Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 359. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 536  —  359. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008,
með síðari breytingum (samningar Sjúkratrygginga Íslands, frestun).

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Með frumvarpinu er lagt til að enn á ný verði frestað gildistöku ákvæðis laga nr. 112/ 2008, um sjúkratryggingar, sem felur Sjúkratryggingum Íslands að annast samningsgerð við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og samninga við sveitarfélög og aðra sem reka hjúkrunarheimili. Ákvæðið átti að taka gildi 1. janúar 2010 en gildistöku þess hefur ítrekað verið frestað. Minni hlutinn leggst gegn því að gildistöku ákvæðisins verði frestað. Með því að fresta því allt til ársins 2014, eða 2013 líkt og breytingartillaga meiri hlutans gerir ráð fyrir, er verið að fara þvert gegn markmiðum laga um sjúkratryggingar en þar segir í 1. gr.:
    „Markmið laga þessara er að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum og í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, lög um réttindi sjúklinga og önnur lög eftir því sem við á.
    Jafnframt er markmið laga þessara að stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustu og hámarksgæðum hennar eftir því sem frekast er unnt á hverjum tíma. Þá er markmið laga þessara að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna.“
    Þessar tvær markmiðsgreinar tengjast órjúfanlegum böndum, því að til að tryggja öllum heilbrigðisþjónustu þarf greiðandi þjónustunnar að gera eins góða samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu og kostur er. Engin betri leið hefur fundist en kostnaðargreining þjónustunnar en það leiðir m.a. af sér að samið er um þá þjónustu sem hagstæðust er hverju sinni.
    Á síðasta ári var samþykkt með lögum nr. 147/2010 að fresta gildistöku ákvæðisins um eitt ár og gert ráð fyrir að ákvæðið tæki gildi 1. janúar 2012 en upphafleg tillaga ráðuneytisins var þá að gildistakan frestaðist í þrjú ár. Alþingi hafnaði þeirri leið og samþykkti frestun í eitt ár. Ljóst er eftir meðferð málsins í nefndinni að þessu sinni að ráðuneytið notaði liðið ár á engan hátt til undirbúnings því að ákvæðið tæki gildi nú um áramótin og má því segja að vilji Alþingis hafi verið hunsaður af framkvæmdarvaldinu. Þessi vinnubrögð eru ámælisverð að mati minni hlutans. Nú leggur meiri hlutinn til að gildistakan frestist enn um eitt ár, þ.e. til 1. janúar 2013, og leggur jafnframt áherslu á að sá tími verði nýttur. Forsaga málsins gefur þó ástæðu til að efast um að því verði fylgt eftir af hálfu ráðuneytisins og að ákvæðið muni þá taka gildi að ári.
    Málið var ekki sent út til umsagnar að þessu sinni og verður minni hlutinn því að leita í umsagnir við sambærilegt frumvarp á síðasta þingi (191. mál, 139. þing). Nefndinni barst þó umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem sendi hana inn að eigin frumkvæði.
    Umsagnaraðilar voru mjög afgerandi og lögðust eins og minni hlutinn gegn þessari breytingu og áframhaldandi frestun gildistöku ákvæðisins:
     Samband íslenskra sveitarfélaga 2011: „Samband íslenskra sveitarfélaga telur þá frestun sem nú er lögð til vera ávísun á mikil vandamál í tengslum við fyrirhugaða tilfærslu þjónustu við aldraða frá ríki til sveitarfélaga. Einkum hefur sambandið áhyggjur af því að ekki sé áformað að gera þjónustusamninga við sjálfseignarstofnanir og aðra aðila á einkaréttarlegum grundvelli sem annast rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila. Reynsla sveitarfélaga af tilfærslu þjónustu við fatlað fólk er að það getur verið mjög tímafrekt að ganga frá þjónustusamningi við slíka aðila og er það áhyggjuefni ef ætlunin er að bíða með slíka samningsgerð þar til sveitarfélögin hafa tekið við ábyrgð á þjónustu við aldraða.
    Að áliti sambandsins er brýnt að setja af stað sérstakt átaksverkefni í tengslum við á vinnu sem nú er nýhafin um tilfærslu þjónustu við [aldraða] til sveitarfélaga, með það að markmiði að ljúka gerð samninga við allar sjálfseignarstofnanir sem annast rekstur hjúkrunarheimila fyrir 1. janúar 2014. Sambandið styður því ekki lögfestingu umrædds frumvarps.“
     Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu: „Stjórn SFH telur brýnt að ljúka gerð þessara þjónustusamninga sem allra fyrst en breyting á þessum lögum stefnir málinu í allt aðra átt.“
     Læknafélag Íslands: „Félagið er andvígt fyrirhugaðri frestun.“
     Landspítali: „Landspítali gerir ekki sérstakar athugasemdir við frumvarp til laga um sjúkratryggingar. Hins vegar telur Landspítali ástæðu til að lýsa yfir vonbrigðum vegna frestunar gildistöku ákvæðis um samninga við heilbrigðisstofnanir sem frumvarpið felur í sér enda hefur það verið stefnumál sjúkrahússins um árabil að fjárveitingar til spítalans fylgi þjónustu við sjúklinga og öðrum verkefnum í meiri og skýrari mæli en nú er. Slík fjármögnun er nú viðhöfð gagnvart öllum öðrum háskólasjúkrahúsum á Norðurlöndum og gjarnan staðið að henni með samningum á borð við þá sem frestað er í nefndu frumvarpi.“
     Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga: „Stjórnin telur mikilvægt að farið sé vel með almannafé og skýrt sé hvaða þjónustu ríkið og ríkisstofnanir eru á hverjum tíma að kaupa af sveitarfélögum og öðrum rekstraraðilum hjúkrunarheimila. Einnig er brýnt að heimilismenn og aðstandendur geti fengið upplýsingar um hvaða þjónustu ber að veita og hvaða viðmiðanir eru í gildi varðandi þann mannafla sem þjónustuna veitir á hverju heimili. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að skýrir þjónustusamningar séu í gildi á milli aðila. Stjórn Fíh leggst því gegn því að gildistöku umrædds ákvæðis verði frestað.“ „Stjórnin fullyrðir að með skýrum þjónustusamningum fáist meira fyrir það fé sem veitt er til reksturs hjúkrunarheimila hér á landi.“
    Í athugasemdum við frumvarpið nú er líkt og á síðasta þingi talað um að ástæða frestunar gildistöku ákvæðisins séu minni tekjur ríkissjóðs. Í nefndaráliti minni hluta heilbrigðisnefndar um sambærilegt frumvarp á síðasta þingi (þskj. 501, 191. mál, 139. þing) er vísað til minnisblaðs forstjóra SÍ þar sem var farið yfir þetta atriði, en þar segir:
    „Þann forsendubrest sem vitnað er til í athugasemdum með frumvarpinu til skýringar á frestun umræddrar samningsgerðar á vegum SÍ má fyrst og fremst rekja til þess að stofnunin hefur ekki fengið nauðsynlegar fjárveitingar til að sinna verkefninu. Það hefur á hinn bóginn ekki með aukinn kostnað fyrir ríkið að gera heldur það að heilbrigðisráðuneytið hefur ekki fylgt eftir tilflutningi starfa og fjárveitinga til SÍ eins og til stóð þegar lögin um sjúkratryggingar voru samþykkt.
    Í því sambandi má nefna:
          Ekki er enn lokið við áformaða fjárhagslega uppskiptingu milli TR og SÍ í samræmi við niðurstöðu ráðgjafanna sem unnu að aðskilnaðinum fyrir forsætisráðuneytið (kostnaðargreining TR, dags. 6. maí 2008, lögð fyrir heilbrigðisnefnd Alþingis í aðdraganda laga nr. 112/2008).
          Ekki hefur enn orðið af tilflutningi 5–6 starfsmanna frá aðalskrifstofu heilbrigðisráðuneytisins til stofnunarinnar vegna samningamálanna, sbr. til dæmis umsögn fjármálaráðuneytis um frumvarp til laga um sjúkratryggingar (þskj. 955, 613. mál).
          Ekki hefur enn orðið af tilflutningi starfsmanna frá heilsugæslunni og Landspítalanum sem sinnt hafa samningsgerð og öðrum verkefnum sem SÍ var ætlað að sinna, sbr. til dæmis ákvæði I til bráðabirgða í lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar.“
    Minni hlutinn leggst alfarið gegn samþykkt frumvarpsins og leggur til að ráðherra klári þetta verkefni í stað þess að fresta gildistöku ákvæðisins.

Alþingi, 13. desember 2011.



Pétur H. Blöndal,


frsm.


Unnur Brá Konráðsdóttir.