Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 370. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 571  —  370. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Gunnarsson frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Gunnar Andersen, Ingibjörgu Sigrúnu Stefánsdóttur, Ragnar Hafliðason og Þorstein Marinósson frá Fjármálaeftirlitinu, Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Guðjón Rúnarsson og Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Stefán Árna Auðólfsson fyrir hönd samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila.
    Efnahags- og viðskiptaráðherra leggur árlega fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Til grundvallar frumvarpinu liggur skýrsla Fjármálaeftirlitsins um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs, athugun efnahags- og viðskiptaráðherra á henni og álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila, sbr. 2. gr. laganna. Meginefni frumvarpsins varðar hækkun á hundraðshlutum eftirlitsgjalds og á fastagjaldi sem lagt er á eftirlitsskylda aðila til að standa undir rekstrinum en í athugasemdum er gerð grein fyrir helstu kostnaðarliðum.
    Í 1. gr. frumvarpsins eru lögð til breytt álagningarhlutföll á einstakar tegundir eftirlitsskyldra aðila. Kveðið er á um hækkun álagningarhlutfalla allra eftirlitsskyldra aðila, að undanskildum vátryggingafélögum, vátryggingamiðlurum og verðbréfamiðstöðvum sem lækka lítillega.
    Álagningarhlutfall lífeyrissjóða hækkar úr 0,0111% í 0,01174% auk þess sem fastagjöld lífeyrissjóða hækka en þau eru í fimm þrepum. Miðað er við að hlutur fastagjalda verði um 60% af heildarálagningu eftirlitsgjalds á lífeyrissjóði líkt og verið hefur frá og með árinu 2007 og það er í samræmi við óskir Landssamtaka lífeyrissjóða þar að lútandi.
    Gert er ráð fyrir hækkun fastagjalda sem hafa staðið óbreytt frá því að þau voru fyrst lögfest og nemur hækkunin verðlagshækkunum frá því að ákvæði um þau gjöld voru lögfest. Má hér nefna fastagjöld á aðila með innheimtuleyfi og fastagjöld á erlenda vörsluaðila séreignarsparnaðar sem hafa fengið staðfestingu fjármálaráðuneytis á reglum um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað. Þá er lögð til hækkun fastagjalda á útgefendur hlutabréfa og útgefendur skuldabréfa.
    Lagðar eru til breytingar sem lúta að því að hækka fastagjöld fjármálafyrirtækja sem er stýrt af skilanefnd, slitastjórn eða bráðabirgðastjórn samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hefur starfsleyfi eða takmarkað starfsleyfi, eða hvort starfsleyfi fyrirtækisins hefur verið afturkallað. Eftirlitsgjaldi á þessa aðila er ætlað að standa undir kostnaði við rannsóknarvinnu sem tengist bankahruninu og því hlutverki sem Fjármálaeftirlitinu er ætlað gagnvart föllnum fjármálafyrirtækjum.
    Í frumvarpinu er eftirlitsgjald ársins 2012 áætlað 2.002 millj. kr. og nemur hækkun frá upphaflegri áætlun yfirstandandi árs 383 millj. kr., eða um 24%.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á 1. gr. frumvarpsins í þá veru að álagt eftirlitsgjald árið 2012 verði 1.887 millj. kr. og nemur hækkun frá fyrra ári því 16,6% í stað 24% eins og upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Breytingartillaga þessi byggist á endurskoðaðri áætlun Fjármálaeftirlitsins sem stofnunin gerði eftir að farið var yfir málið í ráðherranefnd um ríkisfjármál og samkvæmt beiðni efnahags- og viðskiptaráðherra til Fjármálaeftirlitsins.
    Þá er í breytingartillögum meiri hlutans að finna tvenns konar efnislegar breytingar.
    Tilefni þeirrar fyrri er að 1. nóvember 2011 öðluðust lög um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði gildi. Samkvæmt þeim falla fagfjárfestasjóðir undir ákveðið lágmarkseftirlit Fjármálaeftirlitsins. Þessir sjóðir geta verið reknir af rekstrarfélögum og öðrum aðilum. Fjármálaeftirlitinu er þó ætlað nokkuð minna eftirlitshlutverk gagnvart fagfjárfestasjóðum en öðrum sjóðum í rekstri rekstrarfélaga, þ.e. verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum. Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til viðbót við 6. tölul. 1. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins í þá veru að fagfjárfestasjóðir greiði 0,025% af hreinni eign viðkomandi sjóðs í eftirlitsgjald en þó aldrei lægri fjárhæð en 300.000 kr.
    Tilefni þeirrar síðari er að 1. desember 2011 öðluðust lög um greiðsluþjónustu gildi en samkvæmt þeim heyra greiðslustofnanir undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Lagt er til að eftirlitsgjald á greiðslustofnanir verði það sama og á sparisjóði, lánafyrirtæki og rafeyrisfyrirtæki.
    Í skýringum við breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar sem lagðar voru fram við 3. umræðu fjárlagafrumvarps fyrir 2012 var því beint til efnahags- og viðskiptaráðherra að fram færi óháð mat á starfsemi Fjármálaeftirlitsins með hliðsjón af vaxandi umfangi starfseminnar á liðnum árum. Einnig skal á það bent að í tillögu þingmannanefndar sem falið var að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var lagt til að gerð yrði stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands og að á grundvelli hennar yrðu metnir kostir og gallar þess að sameina starfsemi þessara stofnana í þeim tilgangi að tryggja heildarsýn yfir kerfisáhættu, fjármálalegan stöðugleika og ábyrgð á samræmingu viðbragða.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 14. desember 2011.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Magnús Orri Schram.



Skúli Helgason.


Björn Valur Gíslason.