Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 404. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 651  —  404. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um greiðsluskyldu skaðabóta.


     1.      Á hvaða lagagrunni/reglugerðarákvæði byggir ráðuneytið skyldu til greiðslu skaðabóta vegna búslóðaflutninga sendiráðsnautar til Bandaríkjanna sem greiddar voru samkvæmt fjáraukalögum 2011?
     2.      Er það ófrávíkjanleg regla að ráðuneytið ábyrgist búslóðaflutninga starfsmanna utanríkisþjónustunnar?
    Þegar starfsmenn eru sendir til starfa erlendis flytur utanríkisráðuneytið búslóðir starfsmanna á sinn kostnað og tekur alla ábyrgð á þeim meðan flutningurinn stendur yfir. Reglur ráðuneytisins setja skorður við umfangi slíkra flutninga en takmarkanir eru ekki settar hvað varðar virði þeirra.
    Vegna þeirrar stefnu ríkissjóðs að kaupa ekki aðrar tryggingar en þær sem eru lögbundnar eru þessar búslóðir ekki tryggðar nema að litlu leyti heldur fluttar í sjálfsáhættu ríkisins.
    Ábyrgð ríkisins byggist í raun á því að ríkið tekur að sér sem vinnuveitandi, og sá sem ákvörðun tekur um flutning starfsmanns, að flytja búslóðina, og þar með að skila henni í heilu lagi á áfangastað. Í raun er um að ræða ábyrgð á grundvelli þeirra reglna skaðabótaréttar sem fjalla um ábyrgð flutningsmanns. Í þessu tilviki annast ráðuneytið flutninginn að öllu leyti og tekur á sig áhættu af tjóni sem hugsanlega yrði við flutninginn, m.a. með því að kaupa lágmarkstryggingu og greiða fyrir hana.

     3.      Er að finna einhverjar vinnureglur í handbók ráðuneytisins um skaðabótaskyldu ríkisins í búslóðaflutningum starfsmanna utanríkisþjónustunnar og ef svo er, hverjar eru þær og:
                  a.      hvaða gögn þarf tjónþoli að sýna til að skaðabótaskylda skapist,
                  b.      er hámarksupphæð á skaðabótum samkvæmt vinnureglum ráðuneytisins,
                  c.      ef svo er, er það ekki á ábyrgð eiganda að tryggja að fullu verðmæti þess sem er umfram tryggingu utanríkisráðuneytisins?
    Vísað er til svars við 1. tölul. Tjónþoli þarf ekki að sýna nein gögn. Skaðabótaskylda skapast þegar tjón verður á búslóðinni, enda sé hún á þeim tíma í vörslu utanríkisráðuneytisins. Fyrirmæla- og leiðbeiningabók utanríkisráðuneytisins setur skorður við umfangi búslóða en takmarkanir hafa ekki verið settar hvað varðar virði þeirra. Ráðuneytið hefur ekki talið eðlilegt að setja fólki sem starfar um tvo þriðju af starfsævinni erlendis takmörk um hvað má eiga verðmæta hluti í búslóð. Í ljósi þess mikla tjóns sem varð í þessu tilviki hefur hins vegar verið ákveðið að yfirfara þær verklagsreglur sem gilt hafa um þessi mál innan ráðuneytisins með það að markmiði að takmarka áhættu ríkisins í tilvikum sem þessum. Reynslan af flutningum búslóða starfsmanna utanríkisþjónustunnar sýnir þó að sú stefna ríkisins að tryggja sjálft búslóðarflutninga að mestu leyti hefur til lengri tíma litið verið hagkvæm fyrir ríkissjóð.

     4.      Eru fordæmi fyrir slíkum greiðslum og ef svo er, hvaða ár voru skaðabætur greiddar og hve há var upphæðin?
    Í hvert sinn sem utanríkisráðuneytið flytur starfsmenn á milli starfsstöðva er keypt trygging sem nemur 100 þús. kr. á rúmmetra. Þessari tryggingu er ætlað að ná yfir tjón á einstökum munum í flutningnum en ekki altjón eins og varð í þessu tilviki. Eftir því sem næst verður komist hefur trygging af þessu tagi náð yfir öll tjónstilvik sem upp hafa komið í tengslum við flutninga á vegum ráðuneytisins nema tvö, þ.e. annars vegar tilvik það sem hér er til umræðu og hins vegar flutning starfsmanns sem vegna starfs síns flutti milli heimsálfa fyrir u.þ.b. áratug. Í því tilviki varð altjón á hluta búslóðar sem átti að flytja til Íslands. Trygging bætti tjón starfsmannsins en ríkissjóður greiddi ríflega 1 millj. kr., sem féll utan tryggingarinnar.

     5.      Hvernig var útgreiðslu úr ríkissjóði háttað í umræddu máli og:
                  a.      hver tók ákvörðun um útgreiðslu,
                  b.      á hvaða grunni var útgreiðslan ákvörðuð,
                  c.      í hvaða mynt var útgreiðslan,
                  d.      hvaða dag voru skaðabæturnar greiddar?

    Starfsmanninum voru greiddar bæturnar í þremur áföngum. Fyrsta greiðslan kom frá tryggingafélagi ráðuneytisins.
6. júlí 2011 4.000.000 kr.
16. ágúst 2011 15.000.000 kr.
16. nóvember 2011 59.000.000 kr.
    Lögmanni þeim sem starfaði að málinu fyrir hönd ríkisins var gefin heimild, af hálfu fjármálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins, til að ganga til lokaviðræðna við tjónþola á tilteknum grundvelli sem lögmaðurinn hafði áður gert tillögu um. Samkomulag um bætur var síðan staðfest af ráðuneytunum 9. nóvember sl.
    Greiðslan fór fram á grundvelli framangreinds samkomulags sem undirritað var af lögmanni ríkisins og tjónþolum 14. nóvember sl. Sjá einnig svar við 7. tölul.
    30 millj. kr. voru greiddar í íslenskum krónum en sem nemur 58 millj. kr. í mynt þess ríkis þar sem tjónþoli starfar, bandaríkjadölum.

     6.      Hvert var heildartjón farmsins í ljósi þess að bætur frá þriðja aðila komu að fullu til frádráttar þeim bótum sem greiddar voru úr ríkissjóði upp á 75 millj. kr.?
    Samkomulag það sem ríkissjóður gerði kvað á um greiðslu bóta að upphæð 78 millj. kr. Greiðsla bóta frá tryggingafélagi er innifalin í þeirri upphæð. 74 millj. kr. af bótafé koma frá ríkissjóði.

     7.      Fóru fulltrúar fyrirtækisins sem annaðist tryggingamatið á tjónsstað til að meta tjónið, ef ekki, á hvaða gögnum byggðist matið?
    Fulltrúar fyrirtækisins sem fengið var til að vinna mat á tjóninu fóru ekki til Bandaríkjanna vegna málsins. Gögnin sem lágu fyrir voru eftirfarandi:
     1.      Kröfugerð tjónþola, dags. 23. maí 2001. Í kröfunni er gerð nákvæm grein fyrir öllum þeim verðmætum sem í gáminum voru og tjónþoli telur hafa skemmst.
     2.      Pökkunarlisti frá Pökkun og flutningum hf. sem annaðist pökkun búslóðarinnar.
     3.      Ljósmyndir tjónþola af búslóðinni, teknar áður en henni var pakkað.
     4.      Ljósmyndir af vettvangi þegar gámurinn var opnaður.
     5.      Skýrsla Amrestore, dags. 17. maí, 2001. Í skýrslunni er gerð grein fyrir öllum listaverkum sem í gáminum voru ásamt lýsingu á tjóni á hverjum hlut.
     6.      Skoðunarvottorð frá Norfolk Maritime Surveyors, Inc. Tryggingafélag sem Tryggingamiðstöðin kvaddi á vettvang sem sinn fulltrúa þegar gámurinn var opnaður.
    Þess má geta að framangreind gögn voru send fjárlaganefnd Alþingis, samkvæmt beiðni, 14. nóvember 2011. Óskað var eftir að trúnaðar yrði gætt í meðförum gagnanna enda innihalda þau upplýsingar um einkahagsmuni, sbr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996, um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna.

     8.      Hvað heitir fyrirtækið sem mat tjónið á innihaldi gámsins í Bandaríkjunum?
    Amrestore Inc. mat tjónið á öllum listmunum í gáminum. Norfolk Maritime Surveyors, Inc. vann skoðunarvottorð fyrir Tryggingamiðstöðina.