Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 239. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 542  —  239. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins,
nr. 1/1997, með síðari breytingum (iðgjald launagreiðanda).

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hauk Hafsteinsson frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Maríönnu Jónasdóttur, Lilju Sturludóttur og Gunnar Björnsson frá fjármálaráðuneyti, Þóreyju S. Þórðardóttur frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Guðlaugu Kristjánsdóttur frá Bandalagi háskólamanna, Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands, Halldóru Elínu Ólafsdóttur og Hjálmar S. Brynjólfsson frá Fjármálaeftirlitinu, Elínu Björgu Jónsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Þórarin Eyfjörð frá SFR-stéttarfélagi í almannaþjónustu.
    Í frumvarpinu er lögð til breyting á 2. málsl. 4. mgr. 13. gr. laga nr. 1/1997, með síðari breytingum, vegna athugasemda Fjármálaeftirlitsins er lutu að tryggingafræðilegri stöðu A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, en Fjármálaeftirlitið krafðist þess að stjórn sjóðsins endurskoðaði iðgjald launagreiðanda með hliðsjón af 4. mgr. 13. gr. Rétt þykir að kveðið verði með skýrum hætti á um að vikmörk 39. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, eigi við um A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Stjórn sjóðsins hefur litið svo á að 39. gr. laga nr. 129/1997 gilti um A-deild sjóðsins enda væri óeðlilegt að aðrar reglur giltu um hana að þessu leyti og að ekkert svigrúm væri fyrir sveiflur.
    Meiri hluti nefndarinnar telur mikilvægt að áætlun um hvernig tekið verði á lífeyrisskuldbindingum ríkisins líti sem fyrst dagsins ljós en telur rétt að starfshópur sem settur var á laggirnar 27. janúar sl. skipaður fulltrúum bandalaga opinberra starfsmanna og fjármálaráðherra fái svigrúm til að skila tillögum. Hópnum er ætlað að ræða leiðir til lausnar á fortíðarvanda A- og B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins hafi bein áhrif á útgjöld ríkissjóðs heldur kunni að fresta því að greiða þurfi hærri iðgjöld í lífeyrissjóðinn að því gefnu að lífeyrisréttindi haldist óbreytt.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 14. desember 2011.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Björn Valur Gíslason.


Björgvin G. Sigurðsson.



Róbert Marshall.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.