Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 360. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 538  —  360. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Með fyrirliggjandi frumvarpi er lagt til að sérlöggjöf verði sett um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara en nú er að finna ákvæði þess efnis í 5. gr. laga nr. 100/2010, um umboðsmann skuldara. Embætti umboðsmanns skuldara mun þannig innheimta gjald af lánastofnunum sem samsvarar útgjöldum stofnunarinnar.
    Í athugasemdum við frumvarpið og kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu kemur fram að áætlaður kostnaður við rekstur umboðsmanns fyrir árið 2012 sé 1.050 millj. kr. Það er 30% hækkun frá fyrri rekstraráætlun. Gert var ráð fyrir því að kostnaður við rekstur stofnunarinnar á yfirstandandi ári yrði 600 millj. kr. en nú er gert ráð fyrir um 810 millj. kr. sem er 35% hækkun frá fyrri rekstraráætlun.
    Við stofnun embættis umboðsmanns skuldara með lögum nr. 100/2010 var því falið að hafa milligöngu um samskipti og samninga við lánadrottna, fara með framkvæmd greiðsluaðlögunar, taka við erindum skuldara, gæta hagsmuna þeirra og bregðast við ef gengið er á réttindi þeirra. Einnig á embættið að veita alhliða ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna. Samhliða samþykkt laga um umboðsmann skuldara voru ný lög um greiðsluaðlögun samþykkt. Ráðgjafarstofa heimilanna var lögð niður og tók umboðsmaður skuldara við verkefnum hennar og starfsmönnum. Lög um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, lög um breytingu á lögum nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, nr. 102/2010, og lög um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota, nr. 103/2010, tóku þá einnig gildi.
    Þetta var þó ekki fyrsta tilraunin til að innleiða greiðsluaðlögun. Ákvæði um nauðasamning til greiðsluaðlögunar voru lögleidd með lögum nr. 24/2009. Við það tækifæri lýsti minni hlutinn áhyggjum af því hvað verkefnið yrði umfangsmikið og tilhneigingu stjórnvalda til að vanmeta kostnaðinn við verkefnið, sérstaklega í ljósi tregðu stjórnvalda við að fara í almennar aðgerðir vegna skuldavandans. Þá var áætlaður kostnaður 25–50 millj. kr. á ári miðað við að málafjöldinn yrði á bilinu 100–200. Minni hlutinn benti á að væntanlega væri hægt að margfalda þá upphæð í samræmi við fjölda mála.
    Þessar ábendingar voru hunsaðar en í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að rekstur umboðsmanns hafi verið mun umfangsmeiri en búist var við. Minni hlutinn hafnar því og telur að stjórnvöldum hefði átt að vera ljós kostnaðurinn, bæði beinn kostnaður og kostnaður samfélagsins í heild, við að draga úrlausn hins mikla skuldavanda fyrir bæði heimilin og fyrirtækin í landinu.
    Um 5.900 mál hafa borist umboðsmanni skuldara frá stofnun til 30. október 2011. Af þeim eru um 4.000 umsóknir um greiðsluaðlögun. Aðeins hefur tekist að ljúka 590 greiðsluaðlögunarmálum. Um 1.600 mál eru í vinnslu hjá umsjónarmönnum og svipaður fjöldi í vinnslu hjá umboðsmanni skuldara þar sem tekin er afstaða til þess hvort þau verði samþykkt eða þeim synjað.
    Ljóst er að stjórnvöld hafa ítrekað vanmetið skuldavanda íslenskra heimila. Þær úrlausnir sem hafa þó komið til hafa verið þungar í vöfum og seinlegar í framkvæmd. Framsóknarflokkurinn studdi lagasetningu um greiðsluaðlögun einstaklinga en benti á sínum tíma á að úrræðið ætti að vera neyðarúrræði sem grípa þyrfti til ef almenn úrræði mundu ekki duga til.
    Minni hlutinn leggst ekki gegn framgangi málsins en leggur áherslu á að allar leiðir verði nýttar til að þrýsta á úrlausn skuldamála.

Alþingi, 12. des. 2011.



Eygló Harðardóttir.