Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 407. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 587  —  407. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda
og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (eignarhald
lífeyrissjóða og lýðræði í lífeyrissjóðum).

Flm.: Pétur H. Blöndal, Birgitta Jónsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson,
Kristján Þór Júlíusson, Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari,
Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir.


1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lífeyrissjóður er eign sjóðfélaga sinna. Innstæða eða réttindi samkvæmt samningi um tryggingavernd eru eign rétthafa.

2. gr.

    Á eftir orðinu „sjóðfélaga“ í fyrri málslið 2. mgr. 18. gr. laganna kemur: sem og hlutdeild hans í hreinni eign til greiðslu lífeyris.

3. gr.

    Við VI. kafla laganna bætist ný grein, 28. gr. a, svohljóðandi:
    Félagsfundur fer með æðsta vald í málefnum lífeyrissjóðs. Heimild til að sitja félagsfund hafa sjóðfélagar eða umboðsmenn þeirra. Stjórn lífeyrissjóðs boðar til félagsfundar í samræmi við samþykktir sjóðsins og ber henni að boða til félagsfundar innan viku ef sjóðfélagar með 1/ 10atkvæðavægi eða endurskoðendur sjóðsins krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni.
    Atkvæðisréttur sjóðfélaga á félagsfundi fer eftir áunnum og framreiknuðum iðgjöldum þeirra eftir nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins. Sjóðfélagi getur veitt öðrum skriflegt umboð til þess að fara með atkvæði sitt á félagsfundi. Slíkt umboð gildir aldrei lengur en tvö ár og má afturkalla það hvenær sem er.
    Aðila sem ber beina ábyrgð á skuldbindingum lífeyrissjóðs eða ábyrgð á breytilegu iðgjaldi til hans er þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. heimilt að fara með meiri hluta atkvæða á félagsfundi sjóðsins og við stjórnarkjör skv. 5. mgr. samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins.
    Ársfundur skal haldinn eigi síðar en að loknum fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs. Í fundarboði skal auglýst eftir framboðum til stjórnar og gefa tveggja vikna frest til að lýsa yfir framboði. Á ársfundi skal taka fyrir skýrslu stjórnar, ársreikninga, tryggingafræðilega úttekt, fjárfestingarstefnu, laun stjórnar og tillögu stjórnar um breytingar á samþykktum sjóðsins. Boða skal til ársfundar með dagskrá í auglýsingu í fjölmiðlum og á heimasíðu sjóðsins með minnst fjögurra vikna og mest sjö vikna fyrirvara.
    Stjórn sjóðsins skal kosin beint á ársfundi eða með almennri leynilegri póstatkvæðagreiðslu fyrir ársfund. Enn fremur er heimilt að kveða á um rafræna kosningu til stjórnar í samþykktum sjóðsins.

4. gr.

    30. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2012.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Breytingarnar miða að því að árétta hverjir eigi lífeyrissjóð og veita félögum sjóða færi á að koma að stjórn þeirra, þ.e. auka lýðræði í lífeyrissjóðunum.

Kynslóðasamningurinn og upphaf lífeyriskerfa.
    Kynslóðasamningurinn er hugtak sem lýsir þeim grunnsannindum að það er alltaf sá hluti samfélagsins sem er á vinnumarkaði sem ber uppi framfærslu barna, öryrkja, munaðarlausra og aldraðra þó að byrðunum sé dreift á ýmsan hátt. Nafnið kemur til af því að ein kynslóð segir við næstu kynslóð: „Ég skal annast þig á meðan þú getur ekki séð fyrir þér sjálf ef þú lofar að annast mig þegar ég get það ekki lengur“. Hjá frumstæðum þjóðfélögum og fyrr á öldum gerðist þetta í stórfjölskyldunni þar sem börn, aldraðir og fatlaðir fengu skjól. Einnig var í gildi óskráð regla um húsbóndaábyrgð. Hún fólst í því að bóndi gat ekki rekið hjú út á gaddinn sem hafði starfað hjá honum alla starfsævina þegar það gat ekki unnið lengur. Hann varð að sjá því farborða til æviloka.
    Iðnbyltingin raskaði þessu kerfi og mikil eymd fylgdi í kjölfarið og félagslegt óöryggi þegar unga fólkið flutti til borganna, fjölskyldurnar minnkuðu og unga fólkið gat ekki efnt kynslóðasamninginn við foreldra sína og bændur gátu ekki efnt húsbóndaábyrgð sína vegna eigin örbirgðar. Undirstaða þessa kerfis var fjölskyldan sem eins og nafnið bendir til hafði fjölbreyttar óskrifaðar reglur um skyldur og réttindi. Og hefur enn þótt eitthvað hafi skyldunum fækkað.
    Mikill félagslegur órói í kjölfar iðnbyltingarinnar leiddi til stofnunar fyrsta lífeyriskerfisins í Þýskalandi, sem Bismarck stóð fyrir. Þetta kerfi er fyrirmynd þeirra kerfa sem síðan voru stofnuð. Fyrstu kerfin voru gegnumstreymiskerfi þar sem iðgjaldið eða skatturinn var notað viðstöðulítið til að greiða lífeyri. Iðgjaldið greiddu sjóðfélagar í anda kynslóðasamningsins (vinnandi borguðu, aldraðir fengu). Atvinnurekendur greiddu einnig til kerfisins og keyptu sig þannig undan húsbóndaábyrgðinni. Seinna fóru að myndast lífeyriskerfi sem ekki gátu stuðst við tryggingar ríkisins og byggðust þess vegna á söfnun. Þau kerfi eru í raun ekki útfærsla á kynslóðasamningnum því þar borgar hver sjóðfélagi að meðaltali fyrir sig. Hér greiddu atvinnurekendur iðgjald með sama rökstuðningi og fyrr, að þeir væru að tryggja sig fyrir húsbóndaábyrgðinni.

Ágrip af sögu lífeyrissjóða.
    Fyrstu lífeyrissjóðurinn hér á landi var Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins sem var stofnaður 1921 en á rætur allt aftur til 1851 og var upphaflega fjármagnaður með sköttum. Tvö einkafyrirtæki stofnuðu lífeyrissjóði. Annar var Lífeyrissjóður Sjóvár stofnaður 1934 og hinn var lífeyrissjóður KEA á Akureyri stofnaður 1937. Seinna, árið 1956, var Lífeyrissjóður verslunarmanna stofnaður. Í kjarasamningunum 1969 var samið um stofnun almennu lífeyrissjóðanna. Allir þessir lífeyrissjóðir byggðust fræðilega séð á söfnun. Stjórnun þeirra var þannig háttað að stéttarfélög höfðu í byrjun jafnmarga eða fleiri stjórnarmenn en launamenn og byggðist það á fyrrgreindri húsbóndaábyrgð og því að fyrstu sjóðirnir urðu til að frumkvæði fyrirtækja.
    Eftir samningana 1969 hafa stjórnir lífeyrissjóðanna almennt verið skipaðar til helminga af Samtökum atvinnulífsins f.h. launagreiðenda og af viðkomandi stéttarfélagi en án aðkomu hins almenna sjóðfélaga sem er þó ásamt launagreiðanda sínum skyldaður til að greiða í „lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps“ eins og stóð í lögum frá 1974.

Húsbóndaábyrgðin – iðgjald launagreiðanda.
    Segja má að aðild launagreiðenda að stjórnun lífeyrissjóða hafi verið réttmæt því að lífeyrissjóðirnir greiða tekjuháðan lífeyri vegna örorku og elli og ómegðar við ótímabæran dauða og er þannig komið til móts við húsbóndaábyrgðina. Það skýrir líka hvers vegna launagreiðendur greiða hluta iðgjaldsins, fyrst 6% af 10% og núna 8% af 12% (almennu sjóðirnir). Þetta er þó að vissu leyti feluleikur til þess að launþeginn verði síður var við byrðarnar af þessari tryggingu. Það var auðveldara að láta launagreiðendur bera hækkun iðgjalds um 2% (1% vegna aukinnar örorkubyrði og 1% vegna aukins langlífis) en launþega. En í raun mætti hækka laun allra launþega um iðgjald launagreiðanda til lífeyrissjóðs og ekkert breyttist, launagreiðandinn stæði eins og launþeginn fengi sömu krónutölu greidda út. En hann sæi allt iðgjaldið til lífeyrissjóðsins á launaseðlinum og áttaði sig enn betur á þeim fjármunum sem renna til lífeyrissjóðanna og færi kannski að gera kröfu til að fylgjast með þeim fjármunum. Ef miðgildi heildarlauna í landinu, um 400.000 kr. á mánuði, er tekið sem dæmi greiðir launþegi með slíkar tekjur 4% eða 16.000 kr. en launagreiðandi greiðir 8% eða 32.000 kr., hvort tveggja skattfrjálst. Ef launin yrðu hækkuð um iðgjald launagreiðandans, 8%, mundi miðgildi heildarlauna hækka í 432.000 kr. og launþeginn greiða 48.000 kr. í iðgjald til lífeyrissjóðs sem er 11,111% af 432.000 kr. Þannig myndu laun í landinu hækka um 8%, launþeginn mundi greiða allt iðgjaldið, sem lækkaði í 11,11% (tekið af hærri upphæð) og ekkert breyttist.

Húsbóndaábyrgðin – stjórnarseta.
    Launagreiðendur hafa ávallt tilnefnt fulltrúa til setu í stjórnum lífeyrissjóða og á það sér sögulegar skýringar, eins og rakið er hér að framan, og grundvallaðist í upphafi á húsbóndaábyrgðinni sem var bæði nauðsynleg og virk í upphafi. Mikil breyting hefur orðið á húsbóndaábyrgðinni og framfærsluskyldu almennt. Framfærsluskyldan er að mestu komin yfir til opinberra aðila og hvílir meginþunginn á sveitarfélögum en nokkur hluti á ríkinu. Framfærsluskylda fjölskyldunnar er að mestu horfin en samt hefur hún enn skyldu til þrautavara, þegar reglur hins opinbera bregðast. Fáum dettur í hug að launagreiðandi hafi skyldu til að framfæra fyrrverandi starfsmann sinn, hvort sem hann hefur hætt störfum sökum aldurs eða vegna örorku. Þannig hefur hin forna húsbóndaábyrgð flust yfir til Tryggingastofnunar ríkisins, lífeyrissjóða og félagsþjónustu sveitarfélaga. Um leið hvarf ástæðan fyrir því að launagreiðendur eigi sæti í stjórn lífeyrissjóða. Réttindi lífeyrissjóðanna eru algerlega bundin lífi og heilsu launþegans og ekkert tengir þau við launagreiðandann.
    Enn eimir eftir af húsbóndaábyrgðinni í veikindatilfellum og þá sérstaklega slysatilfellum. Í kjarasamningum eru ákvæði um að launagreiðandi greiði laun í einhvern tíma ef starfsmaður slasast eða veikist. Einnig eru ákvæði um að ráðningarsamband rofni ekki. Sjúkrasjóðir taka við að greiða þegar greiðslu samkvæmt kjarasamningi lýkur samkvæmt lögum nr. 55/1980. Þeir starfa á vegum stéttarfélaga sem ein tilnefna stjórnir þeirra þó að launagreiðendur greiði allt framlagið, minnst 1% af launum starfsmanna, sbr. 7. gr. laga nr. 19/1979. Hér ætti þó húsbóndaábyrgðin að vera ríkari því að bæturnar eru nær tjónstilfellinu. Engin lagaákvæði eru um starfsemi sjúkrasjóða þó að þeir séu mjög veigamikill þáttur í velferðarkerfinu.
    Í skaðabótalögum, nr. 50/1993, er einnig kveðið á um skyldu launagreiðanda til að greiða bætur ef slys eða veikindi stafa af atvikum sem hann ber ábyrgð á. Þar er skilið á milli tjónþola og tjónvalds með eingreiðslu.

Hvati að stofnun almennu lífeyrissjóðanna.
    Hvati að stofnun hinna almennu lífeyrissjóða var ekki endilega þörf fyrir lífeyri heldur langvarandi skortur á lánum. Menn vildu skapa launamanninum möguleika á láni hjá lífeyrissjóðnum sínum. Þessi skortur á lánamöguleikum stafaði af áratugalangri stefnu Seðlabankans að halda innlánsvöxtum undir verðlagi þannig að sparifjáreigendur töpuðu sífellt en skuldarar högnuðust. Eftirspurn eftir lánum var takmarkalítil og bankar lánuðu til ákveðinna atvinnugreina eða hópa. Búnaðar-, Útvegs-, Iðnaðar-, Verzlunar- og Alþýðubankinn. Nöfnin segja sína sögu. Innlendur sparnaður hvarf, bæði vegna þess að hann brann upp og einnig vegna þess að skynsamir menn hættu að spara. Þetta hafði þau áhrif að allir lífeyrissjóðir, sem ekki höfðu baktryggingu ríkis eða sveitarfélaga, voru gjaldþrota um árið 1980. Þess vegna var verðtryggingin tekin upp sem neyðarráðstöfun en í kjölfarið styrktust lífeyrissjóðirnir og eru nú með sterkari sjóðum í heimi. Það hefur þó ekki verið án fórna. Í þessu umhverfi voru almennu sjóðirnir stofnaðir.

Efnahagslegt vægi lífeyrissjóðanna.
    Eignir lífeyrissjóðanna eru núna um 2.000 milljarðar kr. eða 17 millj. kr. á hverja fjölskyldu í landinu og þeir greiða um 70 milljarða kr. í lífeyri árlega. Til samanburðar greiðir Tryggingastofnun árlega um 50 milljarða kr. Efnahagslegur kraftur lífeyrissjóðanna í atvinnulífinu er afgerandi, sérstaklega eftir hrun. Miklu varðar að stjórnir sjóðanna hafi skýrt umboð og skýra ábyrgð gagnvart þeim, sem eiga réttindin sem féð á að tryggja. Þannig er komið í veg fyrir áhættutöku og önnur sjónarmið en örugga ráðstöfun fjár sjóðfélaga. Samtvinnun lífeyrissjóða og banka og þátttaka í útrásinni er ekki gott dæmi um varkára ráðstöfun fjár sjóðfélaga, sem skiptir þá öllu þegar reynir á réttindin við örorku, elli eða dauða.
    Lífeyrissjóðirnir urðu fyrir miklu áfalli við hrunið vegna tapaðra hlutabréfa og skuldabréfa en þeir töpuðu líka, eins og sparifjáreigendur, þar sem krónan féll í verði, t.d. gagnvart evru (90/160) eða dollar (65/115) um 44% og mæld í evrum er eign þeirra, sem birt er í krónum, sem þessu nemur minna virði. Þess vegna er tap sjóðanna miklu meira en sýnist og njóta þeir þó erlendra eigna sinna, sem héldu verðgildi sínu að miklu leyti, og verðtryggingar sem hækkaði þó minna en gengið (280/380). Litlar breytingar hafa verið í stjórnun lífeyrissjóða þrátt fyrir þetta áfall og er því mikilvægt að þeir sem hafa beina hagsmuni af ávöxtun þessa fjár, þeir sem eiga réttindin sem fénu er ætlað að tryggja, þ.e. sjóðfélagarnir, komi beint að kosningu stjórna lífeyrissjóða. Það leiðir líka til ábyrgari stjórnunar og ráðstöfun fjár, þegar stjórnin þarf að svara sjóðfélögunum, eigendunum, einu sinni á ári fyrir aðgerðir sínar. Það leiðir svo aftur til betri arðsemi fyrir atvinnulífið í heild. Þess vegna er þetta frumvarp svo mikilvægt en jafnframt mun það rekast á mikla hagsmuni þeirra sem nú skipa fólk í stjórn.

Hagsmunir heimilanna.
    Undanfarið hefur átt sér stað undarleg umræða. Hart hefur verið deilt á verðtrygginguna, sem á sínum tíma byggði upp lífeyrissjóðina og veikan frjálsan sparnað. Þó eru um 80% af innlánum á reikningum sem njóta óverðtryggðra innlánsvaxta sem um þessar mundir ná ekki verðbólgu og eru þó skattlagðir. Að auki hefur verið hart deilt á lífeyrissjóðina og þeir kallaðir fjármagnseigendur. Eins hér hefur verið rakið stendur þvingaður sparnaður, fjármagn, lífeyrissjóðanna til tryggingar þeim réttindum, sem sjóðfélagar, þ.e. heimilin, eiga. Nákvæmlega eins og hlutafé er réttur til að fá, hugsanlega, arð og kjósa stjórn eru réttindi sjóðfélaganna eign þeirra. Þau eru meira að segja nákvæmar skilgreind en réttur hluthafa. Þess vegna er það sérhver sjóðfélagi sem er fjármagnseigandi.
    Þegar rætt er um fjárhagslega hagsmuni heimilanna ætti umræðan því fyrst og síðast að snúast um lífeyrissjóðina og hvernig unnt er að standa vörð um þann sparnað. Ef eign lífeyrissjóðanna 2.000 milljörðum kr. (400 milljarða kr. kröfu B-deildar LSR sleppt) er deilt á 120 þúsund heimili í landinu er meðaleign hvers heimilis um 17 millj. kr. Þessi eign kemur hvergi fram og það er einmitt tilgangur þessa frumvarps að sjóðfélagi verði veittar upplýsingar um verðmæti þessara réttinda og þeirra eignar sem stendur að baki henni. Þá kann skilningur fólks á gildi lífeyrissjóðsins síns að vaxa og jafnframt ósk um að hafa áhrif á hverjir stjórna og ráðstafa því mikla fé og hagsmunum sjóðfélaga, þ.e. heimilanna.
    Í umræðunni hefur því verið slegið fram að hver maður eigi að reka sinn eigin lífeyrissjóð og einnig að eignin ætti að erfast eins og séreign. Því fyrra er auðvelt að svara því að slíkt kerfi hentar þeim sem vita fyrir fram hvort þeir verða öryrkjar og hvenær þeir muni deyja. Það er einmitt gegn óvissunni um þessa þætti sem lífeyrissjóðirnir tryggja. Maður sem verður öryrki 35 ára og er einungis búin að greiða í lífeyrissjóð 10 ár, alls 1,2 árslaun, fær hugsanlega lífeyri í 50 ár, hálfa öld, og fær því miklu meira greitt út en hann greiddi inn enda eru sjóðfélagar tryggðir fyrir slíku áfalli. Sama er með einstakling sem nær 100 ára aldri og fær lífeyri í 33 ár. Lífeyrissjóðirnir eru reiknaðir þannig að eignir þeirra nægi til að greiða þessa skuldbindingu og er þá miðað við að iðgjöldin nái 3,5% viðmiðunarávöxtun sem rædd verður hér á eftir. Ef inneignin, ef einhver er, er greidd til erfingja við dauða þá þýðir það ekkert annað en aukakostnað sem kæmi sem hærra iðgjald eða lægri lífeyri.

Hættur sem steðja að lífeyrissjóðunum.
    Í fylgiskjali er lýsing á viðmiðunarvöxtum lífeyrissjóðanna, sem eru 3,5% ,og hvað þurfi að hækka iðgjald, lækka réttindi eða hækka ellilífeyrisaldur mikið ef þessi viðmiðun næst ekki. Það þarf mjög öflugt atvinnulíf og mikil tækifæri til að ná slíkri ávöxtun örugglega en hún tvöfaldar raungildi sparnaðar á 20 ára fresti. Margt bendir til þess að þessi viðmiðun muni ekki nást á næstu árum og áratugum. Þá verða menn að bregðast hratt við vandanum og gera eitt af þessu þrennu eða blöndu af öllu eins óvinsælt og það verður. Þá er mikilvægt að fólkið átti sig á samhengi hlutanna og taki þátt í þeim aðgerðum og vinni ekki á móti lífeyrissjóðunum.
    Önnur ógn, sem steðjar að lífeyrissjóðunum er framfærsluuppbótin sem var tekin upp með reglugerð í september 2008 en var síðar sett ákvæði um í lög um félagslega aðstoð. Hún gerir það að verkum að einstaklingur sem er búin að borga áratugum saman í lífeyrissjóð og fær 70.000 kr. á mánuði í ellilífeyri frá sjóðnum sínum, er skertur svo mikið hjá Tryggingastofnun ríkisins, að hann er engu betur settur en annar einstaklingur, sem kom sér hjá því að greiða í lífeyrissjóð. Þetta er ekki beint hvati fyrir fólk til að greiða í lífeyrissjóð og er getur haft alvarleg áhrif á vilja fólks til að gera það. Reyndar hefur dregist úr hömlu að tengja með skynsamlegum hætti tekjutengdan lífeyri frá lífeyrissjóðunum og ótekjutengdan lífeyri frá Tryggingastofnun. Er nú verið að vinna að lausn á því vandamáli.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 1. gr. laganna þar sem kveðið verði á um að lífeyrissjóðir séu eign sjóðfélaga. Hér er undirstrikað að réttindin, sem sjóðfélaginn á hjá lífeyrissjóðnum sínum, eru eign hans. Sú eign er tengd þeim réttindum, sem nánar er kveðið á um í reglugerðum lífeyrissjóðsins og tengjast lífi og heilsu sjóðfélagans. Hún getur horfið ef sjóðfélaginn fellur frá og hvorki maki né börn eiga rétt til lífeyris. Hún getur líka aukist ef sjóðfélaginn verður öryrki eða ef hann verður mjög langlífur.

Um 2. gr.


    Í 2. gr. er lögð til viðbót við 2. mgr. 18. gr. laganna í þá veru að sjóðfélagi fái upplýsingar um hlutdeild hans í hreinni eign til greiðslu lífeyris, samtímis því að hann fær upplýsingar um önnur atriði sem tilgreind eru í sömu grein. Með þessu er lagt til að sjóðfélagar fái upplýsingar um virði réttinda sinna og þeir fái tilfinningu fyrir þessar eign sinni, sem oft er meira virði en aðrar eignir, eins og íbúð eða bílar að frádregnum áhvílandi skuldum. Þetta ákvæði mun líka hvetja sjóðfélagann til þess að fylgjast með og hafa áhrif á þessa eign sína eins og aðrar eignir.

Um 3. og 4. gr.


    Með 3. og 4. gr. frumvarpsins er lagt til breytt fyrirkomulag við stjórnarkjör lífeyrissjóða. Lagt er til að 30. gr. gildandi laga falli brott. Hún fjallar um ársfund þar sem sjóðfélagar geta mætt sem áheyrnarfulltrúar en hafa engin áhrif. Þá er lagt til að við bætist ný grein á eftir 28. gr. laganna þar sem kveðið verði á um að félagsfundur sé æðsta vald lífeyrissjóðs og að boðað skuli til félagsfundar ef 1/ 10félagsmanna krefst þess skriflega. Sú grundvallarbreyting felst í 2. og 5. mgr. 3. gr. frumvarpsins að stjórn lífeyrissjóðs verði kjörin beint á ársfundi eða með almennri leynilegri póstkosningu af sjóðfélögum og fer atkvæðisréttur eftir áunnum og framreiknuðum iðgjöldum samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins. Munurinn á þessu tvennu er að áunninn iðgjöld gefa þeim, sem lengi hafa greitt iðgjöld, aukið vægi, þ.e. eldri sjóðfélögum en framreiknuð iðgjöld gefa öllum jafnt vægi óháð aldri en þó háð tekjum. Greinin færir ákvörðunarvald um hvernig þessir tveir þættir verði vegnir saman inn í samþykktir hvers lífeyrissjóðs. Frambjóðendum skal gefinn kostur á að auglýsa framboð sitt og hafa til þess tvær vikur frá því að fundarboð berst. Lagt er til að ársfundur skuli haldinn eigi síðar en að loknum fjórum mánuðum eftir lok síðasta reikningsárs og skal til hans boðað með minnst fjögurra vikna og mest sjö vikna fyrirvara.
    Í 3. mgr. 3. gr. er kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. sé aðila, sem ber beina ábyrgð á skuldbindingum lífeyrissjóðs eða ábyrgð á breytilegu iðgjaldi til hans, heimilt að fara með meiri hluta atkvæða á félagsfundi sjóðsins og við kjör til stjórnar samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins. Hér er m.a. átt við t.d. B-deild LSR sem nýtur ríkisábyrgðar og er því rökrétt að ríkið komi að stjórn þess lífeyrissjóðs.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Dr. Pétur H. Blöndal
tryggingafræðingur:


3,5% vaxtaviðmið lífeyrissjóða.

    Nokkur umræða hefur spunnist um þau 3,5% vaxtaviðmið sem notuð eru af tryggingafræðingum til að núvirða væntanlegan lífeyri og framtíðariðgjöld, sem og verðbréfaeign lífeyrissjóða, og kveðið er á um í 19. og 20. gr. reglugerðar nr. 391/1998, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sumir halda því fram að þessi viðmið hafi áhrif og virki jafnvel sem lágmark fyrir raunvexti í landinu. Þeir geti ekki farið undir þessi mörk. Þeir ættu að setja sig í spor sjóðstjóra hjá lífeyrissjóði sem þarf að ráðstafa fé en vill ekki sætta sig við lægri vexti en 3,5% vegna þess að lífeyrissjóðurinn hans missir eign við slíka aðgerð eins og lýst er hér á eftir. Hann gerir tilboð aftur og aftur á markaði og í útboðum en fær aldrei vegna þess að meira framboð er af fé en eftirspurn og aðrir fá öll bréfin vegna þess að þeir sætta sig við t.d. 3,0% markaðsávöxtun á verðtryggð ríkistryggð skuldabréf. Ef hann bíður eftir því að markaðsávöxtun hækki og tekur áhættu af því og hún hækkar ekki þá er hann með fjármagn lífeyrissjóðsins á mjög lágum vöxtum (0,15%) á hlaupareikningi. Hann getur sætt sig við meiri áhættu eða reynt fyrir sér erlendis en þar eru öruggir markaðsvextir enn lægri, jafnvel óverðtryggðir og gengisáhætta bætist við. Í öllu falli tekur hann áhættu og getur tapað enn meira. Hann verður því að hlíta markaðsvöxtum og „tapa“ á fjárfestingunni í þeim skilningi að eign lífeyrissjóðsins rýrnar við kaupin. 20 ára skuldabréf með einni greiðslu, 100 millj. kr., í lokin kostar til að mynda 55,4 millj. kr. (=100/1,030^20) miðað 3,0% ávöxtunarkröfu en er metið á 50,3 millj. kr. (=100/1,035^20) við útreikning í eignasafni sjóðsins miðað við 3,5% vaxtaviðmiðið. Eign sjóðsins lækkar því, „rýrnar“, um 5,1 millj. kr. þ.e. 9,2% þegar 55,4 millj. kr. eru notaðar af handbæru fé til að kaupa þetta skuldabréf. Sjóðurinn „tapar“ 5,1 millj. kr. á aðgerðinni. En ef ekkert er að gert tapar sjóðurinn enn meiru með því að fá lága nafnvexti og enga verðtryggingu á þetta fé.
    Þessi vaxtaviðmið, 3,5%, eru ætluð til að jafna aðstöðu sjóðfélaga, sem eru á misjöfnum aldri og eiga eftir að greiða mislengi í lífeyrissjóðinn sinn og sumir hafa jafnvel hafið töku lífeyris. Ef vaxtaviðmið lífeyrissjóðsins væru til langframa lægri en markaðsvextir, væru lífeyrisgreiðslur of lágar eða iðgjald of hátt og sjóðurinn mundi safna eignum umfram skuldbindingu. Fyrstu lífeyrisþegarnir mundu fá of lágan lífeyri en þeir sem seinna kæmu fengju miklu hærri lífeyri vegna „of“ góðrar stöðu lífeyrissjóðsins. Þess vegna er þetta vaxtaviðmið ekkert annað en tilraun til að meta hvaða raunávöxtun lífeyrissjóðirnir muni ná til framtíðar og jafna þannig aðstöðu sjóðfélaga. Eftir að 3,5% vaxtaviðmið var tekið upp um 1980 hafa öruggir raunvextir oft verið hærri og stundum lægri en ekki hefur komið upp umræða um að breyta viðmiðinu fyrr en nú enda hefur það endurspeglað örugga raunvexti í landinu nokkuð vel.
    Raunvextir hafa verið mjög háir hér á landi, vegna þess að frjáls sparnaður er mjög lítill, neysla mikil og mörg fjárfestingartækifæri hafa verið mjög gjöful. Nú kann að verða breyting á vegna samdráttar og því kann að reynast nauðsynlegt að lækka þetta viðmið, t.d. í 2,5%, sem hefði mjög mikil áhrif á stöðu lífeyrissjóða til hins verra. Við því er hægt að bregðast með hækkun iðgjalds, sem skerðir kjör vinnandi fólks, eða með skerðingu lífeyris, sem skerðir kjör þeirra sem hættir eru að vinna, eða með því að hækka ellilífeyrisaldurinn. Eflaust verður farin blanda af öllum þessum leiðum.
    Í töflunni hér á eftir er sýnt nauðsynlegt iðgjald sem þarf til að standa undir núverandi lífeyrisréttindum almennu lífeyrissjóðanna miðað við ýmsar forsendur um viðmiðunarvexti (raunvaxtastig í þjóðfélaginu) og ellilífeyrisaldur. Taflan byggist á mjög lauslegum útreikningum. Á töflunni sést að þriggja ára hækkun ellilífeyrisaldurs svarar nokkurn veginn til 0,5% lækkunar á ávöxtun. Þannig krefst núverandi staða, 3,5% vaxtaviðmið, 67 ára ellilífeyrisaldur þess 12,0% iðgjalds, sem er í gildi. Ef vaxtaviðmiðið, langtímaávöxtun sjóðanna, lækkar um 0,5% í 3,0%, þarf að hækka iðgjaldið í 13,5%, eða um 1,5% af öllum launum landsmanna, eða hækka ellilífeyrisaldurinn í 70 ár (sem krefst 11,8% iðgjalds) eða skerða lífeyri varanlega um 11%. (Hann stendur á móti iðgjaldstekjum sem væru 12% en þyrftu að vera 13,5% (=1-12/13,5).)

Nauðsynlegt iðgjald fyrir hefðbundinn íslenskan lífeyrissjóð.

Raunvextir Ellilífeyrisaldur
67 ár 68 ár 69 ár 70 ár
1,0% 22,4% 21,3% 20,4% 19,5%
1,5% 19,6% 18,7% 17,9% 17,1%
2,0% 17,2% 16,5% 15,7% 15,1%
2,5% 15,2% 14,5% 13,9% 13,3%
3,0% 13,5% 12,9% 12,3% 11,8%
3,5% 12,0% 11,5% 11,0% 10,5%