Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 195. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 594  —  195. mál.

3. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum (aðgerðir í skattamálum, verðlagsbreytingar o.fl.).

Frá 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Eftir ábendingar skattasérfræðings um að misræmi væri milli breytingartillagna og umfjöllunar í nefndaráliti við 2. umræðu leggur þriðji minni hluti fram endurbættar breytingartillögur við 3 umræðu. Markmið breytingartillagnanna er að tryggja að fjárhæðarmörk fyrir 2. og 3. þrep hækki í samræmi við hækkun launavísitölunnar, eða um 8%. Meiri hluti þingsins samþykkti við 2. umræðu að hækka fjárhæðarmörk 1. þreps um 9,8%. Breytingartillaga þriðja minni hluta mun tryggja að skattbyrði fólks með tekjur yfir 230.000 kr. þyngist ekki á næsta ári samanborið við árið í ár. Hækkun fjárhæðarmarka umfram 3,5%, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi fjármálaráðherra, mun kosta ríkissjóð 600 millj. kr.
    Þriðji minni hluti leggur jafnframt til að nýtt skattþrep verði tekið upp við fjárhæðarmörkin 1.200.000 kr. á mánuði og að tekjur í þessu skattþrepi beri 49% staðgreiðsluskatt. Tekjuauki ríkissjóðs af þessu skattþrepi er áætlaður um 530 millj. kr. Útgjaldaauki ríkissjóðs vegna breytinga á fjárhæðarmörkunum mun því aðeins nema um 60 millj. kr.
    Þriðji minni hluti telur mikilvægt að taka upp nýtt skattþrep nú þegar launakannanir sýna vaxandi launamun í samfélaginu – sérstaklega milli karla og kvenna. Samkvæmt nýlegum launaupplýsingum Hagstofunnar sem ná yfir stóran hluta vinnumarkaðarins hækkuðu laun mest á milli áranna 2010 og 2011 í fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og vátryggingum eða um 10,7% en minnst í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð um 5,7%. Síðastliðið haust birtust niðurstöður umfangsmikillar launakönnunar SFR og VR sem sýndu að óútskýrður launamunur kynjanna jókst úr 9,1% í 13,2% á milli áranna 2010 og 2011 meðal félagsmanna SFR. Á sama tíma jókst óútskýrður launamunur hjá VR, stærsta stéttarfélagi landsins, úr 10,1% í 10,6%. Jafnframt kom fram að launabil á milli hins opinbera og almenns vinnumarkaðar hefur aukist á milli ára, að teknu tilliti til kyns, aldurs, starfsstétta og annars.
    Eftirfarandi tafla sýnir samanburð á breytingartillögum 3. minni hluta og stjórnarmeirihlutans.

Stjórnarmeirihlutinn Tillaga þriðja minni hluta
Staðgreiðsla Launabil Staðgreiðsla Launabil
37,31% 0–230.000 37,31% 0–230.000
40,21% 230.001–704.366,66 40,21% 230.001–738.300
46,21% yfir 704.366,66 46,21% 738.301–1200.000
49% yfir 1.200.000

    Þriðji minni hluti leggur að lokum til að iðgjald í séreignarsjóðum verði skattlagt að fullu en ekki aðeins ef greitt er umfram 2% af launum eins og meiri hluti þingsins samþykkti við 2. umræðu. Markmiðið með breytingartillögunni er í fyrsta lagi að ná í skatttekjur ríkissjóðs sem frestað hefur verið fram í tímann og í öðru lagi að einfalda skattlagningu iðgjalda í séreignarsjóðum. Skattur á inngreiðslurnar mun auka skatttekjur ríkissjóðs um 1,4 milljarða kr. 3. minni hluti telur brýnt að þessar skatttekjur verði notaðar til að tryggja að starfsemi Landspítalans og annarra heilbrigðisstofnana verði óbreytt á næsta ári. Flókið skattkerfi eykur hættuna á undanskotum af gáleysi. Vísbendingar eru um að ríkið verði af 6,3 milljörðum kr. og sveitarfélögin af 1,3 milljörðum kr. á hverju ári vegna svartrar atvinnustarfsemi.
    Samkvæmt nýlegri könnun ríkisskattstjóra og aðila vinnumarkaðarins á svartri atvinnustarfsemi er mikil vanþekking hér á landi á skattalöggjöfinni og agaleysi þegar kemur að því að gefa út reikninga. Agaleysið má rekja til virðingarleysis fyrir lögum og reglum í samfélaginu. Þessu er hægt að breyta með því að einfalda leikreglur, auka fræðslu og beita viðurlögum þegar ekki er farið að lögum og reglum. 3. minni hluti hvetur fjármálaráðherra til þess að gera gangskör í að draga úr skattsvikum þannig að svigrúm skapist sem hægt er að nota til að lækka skatta.

Alþingi, 17. desember 2011.



Lilja Mósesdóttir.