan vinnumarkað haustið 2008 og hafa frá þeim tíma sett mark sitt á hina ýmsu þjóðfélagsþætti hafa kallað á margs konar aðgerðir og viðbrögð stjórnvalda. Í því skyni að sporna gegn vaxandi atvinnuleysi hafa stjórnvöld í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins meðal annars gripið til ýmissa aðgerða sem margar hverjar hafa verið nýjar af nálinni en allar hafa þær haft það að markmiði að veita þeim einstaklingum aðstoð sem misst hafa vinnu sína að hluta eða öllu leyti við að halda virkni sinni meðan á atvinnuleysi stendur, svo sem með því að auka við menntun sína. Hefur þetta þótt mikilvægt þar sem ljóst þykir að þeim mun lengur sem einstaklingar eru án virkni þeim mun erfiðara geti það orðið að verða aftur virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Í þessu sambandi hefur þótt heldur þröng sú heimild sem stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að koma fram með tillögur til ráðherra um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku þeirra sem teljast tryggðir samkvæmt lögunum í vinnumarkaðsúrræðum. Er því í frumvarpi þessu lagt til að skýrt verði kveðið á um það í lögum um atvinnuleysistryggingar að heimilt sé að veita styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku þeirra sem teljast tryggðir samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar eða töldust tryggðir samkvæmt lögunum þegar þátttaka hófst í hvers konar starfs- eða námstengdum vinnumarkaðsúrræðum.

Um 5. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða X kom inn í lög um atvinnuleysistryggingar með lögum nr. 153/2010, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um málefni aldraðra, með síðari breytingum, vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að fyrrnefndum lögum nr. 153/2010, kemur meðal annars fram að um það bil tvö þúsund einstaklingar komi til með að tæma rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á árinu 2011 þar sem þeir hafi þá verið lengur en þrjú ár samtals án atvinnu, sbr. 29. gr. laganna, en í október 2011 verði þrjú ár liðin frá því að skráð atvinnuleysi hafi aukist verulega hér á landi. Enn fremur kemur fram að í ljósi framangreinds sé í frumvarpinu lagt til að sá sem hafi talist tryggður samkvæmt lögunum og hafi í fyrsta skipti fengið greiddar atvinnuleysisbætur á nánar tilgreindu tímabili geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta í tólf mánuði til viðbótar frá þeim degi er þriggja ára tímabili hans skv. 1. mgr. 29. gr. laganna lyki enda uppfylli hann áfram skilyrði laganna til greiðslu atvinnuleysisbóta. Að auki er þess getið í frumvarpinu að þar sem breytingar þessar séu lagðar til með hliðsjón af þeim tímabundnu aðstæðum sem uppi hafi verið á innlendum vinnumarkaði sé lagt til að réttur þessi verði tímabundinn til 31. desember 2011.
    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun munu um 2.400 einstaklingar tæma rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á fyrri hluta árs 2012 þar sem þeir hafa þá fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals þrjú ár, sbr. 29. gr. laganna. Er þá miðað við að þeir fái greiddar atvinnuleysisbætur óslitið fram til þess tíma. Er því í frumvarpi þessu lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða X í lögunum verði framlengdur til 31. desember 2012 þannig að á árinu 2012 verði heimilt að greiða þeim sem lengst hafa verið án atvinnu frá því 1. mars 2008 atvinnuleysisbætur í allt að fjögur ár. Þó er gert ráð fyrir þriggja mánaða hléi á greiðslu atvinnuleysistrygginga eftir að viðkomandi hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 42 mánuði. Ekki er gert ráð fyrir að umræddir atvinnuleitendur fari af skrá hjá Vinnumálastofnun heldur njóti þeir þjónustu stofnunarinnar meðan á þriggja mánaða hléi á greiðslu atvinnuleysisbóta stendur þrátt fyrir að kveðið verði á um að umrætt þriggja mánaða tímabil teljist ekki hluti þess tímabils sem viðkomandi eigi rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur skv. 1. mgr. 29. gr. laganna, sbr. einnig 1. mgr. ákvæðisins. Áætlað er að 2.116 atvinnuleitendur komi til með að hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 42 mánuði eða lengur á árinu 2012. Karlar eru þar í meiri hluta eða tæplega 60%. Karlar eru fleiri í öllum aldurshópunum en fleiri konur en karlar eru með börn á framfæri í þessum hópi. Tæplega helmingur kvennanna hefur börn á framfæri eða 422 konur en einungis tæp 30% karlanna eða 368 karlar. Einungis 15% karlanna 29 ára og yngri hafa börn á framfæri en 61% kvennanna á sama aldri. Fleiri karlar en konur 50 ára og eldri hafa börn á framfæri en einungis tæplega 11% kvennanna í þeim aldurshópi hafa börn á framfæri en 15% karlanna. Í aldurshópnum 30–49 ára hafa 74% kvennanna börn á framfæri en tæplega helmingur karlanna. Hvað varðar búsetu umræddra atvinnuleitenda er um helmingur þeirra búsettur í Reykjavík eða 1.033 atvinnuleitendur en 229 þeirra eru búsettir í Kópavogi og 210 í Hafnarfirði. Þá eru 178 þeirra búsettir í Reykjanesbæ.

Um 6. gr.

    Í ákvæði þessu er lagt til að heimild til að bera saman útreikning vistunarframlags fyrir og eftir gildistöku laga nr. 166/2006, um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra, verði framlengd um eitt ár. Er þetta lagt til í því skyni að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist frá því sem var þegar tekjur maka höfðu áhrif á þann útreikning. Heimild þessi hefur verið framlengd árlega frá gildistöku laga nr. 166/2006 en greiðsluþátttaka íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum mundi að öðrum kosti í einhverjum tilfellum aukast frá því sem nú er.

Um 7. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar,
lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um málefni aldraðra,
með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þrennum lögum og er annars vegar um að ræða breytingar í tengslum við útfærslu á áformum sem fram koma í fjárlagafrumvarpi 2012 og hins vegar breytingar vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA um framkvæmd atvinnuleysistrygginga.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um almannatryggingar þannig að bótaflokkar almannatrygginga hækki um 3,5% frá 1. janúar 2012. Vakin er athygli á því að þótt það felist ekki í ákvæðum þessa frumvarps þá er samhliða þessu gert ráð fyrir að atvinnuleysisbætur hækki um sama hlutfall á árinu 2012. Samtals er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs muni aukast nálægt 3,2 mia.kr. vegna þessara hækkana á bótum en þar af eru um 2,5 mia.kr. vegna hækkunar almannatrygginga sem er lögð til í þessu frumvarpi. Er það í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins 2012 en hér er þó vikið frá þeim að því leyti að lagt er til að fjárhæðir bótaflokkanna mæðra- og feðralaun, umönnunargreiðslur, barnalífeyrir vegna menntunar, frekari uppbætur til lífeyrisþega, bifreiðakostnaður og barnalífeyrir hækki einnig um 3,5% á árinu 2012. Leiðir það til 220 m.kr. hærri útgjalda en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu 2012 þar sem það var ein af sparnaðaraðgerðum velferðarráðuneytisins að hækka ekki þessar bætur. Gerðar voru tillögur til samræmis við þessar breytingar við aðra umræðu fjárlagafrumvarpsins í fjárlaganefnd. Þessar verðhækkanir á bótunum taka mið af því að meðalhækkun launa á almenna vinnumarkaðnum verði 3,5% 1. febrúar 2012 og laun ríkisstarfsmanna muni hækka um sama hlutfall 1. mars 2012. Í frumvarpinu er þó gert ráð fyrir að hækkun bótanna verði fyrr eða 1. janúar 2012. Þá er í frumvarpinu lagt til að fjárhæðir frítekjumarka í grunnlífeyri og tekjutryggingu vegna tekna lífeyrisþega hækki ekki á árinu 2012. Er þar átt við frítekjumörk almannatrygginga vegna fjármagnstekna, atvinnutekna og lífeyrissjóðstekna. Er áætlað að þær breytingar muni skila um 200 m.kr. sparnaði. Í því sambandi er rétt að vekja athygli á að við 2. umræðu fjárlagafrumvarpsins 2012 voru samþykktar tillögur um lækkanir á fjárheimildum vegna þessa. Í tengslum við það var einnig samþykkt tillaga um jafnmikla hækkun á fjárheimild vegna aldurstengdrar örorkuuppbótar þannig að heildarútgjöldin verða óbreytt. Um er að ræða breytta útfærslu á aðhaldsráðstöfunum á vegum velferðarráðuneytisins í fjárlagafrumvarpinu.
    Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar er varða athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA. Samkvæmt áliti stofnunarinnar samrýmist það ekki samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að þess sé krafist að einstaklingur hafi unnið á innlendum vinnumarkaði í að lágmarki einn mánuð á ávinnslutímabilinu til að eiga rétt á samlagningu starfstímabila hans í öðrum aðildarríkjum. Breytingin samkvæmt frumvarpinu er á þá leið að hafi einstaklingur starfað í skemmri tíma skal hvert mál skoðað sérstaklega hjá Vinnumálastofnun. Telja má að þessi breyting hafi óveruleg áhrif á útgjöld.
    Í þriðja lagi eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem fela í sér að Atvinnuleysistryggingasjóður fái heimild til að veita styrki vegna þátttöku þeirra sem teljast tryggðir samkvæmt lögunum í starfs- eða námstengdum vinnumarkaðsúrræðum. Er hér verið að rýmka heimildir stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs til greiðslu styrkja. Breytingunni er ætlað að greiða fyrir átaki ríkisstjórnarinnar vegna námstækifæra fyrir atvinnuleitendur þar sem gert er ráð fyrir að þeir fái greiddan styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði á meðan þeir eru í námi og á það við um einstaklinga sem ekki komast í lánshæft nám hjá LÍN. Átakið hófst haustið 2011 og var gert ráð fyrir að 1.000 manns mundu nýta sér það og fara af atvinnuleysisbótum. Af þessum 1.000 einstaklingum var áætlað í fjárlagafrumvarpinu að 250 færu í lánshæft nám en 750 einstaklingar, sem ekki kæmust í lánshæft nám, yrðu áfram á framfæri Atvinnuleysistryggingasjóðs. Áætlað var að vegna þeirra 250 einstaklinga sem færu af bótum og yfir í lánshæft nám mundi draga úr bótagreiðslum sem næmi 425 m.kr. hjá Atvinnuleysistryggingasjóði en á móti var lagt til aukið framlag úr ríkissjóði til LÍN, samtals um 150 m.kr., til að gera sjóðnum kleift að auka lánveitingar um u.þ.b. 300 m.kr.
    Miðað við upplýsingar Vinnumálastofnunar um stöðu átaksins í nóvember hafði 991 einstaklingur sótt um þátttöku. Þar af er áætlað að um 700 einstaklingar fari í lánshæft nám og falli af atvinnuleysisbótum um áramót sem þýðir um 1.319 m.kr. sparnað í þeim greiðslum en það er 894 m.kr. hærri fjárhæð en reiknað var með í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012. Að sama skapi er ljóst að gera þarf ráð fyrir auknu fjármagni til LÍN vegna fjölgunar þeirra sem fara í lánshæft nám. Er áætlað að sá kostnaður nemi 420 m.kr. og verði þar með 270 m.kr. meiri en reiknað var með í fyrri áætlun. Til viðbótar mun Atvinnuleysistryggingasjóður greiða styrki til þeirra 300 einstaklinga sem ekki komast í lánshæft nám og verður framkvæmdin ákvörðuð í reglugerð sem ráðherra setur. Útfærsla á reglugerðinni liggur ekki fyrir en í tillögum að reglum sem samþykktar hafa verið í stjórn sjóðsins er lagt til að miða skuli styrkinn við grunnframfærslu LÍN að viðbættum 20 þús. kr. vegna barna undir 18 ára aldri. Styrkurinn mun síðan skerðast í hlutfalli við bótarétt viðkomandi eins og hann var hjá Atvinnuleysistryggingasjóði. Ekki er áætlað að þessi breyting muni hafa teljandi áhrif á útgjöld sjóðsins þar sem grunnbætur atvinnuleysistrygginga verða einungis ívið hærri en grunnframfærsla LÍN á næsta ári þar sem grunnframfærsla LÍN verður hækkuð um 10% um næstu áramót svo og styrkur veittur vegna framfærslu barna. Áætlað er að greiðslur til þeirra 300 einstaklinga sem fái framfærslustyrk frá Atvinnuleysistryggingasjóði verði nálægt 400 m.kr. á ári verði frumvarpið samþykkt. Gert er ráð fyrir að styrkirnir verði í boði næstu þrjár námsannir eða fram til vorsins 2013. Í fjárlagafrumvarpinu hefur þó ekki verið gert ráð fyrir því að einstaklingar fái greidda styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna átaksins. Þyrfti því að millifæra fjárheimildir sem nema 400 m.kr. af lið fyrir bætur yfir á lið fyrir styrki hjá sjóðnum verði frumvarpið samþykkt.
    Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar þess efnis að heimilt verði að greiða þeim sem lengst hafa verið án atvinnu frá 1. mars 2008 atvinnuleysisbætur í allt að fjögur ár. Gildistími ákvæðisins er til ársloka 2012. Þó er gert ráð fyrir því að eftir að viðkomandi einstaklingur hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 42 mánuði þá muni hann sjálfkrafa fara í þriggja mánaða hlé á bótum en getir á þeim tíma sótt um framfærslu á vegum sveitarfélags síns eins og lög gera ráð fyrir. Þó munu einstaklingar geta valið að fara í þriggja mánaða bótalaust hlé strax eftir þrjú ár kjósi þeir það. Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að einstaklingar geti fengið atvinnuleysisbætur greiddar í allt að fjögur ár þrátt fyrir að þeir taki þriggja mánaða bótalaust hlé á árinu 2012. Sá réttur gildir þó aðeins til ársloka 2012 samkvæmt frumvarpinu. Þessari tilhögun er ætlað að veita fólki ákveðinn sveigjanleika með því að það geti valið hvenær það fer tímabundið af bótum, t.d. ef atvinnuleitendum býðst vinna einhvern tíma á tímabilinu. Hér er um að ræða breytingu frá því sem áformað var í fjárlagafrumvarpi ársins 2012. Þar var gert ráð fyrir að bætur mundu falla niður í þrjá mánuði eftir samfellt þriggja ára tímabil á atvinnuleysisbótum og að það kæmi til framkvæmda á vormánuðum. Var gert ráð fyrir að í stað þess að greiða bætur í samtals 48 mánuði yrði einungis greiddar bætur fyrir 45 mánuði fram til ársloka 2012.
    Vinnumálastofnun áætlar að um 2.100 manns muni á árinu 2012 hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 42 mánuði. Áætlað er að mest muni reyna á þetta ákvæði síðari hluta ársins 2012 því reiknað er með að tæplega 2.000 manns muni ljúka samfelldu fjögurra ára bótatímabili frá maí til desember eða að jafnaði um 250 manns á mánuði. Gera má ráð fyrir að atvinnuleysisbætur til alls þessa hóps hefðu kostað á bilinu 3,5 mia.kr. á árinu 2012. Með því að gera þriggja mánaða hlé á greiðslu atvinnuleysisbóta áætlar velferðarráðuneytið að útgjöld lækki um 800 m.kr. árið 2012 samanborið við það ef þessum hópi hefðu verið greiddar bætur til ársloka. Stafar það af því að hluti þeirra sem fer tímabundið af bótum mun ekki ná greiðslum í heil fjögur ár þar sem gildistími þessa bótaréttar rennur út í árslok 2012 samkvæmt frumvarpinu. Sparnaðurinn byggist þess vegna á því að bráðabirgðaákvæðið um þennan bótarétt falli úr gildi við árslok 2012. Verði hins vegar ákvæðið framlengt munu þeir sem ekki náðu að ljúka fjögurra ára bótarétti sínum á árinu 2012 fá greiddar bætur á árinu 2013 og þar með yrði sparnaðurinn af þessum ráðstöfunum enginn.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 hefur þegar verið reiknað með 800 m.kr. samdrætti í útgjöldum sjóðsins en þó með annarri útfærslu á þessu þriggja mánaða bótalausa tímabili og er það helsta aðhaldsráðstöfun velferðarráðuneytisins. Gera má ráð fyrir því að einhver útgjaldaaukning verði hjá sveitarfélögum í hlutfalli við þann fjölda atvinnuleitenda sem hefur lögheimili í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Atvinnuleitendur munu eiga rétt til fjárhagsaðstoðar samkvæmt reglum sveitarfélaga sinna en þær fjárhæðir geta verið aðeins mismunandi. Ef allir þessir bótaþegar leita eftir fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögum gætu útgjöld þeirra numið 700 m.kr. Á hinn bóginn má áætla lauslega að komið hafi verið í veg fyrir 700 m.kr. útgjöld árið 2011 og umtalsvert hærri útgjöld árið 2012 hjá sveitarfélögum vegna fjárhagsaðstoðar með því að framlengja rétt til atvinnuleysisbóta í fjögur ár frá og með ársbyrjun 2011. Er þá miðað við að þeir einstaklingar sem leiti fjárhagsaðstoðar hafi ekki fundið sér vinnu yfir þetta tímabil og að á árinu 2012 hafi þeir, sem voru á framfæri sveitarfélaganna hluta ársins 2011, fengið fjárhagsaðstoð allt árið 2012 en einnig hafi fleiri einstaklingar bæst við eftir því sem liðið hafi á árið.
    Í fimmta lagi er lagt til að lögum um málefni aldraðra verði breytt þannig að gildistími ákvæðis til bráðabirgða VI í lögunum verði framlengdur til ársloka 2012 en ákvæðið hefur verið framlengt árlega frá árinu 2006. Megintilgangur þessa ákvæðis hefur verið að tryggja það að kostnaðarþátttaka íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist ekki frá því sem var þegar tekjur maka höfðu áhrif á útreikning kostnaðarþátttökunnar. Í þeim útreikningi skiptust tekjur hjóna til helminga þannig að helmingur samanlagðra tekna þeirra taldist vera tekjur vistmanns sem gat leitt til lægri greiðsluþátttöku hans ef tekjur hans voru hærri en tekjur maka. Með bráðabirgðaákvæðinu er framlengd heimild til útreiknings Tryggingastofnunar ríkisins á vistunarframlagi fyrir og eftir gildistöku laga nr. 166/2006 og að sú útkoma verði látin gilda sem er hagstæðari fyrir vistmanninn.
    Eins og gert er ráð fyrir hér að framan munu útgjöld í tengslum við þetta frumvarp og áform sem því tengjast aukast um 3,2 mia.kr. á árinu 2012 vegna hækkunar bóta almanna- og atvinnuleysistrygginga. Til viðbótar munu útgjöld til LÍN verða 420 m.kr. vegna námsmannaátaksins og útgjöld vegna greiðslu Atvinnuleysistryggingasjóðs á framfærslustyrk til námsmanna sem ekki komast í lánshæft nám verða 400 m.kr. Samtals eru útgjaldabreytingar til hækkunar í frumvarpinu því rúmir 4 mia.kr. Á móti þessu vegur 800 m.kr. lækkun vegna sparnaðar með þriggja mánaða bótalausu tímabili á næsta ári. Auk þess er áætlað að útgjöld muni lækka um 1.320 m.kr. vegna lægri atvinnuleysisbóta í kjölfar þess að hluti atvinnuleitenda mun fara í lánshæft nám hjá LÍN. Samtals nemur lækkun útgjalda vegna frumvarpsins eða áforma sem því tengjast um 2,1 mia.kr. Nettó hækkun útgjalda ríkissjóðs sem leiðir af frumvarpinu og áformum í tengslum við það nemur því samtals 1,9 mia.kr.
    Í fjárlagafrumvarpi ársins 2012 hefur þegar verið reiknað með hækkunum á bótum almanna- og atvinnuleysistrygginga sem nema um 3 mia.kr. Enn fremur var reiknað með 150 m.kr. framlagi til LÍN og 400 m.kr. fjárheimild í atvinnuleysisbætur vegna vinnumarkaðsaðgerða. Til lækkunar var í fjárlagafrumvarpinu 2012 gert ráð fyrir 800 m.kr. sparnaði með þriggja mánaða bótalausu tímabili auk 425 m.kr. sparnaðar vegna minna atvinnuleysis fyrir atvinnuleitendur sem kæmust í lánshæft nám hjá LÍN. Samtals ættu því útgjöld vegna þessara málefna að geta lækkað um 425 m.kr. frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi ársins 2012.