Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 341. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 942  —  341. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu Evrópuráðssamnings um vernd barna
gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Eysteinsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Bryndísi Helgadóttur frá innanríkisráðuneyti og Róbert Spanó, formann refsiréttarnefndar. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Barnaheillum, Barnaverndarstofu, Kvenréttindafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands og umboðsmanni barna.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda Evrópuráðssamning um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun sem gerður var í Lanzarote 25. október 2007. Samningurinn var undirritaður af Íslands hálfu 4. febrúar 2008. Hann öðlaðist gildi 1. júlí 2010. Samningurinn hefur nú verið undirritaður fyrir hönd 43 ríkja og þar af höfðu 17 ríki fullgilt hann í byrjun mars 2012.
    Í athugasemdum við þingsályktunartillöguna kemur fram að markmið samningsins eru að koma í veg fyrir og berjast gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum, að vernda réttindi barna sem eru þolendur kynferðislegrar misneytingar og kynferðislegrar misnotkunar og að efla samstarf í baráttunni gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum hjá hverri þjóð og á alþjóðavísu.
    Jafnframt kemur fram í athugasemdum að samningurinn er fyrsti alþjóðlegi gerningurinn þar sem kynferðisleg misnotkun barna í margvíslegum myndum er gerð refsiverð, þar með talið þegar slík misnotkun á sér stað inni á heimilum eða innan fjölskyldna, þar sem ofbeldi er beitt, nauðung eða hótunum. Samningurinn tekur m.a. til barnavændis, barnakláms, þess að fullorðnir einstaklingar falast eftir börnum í kynferðislegum tilgangi, ferðaþjónustu sem byggist á kynferðislegri misnotkun barna og spillingu barna með því að valda því vísvitandi að börn verði vitni að kynferðislegu efni eða athöfnum.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að kynferðisleg misneyting og kynferðisleg misnotkun á börnum hefur aukist uggvænlega, einkum að því er varðar aukna notkun bæði barna og brotamanna á upplýsinga- og fjarskiptatækni, og að eitt af hverjum fimm börnum í Evrópu verður fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku. Við þessari þróun er brugðist í samningnum með því að tryggja alþjóðlegt samstarf til þess að berjast gegn slíkum brotum.
    Á fundi nefndarinnar var gerð grein fyrir helstu breytingum á íslenskum lögum sem leiðir af samningnum en frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum er til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis. Á meðal nýmæla í íslenskum rétti sem leiðir beint af samningnum samkvæmt frumvarpinu má nefna hert ákvæði um barnaklám. Refsivert verður að skoða slíkt myndefni en áður þurfti niðurhal barnakláms til þess að um refsivert athæfi væri að ræða. Enn fremur eru sýndarmyndir sem sýna börn á klámfenginn hátt bannaðar en slíkt efni er talið ýta undir sókn í eiginlegt barnaklám. Þá skulu nefndar breytingar á refsilögsögu sem gera það að verkum að hægt verður að ákæra hérlendis fyrir brot sem framin eru erlendis jafnvel þótt brotin varði ekki við lög í þeim löndum þar sem þau eru framin. Þessari breytingu er stefnt gegn ferðaþjónustu sem byggist á kynferðislegri misnotkun barna og er með slíkum ákvæðum komið í veg fyrir að gerendur geti komist undan refsiábyrgð með því að ferðast til ríkja þar sem lagaramminn er veikur og vernd barna ábótavant.
    Nefndin telur mikilvægt að fullgilda Evrópuráðssamninginn sem hér um ræðir og auka með þeim hætti vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Birgitta Jónsdóttir er áheyrnarfulltrúi í utanríkismálanefnd og er samþykk áliti þessu.
    Gunnar Bragi Sveinsson, Helgi Hjörvar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. mars 2012.



Árni Þór Sigurðsson,


formaður.


Mörður Árnason,


framsögumaður.


Árni Páll Árnason.



Bjarni Benediktsson.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Ragnheiður E. Árnadóttir.