Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 305. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 532  —  305. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003,
með síðari breytingum (hækkun raforkueftirlitsgjalds).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Með þessu frumvarpi er skattur sem nefnist raforkueftirlitsgjald tvöfaldaður. Í 1. mgr. 31. gr. raforkulaga er kveðið á um að til að standa undir kostnaði vegna eftirlits samkvæmt lögunum skuli flutningsfyrirtækið og dreifiveitur greiða gjald af raforku sem fer um kerfi þessara aðila. Gjaldið á flutningsfyrirtækið nemur 0,2 aurum á hverja kWst en dreifiveitur greiða 0,5 aura á hverja kWst. Orkustofnun annast innheimtu gjaldsins sem rennur í ríkissjóð og er því ætlað að standa undir kostnaði við eftirlit samkvæmt raforkulögum.
    Þetta er að sönnu ekki há upphæð, um 50 millj. kr. á ári, en með þessu frumvarpi er ætlunin að tvöfalda gjaldtökuna. Eftir þessa hækkun sem frumvarpið boðar verður gjaldið, miðað við núverandi raforkuframleiðslu, um 98 millj. kr. Með því að um skatt er að ræða en ekki þjónustugjald verður hækkun þessa gjaldstofns ekki ákveðin nema með lögum frá Alþingi.
    Ekki verður dregið í efa að mikilvægt sé að raforkueftirliti sé sinnt með sómasamlegum hætti. Færa má rök fyrir því að slíkt eftirlit sé í þágu raforkunotenda og raforkufyrirtækjanna. Það er vegna þess að eftirlit þetta lýtur í senn að eftirliti með markaði sem hefur á sér yfirbragð fákeppni og að augljóst er að notendur geta því illa varist tilhneigingu til óeðlilegra verðhækkana. Þá er það augljóst neytendamál að eftirlit sé með því að notendur hafi trygga raforku.
    Engu síður hefði verið tilefni til þess að staldra við. Fram kom í vinnu nefndarinnar að eftirlit með raforkustarfseminni að þessu leytinu fer fram með margvíslegum hætti. Mannvirkjastofnun sinnir rafmagnseftirliti og greiddu orkufyrirtækin í landinu til dæmis árið 2010 um 180 millj. kr. til hennar í því skyni. Fram kom í umsögnum orkufyrirtækja og Samorku að það ár hefði þó einvörðungu 60% gjaldsins, eða 108 millj. kr. af 180 millj. kr. gjaldstofni, runnið til eiginlegs rafmagnseftirlits. Þá hefur Samkeppniseftirlitið það hlutverk að hafa eftirlit með samkeppnisþætti raforkuframleiðslunnar. Fullt tilefni hefði því verið til að samhæfa þessa vinnu, skerpa áherslurnar og verkaskiptingu þeirra þriggja stofnana sem fara með það eftirlit er lýtur að raforkumarkaðnum. Fram kom raunar í máli fulltrúa Orkustofnunar á fundi atvinnuveganefndar að ætlunin væri nú að auka þetta samstarf. Eðlilegast hefði þó verið að skoða þau mál betur áður en ákveðið var að auka gjaldtökuna svo hressilega, sem að lokum mun lenda á notendunum að greiða.
    Í umsögn BSRB kemur fram gagnrýni á hækkunina m.a. vegna þess að umtalsverðar hækkanir hafa orðið á heildarkostnaði raforku til heimila á síðastliðnum tveimur árum. Óbein hækkun sem lögð er hér til mun hafa áhrif á verðbólgu og leiðir þar með til hækkunar á almennu verðlagi og hækkar verðtryggðar skuldir heimila.
    Gjaldstofn raforkueftirlitsins er raforkuframleiðslan í landinu. Með aukinni raforkuframleiðslu í kjölfar byggingar Kárahnjúkavirkjunar var ákveðið á árinu 2007 að lækka gjaldið. Nú hefur Landsvirkjun kynnt stefnu sína sem gerir ráð fyrir verulegri aukningu á raforkuframleiðslu. Því má ætla að á næstu árum muni gjaldtaka þessi aukast, samfara aukinni framleiðslu á rafmagni. Það getur að sönnu leitt til aukins eftirlits, en fullt tilefni er þó af þessari ástæðu til að skoða hvort slíkt kalli á tvöföldun gjaldsins núna þegar herðir að lífskjörunum í landinu.
    Það orkar tvímælis að fjölga starfsmönnum Orkustofnunar á sama tíma og skorið er niður og fólki sagt upp í velferðarþjónustu. Ekki kom fram hjá umsagnaraðilum að brýn nauðsyn væri að fara í þetta verkefni á þessu ári.
    Af þessum ástæðum er það skoðun minni hluta atvinnuveganefndar að ekki sé tilefni til tvöföldunar raforkueftirlitsskattsins við þessar aðstæður. Skynsamlegra hefði verið að fara betur yfir verkaskiptingu raforkueftirlitsins, sem nú er framkvæmt af þremur stofnunum, og reyna með því að tryggja aukna virkni án þess að það leiddi til svo mikillar hækkunar á gjaldstofninum.

Alþingi, 12. desember 2011.



Einar K. Guðfinnsson,


frsm.


Sigurður Ingi Jóhannsson.


Jón Gunnarsson.