Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 355. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 563  —  355. mál.
Leiðrétting.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Í fyrirliggjandi frumvarpi eru lagðar til breytingar á lögum nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Annars vegar er um að ræða framlengingu á gildistíma I. og II. kafla laganna þar sem er að finna ákvæði um sértækar aðgerðir til að leysa úr skuldavanda einstaklinga og fyrirtækja svo og eftirlit með þeim aðgerðum. Hins vegar eru lagðar til breytingar á 2. gr. laganna til samræmis við athugasemdir eftirlitsnefndar með framkvæmd sértækrar skuldaaðlögunar.
    Í þriðju skýrslu sinni til efnahags- og viðskiptaráðherra sem kom út í september sl. gerði eftirlitsnefndin miklar athugasemdir við framkvæmd fjármálafyrirtækja á sértækri skuldaaðlögun. Athugasemdir og ábendingar eftirlitsnefndarinnar voru tilefni þess að meiri hlutinn lagði til breytingar á 2. gr. laganna. Þau fjármálafyrirtæki sem geta tekið að sér að vera umsjónaraðilar með skuldaaðlögunarferli hafa eftir framlagningu frumvarpsins gert með sér samkomulag í samræmi við ábendingar eftirlitsnefndarinnar og 1. gr. frumvarpsins og lagði meiri hlutinn því til að ákvæðið yrði fellt brott. Minni hlutinn leggst ekki gegn þeirri breytingu.
    Í skýrslu eftirlitsnefndarinnar kemur fram að einungis 675 umsóknir um greiðsluaðlögun hafa verið samþykktar en 927 umsóknir mótteknar. Þar segir að „úrræðið sé í hálfgerðum skammarkrók hjá fjármálafyrirtækjunum … Mál eru oft flókin sem veldur því e.t.v. að reynt er að beita öðrum úrræðum sem ekki krefjast samninga við aðra kröfuhafa“. Enn fremur segir að „úrræðið um sértæk skuldaaðlögun hafi ekki skilað þeim fjölda úrlausna fyrir einstaklinga og heimili sem vonast var til við setningu laganna“.
    Minni hlutinn bendir á að mjög hægt gangi í vinnslu greiðsluaðlögunarmála hjá umboðsmanni skuldara og augljóst af skýrslu eftirlitsnefndarinnar að hið sama er uppi á teningnum með sértæka skuldaaðlögun. Fá mál hafa verið samþykkt og hvorugt úrræðið hefur verið sú lausn á greiðslu- og skuldavanda heimilanna sem lofað var. Í skýrslunni er jafnframt bent á annmarka við regluverk og framkvæmd 110%-leiðarinnar og segir þar m.a. að mismunandi reglur og viðmið við útfærslu leiðarinnar hafi skapað ójafnræði meðal lántakenda sem fá mismunandi afgreiðslu eftir því hvar þeir skulda. Þau úrræði sem til staðar eru hafa því engan veginn nýst eins og vonir stóðu til.
    Í skýrslunni fjallar eftirlitsnefndin jafnframt um lánsveð. Bendir nefndin á að við útreikning á umfangi greiðslu- og skuldavanda er oft byggt á ónægum upplýsingum. Þar hafa lánsveðin nokkra sérstöðu. Bendir nefndin á að lánsveðin komi alla jafna ekki til lækkunar við 110%-leiðina sem „hefur skapað handahófskennt óréttlæti við beitingu 110% reglunnar bæði milli lánþega hjá opinberum stofnunum á borð við Íbúðalánasjóð og milli lánþega sem skipta við ólíkar stofnanir.“ Landsbankinn hafi t.a.m. afskrifað að hluta veðlán með lánsveði en Íbúðalánasjóður tekur þau ekki með þegar litið er á heildarveðlán lántaka við framkvæmd 110%-leiðarinnar. Lánsveðin hafa einnig skapað vandamál við greiðsluaðlögun einstaklinga og ef ekki er samið sérstaklega fyrir hönd þess sem lánaði veð sitt samhliða samningi til greiðsluaðlögunar getur kröfuhafi gengið að veðinu.
    Minni hlutinn telur ámælisvert hvernig lántakendur sem skulda veðlán með lánsveði hafa orðið út undan í þeim þó takmörkuðu aðgerðum sem gripið hefur verið til. Lán með lánsveði eru oftast nær veitt af lífeyrissjóðum. Samkvæmt upplýsingum úr skýrslu eftirlitsnefndarinnar má ætla að hjá lífeyrissjóðunum séu heildareftirstöðvar sjóðsfélagalána með lánsveði um 37 milljarðar kr. í árslok 2010. Sá hópur sem einkum hefur tekið lán með lánsveði eru ungar barnafjölskyldur. Mikilvægt er að grípa til aðgerða fyrir þennan hóp.
    Minni hlutinn telur að m.a. mætti skoða að tiltekinn hluti skulda heimila verði metinn sem stofn til frádráttar frá tekjuskatt. Þann 23. nóvember sl. reifaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í viðtali á Bylgjunni hugmyndir til úrlausnar á vandanum við yfirskuldsetningu, lánsveð og skort á greiðsluvilja. Þannig yrði ákveðið hlutfall tekna sem notað er í afborganir húsnæðislána skattfrjálsar í ákveðinn fjölda ára. Sett yrði hámark á skattaafsláttinn og afslátturinn nýttur til að niðurgreiða lánin enn frekar. Á móti mundu fjármálafyrirtæki leggja sitt á mörkum með því að færa niður höfuðstól lánanna enn frekar. Þessi aðferð gæti líka komið til móts við þann hóp sem hefur gert sitt besta til að standa í skilum, þrátt fyrir að hafa tapað stórum hluta af eigin fé í fasteignum sínum. Ólafur Kr. Valdimarsson reifaði sambærilega aðferð í grein sinni Lánsveðin – raunhæf lausn í Morgunblaðinu 7. desember sl. Bendir hann á að þessi lausn byggist á „sömu samfélags- og jafnaðarhugsun og liggur að baki uppbyggingu tekjuskattskerfis okkar, en þar krefjumst við lægra hlutfalls í skatta af lágum launum“. Með því að fara þessa leið mætti „leiðrétta skuldastöðu þessa hóps án þess að stofna til beins kostnaðar hjá þriðja aðila. Leiðin er fjármögnuð með launum þeirra sjálfra. Þarna væri einnig komið í veg fyrir fjölda gjaldþrota þar sem gengið yrði að lánsveðum sem oft eru hjá öldruðum foreldrum“. Þessi aðferð gæti líka komið til móts við aðra skuldara sem eru enn með meira en 110% skuldsetningu á eignum sínum, þrátt fyrir að hafa farið í gegnum 110% leiðina.
    Hægt væri að miða við svipaðan skattaafslátt og hefur verið vegna framlags í séreignasparnað.
    Umfangsmikið getur reynst að útfæra tillöguna. Því leggur minni hlutinn til að skipaður verði starfshópur með fulltrúum allra þingflokka og sérfræðingum til að skoða útfærslu á því hvernig nýta megi skattkerfið til að koma til móts við skuldsett heimili. Minni hlutinn leggst að öðru leyti ekki gegn framgangi málsins en vekur athygli á að sorglegt er að helsta nytsemi laga nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins hafi reynst vera eftirlitsnefndin sjálf. Minni hlutinn leggur til eftirfarandi

BREYTINGU:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Á eftir 2. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ráðherra skal við gildistöku laga þessara skipa starfshóp með fulltrúum allra þingflokka og sérfræðingum. Starfshópurinn skal skoða mögulegar útfærslur á því að tiltekinn hluti skulda heimila verði metinn sem stofn til frádráttar frá tekjuskatti. Hópurinn skal skila ráðherra fyrstu tillögum sínum og drögum að lagabreytingum eftir því sem efni standa til en þó eigi síðar en 1. mars 2012. Ráðherra skal eigi síðar en 1. apríl 2012 leggja fram frumvarp til breytinganna fyrir Alþingi.

Alþingi, 14. desember 2011.
Eygló Harðardóttir.