Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 6. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 830  —  6. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um meðferð frumvarps
stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið samhliða umfjöllun um 3. mál, skýrslu forsætisnefndar um tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands. Umsagnir um málið bárust m.a. frá yfir 200 einstaklingum sem lýstu yfir algjörum stuðningi við frumvarp stjórnlagaráðs og kröfðust þess að þjóðin fengi að kjósa um málið óbreytt og sem fyrst. Enn fremur að verði einhverjar breytingar taldar nauðsynlegar verði þær aðeins gerðar með fullri samvinnu og samþykki stjórnlagaráðs.
    Með tillögunni er lagt til hvernig farið skuli með tillögur stjórnlagaráðs um frumvarp til nýrra stjórnarskipunarlaga og m.a. að málið verði tekið á dagskrá og rætt í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, leitað verði eftir áliti sjö manna sérfræðinganefndar (stjórnlaganefndar) með tilmælum um að lagt verði heildstætt mat á frumvarpið sem grunn að nýrri stjórnarskrá og að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leggi fram tillögur að breytingum ef þörf er á fyrir stjórnlagaráð. Einnig er í tillögunni gert ráð fyrir aðkomu stjórnlaganefndar bæði að kynningu á tillögunum og breytingartillögum og að nefndin afhendi stjórnlagaráði skýrslu um kynningarferlið og tillögur um breytingar ef einhverjar eru. Loks er gert ráð fyrir að fram fari ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögurnar eigi síðar en í júní 2012, samhliða forsetakosningum ef verða.
    Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk þingsályktunartillöguna til meðferðar 6. október 2011 og 3. mál, skýrslu um tillögur stjórnlagaráðs, til meðferðar 11. október 2011. Í vinnu nefndarinnar kom fljótt í ljós að vinnulag það sem þar var lagt til hæfði ekki lengur aðstæðum. Þingsályktunartillagan var þó ekki lögð til hliðar heldur hefur hún verið á dagskrá nefndarinnar samhliða umfjöllun um 3. mál enda er það vilji meiri hluta nefndarinnar að leita álits þjóðarinnar á tillögum stjórnlagaráðs, eins og tillagan felur í sér.
    Við umfjöllun nefndarinnar um tillögur stjórnlagaráðs með fjölmörgum sérfræðingum, m.a. fulltrúum sem sæti áttu í stjórnlaganefnd, og yfirferð yfir umsagnir sem borist hafa um málið sem og umfjöllun í fjölmiðlum hafa vaknað spurningar sem meiri hlutinn teldi til bóta að fá svör stjórnlagaráðs við áður en tillögurnar verða lagðar fram í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, enda nauðsynlegt að tillögurnar fái ítarlega og vandaða meðferð og að um þær ríki sem almennust sátt. Meiri hlutinn tekur fram að það er í samræmi við álit meiri hluta allsherjarnefndar þegar mælt var með samþykkt tillögu um skipun stjórnlagaráðs (sjá þskj. 1028, 549. mál 139. löggjafarþings) þar sem segir m.a.: „… það [er] vilji meiri hlutans að taka eins og hægt er tillit til hugmynda sem fram hafa komið um að efnt verði til kosningar um niðurstöður stjórnlagaráðs áður en þær koma til kasta Alþingis“.
    Í skilabréfi stjórnlagaráðs, dags. 29. júlí 2011, sagði: „Komi fram hugmyndir um breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs lýsa fulltrúar í stjórnlagaráði sig reiðubúna til að koma aftur að málinu áður en þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram.“ Meiri hlutinn telur að í ljósi þess að nú er nokkuð liðið frá því að tillögunum var skilað, umsagnir hafa borist um málið og umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum sé rétt að taka næsta skref, þ.e. að óska eftir samráði við stjórnlagaráð og efna síðan til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu áður en Alþingi tekur málið til efnislegrar meðferðar sem frumvarp. Meiri hlutinn telur auk þess að með því að fara þessa leið verði umfjöllun um málið meiri og almennari bæði í fjölmiðlum og meðal almennra borgara og að niðurstöður slíkrar atkvæðagreiðslu nýtist Alþingi vel við áframhaldandi meðferð málsins.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til að leitað verði til stjórnlagaráðs og það kallað saman til sérstaks fjögurra daga vinnufundar til að fjalla um spurningar og tillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að mögulegum breytingum á frumvarpinu. Lagt er til að stjórnlagaráð skili breytingartillögum til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eigi síðar en 12. mars nk.
    Þá leggur meiri hlutinn til að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd geri tillögur til Alþingis um tillögurnar í heild með breytingartillögum stjórnlagaráðs, ef við á, ásamt spurningum um helstu álitaefni sem verði bornar upp í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, sbr. lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Í tillögunni er gert ráð fyrir að þingsályktunartillagan komi til lokaafgreiðslu Alþingis eigi síðar en 29. mars 2012 en það er nauðsynlegt vegna ákvæða laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna þar sem kveðið er á um að álykti Alþingi að fram skuli fara þjóðaratkvæðagreiðsla skuli hún í fyrsta lagi fara fram þremur mánuðum síðar. Hér er lagt til að hún fari fram 30. júní 2012, þ.e. samhliða forsetakjöri.
    Loks er lagt til að skrifstofa Alþingis sjái um undirbúning og boðun fulltrúa stjórnlagaráðs til vinnufundarins, sjái því fyrir fundaraðstöðu og annarri nauðsynlegri aðstoð, þar á meðal ráðningu starfsmanna. Einnig er lagt til að skrifstofa Alþingis standi fyrir víðtækri kynningu á efni tillagnanna sem bornar verða upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni í samræmi við ákvæði 6. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Meiri hlutinn telur eðlilegt að fjölmiðlar taki þátt í þeirri kynningu og þá sérstaklega RÚV ohf. sem hefur þegar staðið fyrir fræðslu- og umræðuþáttum um efnið.
    Meiri hlutinn leggur því til að tillagan verði samþykkt með framangreindri breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 16. febrúar 2012.



Valgerður Bjarnadóttir,


formaður.


Róbert Marshall,


framsögumaður.


Davíð Stefánsson.



Lúðvík Geirsson.


Magnús M. Norðdahl.


Margrét Tryggvadóttir.