Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 468. máls.

Þingskjal 714  —  468. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006 (sjálfstæði
og lýðræði í háskólum, réttindi fatlaðra nemenda).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Við 3. málsl. 1. mgr. bætist: með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.
     b.      Í stað orðsins „vísindalegra“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: fræðilegra.
     c.      Á eftir 1. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Háskóli undirbýr nemendur til ábyrgrar þátttöku í lýðræðissamfélagi.
     d.      3. mgr. orðast svo:
                  Háskólar ráða skipulagi starfsemi sinnar og ákveða hvernig henni er best fyrir komið til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag, fyrir nemendur og fyrir framþróun vísinda og fræða.

2. gr.

    Á eftir 2. gr. laganna kemur ný grein, 2. gr. a, svohljóðandi:
    Háskólum er skylt að virða fræðilegt sjálfstæði starfsmanna sinna. Fræðilegt sjálfstæði starfsmanna felur í sér rétt þeirra til að fjalla um kennslugrein sína á þann hátt sem þeir telja skynsamlegt og í samræmi við fræðilegar kröfur. Fræðilegt sjálfstæði dregur ekki úr ábyrgð starfsmanna á að fara að almennum starfsreglum og siðareglum viðkomandi háskóla. Viðfangsefni rannsókna og kennslu á einstökum fræðasviðum háskóla skulu vera óháð afskiptum þeirra sem eiga skólann eða leggja honum til fé.
    Háskólar skulu setja sér siðareglur m.a. um réttindi og skyldur starfsmanna skv. 1. mgr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Orðið „hlutafélag“ í 1. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Háskóli skal ekki rekinn með fjárhagslegan ágóða að markmiði.
     c.      Í stað orðanna „hæfni og færni“ í h-lið 3. mgr. kemur: leikni og hæfni.
     d.      Við 4. mgr. bætist: og undirflokka þeirra.
     e.      Við 8. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Engri stofnun er heimilt að starfa á Íslandi undir heitinu háskóli nema hún hafi hlotið viðurkenningu ráðherra.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „hæfni og færni“ í 2. og 4. málsl. kemur: leikni og hæfni.
     b.      Lokamálsliður greinarinnar fellur brott.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. 2. mgr. bætist: og undirflokka þeirra.
     b.      Fyrri málsliður 3. mgr. fellur brott.
     c.      5. mgr. fellur brott.

6. gr.

    2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
    Við undirbúning og skipulagningu nýrra námsleiða skal háskóli afla staðfestingar ráðuneytis á því að námið uppfylli viðmið um æðri menntun og prófgráður skv. 5. gr.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. bætist: og námsleiða.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Með þeim hætti skulu háskólar á Íslandi leitast við að vinna saman til að nýta sem best opinberar fjárveitingar og styrkja stöðu sína á alþjóðlegum vettvangi.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „öðrum háskólum“ í 1. málsl. kemur: öðrum viðurkenndum háskólum og rannsóknastofnunum.
     b.      Í stað orðanna „háskólum heimilt að meta til eininga nám“ í 2. málsl. kemur: háskólum heimilt í undantekningartilvikum að meta til eininga námskeið.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „umsýslu“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: umsjón.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er heimilt að setja reglur um fyrirkomulag ytra mats á háskólum.
     c.      Í stað orðanna „bæði innlendir“ í 2. mgr. kemur: innlendir sérfræðingar, ef þess er kostur.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þar skal gert ráð fyrir setu fulltrúa starfsmanna og nemenda í stjórn eða háskólaráði og í þeim stjórnunareiningum þar sem fjallað er um kennslu og rannsóknir.
     b.      Orðin „nema annað sé berum orðum tekið fram í lögum þessum, sérlögum, skipulagsskrá, samþykktum eða stofnskjölum háskóla“ í 2. málsl. 1. mgr. falla brott.
     c.      Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Rektor er formaður háskólaráðs og stýrir fundum ráðsins. Hann skal uppfylla kröfur 1. mgr. 18. gr. til að bera starfsheitið dósent eða prófessor á einu eða fleiri viðurkenndum fræðasviðum viðkomandi háskóla.

11. gr.

    2. málsl. 16. gr. laganna orðast svo: Háskólafundur er ráðgefandi vettvangur um fagleg málefni innan háskólans og fræðilega stefnumótun.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Þeir sem bera framangreind starfsheiti skulu hafa lokið doktorsprófi eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar.
     b.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Í dómnefndir má skipa þá eina sem lokið hafa doktorsprófi úr háskóla eða aflað sér jafngildrar þekkingar og reynslu.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Í reglugerð sem ráðherra gefur út er heimilt að mæla fyrir um samræmt fyrirkomulag innritunar á landsvísu, meðferð umsókna og auglýsingu umsóknarfrests um skólavist í háskólum.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er heimilt að gefa út reglur um aðfaranám í háskólum.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Háskólar skulu veita nemendum með fötlun, sbr. 2. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, og nemendum með tilfinningalega eða félagslega örðugleika kennslu og sérstakan stuðning í námi. Látin skal í té sérfræðileg aðstoð og viðeigandi aðbúnaður eftir því sem þörf krefur. Nemendur með fötlun skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er. Háskólar skulu jafnframt leitast við að veita þeim nemendum sérstakan stuðning sem eiga við sértæka námsörðugleika að stríða eða veikindi.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      E-liður 2. mgr. fellur brott.
     b.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra er heimilt að fela einstökum háskólum að sinna kennslu eða rannsóknum á ákveðnum afmörkuðum sviðum.

15. gr.

    1. málsl. 24. gr. laganna orðast svo: Hver háskóli skal birta opinberlega lista yfir prófgráður sem eru í boði hverju sinni.

16. gr.

    Við 25. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Háskóla er skylt að láta ráðuneytinu í té allar þær upplýsingar og gögn sem það þarfnast vegna eftirlits með starfsemi hans og fjármálum. Um skjöl háskóla fer að lögum um Þjóðskjalasafn Íslands, nr. 66/1985, með síðari breytingum. Ef starfsemi háskóla er lögð niður eða færð undir aðra stofnun skulu skjöl hans færð til Þjóðskjalasafns.

17. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæði 12. gr. eiga aðeins við um þá starfsmenn sem eru ráðnir eftir gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Tilefni frumvarps þessa til breytinga á lögum nr. 63/2006, um háskóla, eru m.a. ábendingar úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndar, sem skipuð var í framhaldi af fyrri skýrslunni. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru ábendingar til fræðasamfélagsins um hlutverk háskóla, ábyrgð starfsmanna og um almenna þátttöku í samfélagsumræðunni. Jafnframt koma fram ábendingar til fræðasamfélagsins í skýrslu þingmannanefndarinnar um að fræðasamfélagið verði að taka alvarlega þá gagnrýni sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Þar er bent á að endurskoða þurfi ákvæði laga um háskóla og laga um opinbera háskóla, einkum með tilliti til fjárhags skólanna, stöðu og hlutverks starfsmanna þeirra í þeim tilgangi að tryggja betur frelsi háskólasamfélagsins og fræðilega hlutlægni. Auk þess segir að hvetja þurfi háskólamenn á öllum fræðasviðum til að taka þátt í opinberri umræðu og styrkja með því tengsl fræðasamfélagsins, atvinnulífsins og hins almenna borgara. Nauðsynlegt sé að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna. M.a. á grundvelli þessara ábendinga ákvað mennta- og menningarmálaráðherra að láta endurskoða framangreind lög.
    Leitað var eftir sérfræðiráðgjöf frá Rannsóknastofu háskóla við skilgreiningu á hlutverki og stjórnskipan háskóla. Áhersla var lögð á spurningar um hvernig beri að skilgreina fræðilegt og samfélagslegt hlutverk þeirra, hvort munur eigi að vera á hlutverki opinberra háskóla og sjálfstætt starfandi háskóla og hvort eðlilegt sé að hafa nánari útfærslu á því í lögum hvernig beri að rækja þessi hlutverk.
    Ráðuneytið óskaði eftir að fá tillögur Rannsóknastofunnar um hvernig beri að skýra þessi ákvæði í lögunum um hlutverk háskóla þannig að tryggt sé að þeir gangist við ábyrgðarhlutverki sínu og betur sé hægt að framfylgja lögum. Í háskólalögum nágrannalandanna má í flestum tilvikum finna nákvæmar skilgreiningar á umræddu hlutverki.
    Mikill munur er á skilgreindri stjórnskipan í lögum um opinbera háskóla annars vegar og lögum um háskóla hins vegar. Spurningar hafa vaknað um hvort eðlilegt sé að gera slíkan greinarmun sem byggist á rekstrarformi skóla. Í lögum um háskóla er ekki gert ráð fyrir neinum fulltrúa úr háskólasamfélagi í háskólaráð viðkomandi skóla, hversu langur skipunartími skuli vera eða hver sé munurinn á hlutverki háskólaráðs og háskólafundar svo að dæmi séu tekin. Í framangreindum lögum er hins vegar tekið fram að háskólaráð ákveði nánar hlutverk og fyrirkomulag háskólafundar og að tryggja þurfi að starfsfólk skólans komi að háskólafundunum. Því má segja að vald og vægi háskólafundar sé mismunandi eftir vilja viðkomandi háskólaráðs. Spurningar hafa vaknað um hvort þetta fyrirkomulag tryggi nægilega lýðræðislega aðkomu að stjórn skólans.
    Greinargerð Rannsóknastofunnar barst ráðuneytinu 12. desember 2010 og var hún að hluta lögð til grundvallar við breytingar á nokkrum greinum frumvarps þessa, einkum er varðar hlutverk og stjórnskipan háskóla.

II. Meginefni frumvarpsins.
     1. Hlutverk háskóla og fræðilegt sjálfstæði. Framangreindar ábendingar fela í sér að skerpa á því hlutverki háskóla að styrkja innviði íslensks samfélags og undirbúa nemendur til þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Að sama skapi er sjálfstæði háskóla styrkt og ábyrgð þeirra á starfsemi sinni dregin með skýrari hætti fram. Nýmæli í frumvarpinu eru ákvæði um fræðilegt sjálfstæði háskólakennara, sem ætlað er að tryggja að þeir hafi sjálfstæði og frelsi til að fjalla um kennslugrein sína á þann hátt sem þeir telja skynsamlegt, án afskipta utanaðkomandi aðila. Þar segir einnig að viðfangsefni rannsókna og kennslu á vegum háskóla skuli vera óháð afskiptum þeirra sem eiga skólann eða veita honum fé.
     2. Stjórnun háskóla, þátttaka nemenda og starfsfólks. Með breytingum á stjórnun háskóla er markmiðið að efla lýðræðislegt stjórnunarfyrirkomulag þeirra óháð rekstrarformi. Þá er skerpt á ákvæðum um aðgang nemenda og kennara að stjórnunareiningum skólanna. Gert er ráð fyrir að í stofnskjölum háskóla, sem reknir eru sem sjálfseignarstofnanir eða hlutafélög, sé kveðið á um setu fulltrúa starfsmanna og nemenda í stjórn eða háskólaráði og í þeim stjórnunareiningum þar sem fjallað er um kennslu og rannsóknir.
     3. Réttindi fatlaðra nemenda í háskólum. Í frumvarpinu er lagt til að réttindi fatlaðra til háskólanáms verði leidd í landslög í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem undirritaður var af hálfu Íslands 30. mars 2007. Í 1. mgr. 24. gr. samningsins er mælt fyrir um viðurkenningu aðildarríkja samningsins á rétti fatlaðs fólks til menntunar á öllum skólastigum án aðgreiningar. Skv. 2. mgr. 24. gr. samningsins skulu aðildarríki hans tryggja að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning, innan hins almenna menntakerfis, til þess að stuðla að haldgóðri menntun þess, að árangursríkar, einstaklingsbundnar stuðningsaðgerðir séu boðnar fram í umhverfi sem ýtir hvað mest undir framvindu í námi og félagslega þróun sem aftur samræmist því markmiði að fatlað fólk geti lifað í samfélaginu án nokkurrar aðgreiningar. Skv. 3. mgr. 24. gr. skulu aðildarríki samningsins gera fötluðu fólki kleift að öðlast hagnýta og félagslega færni í því skyni að greiða fyrir fullri þátttöku þess, til jafns við aðra, í skólastarfi og sem þjóðfélagsþegnar. Á aðildarríkin er lögð skylda til að gera viðeigandi ráðstafanir í þessu skyni með því, meðal annars, að auðvelda fötluðu fólki að læra blindraletur, óhefðbundna skrift, bættar og óhefðbundnar samskiptaaðferðir, -leiðir og -form og færni í áttun og hreyfifærni, ásamt því að greiða fyrir jafningjaaðstoð og handleiðslu, auðvelda fötluðu fólki að læra táknmál og stuðla að samsemd heyrnarlausra með tilliti til tungumáls. Þá skulu aðildarríkin tryggja að menntun einstaklinga, og þá sérstaklega barna, sem eru blindir, heyrnarlausir eða daufblindir fari fram á þeim tungumálum og samkvæmt og eftir þeim aðferðum og leiðum sem henta viðkomandi einstaklingi og í umhverfi sem ýtir hvað mest undir framvindu í námi og félagslegan þroska.
     4. Aðrar breytingar. Aðrar breytingar snerta einkum eftirfarandi þætti: Í frumvarpinu er skýrt kveðið á um að einungis viðurkenndir háskólar mega bera heitið „háskóli“. Jafnframt er tekið fram að ekki sé heimilt að reka háskóla með ágóða að markmiði. Þau nýmæli eru í frumvarpinu að kennarar við háskóla skuli hafa doktorspróf eða sambærilega menntun. Í frumvarpinu er jafnframt opnað fyrir það að ráðherra geti í samningum falið einstaka háskólum að sinna kennslu eða rannsóknum á ákveðnum afmörkuðum sviðum. Setja á reglur um ytra mat á háskólum og um aðfaranám sem háskólar bera ábyrgð á.
    Engin ákvæði frumvarpsins stangast á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.

III. Samráð.
    Mennta- og menningarmálaráðherra setti upp drög að frumvarpinu í óformlegu samráði við Samstarfsnefnd háskólastigsins, sem skipað er rektorum allra háskólanna. Óskað var eftir athugasemdum háskólanna við frumvarpsdrög ráðuneytisins og urðu þeir allir við því. Farið var yfir athugasemdirnar á tveimur fundum samstarfsnefndar og ráðherra í nóvember og desember 2010. Eftir að frumvarpið hafði verið endurskoðað í ljósi athugasemda háskólanna var það að nýju lagt fyrir samstarfsnefndina á fundi með ráðherra og var enn fremur óskað eftir skriflegum athugasemdum þeirra. Að fengnum athugasemdum var enn fjallað um þær á fundi samstarfsnefndar og ráðherra í mars 2011.
    Í júní 2011 fór frumvarpið í svonefnt opið samráðsferli með kynningu þess á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins fram til 16. ágúst 2011. Ráðuneytinu bárust sjö athugasemdir frá Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Listaháskóla Íslands, Viðskiptaráði Íslands og Þjónustumiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Athugasemdirnar leiddu almennt ekki til breytinga á frumvarpinu. Í einu tilviki (í umfjöllun um 10. gr. frumvarpsins) er fjallað um fram komnar athugasemdir við þá grein sérstaklega. Tekið var tillit til ábendingar frá Háskóla Íslands og þjónustumiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga að þörf væri á lagaákvæði um rétt fatlaðra nemenda í háskólanámi. Um þann rétt er fjallað í c-lið 13. gr. frumvarpsins.

IV. Mat á áhrifum.
    Telja má að samþykkt frumvarpsins leiði til skarpari skilnings á hlutverki háskóla í samfélagi nútímans þar sem lýðræði er haft að leiðarljósi. Háskólar fá með skýrari hætti sjálfstæði sitt staðfest gagnvart eigendum sínum og starfsmönnum skólanna er tryggt fræðilegt sjálfstæði. Stefnan er að tryggja bein áhrif starfsmanna og nemenda í innra starfi skólanna. Að öðru leyti er vísað til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er hlutverk háskóla skilgreint. Skv. 1. mgr. skal starf háskóla styrkja innviði íslensks samfélags og stöðu þess í alþjóðlegu tilliti með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi. Með því að orða ákvæðið með þessum hætti er óbeint vísað í hugmyndina um sjálfbæra þróun (sbr. „með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi“). Fræðileg hugsun horfir í eðli sínu til langs tíma og háskólar eiga að skapa þekkingu sem nýtast á komandi kynslóðum. Hér er jafnframt fjallað um að háskólar undirbúi nemendur til ábyrgrar þátttöku í lýðræðissamfélagi. Í því samhengi má benda á að ábyrgð fræðimanna hefur farið sívaxandi eftir því sem samfélagið hefur orðið háðara fræðilegum og tæknilegum lausnum á lífsverkefnum manna og þjóða. Þess vegna er nauðsynlegt að tryggja að háskólanemar öðlist þekkingu á þeim siðferðilegu álitamálum sem tengjast fræðunum sem þeir leggja stund á um leið og þeir læra að axla þá ábyrgð sem því fylgir að búa í lýðræðissamfélagi. Að lokum er sjálfstæði háskóla ítrekað með þeim hætti að þeir eigi að ráða skipulagi starfsemi sinnar og ákveða hvernig henni er best fyrir komið til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag, nemendur og framþróun vísinda og fræða, þ.e. að öðru leyti en því sem kveðið er á um í lögum, reglum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum sem veitt eru á grundvelli þeirra.

Um 2. gr.


    Greinin er nýmæli. Í henni er kveðið á um fræðilegt sjálfstæði, sem öllum fræðimönnum ber saman um að sé ein mikilvægasta forsendan fyrir framgangi vísinda og fræða og starfrækslu háskóla. Fræðilegt sjálfstæði felur í sér rétt starfsmanna til að fjalla um kennslugrein sína á þann hátt sem þeir telja skynsamlegt og í samræmi við fræðilegar kröfur. Allar kennslugreinar afmarkast af viðurkenndum fræðasviðum. Hugtakið rúmar einnig þá þætti sem felast í almennum skilningi á „akademísku frelsi“, sem vísar til þess að frá sjónarhóli fræðimannsins nýtur hann þess frelsis að haga rannsóknum sínum eins og hann sjálfur kýs. Fræðilegt sjálfstæði háskólamanna á þó ekki að draga úr ábyrgð þeirra á að fara að almennum starfsreglum og siðareglum stofnunar þeirra. Gengið er út frá því að viðfangsefni rannsókna og kennslu á einstökum fræðasviðum háskóla skuli vera óháð afskiptum þeirra sem eiga skólann eða veita honum fé. Að lokum er gert ráð fyrir að háskólar setji sér siðareglur þar sem framangreind ákvæði eru frekar útfærð.

Um 3. gr.


    Lagt er til að í lýsingu á mögulegu rekstrarformi háskóla falli niður orðið „hlutafélag“. Þrátt fyrir það ber ekki að líta svo á að bann sé lagt við því rekstrarformi sérstaklega, enda er lagt til að síðari hluti fyrri málsliðar 1. mgr. 3. gr. laganna haldist óbreyttur, þ.e. að heimilt sé að reka háskóla samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi en sem ríkisstofnun eða sjálfseignarstofnun. Ekki er talin ástæða til að tilgreina hlutafélagaformið sérstaklega sem rekstrarform háskóla þar sem það er ekki tíðkanlegt í alþjóðlegu samhengi og samrýmist illa því markmiði að háskólar skuli ekki reknir í ágóðaskyni.
    Nýmæli er að tekið sé fram að óheimilt sé að reka háskóla með fjárhagslegan ágóða að markmiði. Tilgangur þessarar breytingar er að tryggja að eigendur sjálfstætt starfandi háskóla, sem hljóta fjárframlög úr ríkissjóði, láti hugsanlegan rekstrarafgang af starfseminni renna til uppbyggingar skólastarfsins, en greiði ekki út arð af starfseminni. Um rekstur háskóla í formi sjálfseignarstofnunar fer eftir lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, nr. 33/1999. Skv. a-lið 33. gr. þeirra laga verður hagnaði sjálfseignarstofnunar samkvæmt samþykktum ársreikningi aðeins ráðstafað í bundin framlög til sjóðs viðkomandi stofnunar eða til annarra þarfa. Eitt af meginmarkmiðum hlutafélaga og einkahlutafélaga er hins vegar að afla hluthöfum fjárhagslegs ávinnings, nema annað sé ákveðið í samþykktum, sbr. 7. gr. laga nr. 138/1994 og 9. gr. laga nr. 2/1995. Af þeim sjálfstætt starfandi háskólum sem hlotið hafa viðurkenningu ráðuneytisins er aðeins einn sem er rekinn í hlutafélagaformi. Í samþykktum þess hlutafélags sem rekur skólann er sérstaklega tilgreint að hlutverk félagsins sé ekki að afla hluthöfum þess fjárhagslegs ávinnings af rekstri. Samkvæmt þessu er því ekki gert ráð fyrir að lagabreytingin hafi nein áhrif á starfsemi sjálfstætt starfandi háskóla. Rétt þykir að taka fram að með hinum nýja málslið 1. mgr. 3. gr. laganna er ekki girt fyrir eignaraðild háskóla að fyrirtækjum á sviði nýsköpunar, vísinda og kennslu, sem kann að vera ætlað að afla hluthöfum fjárhagslegs ávinnings. Þá er með ákvæðinu ekki lagt bann við að tiltekinn hluti af starfsemi háskóla, t.d. endurmenntun, þjónusta og ráðgjöf við atvinnulíf, afli tekna á öðrum forsendum en hin eiginlega kennslu- og rannsóknarstarfsemi. Fjárreiðum af slíkri starfsemi kann þó að vera skylt að halda aðgreindum frá þeim starfseiningum háskóla sem njóta opinberra fjárframlaga vegna kennslu og rannsókna.
    Lagt er til að orðið „færni“ falli út í h-lið 3. mgr. 3. gr. laganna og í þess stað komi „leikni“. Vísað er um þýðingu þessarar breytingar til skýringa við 4. gr. frumvarpsins.
    Lögð er til breyting á 8. mgr. 3. gr. laganna sem kveður á um að engri stofnun sé heimilt að starfa á Íslandi undir heitinu „háskóli“ nema hafa hlotið viðurkenningu ráðherra. Í þessu felst breyting þar sem heitið „háskóli“ hefur ekki verið lögverndað í þeim skilningi að þær skólar einir sem hlotið hafa viðurkenningu skv. lögum nr. 63/2006. Verði þessi frumvarpið að lögum verður þó skólum áfram heimilt að tilgreina að tiltekið nám sé „á háskólastigi“ eins og tíðkast hefur t.d. hjá tónlistarskólum sem bjóða upp á viðbótarnám að loknu framhaldsprófi samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla.

Um 4. gr.


    Hér er fellt niður orðið „færni“ og í stað þess kemur „leikni“. Breytingin er gerð til samræmis við skilgreiningar á hæfniviðmiðum á öðrum skólastigum og í samræmi við endurskoðun á „Viðmiðum um æðri menntun og prófgráður“ sem er á lokastigi. Í lokamálslið fellur niður málsliður þess efnis að birta skuli viðmiðin á íslensku og ensku enda talið óþarfi að tilgreina það sérstaklega. Viðmiðin verða gefin út á íslensku og síðan þýdd yfir á önnur tungumál eftir því sem við á.

Um 5. gr.


    Breytingin er til samræmis við reglugerð um viðurkenningu háskóla, nr.1067/2007. Þar eru viðurkenningar á háskólum bundnar við fræðasvið og undirflokka þeirra. Fyrsti málsliður 3. mgr. fellur niður og einnig lokamálsliður sömu greinar. Um er að ræða að fella niður undantekningar um námseiningafjölda og heimild ráðherra til að veita doktorsgráðu án þess að byggt sé á stöðluðum einingum. Ekki er talið viðeigandi að vera með slíkar undantekningar, enda hafa þær hvorki verið nýttar af háskólunum né ráðherra hingað til.

Um 6. gr.


    Breytingin felst í þeirri viðbót að háskólar kynni ráðuneytinu fyrirhugaðar námsleiðir og fái staðfestingu þess á því að þær uppfylli viðmið um æðri menntun og prófgráður skv. 5. gr. laganna.

Um 7. gr.


    Breytingin felst í því að í lok 1. mgr. bætist við hugtakið „námsleið“. Hér er verið að ýta undir frekara samstarf háskóla á sambærilegum námsleiðum og tryggja rétt nemenda til að fá sitt nám viðurkennt milli íslenskra háskóla.
    Jafnframt er kveðið á um að nýr málsliður bætist við 9. gr. laganna þar sem lögð er aukin áhersla á mikilvægi þess að háskólar á Íslandi vinni betur saman, enda njóta þeir allir opinberra fjárframlaga. Gert er ráð fyrir að samstarf þeirra styrki stöðu íslenskrar háskólamenntunar í alþjóðlegu samhengi og verði til þess að opinberar fjárveitingar nýtist betur.

Um 8. gr.


    Um er að ræða breytingu á 1. málsl. 10. gr. laganna þess efnis að í stað heimildar háskóla til að meta nám allra annarra háskóla þá verði heimildin bundin því að námið sé veitt af viðurkenndum háskóla eða rannsóknastofnun. Ætlunin er að háskólar geti viðurkennt nám frá öðrum háskólum og rannsóknastofnunum, sem viðurkenndar eru á Íslandi eða erlendis. Önnur breyting á greininni felur í sér að gert er ráð fyrir að háskólar viðurkenni námskeið en ekki heildstætt nám frá öðrum skólum en þeim sem viðurkenndir eru. Er þetta ákvæði sett inn til að tryggja gæði háskólamenntunar.

Um 9. gr.


    Lagt er til að orðið „umsýsla“ í 14. gr. laganna verði fellt niður og í stað þess komi „umsjón“, sem talið er betur viðeigandi í þessu samhengi. Önnur breyting á greininni felur í sér að ráðherra fær heimild til að setja reglur um fyrirkomulag ytra mats á háskólum vegna breytinga sem orðið hafa í þeim efnum á undangengnum árum. Stefnt er að því að setja reglur um Gæðaráð háskólanna sem var stofnað í lok árs 2010 og er rekið af Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís).

Um 10. gr.


    Hér er lögð til viðbót við 1. mgr. 15. gr. laganna þess efnis að starfsmenn við kennslu og rannsóknir og nemendur skuli ávallt eiga fulltrúa í háskólaráði og í þeim stjórnunareiningum þar sem fjallað er um nám og kennslu. Breytingin er til að fylgja eftir ábendingum um mikilvægi þess að nemendur og starfsmenn komi að stjórnun háskólanna. Með þeim hætti geta nemendur og starfsfólk háskóla tekið þátt í ákvörðunum um kennslu- og rannsóknamálefni í sem flestum stjórnunareiningum skólanna. Gert er ráð fyrir að ákvæðið verði nánar útfært í lögum, skipulagsskrám eða samþykktum háskóla.
    Lagt er til að mælt verði fyrir um leiðtogahlutverk rektors í háskólaráði og hæfisskilyrði fyrir að gegna því embætti (hæfi til að gegna dósents- eða prófessorsstöðu). Í löggjöf annarra norrænna landa er að jafnaði svo mælt fyrir að háskólarektor skuli hafa hæfi til að gegna kennslustöðu við háskóla þar sem krafist er doktorsprófs. Rétt þykir að sömu kröfur séu gerðar til háskólarektora hér á landi.
    Í samráðsferli um frumvarpið komu fram athugasemdir um að þær breytingar sem lagðar eru til í þessari grein frumvarpsins samrýmist illa ákvæðum laga um hlutafélög, nr. 2/1995, með áorðnum breytingum, einkum 1. mgr. 70. gr., og 46. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994. Þá kom fram það viðhorf að breytingin gangi gegn ákvæðum í samþykktum og skipulagsskrám tveggja starfandi háskóla. Til svars við þessu skal bent á að eðli og hlutverk stjórna í hlutafélögum og sjálfseignarstofnunum er afar ólíkt lögbundnu hlutverki háskólaráðs í háskóla. Hafi eigendur háskóla valið þá leið að láta stjórnir þeirra félaga sem eiga skólana gegna jafnframt hlutverki háskólaráðs mun slíkt fyrirkomulag ekki ganga upp verði sú breyting sem hér er lögð til að lögum. Af samþykkt frumvarpsins mun leiða að gera þarf breytingar á samþykktum og skipulagsskrám viðkomandi félaga þannig að skilið sé á milli eignarhalds skóla annars vegar og stjórnkerfis fyrir innra fræðastarfs háskóla hins vegar. Það er mat ráðuneytisins að lýsa megi slíkri verkaskiptingu milli félagsstjórnar og háskólaráðs í hlutaðeigandi samþykktum og skipulagsskrám.

Um 11. gr.


    Í greininni er kveðið á um hlutverk háskólafundar og felst breytingin í því að í stað þess að vera „vettvangur fyrir umræðu um fagleg málefni…“ þá verði hann „ráðgefandi vettvangur um fagleg málefni…“ Með þessu móti er hlutverk háskólafundar brýnt frekar en í gildandi lögum og honum gefið ákveðið hlutverk í stjórn og stefnumótun skólans.

Um 12. gr.


    Meginefni breytinga á 18. gr. laganna felast í að starfsmenn háskóla við kennslu og rannsóknir, sem bera stöðuheitið prófessor, dósent, lektor eða sérfræðingur, skulu hafa lokið doktorsprófi eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu á sínu fræðasviði. Sama á við um þá sem sitja í dómnefndum. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að viðkomandi starfsmenn hafi lokið meistaranámi hið minnsta. Þetta ákvæði á ekki við um aðjúnkta og stundakennara enda er ekki gerð krafa um doktorspróf hjá þeim. Í greininni er viðhaldið ákvæði um jafngilda þekkingu og reynslu sem oft á við, t.d. í listum eða öðrum sambærilegum fræðasviðum, og er mikilvægt að það sé áfram til staðar. Í þeim nágrannaríkjum Íslands, sem oftast eru höfð til samanburðar, er doktorspróf í flestum tilvikum forsenda fyrir ráðningu í akademísk störf. Þessari breytingu er ætlað að tryggja gæði kennslu og rannsókna í háskólum.
    Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að ákvæðið eigi aðeins við þá starfsmenn sem ráðnir eru eftir lögfestingu frumvarpsins enda þykir sýnt að miðað við aðstæður um þessar mundir gætu skólarnir ekki mannað allar stöður ef ákvæðið gilti um núverandi starfsmenn þeirra.
    Í samráðsferli um frumvarpið komu fram athugasemdir frá Listaháskóla Íslands um að sú breyting sem hér er lögð til kunni að setja ráðningarmál skólans í uppnám. Á samráðsfundum ráðuneytisins með rektorum allra háskólanna lýstu þeir yfir mikilvægi þess að doktorspróf yrði tekið upp sem hæfnisskilyrði við ráðningu háskólakennara. Til að koma til móts við sjónarmið Listaháskóla Íslands hefur verið bætt við ákvæði í 12. gr. frumvarpsins um að til greina komi að meta tiltekna þekkingu og reynslu jafngilda doktorsprófi.

Um 13. gr.


    Nýmæli er í greininni að ráðherra sé heimilt að mæla fyrir um samræmt fyrirkomulag innritunar á landsvísu, meðferð umsókna og auglýsingu umsóknarfrests um skólavist í háskólum. Þetta er í samræmi við stefnu um samstarf háskóla, svokallað háskólanet, sem unnið er að og er ætlað að auðvelda stúdentum skráningu í nám og spara fjármuni.
    Hér er ráðgert að í 3. mgr. 19. gr. laganna komi heimild fyrir ráðherra að gefa út reglur um aðfaranám í háskólum. Sumir háskólar hafa til langs tíma rekið aðfaranám eða svokallað „frumgreinanám“ fyrir þá nemendur sem þurfa frekari undirbúning til að fá inngöngu í háskóla. Þar sem um er að ræða framhaldsskólanám er talið viðeigandi að settur verði ákveðinn rammi um námið, þar sem fram kemur á hvaða skólastigi námið er og að farið sé eftir viðmiðum um framhaldsskólanám, t.d. um viðurkennda námskrá og einingar.
    Í c-lið er nýmæli að fjallað er um rétt fatlaðra til náms í háskólum með þeim stuðningi sem þeir þurfa á að halda vegna námsins. Í samráðsferli um frumvarpið komu fram ábendingar frá Háskóla Íslands og þjónustumiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga að þörf væri á lagaákvæði um rétt fatlaðra nemenda í háskólanámi.
    Með ákvæði c-liðar 13. gr. frumvarpsins um réttindi fatlaðra til háskólanáms eru leidd í landslög ákvæði 24. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem undirritaður var af hálfu Íslands 30. mars 2007. Skv. 5. mgr. 24. gr. samningsins skulu aðildarríki hans tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að hefja almennt nám á háskólastigi og að það fái aðgang að starfsþjálfun, fullorðinsfræðslu og símenntun án mismununar og til jafns við aðra. Tekið er fram að aðildarríkin skuli, í þessu skyni, tryggja að fatlað fólk fái notið viðeigandi aðlögunar.

Um 14. gr.


    Lögð er til sú breyting á 21. gr. að felldur er niður e-liður þess efnis að fjárframlög og greiðslur úr ríkissjóði fyrir nám sem skilgreint er sem sí- og endurmenntun skuli vera m.a. efni samninga við háskóla. Þetta ákvæði er talið ónauðsynlegt sökum þess að það er á ábyrgð skólanna hvernig gjaldtöku þeirri er háttað og að auki er það skilgreint í lögum um opinberu háskólana. Þá er einnig ráðgert nýtt ákvæði um að ráðherra sé heimilt að fela einstökum háskólum að sinna kennslu eða rannsóknum á ákveðnum, afmörkuðum sviðum. Heimildin byggist á því að hún verði nýtt til þess að tryggja að háskólastarfsemi eigi sér stað í greinum sem hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenskt skólasamfélag. Jafnframt veitir það ráðherra heimild til að skipta kennslu og rannsóknum milli háskóla, eftir styrkleika þeirra.

Um 15. gr.


    Breytingarnar fela í sér að fellt er brott ákvæði 1. málsl. 24. gr. laganna þess efnis að mennta- og menningarmálaráðuneyti haldi skrá um þær prófgráður sem í boði eru í viðurkenndum háskólum. Þess í stað er ráðgert að háskólar sjái um að birta prófgráðulista hverju sinni. Breytingin miðar að því að prófgráðulistar háskóla séu ætíð uppfærðir. Ráðgert er að hægt verði að nálgast listana með tenglum á heimasíðu ráðuneytisins.

Um 16. gr.


    Hér er lagt til að við 25. gr. laganna bætist nýir málsliðir. Í þeim fyrsta er kveðið á um að háskólum sé skylt að láta ráðuneytinu í té allar þær upplýsingar og gögn sem það þarfnast vegna eftirlits með starfsemi þeirra og fjármálum. Til að bæta eftirlit með ráðstöfun opinbers fjár þykir eðlilegt að setja slíkt ákvæði í lög um háskóla því að þeir þiggja allir fjárframlög úr ríkissjóði. Ekki er talið að þetta ákvæði sé íþyngjandi enda umrædd gögn fyrirliggjandi í skólunum og þess gætt að meðferð allra gagna sé í samræmi við lög. Í öðrum málslið, sem einnig er nýmæli, er kveðið á um að um skjöl háskóla skuli fara að lögum um Þjóðskjalasafn Íslands, nr. 66/1985. Þá er þess einnig getið að ef starfsemi háskóla er lögð niður eða færð undir aðra stofnun skuli skjöl skólans færð til Þjóðskjalasafns. Þessi ákvæði eru til að ítreka að ekki skuli fara með skjöl háskóla, sem ekki eru ríkisskólar, einkum um námsframvindu og árangur nemenda, eins og um einkafyrirtæki væri að ræða. Þá eru einnig tekin af tvímæli um afdrif skjala háskóla, sem ekki eru ríkisskólar, séu þeir lagðir niður eða starfsemin sameinuð annarri.

Um 17. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um að einungis þeir kennarar sem ráðnir verða eftir gildistöku laganna þurfi að lúta ákvæðum 12. gr. frumvarps þessa um doktorspróf. Hluti starfsmanna í háskólum á Íslandi um þessar mundir hefur ekki doktorsgráðu og því eðlilegt að þeir séu undanþegnir þessu ákvæði en við nýráðningar komi þeir aðeins til greina sem hafa doktorsgráðu.



Fylgiskjal I.


Samanburður á ákvæðum frumvarpsins og gildandi lögum.


GILDANDI LÖG


I. kafli. Gildissvið. Hlutverk háskóla.
2. gr.

    Háskóli er sjálfstæð menntastofnun sem sinnir kennslu, rannsóknum, varðveislu þekkingar, þekkingarleit og sköpun á sviðum vísinda, fræða, tækniþróunar eða lista. Hlutverk háskóla er að stuðla að sköpun og miðlun þekkingar og færni til nemenda og samfélagsins alls. Starf háskóla miðar að því að styrkja innviði íslensks samfélags og stöðu þess í alþjóðlegu tilliti. Háskóli er miðstöð þekkingar og hluti af alþjóðlegu mennta- og vísindasamfélagi.
    Háskólar mennta nemendur með kennslu og þátttöku í vísindarannsóknum og búa þá undir að gegna störfum sem krefjast vísindalegra vinnubragða, þekkingar og færni. Menntun, sem háskólar veita, tekur mið af þörfum samfélagsins hverju sinni og getur verið fræðilegs eðlis og starfsmiðuð.
    Háskólar hafa sjálfdæmi um starfsemi sína að öðru leyti en því sem kveðið er á um í lögum, reglum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum sem veitt eru á grundvelli þeirra. Háskólar skulu setja sér siðareglur, m.a. um fræðilegt sjálfstæði starfsmanna.

















II. kafli. Viðurkenning háskóla.
3. gr.

    Háskóla má reka sem ríkisstofnun, sjálfseignarstofnun, hlutafélag eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi. Ríkisrekinn háskóli er sjálfstæð ríkisstofnun sem heyrir undir ráðherra nema yfirstjórn hennar sé falin öðrum ráðherra að lögum.
    Ráðherra veitir háskólum viðurkenningu að uppfylltum skilyrðum laga þessara.
    Ráðherra gefur út reglur um viðurkenningu háskóla sem byggjast á alþjóðlegum viðmiðum um háskólastarfsemi. Í þeim skulu tilgreind skilyrði sem háskólar skulu fullnægja til að öðlast viðurkenningu. Skilyrðin lúta að eftirtöldum þáttum:
a.    hlutverki og markmiðum háskóla,
b.    stjórnskipan og skipulagi,
c.    fyrirkomulagi kennslu og rannsókna,
d.    hæfisskilyrðum starfsmanna,
e.    inntökuskilyrðum og réttindum og skyldum nemenda,
f.    aðstöðu kennara og nemenda og þjónustu við þá, þ.m.t. fatlaðra nemenda,
g. innra gæðakerfi,
h.    lýsingu á inntaki náms út frá þekkingu, hæfni og færni við námslok,
i.    fjárhag.
    Viðurkenning háskóla er bundin við tiltekin fræðasvið.
    Háskóli skal sækja um heimild til ráðherra óski hann eftir viðurkenningu til að stunda kennslu eða rannsóknir á öðru fræðasviði en viðurkenning hans nær þegar til. Háskólar geta eingöngu starfað á fræðasviðum sem viðurkenning þeirra nær til.
    Ráðherra skipar þrjá óháða og sérfróða einstaklinga í nefnd er veitir umsögn um umsóknir um viðurkenningu er taki til einstakra fræðasviða.
    Hyggist háskóli láta af kennslu eða rannsóknum á tilteknu fræðasviði skal ráðuneyti tilkynnt um það. Hafi ekki verið stunduð kennsla eða rannsóknir í tvö ár samfleytt á fræðasviði, sem viðurkenning háskóla nær til, fellur viðurkenning háskólans á því fræðasviði úr gildi.
    Í viðurkenningu háskóla felst staðfesting á því að starfsemi viðkomandi háskóla sé í samræmi við lög þessi og reglur sem settar kunna að vera með stoð í þeim. Viðurkenning felur ekki í sér að stjórnvöld séu skuldbundin til að veita fé til viðkomandi háskóla.
    Ráðherra skal setja reglur um erlendar þýðingar á heitum þeirra háskóla sem hann veitir viðurkenningu.





5. gr.

    Ráðherra gefur út formleg viðmið um æðri menntun og prófgráður. Viðmið um æðri menntun og prófgráður eru kerfisbundin lýsing á prófgráðum og lokaprófum þar sem lögð er áhersla á almenna lýsingu á þeirri þekkingu, hæfni og færni sem námsmenn eiga að ráða yfir við námslok. Í þeim skulu koma fram þau skilyrði sem háskólum ber að uppfylla á hverju námsstigi. Háskólum ber að birta sambærilegar lýsingar fyrir hverja námsleið á þeirri þekkingu, hæfni og færni sem námsmenn eiga að ráða yfir við námslok. Birta skal viðmiðin á íslensku og ensku.


III. kafli. Námsframboð og prófgráður.
7. gr.

    Háskólar ákveða fyrirkomulag kennslu, rannsókna, náms og námsmats.
    Háskólar ákveða hvaða nám þeir bjóða innan síns fræðasviðs. Viðurkenndar prófgráður og lokapróf, sem háskólar miða við, eru:
a.    diplómapróf sem jafngildir a.m.k. 30–120 stöðluðum námseiningum,
b.    bakkalárpróf sem jafngildir a.m.k. 180– 240 stöðluðum námseiningum,
c.    meistara- eða kandídatspróf sem jafngildir a.m.k. 90– 120 stöðluðum námseiningum til viðbótar bakkalárprófi eða jafngildi þess,
d.    doktorspróf sem jafngildir að lágmarki 180 stöðluðum námseiningum til viðbótar tilskildum einingafjölda til meistara- eða kandídatsprófs.
    Ráðherra getur heimilað háskólum, þegar sérstaklega stendur á, að víkja frá námseiningafjölda skv. 2. mgr. Háskólar geta skilgreint nám sem felur í sér starfsþjálfun til námseininga á námsstigum skv. 2. mgr.
    Háskólar skulu leita heimildar ráðherra til að bjóða nám til doktorsprófs. Skal sýnt fram á að viðkomandi háskóli uppfylli viðeigandi kröfur og skilyrði sem tilgreind eru í reglum um doktorsnám í háskólum. Ráðherra skipar þrjá óháða og sérfróða einstaklinga í nefnd er veitir umsögn um hæfi háskóla til að veita doktorsgráður.
    Ráðherra getur heimilað háskólum að veita doktorsgráðu án þess að byggt sé á stöðluðum einingum.

8. gr.

    Háskólar skulu reglulega gera grein fyrir því opinberlega hvernig tryggt er að það nám, sem þeir bjóða, uppfylli viðmið um æðri menntun og prófgráður skv. 5. gr.
    Við undirbúning og skipulagningu nýrra námsleiða skal háskóli birta upplýsingar um hvernig námið uppfyllir þau skilyrði og kröfur sem fram koma í viðmiðum um æðri menntun og prófgráður.

9. gr.

    Háskólar, sem starfa á grundvelli laga þessara, skulu gera með sér samkomulag um gagnkvæma viðurkenningu námsþátta. Þeir skulu hafa með sér samstarf til að nýta sem best tiltæka starfskrafta og gagnakost og stuðla með hagkvæmum hætti að fjölbreyttri háskólamenntun. Háskólum er heimilt að veita prófgráður skv. 7. gr. í samstarfi við aðra háskóla, innlenda sem erlenda.





10. gr.

    Heimilt er háskólum að meta til eininga nám sem fram fer í öðrum háskólum. Jafnframt er háskólum heimilt að meta til eininga nám sem fram fer við aðra skóla og rannsóknastofnanir enda ábyrgist þeir að námið uppfylli sambærilegar gæða- og námskröfur og gerðar eru á grundvelli laga þessara.



IV. kafli. Eftirlit með gæðum kennslu
og rannsókna.
14. gr.

    Ráðherra getur falið nefnd, stofnun, fyrirtæki eða öðrum til þess bærum aðilum, innlendum eða erlendum, að annast almenna umsýslu með ytra mati á kennslu og rannsóknum.
    Framkvæmd ytra mats skal falin óháðum aðila. Að því mati skulu að jafnaði koma bæði innlendir og erlendir sérfræðingar og fulltrúi nemenda.



V. kafli. Stjórnskipan háskóla.
15. gr.

    Yfirstjórn háskóla er falin háskólaráði og rektor eftir því sem nánar er kveðið á um í sérlögum, skipulagsskrá, samþykktum eða öðrum stofnskjölum háskóla. Háskólaráð er æðsti ákvörðunaraðili innan hvers háskóla nema annað sé berum orðum tekið fram í lögum þessum, sérlögum, skipulagsskrá, samþykktum eða stofnskjölum háskóla.
    Að öðru leyti fer um stjórnskipan háskóla eftir sérlögum, skipulagsskrá, samþykktum eða stofnskjölum háskóla.






16. gr.

    Í hverjum háskóla skal haldinn háskólafundur a.m.k. einu sinni á ári. Háskólafundur er vettvangur fyrir umræðu um fagleg málefni innan háskólans og akademíska stefnumótun. Háskólaráð ákveður nánar hlutverk og fyrirkomulag háskólafundar. Háskólaráð skal tryggja að fulltrúar kennara, nemenda og annars starfsliðs eigi rétt til setu á háskólafundi. Rektor stýrir háskólafundi.


VI. kafli. Starfslið háskóla.
18. gr.

    Háskólar skulu setja á fót dómnefnd til að meta hæfi prófessora, dósenta, lektora og sérfræðinga. Þeir sem bera starfsheiti skv. 17. gr. skulu hafa lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar. Þeir skulu jafnframt hafa sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á viðkomandi sérsviði.
    Í dómnefndir má skipa þá eina sem lokið hafa meistaraprófi úr háskóla eða jafngildu námi og skal formaður dómnefndar hafa sama eða æðra hæfi og um er fjallað, verði því við komið. Í dómnefnd skal sitja a.m.k. einn fulltrúi sem ekki starfar við viðkomandi háskóla.
    Nánari fyrirmæli um dómnefndir, kröfur til kennara, hæfi þeirra og starfsskyldur eru sett í sérlög, samþykktir, skipulagsskrár eða stofnskjal háskóla.

VII. kafli. Nemendur.
19. gr.

    Nemendur, sem hefja nám í háskóla, skulu hafa lokið stúdentsprófi eða jafngildu prófi. Heimilt er háskólum að innrita nemendur sem búa yfir jafngildum þroska og þekkingu að mati viðkomandi háskóla. Tryggja skal að inntökuskilyrði í háskóla og námskröfur svari jafnan til þess sem krafist er í viðurkenndum háskólum á sambærilegu sviði erlendis.





    Heimilt er að ákveða sérstök inntökuskilyrði til að hefja nám í háskóla, þar á meðal að láta nemendur, sem uppfylla skilyrði 1. mgr., gangast undir inntökupróf eða stöðupróf.
    Háskólum er heimilt, að fengnu samþykki ráðuneytis, að bjóða upp á aðfaranám fyrir einstaklinga sem ekki uppfylla inntökuskilyrði í háskóla.
    Að fenginni umsögn samtaka nemenda í viðkomandi háskóla setur háskólaráð reglur um réttindi og skyldur nemenda, þ.m.t. um málskotsrétt þeirra innan háskólans.













VIII. kafli. Fjárhagsmálefni.
21. gr.

    Ráðherra er heimilt að gera samninga til 3– 5 ára í senn um fjárframlög til kennslu og rannsókna í háskólum sem hlotið hafa viðurkenningu ráðuneytis samkvæmt lögum þessum. Slíkir samningar eru skilyrði fyrir veitingu fjárframlaga til viðkomandi háskóla.
    Í samningum skal kveðið á um eftirfarandi:
a.    skilmála sem ráðuneyti setur fyrir veitingu fjárframlaga til háskólans,
b.    skilgreiningu á þeirri kennslu- og rannsóknastarfsemi sem ríkissjóður greiðir fyrir,
c.    helstu áherslur í starfi háskólans og sameiginleg markmið samningsaðila,
d.    önnur verkefni sem háskólinn innir af hendi samkvæmt samningnum,
e.    fjárframlög og greiðslur úr ríkissjóði fyrir nám sem skilgreint er sem sí- og endurmenntun.
    Ráðherra er heimilt að kveða sérstaklega á um greiðslur úr ríkissjóði til háskóla fyrir nám einstaklinga sem ekki hafa ríkisfang innan Evrópska efnahagssvæðisins.


IX. kafli. Önnur ákvæði.
24. gr.

    Ráðuneyti heldur skrá um þær prófgráður sem í boði eru við háskóla sem ráðuneytið hefur viðurkennt. Háskóli skal gefa út kennsluskrá fyrir hvert kennsluár þar sem birt er yfirlit og upplýsingar um öll einingabær námskeið og prófgráður sem skólinn veitir.

25. gr.


    Háskóla ber að varðveita upplýsingar um námsferil þeirra sem þar stunda eða hafa stundað nám. Þeim ber einnig að láta í té þær upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru vegna opinberrar tölfræðivinnu og hagskýrslugerðar.

BREYTING, VERÐI FRUMVARPIÐ
AÐ LÖGUM

I. kafli. Gildissvið. Hlutverk háskóla.
2. gr.

    Háskóli er sjálfstæð menntastofnun sem sinnir kennslu, rannsóknum, varðveislu þekkingar, þekkingarleit og sköpun á sviðum vísinda, fræða, tækniþróunar eða lista. Hlutverk háskóla er að stuðla að sköpun og miðlun þekkingar og færni til nemenda og samfélagsins alls. Starf háskóla miðar að því að styrkja innviði íslensks samfélags og stöðu þess í alþjóðlegu tilliti með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi. Háskóli er miðstöð þekkingar og hluti af alþjóðlegu mennta- og vísindasamfélagi.
    Háskólar mennta nemendur með kennslu og þátttöku í vísindarannsóknum og búa þá undir að gegna störfum sem krefjast [úrfelling] fræðilegra vinnubragða, þekkingar og færni. Háskóli undirbýr nemendur til ábyrgrar þátttöku í lýðræðissamfélagi. Menntun, sem háskólar veita, tekur mið af þörfum samfélagsins hverju sinni og getur verið fræðilegs eðlis og starfsmiðuð.
[úrfelling]
     Háskólar ráða skipulagi starfsemi sinnar og ákveða hvernig henni er best fyrir komið til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag, fyrir nemendur og fyrir framþróun vísinda og fræða.

2. gr. a.

    Háskólum er skylt að virða fræðilegt sjálfstæði starfsmanna sinna. Fræðilegt sjálfstæði starfsmanna felur í sér rétt þeirra til að fjalla um kennslugrein sína á þann hátt sem þeir telja skynsamlegt og í samræmi við fræðilegar kröfur. Fræðilegt sjálfstæði dregur ekki úr ábyrgð starfsmanna á að fara að almennum starfsreglum og siðareglum viðkomandi háskóla. Viðfangsefni rannsókna og kennslu á einstökum fræðasviðum háskóla skulu vera óháð afskiptum þeirra sem eiga skólann eða leggja honum til fé.
    Háskólar skulu setja sér siðareglur m.a. um réttindi og skyldur starfsmanna skv. 1. mgr.

II. kafli. Viðurkenning háskóla.
3. gr.

    Háskóla má reka sem ríkisstofnun, sjálfseignarstofnun, [úrfelling] eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi. Ríkisrekinn háskóli er sjálfstæð ríkisstofnun sem heyrir undir ráðherra nema yfirstjórn hennar sé falin öðrum ráðherra að lögum. Háskóli skal ekki rekinn með fjárhagslegan ágóða að markmiði.
    Ráðherra veitir háskólum viðurkenningu að uppfylltum skilyrðum laga þessara.
    Ráðherra gefur út reglur um viðurkenningu háskóla sem byggjast á alþjóðlegum viðmiðum um háskólastarfsemi. Í þeim skulu tilgreind skilyrði sem háskólar skulu fullnægja til að öðlast viðurkenningu. Skilyrðin lúta að eftirtöldum þáttum:
a.    hlutverki og markmiðum háskóla,
b.    stjórnskipan og skipulagi,
c.    fyrirkomulagi kennslu og rannsókna,
d.    hæfisskilyrðum starfsmanna,
e.    inntökuskilyrðum og réttindum og skyldum nemenda,
f.    aðstöðu kennara og nemenda og þjónustu við þá, þ.m.t. fatlaðra nemenda,
g.    innra gæðakerfi,
h.    lýsingu á inntaki náms út frá þekkingu, leikni og hæfni [úrfelling] við námslok,
i.    fjárhag.
    Viðurkenning háskóla er bundin við tiltekin fræðasvið og undirflokka þeirra.
    Háskóli skal sækja um heimild til ráðherra óski hann eftir viðurkenningu til að stunda kennslu eða rannsóknir á öðru fræðasviði en viðurkenning hans nær þegar til. Háskólar geta eingöngu starfað á fræðasviðum sem viðurkenning þeirra nær til.
    Ráðherra skipar þrjá óháða og sérfróða einstaklinga í nefnd er veitir umsögn um umsóknir um viðurkenningu er taki til einstakra fræðasviða.
    Hyggist háskóli láta af kennslu eða rannsóknum á tilteknu fræðasviði skal ráðuneyti tilkynnt um það. Hafi ekki verið stunduð kennsla eða rannsóknir í tvö ár samfleytt á fræðasviði, sem viðurkenning háskóla nær til, fellur viðurkenning háskólans á því fræðasviði úr gildi.
    Í viðurkenningu háskóla felst staðfesting á því að starfsemi viðkomandi háskóla sé í samræmi við lög þessi og reglur sem settar kunna að vera með stoð í þeim. Viðurkenning felur ekki í sér að stjórnvöld séu skuldbundin til að veita fé til viðkomandi háskóla. Engri stofnun er heimilt að starfa á Íslandi undir heitinu háskóli nema hún hafi hlotið viðurkenningu ráðherra.
    Ráðherra skal setja reglur um erlendar þýðingar á heitum þeirra háskóla sem hann veitir viðurkenningu.


5. gr.

    Ráðherra gefur út formleg viðmið um æðri menntun og prófgráður. Viðmið um æðri menntun og prófgráður eru kerfisbundin lýsing á prófgráðum og lokaprófum þar sem lögð er áhersla á almenna lýsingu á þeirri þekkingu, leikni og hæfni [úrfelling] sem námsmenn eiga að ráða yfir við námslok. Í þeim skulu koma fram þau skilyrði sem háskólum ber að uppfylla á hverju námsstigi. Háskólum ber að birta sambærilegar lýsingar fyrir hverja námsleið á þeirri þekkingu, leikni og hæfni [úrfelling] sem námsmenn eiga að ráða yfir við námslok. [úrfelling]


III. kafli. Námsframboð og prófgráður.
7. gr.

    Háskólar ákveða fyrirkomulag kennslu, rannsókna, náms og námsmats.
    Háskólar ákveða hvaða nám þeir bjóða innan síns fræðasviðs og undirflokka þeirra. Viðurkenndar prófgráður og lokapróf, sem háskólar miða við, eru:
a.    diplómapróf sem jafngildir a.m.k. 30– 120 stöðluðum námseiningum,
b.    bakkalárpróf sem jafngildir a.m.k. 180– 240 stöðluðum námseiningum,
c.    meistara- eða kandídatspróf sem jafngildir a.m.k. 90– 120 stöðluðum námseiningum til viðbótar bakkalárprófi eða jafngildi þess,
d.    doktorspróf sem jafngildir að lágmarki 180 stöðluðum námseiningum til viðbótar tilskildum einingafjölda til meistara- eða kandídatsprófs.
[úrfelling] Háskólar geta skilgreint nám sem felur í sér starfsþjálfun til námseininga á námsstigum skv. 2. mgr.
    Háskólar skulu leita heimildar ráðherra til að bjóða nám til doktorsprófs. Skal sýnt fram á að viðkomandi háskóli uppfylli viðeigandi kröfur og skilyrði sem tilgreind eru í reglum um doktorsnám í háskólum. Ráðherra skipar þrjá óháða og sérfróða einstaklinga í nefnd er veitir umsögn um hæfi háskóla til að veita doktorsgráður.
[úrfelling]




8. gr.

    Háskólar skulu reglulega gera grein fyrir því opinberlega hvernig tryggt er að það nám, sem þeir bjóða, uppfylli viðmið um æðri menntun og prófgráður skv. 5. gr.
    Við undirbúning og skipulagningu nýrra námsleiða skal háskóli [úrfelling] afla staðfestingar ráðuneytis á því að námið uppfylli viðmið um æðri menntun og prófgráður skv. 5. gr.


9. gr.

    Háskólar, sem starfa á grundvelli laga þessara, skulu gera með sér samkomulag um gagnkvæma viðurkenningu námsþátta og námsleiða. Þeir skulu hafa með sér samstarf til að nýta sem best tiltæka starfskrafta og gagnakost og stuðla með hagkvæmum hætti að fjölbreyttri háskólamenntun. Háskólum er heimilt að veita prófgráður skv. 7. gr. í samstarfi við aðra háskóla, innlenda sem erlenda. Með þeim hætti skulu háskólar á Íslandi leitast við að vinna saman til að nýta sem best opinberar fjárveitingar og styrkja stöðu sína á alþjóðlegum vettvangi.

10. gr.

    Heimilt er háskólum að meta til eininga nám sem fram fer í öðrum viðurkenndum háskólum og rannsóknastofnunum. Jafnframt er háskólum heimilt í undantekningartilvikum að meta til eininga nám skeið sem fram fer við aðra skóla og rannsóknastofnanir enda ábyrgist þeir að námið uppfylli sambærilegar gæða- og námskröfur og gerðar eru á grundvelli laga þessara.


IV. kafli. Eftirlit með gæðum kennslu
og rannsókna.
14. gr.

    Ráðherra getur falið nefnd, stofnun, fyrirtæki eða öðrum til þess bærum aðilum, innlendum eða erlendum, að annast almenna [úrfelling] umsjón með ytra mati á kennslu og rannsóknum. Ráðherra er heimilt að setja reglur um fyrirkomulag ytra mats á háskólum.
    Framkvæmd ytra mats skal falin óháðum aðila. Að því mati skulu að jafnaði koma [úrfelling] innlendir sérfræðingar, ef þess er kostur, og erlendir sérfræðingar og fulltrúi nemenda.

V. kafli. Stjórnskipan háskóla.
15. gr.

    Yfirstjórn háskóla er falin háskólaráði og rektor eftir því sem nánar er kveðið á um í sérlögum, skipulagsskrá, samþykktum eða öðrum stofnskjölum háskóla. Þar skal gert ráð fyrir setu fulltrúa starfsmanna og nemenda í stjórn eða háskólaráði og í þeim stjórnunareiningum þar sem fjallað er um kennslu og rannsóknir. Háskólaráð er æðsti ákvörðunaraðili innan hvers háskóla [úrfelling]. Rektor er formaður háskólaráðs og stýrir fundum ráðsins. Hann skal uppfylla kröfur 1. mgr. 18. gr. til að bera starfsheitið dósent eða prófessor á einu eða fleiri viðurkenndum fræðasviðum viðkomandi háskóla.
    Að öðru leyti fer um stjórnskipan háskóla eftir sérlögum, skipulagsskrá, samþykktum eða stofnskjölum háskóla.

16. gr.

    Í hverjum háskóla skal haldinn háskólafundur a.m.k. einu sinni á ári. Háskólafundur er ráðgefandi vettvangur [úrfelling] um fagleg málefni innan háskólans og [úrfelling] fræðilega stefnumótun. Háskólaráð ákveður nánar hlutverk og fyrirkomulag háskólafundar. Háskólaráð skal tryggja að fulltrúar kennara, nemenda og annars starfsliðs eigi rétt til setu á háskólafundi. Rektor stýrir háskólafundi.

VI. kafli. Starfslið háskóla.
18. gr.

    Háskólar skulu setja á fót dómnefnd til að meta hæfi prófessora, dósenta, lektora og sérfræðinga. Þeir sem bera framangreind starfsheiti [úrfelling] skulu hafa lokið [úrfelling] doktorsprófi [úrfelling] eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar. Þeir skulu jafnframt hafa sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á viðkomandi sérsviði.
    Í dómnefndir má skipa þá eina sem lokið hafa [úrfelling] doktorsprófi úr háskóla eða [úrfelling] aflað sér jafngildrar þekkingar og reynslu [úrfelling]. Í dómnefnd skal sitja a.m.k. einn fulltrúi sem ekki starfar við viðkomandi háskóla.
    Nánari fyrirmæli um dómnefndir, kröfur til kennara, hæfi þeirra og starfsskyldur eru sett í sérlög, samþykktir, skipulagsskrár eða stofnskjal háskóla.


VII. kafli. Nemendur.
19. gr.

    Nemendur, sem hefja nám í háskóla, skulu hafa lokið stúdentsprófi eða jafngildu prófi. Heimilt er háskólum að innrita nemendur sem búa yfir jafngildum þroska og þekkingu að mati viðkomandi háskóla. Tryggja skal að inntökuskilyrði í háskóla og námskröfur svari jafnan til þess sem krafist er í viðurkenndum háskólum á sambærilegu sviði erlendis.
     Í reglugerð sem ráðherra gefur út er heimilt að mæla fyrir um samræmt fyrirkomulag innritunar á landsvísu, meðferð umsókna og auglýsingu umsóknarfrests um skólavist í háskólum.
    Heimilt er að ákveða sérstök inntökuskilyrði til að hefja nám í háskóla, þar á meðal að láta nemendur, sem uppfylla skilyrði 1. mgr., gangast undir inntökupróf eða stöðupróf.
    Háskólum er heimilt, að fengnu samþykki ráðuneytis, að bjóða upp á aðfaranám fyrir einstaklinga sem ekki uppfylla inntökuskilyrði í háskóla. Ráðherra er heimilt að gefa út reglur um aðfaranám í háskólum.
    Að fenginni umsögn samtaka nemenda í viðkomandi háskóla setur háskólaráð reglur um réttindi og skyldur nemenda, þ.m.t. um málskotsrétt þeirra innan háskólans.
     Háskólar skulu veita nemendum með fötlun, sbr. 2. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992 og nemendum með tilfinningalega eða félagslega örðugleika kennslu og sérstakan stuðning í námi. Látin skal í té sérfræðileg aðstoð og viðeigandi aðbúnaður eftir því sem þörf krefur. Nemendur með fötlun skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er. Háskólar skulu jafnframt leitast við að veita þeim nemendum sérstakan stuðning sem eiga við sértæka námsörðugleika að stríða eða veikindi.

VIII. kafli. Fjárhagsmálefni.
21. gr.

    Ráðherra er heimilt að gera samninga til 3– 5 ára í senn um fjárframlög til kennslu og rannsókna í háskólum sem hlotið hafa viðurkenningu ráðuneytis samkvæmt lögum þessum. Slíkir samningar eru skilyrði fyrir veitingu fjárframlaga til viðkomandi háskóla.
    Í samningum skal kveðið á um eftirfarandi:
a.    skilmála sem ráðuneyti setur fyrir veitingu fjárframlaga til háskólans,
b.    skilgreiningu á þeirri kennslu- og rannsóknastarfsemi sem ríkissjóður greiðir fyrir,
c.    helstu áherslur í starfi háskólans og sameiginleg markmið samningsaðila,
d.    önnur verkefni sem háskólinn innir af hendi samkvæmt samningnum,
[úrfelling]
     Ráðherra er heimilt að fela einstökum háskólum að sinna kennslu eða rannsóknum á ákveðnum afmörkuðum sviðum.
    Ráðherra er heimilt að kveða sérstaklega á um greiðslur úr ríkissjóði til háskóla fyrir nám einstaklinga sem ekki hafa ríkisfang innan Evrópska efnahagssvæðisins.

IX. kafli. Önnur ákvæði.
24. gr.

     [úrfelling] Hver háskóli skal birta opinberlega lista yfir prófgráður sem eru í boði hverju sinni. Háskóli skal gefa út kennsluskrá fyrir hvert kennsluár þar sem birt er yfirlit og upplýsingar um öll einingabær námskeið og prófgráður sem skólinn veitir.

25. gr.

    Háskóla ber að varðveita upplýsingar um námsferil þeirra sem þar stunda eða hafa stundað nám. Þeim ber einnig að láta í té þær upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru vegna opinberrar tölfræðivinnu og hagskýrslugerðar. Háskóla er skylt að láta ráðuneytinu í té allar þær upplýsingar og gögn sem það þarfnast vegna eftirlits með starfsemi hans og fjármálum. Um skjöl háskóla fer að lögum um Þjóðskjalasafn Íslands, nr. 66/1985, með síðari breytingum. Ef starfsemi háskóla er lögð niður eða færð undir aðra stofnun skulu skjöl hans færð til Þjóðskjalasafns.

Ákvæði til bráðabirgða.

     Ákvæði 12. gr. eiga aðeins við um þá starfsmenn sem eru ráðnir eftir gildistöku laga þessara.



Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006
(sjálfstæði og lýðræði í háskólum, réttindi fatlaðra nemenda).

    Frumvarpið er lagt fram til að bregðast við ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 sem varða háskóla- og fræðasamfélagið á Íslandi og skýrslu þingmannanefndar sem skipuð var í framhaldi af skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru m.a. ábendingar til fræðasamfélagsins um hlutverk háskóla og ábyrgð starfsmanna. Þar kemur einnig fram að styrkja þurfi tengsl fræðasamfélagsins, atvinnulífsins og hins almenna borgara og að endurskoða þurfi ákvæði laga um háskóla og opinbera háskóla einkum í þeim tilgangi að tryggja betur frelsi háskólasamfélagsins og fræðilega hlutlægni.
    Til að koma til móts við fyrrnefndar ábendingar er í frumvarpinu kveðið á um að háskólum verði gert skylt að virða fræðilegt sjálfstæði starfsmanna sinna og að tryggja lýðræði við stjórn háskólanna með aðkomu starfsmanna og nemenda að stjórnunareiningum þeirra.
    Helstu nýmæli í frumvarpinu eru ákvæði um fræðilegt sjálfstæði háskólakennara og krafa um doktorspróf eða sambærilega menntun kennara við háskóla. Einnig eru þau nýmæli í frumvarpinu að lagt er til að óheimilt verði að reka háskóla með fjárhagslegan ágóða að markmiði. Þá eru gerðar tillögur um rétt fatlaðra til náms í háskólum með þeim stuðningi sem þeir þurfa á að halda vegna námsins. Samkvæmt þeim ákvæðum skulu háskólar veita nemendum með fötlun og nemendum með tilfinningalega eða félagslega örðugleika kennslu og sérstakan stuðning í námi. Látin skal í té sérfræðileg aðstoð og viðeigandi aðbúnaður eftir því sem þörf krefur. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að háskólar setji sér siðareglur, m.a. um réttindi og skyldur starfsmanna. Auk þess er í frumvarpinu kveðið á um að háskólar landsins leitist við að vinna saman að því að nýta sem best opinberar fjárveitingar og styrkja stöðu sína á alþjóðavettvangi. Þá er háskólum gert skylt samkvæmt frumvarpinu að láta mennta- og menningarmálaráðuneytinu í té allar þær upplýsingar og gögn sem það þarfnast vegna eftirlits með starfsemi þeirra og fjármálum óháð rekstrarformi skólanna. Í frumvarpinu er einnig skýrt kveðið á um að einungis viðurkenndir háskólar mega bera heitið „háskóli“.
    Tillögur um breytingar í frumvarpinu miða einkum að því að skýra og treysta samfélagslegt hlutverk háskólanna og ættu þær í sjálfu sér ekki að hafa bein áhrif á núverandi rekstrarumfang háskólanna. Þau ákvæði frumvarpsins sem telja má að gætu haft áhrif á útgjöld ríkissjóðs eru nýmælin sem snúa að menntun kennara við háskóla og innleiðingu á ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hvað varðar skilyrði um að kennarar við háskóla hafi doktorspróf þá kann það að leiða til einhverrar hækkunar á meðallaunum þeirra þegar fram í sækir. Í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þetta skilyrði eigi aðeins við um starfsmenn sem ráðnir verða eftir lögfestingu frumvarpsins þannig að áhrif af því mundu ekki koma fram fyrr en að nokkrum árum liðnum enda hefur fjöldi kennara við háskólana nú þegar doktorsgráðu. Aukin útgjöld háskólanna vegna þessara breytinga eru einnig háð starfsmannaveltu háskólanna og breytingum á kjarasamningum. Hvað varðar ákvæði um rétt fatlaðs fólks til stuðnings við nám, einstaklingsbundnar stuðningsaðgerðir og möguleika fatlaðs fólks til að hefja almennt nám á háskólastigi til jafns við aðra þá kunna þau ákvæði einnig að leiða til aukinna útgjalda til lengri tíma litið. Erfitt er að meta kostnað í tengslum við þessi ákvæði þar sem ekki liggja fyrir nægilega góðar upplýsingar um fjölda þeirra nemenda sem kynnu að hafa þörf fyrir þessa þjónustu, umfang eða tilhögun þjónustunnar eða aðbúnað í háskólunum. Háskólar hafa veitt fötluðum nemendum sérstaka þjónustu. Þannig má nefna að hjá Háskóla Íslands voru tæplega 700 nemendur með samninga um sérúrræði á skólaárinu 2010–2011 og var kostnaður við það metinn á um 30 m.kr. af skólanum. Ekki virðist ástæða til að ætla annað en að sú þjónusta sem nú er veitt á háskólastigi við fatlaða uppfylli yfirleitt þessi ákvæði frumvarpsins en að leitast verði við að bæta hana og efla frá einu ári til annars eftir því sem fjárhagslegt og faglegt svigrúm leyfir. Verði frumvarpið lögfest óbreytt er því ekki talið að það hafi teljandi áhrif á útgjöld háskólanna, a.m.k. ekki fyrst um sinn.