Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 315. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 507  —  315. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um breytingu á lögum nr. 57/2011, um skil menningarverðmæta til annarra landa.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Agnesi Guðjónsdóttur og Ragnheiði Helgu Þórarinsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Í 16. gr. laga um skil menningarvermæta til annarra landa sem voru samþykkt á Alþingi vorið 2011 er mælt fyrir um að lögin öðlist gildi 1. janúar 2012. Frumvarpið sem varð að þeim lögum var lagt fram á 139. löggjafarþingi samhliða þremur öðrum frumvörpum, þ.e. frumvarpi til laga um Þjóðminjasafn Íslands, frumvarpi til laga um safnalög og frumvarpi til laga um menningarminjar. Fram kemur í frumvarpi þessu að ákveðin samverkan hafi verið milli framangreindra fjögurra frumvarpa og að þau hefðu öll átt að öðlast gildi 1. janúar 2012.
    Auk frumvarps til laga um skil menningarverðmæta til annarra landa urðu aðeins tvö framangreindra frumvarpa að lögum á 139. löggjafarþingi. Það voru lög um Þjóðminjasafn Íslands og safnalög sem voru samþykkt á Alþingi í september 2011 en mælt er fyrir um að þau öðlist gildi 1. janúar 2013. Eftir stendur að í lögum um skil menningarverðmæta er mælt fyrir um að þau öðlist gildi 1. janúar 2012 og er með frumvarpi þessu lagt til að þeirri gildistöku verði frestað til 1. janúar 2013. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur þegar lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um menningarminjar (316. mál) sem nefndin mun hafa til meðferðar á þessu löggjafarþingi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Birgitta Jónsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. desember 2011.



Björgvin G. Sigurðsson,


form., frsm.


Skúli Helgason.


Þráinn Bertelsson.



Oddný G. Harðardóttir.


Þuríður Backman.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.



Siv Friðleifsdóttir.