Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 382. máls.

Þingskjal 490  —  382. mál.



Frumvarp til laga

um brottfall ýmissa laga á sviði fræðslumála (úrelt lög).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    Lög um Myndlista- og handíðaskóla Íslands, nr. 38/1965, með síðari breytingum, falla brott.

2. gr.

    Lög um Leiklistarskóla Íslands, nr. 37/1975, með síðari breytingum, falla brott.

3. gr.

    Lög um landgræðslustörf skólafólks, nr. 58/1974, með síðari breytingum, falla brott.

4. gr.

    Lög um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn, nr. 112/1976, með síðari breytingum, falla brott.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Við undirbúning frumvarps til nýrra laga um Stjórnarráð Íslands kom í ljós að í lagasafni væru nokkrir lagabálkar sem vörðuðu ráðuneyti mennta- og menningarmála en láðst hefði að fella brott við síðari lagasetningu.
     Lög um Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Við stofnun Listaháskóla Íslands 1. ágúst 1999 varð Myndlista- og handíðaskólinn að sérstakri myndlistar- og hönnunardeild innan skólans. Með þessu frumvarpi er lagt til að lög um Myndlista- og handíðaskóla Íslands, nr. 38/1965, falli brott þar sem skólinn hefur verið samtengdur Listaháskóla Íslands og því ekki lengur til í þeirri mynd sem lögin gefa til kynna. Listaháskóli Íslands yfirtók starfsemi og eignir Myndlista- og handíðaskóla Íslands samkvæmt samningi sem Listaháskóli Íslands og menntamálaráðuneytið gerðu 5. maí 1999.
     Lög um Leiklistarskóla Íslands. Leiklistarmenntun á háskólastigi á Íslandi hófst á vegum Listaháskóla Íslands 1. ágúst 2000. Með því var Leiklistarskóli Íslands samtengdur Listaháskóla Íslands og leiklistarskólinn lagður niður í þeirri mynd sem áður var. Listaháskóli Íslands yfirtók starfsemi og eignir Leiklistarskóla Íslands samkvæmt samningi sem Listaháskóli Íslands og menntamálaráðuneytið gerðu 5. maí 1999.
     Lög um landgræðslustörf skólafólks voru sett árið 1974 og ákvæðum laganna hefur ekki verið framfylgt í lengri tíma. Þau samrýmast ekki því skólaumhverfi né réttarhugmyndum sem eru í gildi í dag.
     Lög um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn voru samþykkt á Alþingi árið 1976 og var þeim ætlað að samræma lagaákvæði um dagvistunarheimili. Núgildandi skipulag fer eftir lögum nr. 90/2008, um leikskóla, og þar kemur m.a. fram í 4. gr. laganna að sveitarfélög beri ábyrgð á starfsemi leikskóla, þau hafi forustu um að tryggja börnum leikskóladvöl og beri ábyrgð á heildarskipan skólahalds í leikskólum sveitarfélags, þróun einstakra leikskóla, húsnæði og búnaði leikskóla, sérúrræðum leikskóla, sérfræðiþjónustu, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd leikskólastarfs í sveitarfélagi. Sveitarfélög setji almenna stefnu um leikskólahald í sveitarfélagi og kynni fyrir íbúum þess. Því má sjá að lög um leikskóla leysa af hólmi lög um byggingu og rekstur dagvistarheimila að svo miklu leyti sem það samrýmist núgildandi fyrirkomulagi um leikskóla.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um brottfall ýmissa laga


á sviði fræðslumála (úrelt lög).


    Við undirbúning frumvarps til nýrra laga um Stjórnarráð Íslands kom í ljós að láðst hafði við lagasetningu að fella brott eftirfarandi lög: Lög um Myndlista- og handíðaskóla Íslands, lög um Leiklistarskóla Íslands, lög um landgræðslustörf skólafólks og lög um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að feld verði brott framangreind lög 1. janúar 2012 og eru ástæður þess eftirfarandi: Listaháskóli Íslands yfirtók starfsemi og eignir Myndlista- og handíðaskólans 5. maí 1999 og varð skólinn að sérstakri myndlistar- og hönnunardeild Listaháskóla Íslands 1. ágúst 1999. 1. ágúst 2000 var Leiklistarskóli Íslands samtengdur Listaháskóla Íslands og yfirtók Listaháskólinn starfsemi og eignir Leiklistarskólans samkvæmt samningi frá 5. maí 1999.
    Lög um landgræðslustörf skólafólks eru frá árinu 1974 og samrýmast ekki því skólaumhverfi né réttindahugmyndum sem eru í gildi í dag en í lögunum kemur m.a fram að heimilt er að kveðja börn 12 ára og eldri, hraust og ófötluð, er stunda nám við skóla sem kostaður er af ríkinu til starfa við landgræðslu.
    Árið 1976 voru lög um byggingu og rekstur dagvistarheimila samþykkt til að samræma lagaákvæði um dagvistarheimili. Núverandi skipulag dagvistarheimila fer eftir lögum um leikskóla og þar kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á starfsemi leikskóla. Lög um leikskóla leysa af hólmi lög um byggingu og rekstur dagvistarheimila að svo miklu leyti sem það samrýmist núgildandi fyrirkomulagi um dagvistarúrræði.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.