Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 304. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 673  —  304. mál.

3. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að samþykkja hækkun
á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og til að staðfesta
fyrir Íslands hönd breytingar á stofnskrá sjóðsins.


Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Þ. Sigurgeirsson og Björn Ólafsson frá Seðlabanka Íslands og Gísla Hauksson og Ásgeir Jónsson frá Gamma.
    Í ljósi athugasemda sem fram komu við 2. umræðu málsins af hálfu einstakra þingmanna ræddi nefndin nánar fjárhagsáhættu ríkissjóðs vegna þeirra skuldbindinga sem í frumvarpinu felast fyrir Seðlabanka Íslands gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Aflaði nefndin álits Seðlabanka Íslands og Gamma.
    Með minnisblaði Seðlabanka Íslands, dags. 3. janúar sl., fylgir viðauki sem varðar brot úr sögu samskipta Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þann fjölda skipta sem Ísland hefur notið aðstoðar sjóðsins. Einnig fylgir með tímaröð yfir samvinnu sjóðsins og Íslands. Fram kemur að Ísland hafi á árinu 1945 verið eitt af stofnríkjum sjóðsins sem komið var á fót í kjölfar ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem kennd er við Bretton Woods í New Hampshire. Yfirskrift ráðstefnunnar hafi verið að stuðla að aukinni efnahagssamvinnu ríkja og draga úr skaðlegum áhrifum þeirrar einangrunarstefnu sem fylgdi í kjölfar kreppunnar miklu og hafði haft verulega neikvæð áhrif á viðskipti og atvinnustig. Þátttaka Íslands á vettvangi sjóðsins eigi sér því áratugalanga hefð.
    Fjórum sinnum í sögunni hafi Ísland þegið fjárhagslega aðstoð sjóðsins utan þess formlega samstarfs sem hófst í nóvember 2008 vegna bankahrunsins og lauk samhliða sjöttu endurskoðun þeirrar efnahagsáætlunar sem samin hafði verið á grundvelli samstarfsins. Fyrsta lánið var veitt 1960 í tengslum við efnahagsumbætur stjórnvalda, viðreisnina, 1967– 1968 vegna skyndilegrar og stórfelldrar minnkunar útflutningstekna, 1974 vegna hækkunar á olíuverði og 1982 vegna samdráttar í útflutningstekjum.
    Fram kemur í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem gefið var út fyrir 2. umræðu að hlutverk sjóðsins hafi að undanförnu einkennst af því að veita þjóðum í skuldavanda skammtímafjármögnun og efnahagsráðgjöf og jafnframt að þátttaka ríkja hafi áhrif á vægi atkvæða þeirra innan sjóðsins og möguleika á hagstæðri lánsfjármögnun þar sem lánsfjárfyrirgreiðsla sjóðsins miðast gjarnan við margfeldi af kvóta viðkomandi ríkis. Samfara fjórtándu endurskoðuninni á stofnfé sjóðsins hafi heildarstofnfé (kvóti) sjóðsins verið tvöfaldað í 476,8 milljarða SDR.
    Með minnisblaði Seðlabanka Íslands, dags. 11. janúar sl., sem nefndinni barst fylgir yfirlit yfir þróun kvóta Íslands en af því má ráða að íslensk stjórnvöld hafi samþykkt allar reglulegar kvótahækkanir sjóðsins frá upphafi. Seðlabankinn telur að tvöföldun kvótans nú muni styrkja lánsgetu sjóðsins verulega og bendir auk þess á að sjóðurinn geti tekið lán hjá aðildarríkjum samkvæmt sérstöku samkomulagi við fjársterk ríki um viðbúnaðarlán eða sérstök fjárframlög. Fjármögnun sjóðsins sé því fyrst og fremst byggð á stofnfé (kvóta) en einnig noti sjóðurinn tímabundin lán frá fjársterkum aðildarríkjum.
    Kvótahækkunin nú tekur gildi að uppfylltum þremur skilyrðum, í fyrsta lagi þegar fyrir liggur samþykki aðildarríkja sem ráða yfir 70% af stofnfé sjóðsins, en heimild þar að lútandi kemur fram í 1. gr. frumvarpsins, í annan stað þegar tillaga um breytingar á stofnskrá vegna endurskipulagningar á framkvæmdastjórn sjóðsins hefur tekið gildi, sbr. 2. gr., og loks þegar breytingar á stofnskrá sem samþykktar voru árið 2008 hafa tekið gildi, sbr. lög nr. 5/2011. Gangi þessi áform eftir er gert ráð fyrir að hlutdeild Íslands í kvótum sjóðsins hækki úr 0,055% í 0,067%.
    Nýtt framlag Íslands nemur 37,2 milljörðum kr., þar af mun ¼ greiddur í SDR en ¾ í íslenskri mynt. Viðmælendur nefndarinnar töldu litlar líkur á því að sjóðurinn mundi nýta hluta framlagsins sem væri í íslenskum krónum til starfsemi sinnar þar sem myntin teldist ekki til grunnmynta sjóðsins samkvæmt svonefndu Financial Transaction Plan en mat á því byggist m.a. á sterkri ytri stöðu og öflugum gjaldeyrisforða viðkomandi ríkis. Þessi staða gæti þó breyst ef Ísland tæki upp evru í kjölfar aðildar að ESB. Nefndin ræddi áhrif krónuframlagsins á efnahagsreikning Seðlabanka Íslands og kom fram að þess væri ekki getið þar sem það sé nettað á móti kvótaeigninni.
    Fjórðungur framlagsins sem greiddur er í SDR telst vera hluti af gjaldeyrisforðanum en við greiðsluna breytist samsetning forðans þar sem sjóðurinn fær framlagið til varðveislu. Tapsáhættu vegna þessa hluta þyrfti að meta með hliðsjón af alþjóðlegum horfum í efnahagsmálum og skilyrðum sjóðsins til að takmarka útlánaáhættu. Fram komu sjónarmið um að tapsáhættan væri ekki meiri en af ríkisskuldabréfaeign fjársterkra ríkja auk þess sem fram kom að vanskil ríkja við sjóðinn væru hverfandi. Hlutverk sjóðsins sé fyrst og fremst að veita skammtímaaðstoð til ríkja í greiðsluvanda með ströngum skilyrðum og að ríkjum sé það almennt kappsmál að standa í skilum við sjóðinn með tilliti til orðspors á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum. Þá búi sjóðurinn yfir öflugum varaforða og hafi almennt notið forgangs fram yfir aðra kröfuhafa.
    Framangreint fær ekki breytt því að sá víðtæki skuldavandi sem blasir við innan einstakra ESB-ríkja og víðar hefur haft í för með sér að sjóðurinn hefur þurft að reiða sig meira á framlög nýmarkaðsríkja og hefur það m.a. haft í för með sér breytt valdahlutföll innan hans. Í minnisblaði Seðlabankans frá 3. janúar 2012 er á það bent að ef verstu sviðsmyndir vegna skuldavandans rætast gæti sjóðurinn þurft mun meiri fjármuni en hann hefur yfir að ráða. Töldu fulltrúar bankans sem á fund nefndarinnar komu að mikið þyrfti þó til að koma til þess að aðildarríkin 187 stæðu ekki að baki sjóðnum á örlagatímum og ræddi nefndin í því sambandi stöðu málsins í Bandaríkjaþingi. Jafnframt mætti ekki líta framhjá mikilvægi sjóðsins á alþjóðavettvangi, ekki síst fyrir Ísland og önnur lönd sem búa við brothættan gjaldeyrismarkað, sem og afstöðu Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, sem tilheyra sömu kjördeild innan sjóðsins, til þeirra breytinga sem frumvarpið varðar.
     Nefndin ræddi aðgerðir Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til aðstoðar Grikklandi, Írlandi og Portúgal og það viðbótarfjárframlag sem sambandið hefur innt af hendi til sjóðsins vegna þessa. Fram kom að framlagið væri óháð kvótaaukningu þeirri sem hér er til umfjöllunar og að vegna andstöðu einstakra ríkja sambandsins við þessa ráðstöfun hefði ekki verið tekin lokaákvörðun um það.
    Fram kemur í minnisblaði Seðlabanka Íslands sem nefndinni var sent 10. janúar 2012 að 74 aðildarríki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins höfðu samþykkt kvótahækkunina. Þá hefðu Danmörk og Svíþjóð formlega tilkynnt um sitt samþykki. Finnland og Noregur hefðu lokið þinglegri meðferð en ættu eftir að kynna sína niðurstöðu með formlegum hætti.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Tryggvi Þór Herbertsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Birkir Jón Jónsson gera fyrirvara við álitið.
    Magnús Orri Schram var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. janúar 2012.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Þráinn Bertelsson.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.



Skúli Helgason.


Guðlaugur Þór Þórðarson,


með fyrirvara.


Tryggvi Þór Herbertsson,


með fyrirvara.



Birkir Jón Jónsson,


með fyrirvara.