Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 471  —  1. mál.

3. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.


Inngangur.
    Meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt fram tillögur sínar fyrir 3. umræðu og fela þær í sér útgjaldahækkun nettó sem nemur 522,3 millj. kr. Gert er ráð fyrir að tekjur aukist um 1.500,9 millj. kr. Heildarjöfnuður A-hluta ríkissjóðs verður neikvæður um 20.749,8 millj. kr. þar sem halli hefur aukist um 3.058,8 milljarða kr. frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Heildartekjur eru áætlaðar 522.939,3 millj. kr. og heildargjöld 543.689,1 millj. kr.

Almennt um tekjur.
    Meginuppistaðan í tekjuaukningu ríkissjóðs eða 900 millj. kr. er tilkomin vegna hækkunar á áætlun um úttekt á séreignarsparnaði á árinu 2012. Gert er ráð fyrir að tekjur Fjármálaeftirlitsins hækki um 548 millj. kr., raforkueftirlitsgjald skili 50 millj. kr. og gistináttaskattur skili 35 millj. kr. Reyndar gerir fjármálaráðuneytið ráð fyrir að skatturinn skili 18 millj. kr. á greiðslugrunni og sé réttara að miða við þá innheimtu í tekjuáætlun ríkissjóðs. Hins vegar hefur meiri hlutinn fallið frá innheimtu tóbaksgjalds en gert var ráð fyrir að það mundi skila um 235 millj. kr.

Gjöld.
    Fjárheimildir Fjármálaeftirlitsins eru hækkaðar um 548 millj. kr. við þriðju umræðu. Á móti þeirri hækkun er samsvarandi hækkun á eftirlitsgjaldi fjármálastofnana sem rennur lögum samkvæmt beint til reksturs Fjármálaeftirlitsins og er innheimt af því. 2. minni hluti tekur undir tilmæli meiri hlutans um að efnahags- og viðskiptaráðherra láti fara fram óháð mat á starfsemi Fjármálaeftirlitsins í ljósi þeirrar miklu hækkunar sem orðið hefur á fjárheimildum eftirlitsins undanfarin ár og að í kjölfarið verði lög um starfsemina endurskoðuð gefist tilefni til þess. 2. minni hluti telur að taka beri þær hækkanir sem Fjármálaeftirlitið hefur fengið við 2. og 3. umræðu um fjárlög af stofnuninni og verja þeim til að bæta stöðu heilbrigðisstofnana um land allt. 2. minni hluti telur ekki rétt að Fjármálaeftirlitið fái þessar auknu heimildir fyrr en úttekt hefur farið fram á starfseminni og niðurstöður hennar sýna fram á nauðsyn þess að þær verði að auknar.
    Annar minni hluti vísar í ítarlegt álit sitt frá 2. umræðu þar sem gerð er grein fyrir skoðunum hans. Þess ber jafnframt að geta að tekið hefur verið tillit til ýmissa sjónarmiða hans í breytingartillögum meiri hluta og er það vel.
    Áréttað er mikilvægi þess að staðinn sé vörður um heilbrigðisþjónustuna um allt land. Þrátt fyrir auknar fjárveitingar er gengið mjög nærri sumum heilbrigðisstofnunum og niðurskurður kemur því mismunandi niður á íbúum landsins. 2. minni hluti telur enn ekki unnt fyrir heilbrigðisstofnanir að mæta þeirri hagræðingarkröfu sem lögð er til í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi án þess að þjónusta og öryggi sjúklinga verði skert. Þá sé ekki ljóst hvort niðurskurður til heilbrigðisstofnana muni auka annan kostnað til heilbrigðisþjónustu í samræmi við þróun síðustu ára.
    Við vinnu að fjárlögum yfirstandandi árs lagði 2. minni hluti til að niðurskurður hjá heilbrigðisstofnunum yrði 4,7% í samræmi við almennar aðhaldsráðstafanir heilbrigðisráðuneytis í stað þeirrar 5–39,4% hagræðingarkröfu sem gerð var. 2. minni hluti leggur til að hagræðingarkrafa ársins verði 1,5% en horft verði til þeirrar hagræðingar sem heilbrigðisstofnanir hafa náð fram á yfirstandandi ári. Hafi hagræðing numið meiru en 4,7% komi það sem umfram er til frádráttar 1,5% hagræðingarkröfu fyrir árið 2012. Hafi niðurskurður heilbrigðisstofnunar verið meiri en samanlögð hagræðingarkrafa áranna, þ.e. ríflega 6,2%, er lagt til að stofnunin fái það bætt. Auk þess er lagt til að tekið verði tillit til hinnar sérhæfðu þjónustu sem Landspítalinn og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri veita og því verði enn minni hagræðingarkrafa gerð til þeirra.

Breytingartillögur.
    Annar minni hluti leggur til að sóttir verði um 42 milljarðar kr. í fyrirframskattlagningu á séreignarsparnað. 2. minni hluti leggur áherslu á það að stærsti hluti þess fjármagns verði nýttur sem hluti af gjaldeyrisvaraforða og til að sporna við frekari lántökum ríkissjóðs. Jafnframt telur 2. minni hluti að aukning aflaheimilda og atvinnuuppbygging í orkufrekum iðnaði muni leiða til aukins hagvaxtar sem síðar muni skila sér í auknum tekjum ríkissjóðs.
    Annar minni hluti telur í ljósi fyrrgreinds, og þess að hann hefði hlíft heimilum landsins og barnafólki við skattahækkunum, að þannig hefði myndast svigrúm til að gæta að velferðarkerfinu, efla samgöngur með smærri samgönguverkefnum og tryggja að allir landsmenn megi búa áfram við öryggi með því að efla löggæsluna.

Almannatryggingar.
    Annar minni hluti leggur til að bætur til atvinnulausra og lífeyrisþega hækki í takt við hækkun lægstu launa. Er um að ræða umsamda hækkun í tengslum við gerð kjarasamninga 5. maí 2011. Samkvæmt kjarasamningunum eiga lægstu laun og þar með bætur að hækka um 11.000 kr. 1. febrúar 2012. Í frumvarpi til fjárlaga kemur fram að ríkisstjórnin hyggist brjóta samninginn. Atvinnuleysisbæturnar muni aðeins hækka um 5.500 kr. en ekki 11.000 kr. 2. minni hluti leggur til að bæturnar hækki í takt við hækkun lægstu launa.

Minni samgönguverkefni.
    Annar minni hluti leggur til að útgjöld til Vegagerðarinnar verði aukin. Gríðarlegur niðurskurður hefur orðið í samgöngumálum á landsvísu og mun hann fyrst og fremst bitna á smærri samgönguverkefnum í sveitum landsins. Má þar nefna einbreiðar brýr, olíuburð vega og almennt viðhald vega sem telja má nánast ófæra víða um land. Þessi útgjöld munu skapa vinnu víða um land hjá smærri verktökum en þeir hafa orðið illa úti í efnahagshruninu. Einnig er lagt til að niðurgreiðslur á flugi innan lands verði auknar. Lagt er til að liður sem var feldur niður í fjárlagagerð fyrir árið 2011 og fjallaði um jarðgangaframkvæmdir verði settur inn aftur.

Löggæsla.
    Við efnahagshrunið jókst álag á lögreglu víðs vegar um landið. Er nú svo komið að erfitt hefur reynst að manna vaktir og halda uppi lágmarksþjónustu til að tryggja öryggi borgaranna. 2. minni hluti telur brýnt að staðinn verði vörður um þessa grunnþjónustu.

Sóknargjöld.
    Annar minni hluti vekur athygli á því að sóknargjöld hafi lækkað um 20% frá árinu 2008 að teknu tilliti til úrsagna úr þjóðkirkjunni. Á sama tíma hafa greiðslur til stofnana innanríkisráðuneytisins hækkað vegna verðbóta um 5%. Nú er svo komið að ekki er hægt að halda úti grunnstarfi í mörgum sóknum víðs vegar um landið auk þess sem viðhaldi á kirkjum hefur ekki verið við komið. Telur 2. minni hluti mikilvægt að setja fjármuni í þennan málaflokk.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands.
    Íþróttahreyfingin hefur mætt erfiðleikum síðustu ára af ábyrgð og sýnt aðstæðum skilning. Niðurskurður íþróttatengdra verkefna í þágu fjárhagslegrar hagræðingar er engan veginn ásættanlegur til lengri tíma. Til að íþróttahreyfingin geti sinnt hlutverki sínu og forvarnagildi verða breytingar að eiga sér stað. 2. minni hluti leggur til að tekið verði tillit til þeirra þátta með auknu fjárframlagi.

Fæðingarorlofssjóður.
    Útgjöld sjóðsins hafa lækkað verulega vegna aðhaldsaðgerða sem gripið var til árin 2009 og 2010 auk þess sem útgjöld hans hafa lækkað umtalsvert í kjölfar breytinga sem gerðar voru á hámarksgreiðslum úr sjóðnum á þessum árum. 2. minni hluti leggur til að sjóðurinn verði styrktur á ný þannig að hann þjóni tilgangi sínum.

Barnabætur.
    Lagt er til í frumvarpinu að barnabætur nemi 8,3 milljörðum kr. á næsta ári. Er um 10,2% skerðingu að ræða frá fjárlögum yfirstandandi árs. 2. minni hluti bendir á mikilvægi bótanna fyrir ungt barnafólk en það tilheyrir þeim hópi sem hvað verst hefur farið út úr hruninu og leggur til að þær verði hækkaðar.

Alþingi.
    Annar minni hluti bendir á að Alþingi Íslendinga hefur þurft að mæta harðari niðurskurðarkröfu en ráðuneyti og stofnanir ríkisins. Er það þvert á tilmæli í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem skýrt er kveðið á um að efla þurfi Alþingi í samanburði við stjórnsýsluna. Þrátt fyrir það hefur Alþingi þurft að taka á sig mun meiri skerðingu en aðalskrifstofur ráðuneytanna. 2. minni hluti leggur til að þær 37 millj. kr. sem verja átti til aðstoðarmanna ráðherra verði nýttar til að styrkja Alþingi.

Hof, menningarhús.
    Annar minni hluti leggur til að Hof, menningarhús fái sambærileg framlög úr ríkissjóði og tónlistarhúsið Harpa. Því er lagt til í breytingartillögum að veittar verði 60 millj. kr. til Hofs.

Samantekt.
    Á grundvelli meginmarkmiða sem fram koma í skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013 kemur fram að ríkisstjórnin setti sér markmið sem mörkuðu stefnu hennar í tekjuöflun fyrir ríkissjóð og var ætlað að setja útgjöldum hans skorður. Til að ná þessum meginmarkmiðum var gert ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs yrði um 1,8% af vergri landsframleiðslu á árinu 2011.
    Annar minni hluti bendir á að tillögur ríkisstjórnar við 2. umræðu fjárlaga sem og breytingartillögur meiri hlutans eru vísbending um að forsendur þessar hafi ekki reynst eins traustar og ríkisstjórnin taldi og að hún hafi ekki náð þeim markmiðum sem hún sjálf setti sér í fyrrgreindri skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013.
    Í skýrslu um áætlun í ríkisfjármálum sem fjallar um ríkisbúskapinn 2012–2015 kemur fram að endurskoðuð ríkisfjármálaáætlun felur í sér að nú er gert ráð fyrir að aðlögun ríkisfjármálanna þurfi ekki að verða jafnskörp og hröð og lagt var upp með árið 2009. Markmið um jákvæðan heildarjöfnuð er nú sett fyrir árin 2013–2014 auk þess sem nokkuð minni afgangur í upphafi er talinn nægjanlegur.
    Annar minni hluti telur að lausatök í fjármálastjórn sé fyrst og fremst ástæða þess að markmið ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum hafa ekki náðst. Nauðsynlegt er að gefa skýr fyrirmæli og setja öllum ríkisrekstrinum skýr markmið öllum til hagsbóta því að afleiðingin af núverandi ástandi er hringlandi og óvissa. Ástæðan virðist sú að ekki sé til staðar nægjanlegur vilji til að taka á vandanum en tilhneiging sé til að skjóta erfiðum ákvörðunum á frest. Niðurstaðan er því miður sú að ekki virðist fyrir hendi nægilega mikil fagleg verkstjórn þrátt fyrir fyrirheit um annað. Hvetur 2. minni hluti því eindregið til breyttra vinnubragða við fjárlaga- og áætlunargerð ríkisins þar sem horft verði til lengri tíma í senn og markmið og stefnumótun liggi fyrir.
    Annar minni hluti ítrekar að engin úttekt hefur verið gerð á byggðaáhrifum fjárlagafrumvarpsins. Haldið er áfram með sömu stefnu og lagt var upp með í skerðingu framlaga til heilbrigðisstofnana landsins á síðasta ári þó að niðurskurðurinn hafi verið mildaður lítillega í meðförum fjárlaganefndar. Lagt er til að snúið verði frá þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur lagt upp með í heilbrigðismálum. Er um að ræða röskun á búsetuskilyrðum og búsetuöryggi þjóðarinnar sem getur haft mikil áhrif til langs tíma. Nauðsynlegt er því að hætta við boðaðan niðurskurð og taka til umræðu framtíð heilbrigðiskerfis Íslendinga.

Alþingi, 5. desember 2011.

Höskuldur Þórhallsson.