Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 380. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 555  —  380. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra.

Breyting á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um almannatryggingar þess efnis að frítekjumark lífeyrisþega á árinu 2012 verði það sama og á árinu 2011 og er það í samræmi við forsendur fjárlaga fyrir árið 2012. Þá er lögð til sú breyting að allar bætur almannatrygginga, meðlagsgreiðslur og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð hækki um 3,5% frá 1. janúar 2012. Auk þess hækki tekjumörk, sem greiðslur sérstakrar uppbótar vegna framfærslu miðast við, um 3,5% og er þeirri breytingu ætlað að verja hag tekjulægstu lífeyrisþeganna.
    Með þessu er vikið frá ákvæðum 69. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Þar segir að bætur almannatrygginga skuli breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skuli taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Laun á þriðja ársfjórðungi 2011 hafa hækkað um 7,7% frá þriðja ársfjórðungi 2010. Almenn verðlagsuppfærsla er 5,1% og þegar bótafjárhæðir eru ekki látnar fylgja verðlagi er verið að rýra kjör bótaþega.
    Í kjarasamningunum í maí lagði Alþýðusamband Íslands (ASÍ) mikla áherslu á jöfnun lífeyrisréttinda á vinnumarkaðnum. Náðist samkomulag um markviss skref í þeirri baráttu. Í því fólst í fyrsta lagi að mótframlög atvinnurekenda í lífeyrissjóði mundu hækka úr 8% í 11,5%. Yrði það gert í áföngum frá 2014 til 2020 auk þess sem unnið yrði að samræmingu á lífeyriskerfi allra landsmanna á sjálfbærum grunni. Í öðru lagi yrði tryggt að bætur lífeyristrygginga (og atvinnuleysisbóta) hækkuðu með hliðstæðum hætti og lægstu laun á vinnumarkaði. Í þriðja lagi að komið yrði til móts við erfiða stöðu lífeyrissjóðanna vegna fjármálahrunsins.
    Þessar áherslur endurspegluðust m.a. í viljayfirlýsingu stjórnvalda þar sem segir: „Stjórnvöld munu endurskoða bætur almannatrygginga með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga milli ASÍ og SA, þannig að lífeyrisþegar og atvinnulausir njóti hliðstæðra kjarabóta og um verður samið í kjarasamningum.“
    Í kjölfar kjarasamninganna í maí hækkaði velferðarráðherra með stuðningi ríkisstjórnar og Alþingis bætur almannatrygginga með hliðstæðum hætti og um var samið á milli ASÍ og Samtaka atvinnulífsins (SA) vegna þeirra sem eru á lægstu launum á vinnumarkaði, eða um 12.000 kr. Áform um að skipta um kúrs nú og hækka almannatryggingar og atvinnuleysisbætur einungis um 3,5% komu því eins og þruma úr heiðskíru lofti, enda hækkun á lægstu laun samkvæmt kjarasamningum 11.000 kr. ASÍ og SA hafa lýst því yfir að þau telja þetta vera skýrt brot á fyrrgreindum loforðum.
    Minni hlutinn tekur undir þá skoðun aðila vinnumarkaðarins að það sé mjög langt gengið að telja hækkun lægstu bóta hliðstæða hækkun þeirra sem eru með laun yfir 300 þús. kr. og að það leiði til þess að bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hækki um 2–3 milljörðum kr. minna en fyrirheit voru um.
    Vinnubrögð stjórnvalda eru sérstaklega ámælisverð en þau lofa ítrekað upp í ermina á sér og svíkja svo gefin loforð. Ljóst er að stjórnvöld reiknuðu ekki kostnað við kjarasamninga og viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þegar samningarnir voru undirritaðir. Þetta kemur fram í áliti meiri hluta velferðarnefndar um fjárlagafrumvarpið þar sem segir að samkvæmt „upplýsingum frá velferðarráðuneytinu reyndist ekki unnt að miða við þá lágmarkstölu þar sem hækkun hefði þá numið um 6,8% og útgjöld ríkisins orðið langt umfram áætlun“ sem og á fundum fjárlaganefndar þegar kjarasamningar voru undirritaðir í vor.
    Minni hlutinn leggst gegn samþykkt þessarar breytingar og leggur til að bæturnar hækki um 6,8% í samræmi við gefin loforð ríkisstjórnarinnar.

Breyting á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.
Samlagning starfstímabila umsækjenda um atvinnuleysisbætur sem flytjast milli aðildarríkja.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar í samræmi við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA um samlagningu starfstímabila umsækjenda um atvinnuleysisbætur sem flytjast milli aðildarríkja. Minni hlutinn leggst ekki gegn breytingunni.

Styrkir til þátttöku í starfs- og námstengdum vinnumarkaðsúrræðum og til ferða til og frá vinnustað.
    Þá eru lagðar til breytingar á ákvæði er varðar þátttöku í vinnumarkaðstengdum úrræðum. Gildandi ákvæði hefur þótt heldur þröngt hvað varðar heimild Atvinnuleysistryggingasjóðs til að koma með tillögur til ráðherra um greiðslu styrkja úr sjóðnum vegna þátttöku í vinnumarkaðsúrræði. Breytingunni er ætlað að kveða skýrar á um að heimilt sé að veita styrki úr sjóðnum vegna þátttöku í starfs- eða námstengdum vinnumarkaðsúrræðum þeirra sem teljast tryggðir eða töldust tryggðir samkvæmt lögunum þegar þátttaka hófst í úrræðunum. Meiri hluti velferðarnefndar leggur til að við ákvæðið bætist heimild til að veita sérstaka styrki til þeirra sem teljast tryggðir samkvæmt lögunum eða eru tryggðir þegar þeir hefja þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum vegna kostnaðar sem þeir verða fyrir í tengslum við að ráða sig til starfa fjarri heimili sem og í tengslum við starfs- og námstengd vinnumarkaðsúrræði. Minni hlutinn styður þá breytingartillögu meiri hlutans.

Bótaréttur í atvinnuleysi.
    Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar getur tryggður einstaklingur að hámarki fengið greiðslu atvinnuleysisbóta í 36 mánuði. Vegna efnahagshrunsins og aukins langtímaatvinnuleysis var þessi bótaréttur lengdur tímabundið í 48 mánuði út árið 2011. Í frumvarpinu er lagt til að bótaréttur einstaklings verði jafnframt lengdur í 48 mánuði út árið 2012 en þó þannig að þegar einstaklingur hefur fengið bætur greiddar í samtals 42 mánuði eigi hann ekki rétt á greiðslu bóta í þrjá mánuði. Þessar breytingar hefðu leitt til mikillar óvissu fyrir þennan hóp atvinnulausra. Alls óvíst hefði verið um stuðning við hópinn þrátt fyrir að hann yrði enn þá skráður hjá Vinnumálastofnun þar sem fjöldi ráðgjafa er engan veginn nægur. Kom fram hjá gestum nefndarinnar að um einn ráðgjafi væri fyrir 600 atvinnuleitendur, en sambærilegt hlutfall væri einn ráðgjafi fyrir 70 atvinnuleitendur í Danmörku.
    Meiri hlutinn leggur til að horfið verði frá þessari breytingu frumvarpsins en bótaréttur verði líkt og á yfirstandandi ári lengdur í 48 mánuði út árið 2012. Forsenda þess er að gripið verði til víðtækra aðgerða til að virkja þá einstaklinga sem hafa verið samtals þrjú ár eða lengur án atvinnu. Stjórnvöld, sveitarfélögin og samtök aðila vinnumarkaðarins hafa náð samkomulagi um að standa að úrvali aðgerða sem ætlað er að tryggja allt að 1.500 atvinnuleitendum starfstengd úrræði til viðbótar við þau úrræði sem í boði hafa verið. Einnig verður gert samkomulag á milli Vinnumálastofnunar og VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs um þjónustu VIRK við þá atvinnuleitendur sem hafa skerta starfsgetu. Enn fremur mun Samband íslenskra sveitarfélaga koma að verkefninu sem og félagar í SA.
    Leggst minni hlutinn ekki gegn breytingunni en leggur áherslu á að forsenda þess að árangur náist í að draga úr atvinnuleysi er að taka á skuldavanda heimila og fyrirtækja og auka þar með fjárfestingu og einkaneyslu.

Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra.
    Í 6. gr. frumvarpsins er lögð til framlenging á ákvæði í lögum um málefni aldraðra um að heimilt verði að bera saman greiðsluþátttöku samkvæmt gildandi ákvæði og fyrra ákvæði og greiða það sem lægra reynist. Leggst minni hlutinn ekki gegn samþykkt ákvæðisins.
    Minni hlutinn vekur jafnframt athygli á tillögu SA um breytingar á fyrirkomulagi atvinnuleysisbóta í samræmi við úthlutunarreglur LÍN. SA leggur þar til að svohljóðandi ákvæði verði sett í lögin: „Búi hinn tryggði hvorki í leiguhúsnæði né í eigin húsnæði skulu atvinnuleysisbætur hans skerðast um 50%. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu á eðlilegum leigugreiðslum. Heimilt er að greiða hinum tryggða allt að óskertum atvinnuleysisbótum búi hann hjá foreldrum sem hafa hvort um sig lægri tekjur en sem nemur grunnatvinnuleysisbótum. Ráðherra setur reglur um framkvæmd þessa ákvæðis að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs.“ Hingað til hafa allir atvinnulausir átt sama rétt til atvinnuleysisbóta, að vísu að hluta tekjutengdra, auk greiðslu vegna framfærslu barna og yrði því um að ræða grundvallarbreytingu á atvinnuleysistryggingum ef þessi breyting yrði innleidd.
    Minni hlutinn telur breytingartillögur meiri hlutans vera til bóta en leggst alfarið gegn því að 1. og 2. gr. frumvarpsins nái óbreyttar fram að ganga og leggur því til eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      1. gr. falli brott.
     2.      Í stað hlutfallstölunnar „3,5%“ í 2. gr. komi: 6,8%.

    Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 14. desember 2011.



Eygló Harðardóttir.