Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 368. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 570  —  368. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (áhættustýring, vikmörk milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga, starfsendurhæfingarsjóður, hæfi stjórnarmanna og sérstök vaxtaniðurgreiðsla).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur, Hafdísi Ólafsdóttur og Lilju Sturludóttur frá fjármálaráðuneyti, Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Stefán Baldursson frá Bandalagi háskólamanna, Elínu Björgu Jónsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Þóreyju Þórðardóttur frá Landssamtökum lífeyrissjóða ásamt Hrafni Bragasyni og Kristjáni Geir Péturssyni frá úttektarnefnd landssamtakanna og Halldóru E. Ólafsdóttur og Gunnar Þór Ásgeirsson frá Fjármálaeftirlitinu. Þá hafa borist umsagnir frá Fjármálaeftirlitinu og Samtökum atvinnulífsins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Tvær af þremur greinum frumvarpsins lúta að breytingum á bráðabirgðaákvæðum þeirra laga.
    Lagt er til í 2. gr. frumvarpsins að bráðabirgðaheimild lífeyrissjóða til að viðhalda 15% vikmörkum milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga, í stað 10% eins og fram kemur í meginreglu 2. mgr. 39. gr. laganna, lækki í þrepum á næstu þremur árum uns áskilnaði meginreglunnar verður fullnægt á árinu 2014. Umrædd bráðabirgðaheimild var lögfest með lögum nr. 171/2008 og við umfjöllun efnahags- og skattanefndar um málið komu fram áhyggjur af því að samfara heimildinni yrði því frestað að taka á vanda sjóðanna, á kostnað sjóðfélaga sem greiða núna í þá en til hagsbóta fyrir þá sem nú þiggja lífeyri.
    Í umsögn Fjármálaeftirlitsins sem efnahags- og viðskiptanefnd barst við meðferð málsins kemur fram að þrír af fjórum sjóðum sem voru með neikvæða tryggingafræðilega stöðu yfir 10% í lok árs 2010 hafi enn ekki tekið á vandanum og þar af væru tveir sjóðir með föst réttindi. Efasemdir komu einnig fram af hálfu eftirlitsins um að þörf væri á þriggja ára aðlögunartímabili eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Í 2. efnismgr. 2. gr. frumvarpsins er hnykkt á því að þegar metið er hvort lífeyrissjóður falli undir 2. málsl. 2. mgr. 39. gr. laganna skuli miða við 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga árin 2011, 2012 og 2013 en í núverandi bráðabirgðaákvæði er einvörðungu vísað til ársins 2010.
    Í a-lið 3. gr. frumvarpsins er lagt til að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lögin sem leysi af hólmi ákvæði til bráðabirgða X í lögunum sem varðar skyldu allra launagreiðenda og lífeyrissjóða til greiðslu 0,13% iðgjalds til VIRK, starfsendurhæfingarsjóðs. Ákvæði til bráðabirgða X fellur úr gildi um næstu áramót og þar sem sérstök samráðsnefnd stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem komið var á fót á grundvelli ákvæðisins hefur ekki lokið störfum gerir tillaga frumvarpsins ráð fyrir að greiðsluskyldu lífeyrissjóða verði frestað um sex mánuði. Greiðsluskylda launagreiðanda framlengist um sama tíma. Samráðsnefndinni var ætlað að ljúka störfum í september síðastliðnum en þar sem það tókst ekki er gert ráð fyrir að skipunartími hennar standi til 1. febrúar og að velferðarráðherra leggi síðan fram frumvarp um starfsendurhæfingarsjóðinn á vorþingi.
    Til skýringar á 2. málsl. 4. gr. frumvarpsins sem varðar gildistökutímabil a-liðar 3. gr. vísast til álits meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem birt var þegar gildandi ákvæði til bráðabirgða X var lögfest, sbr. lög nr. 73/2011. Að fengnum athugasemdum aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóða sem fram komu á fundum nefndarinnar er að höfðu samráði við fjármálaráðuneytið lagt til nýtt orðalag á 2. málsl. 1. mgr. a-liðar 3. gr.
    Í c-lið 3. gr. er gerð tillaga um tímabundinn skatt á lífeyrissjóði sem reikna á sem tiltekið hlutfall af hreinni eign lífeyrissjóðanna. Um þennan þátt málsins hefur efnahags- og viðskiptanefnd fjallað í tengslum við ráðstafanir í ríkisfjármálum sem lagðar eru til í samræmi við forsendur fjárlaga næsta árs og vísast því til þeirra álita er gefin hafa verið út í tengslum við það frumvarp (195. mál). Í ljósi framkominnar gagnrýni hafa forsætisráðherra og fjármálaráðherra sent forseta Alþýðusambands Íslands og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins bréf sem lýsir fyrirætlunum stjórnvalda í framhaldi af þessari lagasetningu og fylgir það áliti þessu.
    Í áliti meiri hlutans í 195. máli er athygli vakin á því að umrætt ákvæði varðar breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða en ekki tekjuskattslög eins og lagt var til þegar sambærileg tillaga kom fram í tengslum við afgreiðslu laga nr. 73/2011. Því er lögð til viðbót við c-lið 3. gr. þess efnis að um álagningu og innheimtu fari samkvæmt ákvæðum tekjuskattslaga eftir því sem við á.
    Í b-lið 3. gr. frumvarpsins er lögð til tímabundin undanþága frá hæfisskilyrðum 1. málsl. 2. mgr. 31. gr. þar sem segir að stjórnarmenn í lífeyrissjóðum megi ekki eiga sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila eða aðila í nánum tengslum við hann. Skilyrðið var lögfest með lögum nr. 122/2011 og öðlaðist þegar gildi en hér er lagt til að sjóðunum verði veittur aðlögunartími fram til 1. júlí 2012.
    Loks er lagt til í 1. gr. að lagt verði í hendur stjórna lífeyrissjóða að móta eftirlitskerfi sem geri þeim kleift að greina, vakta, meta og stýra áhættu í starfsemi sjóðanna. Fjármálaeftirlitið taldi að skýringar við greinina sem birtast í athugasemdum væru ófullnægjandi og eðlilegt væri að skýra greinina með hliðsjón af 1. mgr. 17. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Telur eftirlitið þörf á að settar verði samræmdar reglur um framkvæmd áhættustýringar til lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja og lagt er til að ráðuneytið taki þau mál til frekari skoðunar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      2. málsl. 1. mgr. a-liðar 3. gr. orðist svo: Fyrsta greiðslan skal reiknuð af iðgjaldsstofni júlímánaðar 2012.
     2.      Við c-lið 3. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um álagningu og innheimtu fer samkvæmt ákvæðum X.–XIII. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eftir því sem við á.

Alþingi, 15. desember 2011.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Þráinn Bertelsson.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.



Magnús Orri Schram.


Skúli Helgason.

Fylgiskjal.

Bréf frá forsætisráðherra og fjármálaráðherra
til forseta ASÍ og framkvæmdastjóra SA.

(13. desember 2011.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.