Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 380. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 549  —  380. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ágúst Þór Sigurðsson, Bjarnheiði Gautadóttur og Hönnu S. Gunnsteinsdóttur frá velferðarráðuneyti, Unni Sverrisdóttur frá Vinnumálastofnun, Lilju Þorgeirsdóttur og Sigríði H. Ingólfsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands, Jónu Valgerði Kristjánsdóttur og Unnar Stefánsson frá Landssambandi eldri borgara, Ernu Guðmundsdóttur og Guðlaugu Kristjánsdóttur frá Bandalagi háskólamanna, Sonju Ýr Þorbergsdóttur og Hilmar Ögmundsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Björgu Bjarnadóttur frá Kennarasambandi Íslands og Guðjón Axel Guðjónsson og Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins. Umsagnir bárust frá Samtökum atvinnulífsins og Landssambandi eldri borgara.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra.

Breytingar á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um almannatryggingar þess efnis að frítekjumark lífeyrisþega á árinu 2012 verði það sama og á árinu 2011 og er það í samræmi við forsendur fjárlaga fyrir árið 2012. Þá er lögð til sú breyting að allar bætur almannatrygginga, meðlagsgreiðslur og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð hækki um 3,5% frá 1. janúar 2012. Auk þess hækki tekjumörk, sem greiðslur sérstakrar uppbótar vegna framfærslu miðast við, um 3,5% og er þeirri breytingu ætlað að verja hag tekjulægstu lífeyrisþeganna.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012 var gert ráð fyrir því að flestir bótaflokkar yrðu hækkaðir um 3,5%. Ekki var þó gert ráð fyrir því að mæðra- og feðralaun, umönnunargreiðslur, barnalífeyrir vegna menntunar, bifreiðakostnaður og barnalífeyrir fengju sambærilega hækkun. Við afgreiðslu fjárlaganna samþykkti Alþingi hins vegar 220 millj. kr. viðbótarframlag til að unnt verði að hækka alla bótaflokka um 3,5% á næsta ári. Ákvæðin eru því til samræmis við fjárlög fyrir árið 2012.
    Fyrir nefndinni voru gerðar athugasemdir við að hækkun bóta væri ekki til samræmis við hækkun lægstu launa í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins. Nefndin kynnti sér svar velferðarráðherra við fyrirspurn Unnar Brár Konráðsdóttur um þróun atvinnuleysisbóta, lágmarkslauna og lágmarksbóta öryrkja (þskj. 494, 277. mál). Í því kemur m.a. fram að bætur einhleyps öryrkja hafa hækkað meira undanfarin tíu ár en lágmarkslaun. Nefndin óskaði jafnframt upplýsinga frá velferðarráðuneyti um bætur öryrkja sem væri í sambúð eða giftur og var tjáð að þær hefðu jafnframt hækkað meira en lágmarkslaun undanfarin tíu ár. Nú stendur yfir endurskoðun almannatryggingakerfisins og leggur meiri hlutinn áherslu á að henni verði flýtt eins og unnt er til þess að tryggja réttlæti og jafnræði í bótakerfum hins opinbera.

Breytingar á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.
Samlagning starfstímabila umsækjenda um atvinnuleysisbætur sem flytjast milli aðildarríkja.
    
Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar í samræmi við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA um samlagningu starfstímabila umsækjenda um atvinnuleysisbætur sem flytjast milli aðildarríkja. Samkvæmt gildandi lögum þarf umsækjandi um atvinnuleysisbætur að hafa verið virkur á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili atvinnuleysisbóta. Eftirlitsstofnunin taldi þetta of langan tíma og taldi mikilvægt að hvert tilvik væri metið fyrir sig. Í 3. gr. frumvarpsins er því lagt til að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur starfað skemur en einn mánuð á innlendum vinnumarkaði skuli Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til starfstímabila hans á ávinnslutímabilinu í öðru aðildarríki EES-samningsins, stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum enda hafi störf hans þar veitt honum rétt til atvinnuleysistrygginga samkvæmt lögum þess ríkis.
    Sambærilegt ákvæði varðandi ávinnslutímabil vegna fæðingarorlofs var lögfest á 139. þingi, með lögum nr. 136/2011 sem breyttu lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof. Meiri hlutinn áréttar að sú breyting sem lögð er til með frumvarpinu felur í sér að Vinnumálastofnun metur hvert tilvik fyrir sig í samræmi við lögin.

Styrkir til þátttöku í starfs- og námstengdum vinnumarkaðsúrræðum og til ferða til og frá vinnustað.
    Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á ákvæði er varðar þátttöku í vinnumarkaðstengdum úrræðum. Breytingunni er ætlað að kveða skýrar á um að heimilt sé að veita styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku í starfs- eða námstengdum vinnumarkaðsúrræðum þeirra sem teljast tryggðir eða töldust tryggðir samkvæmt lögunum þegar þátttaka hófst í úrræðunum. Góður árangur hefur náðst með átakinu Nám er vinnandi vegur en með því voru 1.000 atvinnuleitendum tryggð námstengd úrræði, 700 af þeim stunda lánshæft nám en 300 fá framfærslustyrk Vinnumálastofnunar til að stunda nám. Þá hófu 1.000 ungmenni á aldrinum 18–25 ára nám í framhaldsskóla í tengslum við átakið. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að tryggja virkni atvinnuleitenda og telur þetta mikilvæga breytingu sem renni styrkari stoðum undir vinnumarkaðsúrræði Vinnumálastofnunar.
    Meiri hlutinn leggur til að við ákvæðið bætist heimild til að veita sérstaka styrki til þeirra sem teljast tryggðir samkvæmt lögunum eða eru tryggðir þegar þeir hefja þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum vegna kostnaðar sem þeir verða fyrir við að ráða sig til starfa fjarri heimili sem og við starfs- eða námstengd vinnumarkaðsúrræði. Þetta er lagt til í ljósi þess að oft hefur það reynst atvinnuleitendum erfitt að standa undir kostnaði sem getur fylgt því að taka starfi sem kallar á mikinn akstur til og frá vinnu sem og kostnaði við að þurfa að fara um langan veg í því skyni að taka þátt í vinnumarkaðsúrræði. Á þetta einkum við um svæði þar sem ekki eru almenningssamgöngur. Tilgangurinn er því að stuðla frekar að því að fólk sjái sér fært að taka þeim störfum sem í boði eru.
    Gert er ráð fyrir að styrkir vegna aksturs verði tímabundnir meðan viðkomandi starfsmaður er að festa sig í starfi. Jafnframt verði hámark sett á fjárhæð þeirra. Miðað er við að ráðherra setji nánari reglur um slíka styrki með reglugerð að fenginni tillögu stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Bótaréttur í atvinnuleysi.
    Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar getur tryggður einstaklingur að hámarki fengið atvinnuleysisbætur í 36 mánuði. Vegna efnahagshrunsins og aukins langtímaatvinnuleysis var þessi bótaréttur lengdur tímabundið í 48 mánuði út árið 2011. Í frumvarpinu er lagt til að bótaréttur einstaklings verði lengdur í 48 mánuði út árið 2012 en þó þannig að þegar einstaklingur hefur fengið bætur greiddar í samtals 42 mánuði eigi hann ekki rétt á greiðslu bóta í þrjá mánuði. Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að með þessu þriggja mánaða tímabili gæfist Vinnumálastofnun færi á að ná til þeirra einstaklinga sem hefðu verið atvinnulausir í langan tíma. Þannig yrði unnt að aðstoða þá við atvinnuleit, við að komast í nám eða starfstengd vinnumarkaðsúrræði og beina þeim í starfsendurhæfingu þyrftu þeir þess. Meiri hlutinn telur mikilvægt að ráðgjöf sé veitt en bendir á að Vinnumálastofnun hefur nú þegar tök á að ræða við þessa einstaklinga, meta stöðu þeirra og veita þeim ráðgjöf. Mæti tryggður einstaklingur ekki á boðuðum tíma til Vinnumálastofnunar eða hafni þátttöku í vinnumarkaðsúrræði missir hann bótarétt í tvo mánuði.
    Þeim sjónarmiðum var jafnframt hreyft fyrir nefndinni að mikil óvissa skapaðist um framfærslu þeirra sem verið hefðu á atvinnuleysisbótum í 42 mánuði og misstu þá þann bótarétt í þrjá mánuði. Þannig væri ekki víst að þeir ættu rétt á fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögum. Í ljósi alls þessa leggur meiri hlutinn til að ákvæði þetta falli brott en þess í stað verði ákvæði til bráðabirgða X í lögunum framlengt óbreytt enda hafi viðkomandi atvinnuleitandi í fyrsta skipti fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá og með 1. mars 2008 eða síðar.
    Breytingin felur í sér að sá sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur lengur en 36 mánuði á árinu 2012 getur áfram fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals allt að 48 mánuði fyrir árslok 2012. Með þessari breytingu er komið í veg fyrir þá óvissu sem skapast hefði um framfærslu þeirra sem verið hafa á atvinnuleysisbótum í 42 mánuði eins og frumvarpið gerði ráð fyrir, en þeir eru ríflega 2.000 talsins. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður vegna þessarar breytingar verði um 750 millj. kr. á árinu 2012 og er það mat velferðarráðuneytisins að sú fjárhæð rúmist innan fjárlaga ársins.
    Samhliða þessari breytingu leggur meiri hlutinn ríka áherslu á mikilvægi þess að efla vinnumarkaðsaðgerðir með sérstakri áherslu á starfstengd úrræði til að stuðla enn frekar að því að atvinnuleitendur fái tilboð um störf. Er þetta til samræmis við áherslur þeirra gesta sem mættu á fund nefndarinnar frá aðilum vinnumarkaðarins. Mikilvægt er að lögð verði sérstök áhersla á að virkja þá einstaklinga sem hafa samtals verið þrjú ár eða lengur án atvinnu og hefur nefndinni verið kynnt að gert er ráð fyrir að einmitt þeir atvinnuleitendur verði kallaðir í einstaklingsviðtöl hjá náms- og starfsráðgjöfum.

Átak til vinnu 2012.
    Í þessu skyni hafa stjórnvöld, sveitarfélögin og samtök aðila vinnumarkaðarins samþykkt að standa saman að fjölbreyttum og öflugum aðgerðum sem ætlað er að tryggja allt að 1.500 atvinnuleitendum starfstengd úrræði til viðbótar við þau úrræði sem í boði hafa verið. Átaki með yfirskriftinni Til vinnu verður hrint af stað þegar í byrjun árs 2012 og munu aðgerðir í þágu langtímaatvinnulausra hafa forgang. Nefndinni var kynnt að þetta verkefni eigi meðal annars rætur að rekja til tillagna samráðshóps stjórnvalda, stjórnmálaflokkanna og aðila vinnumarkaðarins um menntun og vinnumarkaðsúrræði frá 31. mars 2011. Meiri hlutinn bindur vonir við góðan árangur þess átaks, ekki síst með hliðsjón af því að með átakinu Nám er vinnandi vegur sem ráðist var í fyrr á þessu ári tókst að tryggja öllu ungu fólki að 25 ára aldri sem þess óskaði námsvist í framhaldsskólum landsins auk þess sem um 1.000 atvinnuleitendur tóku þátt í námstengdum úrræðum.
    Fyrir nefndinni kom fram að liður í þessum aðgerðum er að gert verði samkomulag um samstarf Vinnumálastofnunar og VIRK – starfsendurhæfingarsjóðs um þjónustu VIRK við atvinnuleitendur sem hafa skerta starfsgetu. Enn fremur muni Samband íslenskra sveitarfélaga beita sér fyrir því að sveitarfélögin skapi a.m.k. helming starfa eða starfstengdra úrræða innan verkefnisins en fyrirtæki á almennum vinnumarkaði skapi hinn helminginn. Í því skyni muni Samtök atvinnulífsins ráðast í sérstakt kynningarátak meðal fyrirtækja innan sinna vébanda til að ná þessu markmiði. Í ljósi þess að það er sameiginlegur ásetningur allra þessara aðila að vinna að framgreindum verkefnum af fullri einurð og festu er áætlað að markmiði fjárlaga verði náð með þessum hætti í stað þriggja mánaða biðtíma eins og frumvarpið gerir ráð fyrir sem og að líkur aukist á að draga megi úr framtíðarkostnaði vegna endurhæfingar- og örorkulífeyris.

Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra.
    Frá árinu 2006 hafa tekjur maka ekki haft áhrif á bótafjárhæðir almannatrygginga. Sambærileg breyting var gerð á útreikningi greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Vegna þeirrar reiknireglu sem viðhöfð var við útreikninginn gat sú breyting í einhverjum tilvikum orðið til þess að greiðsluþátttakan jókst frá því sem áður var og því var strax á árinu 2006 lagt til að heimilt yrði að bera saman greiðsluþátttöku samkvæmt gildandi ákvæði og fyrra ákvæði og greiða það sem lægra reyndist. Ákvæðið hefur verið framlengt árlega frá 2006 og í 6. gr. frumvarpsins er lögð til framlenging til ársloka 2012. Telur meiri hlutinn mikilvægt að greiðslufyrirkomulagið verði endurskoðað svo ekki komi til síendurtekinnar framlengingar ákvæðisins með tilheyrandi óvissu fyrir íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum um greiðsluþátttöku þeirra.

Atvinnumál fatlaðs fólks.
    Í upphafi ársins 2011 voru málefni fatlaðs fólks færð frá ríki til sveitarfélaga. Kveðið er á um það í 28. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, að Vinnumálastofnun annist framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða fyrir fatlað fólk og í 30. gr. er tiltekið að kostnaður vegna verndaðrar vinnu greiðist úr ríkissjóði. Í ákvæði til bráðabirgða V í lögunum var þó kveðið á um að kostnaður sem til félli vegna sérstakrar liðveislu á vinnustað og verndaðrar vinnu á árinu 2011 skiptist milli ríkis og sveitarfélaga í samræmi við samkomulag þeirra á milli. Starfshópur um framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks hefur verið starfandi á vegum velferðarráðherra og gert er ráð fyrir að hann skili tillögum sínum fyrir árslok 2011. Nefndinni var tjáð að ekki væri þó nægur tími til að útfæra þær tillögur og koma á framtíðarskipulagi þessara mála á þeim stutta tíma sem er til áramóta. Leggur meiri hlutinn því til að ákvæði til bráðabirgða V verði framlengt til loka næsta árs en áréttar mikilvægi þess að árið verði nýtt til að ljúka þessari vinnu.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 14. desember 2011.



Álfheiður Ingadóttir,


form., frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Lúðvík Geirsson.



Kristján L. Möller.


Valgerður Bjarnadóttir.