Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 274. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 497  —  274. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur
um greiðslur aðildarríkja til Evrópusambandsins.


     1.      Hvaða ríki Evrópusambandsins greiddu hærra framlag til sambandsins en þau fengu greitt til baka árin 2005–2010, sundurliðað eftir árum?
    Nettóframlag vel stæðra aðildarríkja er almennt hærra en þeirra er lakar standa. Hins vegar þarf að hafa í huga að greiðslustaðan ein og sér endurspeglar ekki að fullu þann virðisauka sem hinar ýmsu stefnur ESB fela í sér fyrir aðildarríkin. Aðstoð sem bókfærð er til eins aðildarríkis getur nýst í öðru aðildarríki, svo sem nemendaskipti og evrópskt vísindasamstarf. Aðstoð úr uppbyggingarsjóðum til fátækari svæða sambandsins felur oftar en ekki í sér viðskiptatækifæri til handa fyrirtækjum sem staðsett eru á efnaðri svæðum þess. Fleiri dæmi má tína til sem sýna að mat á efnahagslegum ávinningi aðildarríkja af Evrópusamstarfi ber ekki að takmarka við greiðslustöðuna.
    Austurríki, Belgía, Bretland, Danmörk, Finnland, Frakkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg, Svíþjóð og Þýskaland voru nettógreiðendur til Evrópusambandsins á tímabilinu 2005–2010, auk þess sem Kýpur var nettógreiðandi á tímabilinu 2007–2010.
    Þess má geta að Belgía og Lúxemborg eru nettóþiggjendur ef með eru talin framlög úr sjóðum ESB til að standa straum af rekstrarkostnaði stofnana ESB sem staðsettar eru í þessum löndum. Þar sem greiðslurnar nýtast ekki þessum aðildarríkjum með beinum hætti eru þær dregnar frá og niðurstaðan er að þau eru nettógreiðendur.

     2.      Hvert er samningsmarkmið Íslands í þessum málaflokki?
    Ekki er ljóst hversu mikið mun bera í milli á framlögum Íslands til ESB og á greiðslum úr sjóðum sambandsins til Íslands, enda er það háð endanlegri niðurstöðu samningaviðræðna. Þá mun útsjónarsemi og elja Íslendinga við að sækja stuðning í verkefni ESB jafnframt ráða miklu um hversu mikið af framlaginu kemur til baka til Íslands. Íslendingar hafa einkar ríka ástæðu og fjölda möguleika til að sækja í sjóði ESB sökum strjálbýlis, harðbýlis, einhæfra atvinnuvega og hnattstöðu landsins, svo dæmi séu tekin.
    Álit meiri hluta utanríkismálanefndar með þingsályktunartillögunni um að Alþingi feli ríkisstjórn Íslands að sækja um aðild að Evrópusambandinu felur ekki í sér tilgreind samningsmarkmið fyrir samningskaflann um framlagsmál (kafli 33) en þau koma aftur á móti skýrt fram í formlegri samningsafstöðu Íslands í kaflanum. Hins vegar kveður nefndarálitið á um áherslur og sérstakar aðstæður á Íslandi sem taka skal mið af í samningaviðræðum í þeim köflum sem áhrif hafa á tekjuhliðina.
    Samningahópur um fjárhagsmálefni skilaði greinargerð um samningskaflann í mars 2011 til undirbúnings á rýnifundi með ESB. Sú greinargerð var kynnt í utanríkismálanefnd og er birt á heimasíðu utanríkisráðuneytisins um viðræðurnar www.utanrikisraduneyti.is/ media/fjarhagsmal/Grg.-heild-33.-framlog.pdf.
    Samningsafstaða kaflans var afgreidd í ráðherranefnd um Evrópumál 14. október sl., kynnt fyrir utanríkismálanefnd Alþingis 21. október og afgreidd í ríkisstjórn 28. október og að því búnu send ESB. Hún verður lögð fram formlega á ríkjaráðstefnu 12. desember nk. og mun þá verða gerð opinber.
    Í samningsafstöðu Íslands er lögð áhersla á að tekið verði tillit til viðkvæmrar stöðu ríkisfjármála, þannig að sem minnst áhrif verði á greiðslustöðu ríkissjóðs þegar til aðildar kemur. Jafnframt þarf að semja um með hvaða hætti þetta verði gert.
    Lögð er áhersla á að greiðslujöfnuður Íslands verði með svipuðum hætti og hjá ríkjum með svipaða uppbyggingu og efnahagslegar og félagslegar aðstæður. Þrátt fyrir að samið verði um tekjuhliðina í köflum um landbúnað, byggðamál o.fl. eru í kafla 33 gerðar kröfur um að greiðslujöfnuðurinn verði borinn saman við önnur aðildarríki með sanngjörnum hætti.
    Útreikningar á framlögum Íslands til ESB byggjast á flóknum reglum sem tryggja eiga samræmi á milli aðildarríkjanna. Gerð er krafa um að heildarframlög Íslands sem hlutfall af vergum þjóðartekjum verði sambærileg við sams konar ríki og að framan greinir.