Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 607. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 950  —  607. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um snjómokstur í Árneshreppi.

Flm.: Ásmundur Einar Daðason, Atli Gíslason, Ásbjörn Óttarsson,
Birkir Jón Jónsson, Einar K. Guðfinnsson, Eygló Harðardóttir,
Guðmundur Steingrímsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson,
Jón Bjarnason, Ólína Þorvarðardóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Vigdís Hauksdóttir, Lilja Mósesdóttir.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að tryggja að mótuð verði ný regla sem taki til vetrarþjónustu við veg 643, Strandaveg, innan marka Árneshrepps. Að lágmarki tryggi reglan að Vegagerðin annist eða greiði fyrir nauðsynlegan snjómokstur vegarins tvo daga í viku. Heimilt verði að víkja frá reglunni sé fyrirsjáanlegt að moksturinn hafi í för með sér óforsvaranlega sóun fjármuna eða að heilsu eða lífi snjómokstursmanna verði stefnt í hættu.

Greinargerð.

    Að minnsta kosti frá árinu 2009 hafa íbúar í Árneshreppi á Ströndum búið við skert öryggi í samgöngumálum yfir vetrartímann. Vegagerðin hefur ekki veitt þeim almenna lágmarksþjónustu yfir harðasta vetrartímann. Snjómokstur í Árneshreppi fellur undir svokallaða G- reglu vetrarþjónustu Vegagerðarinnar. Í henni felst efnislega að mokað er tvo daga í viku haust og vor, til 1. nóvember og frá 20. mars, en einungis á meðan snjólétt er. Þá er Vegagerðinni heimilt að moka einu sinni í viku fram til 5. janúar. Frá 5. janúar til 20. mars og utan mokstursdaga á öðrum tímum getur sveitarfélagið beðið um svokallaðan helmingamokstur. Það er svo Vegagerðin sem metur í hvert skipti hvort af þeim mokstri getur orðið. Af reglunni leiðir að á tímabilinu frá 5. janúar til 20. mars er Strandavegur aðeins mokaður einu sinni í viku og ekki nema brýn þörf sé eða mjög lítill snjór, þar sem sveitarfélagið hefur ekki fjármagn í mokstur. Að auki felur G-regla í sér að Vegagerðin hefur svigrúm til að leggja í hvert og eitt sinn mat á hvort snjómokstur sé raunhæfur með tilliti notagildis og kostnaðar.
    Árneshreppur er eina sveitarfélagið á landinu sem lýtur framangreindri G-reglu. Landfræðilega er sveitarfélagið mjög sérstakt. Það er við vestanverðan Húnaflóa og nyrsta sveitarfélagið í Strandasýslu. Það er landmikið og þangað liggur aðeins ein landleið. Þrátt fyrir að þar hafi ýmis rekstur verið stundaður hefur sú staðreynd að sveitarfélagið er það fámennasta á landinu gert það að verkum að innviðir þess eru veikir. Af þeim sökum þurfa íbúarnir að sækja ýmsa þjónustu, svo sem alla viðameiri verslun, heilbrigðisþjónustu, kirkju, sorplosun, þjónustu byggingarfulltrúa og annarra stjórnsýslustofnana, til nágranna sinna á Drangsnesi og Hólmavík. Að auki þurfa íbúarnir, eins og aðrir landsbyggðarmenn, að sækja þjónustu landleiðina til höfuðborgarsvæðisins. Ásókn er í að stunda grásleppu- og handfæraveiðar frá Norðurfirði þaðan sem stutt er á gjöful fiskimið. Lokun vegarins og slæmt ástand hans á vorin hefur slæm áhrif á viðskipti með sjávarafurðir þar sem erfitt er að koma afurðum á markað.
    Margoft hefur borið á góma í almennri umræðu að sérstaða byggðarinnar í Árneshreppi gefi fullt tilefni til þess að hið opinbera leggi sig fram um að stuðla að eflingu svæðisins. Hafa slíkar hugmyndir byggst á menningarlegum sjónarmiðum sem og sjónarmiðum um eflingu og fjölbreytileika í ferðaleiðum og ferðaþjónustu á Íslandi. Undanfarið hafa slík sjónarmið fengið aukið vægi enda virðist menningartengd ferðaþjónusta vera meðal helstu vaxtarbrodda í íslenskri ferðaþjónustu.
    Stöðugar og traustar samgöngur skipta sköpum fyrir lífsgæði íbúa landsbyggðarinnar. Á tímum aukinnar hagræðingar og hraða geta brestir í samgöngukerfi landsins hæglega valdið því að grundvöllur byggðar hverfi. Vegurinn um Árneshrepp er gamall og illa farinn. Ef fram fer sem horfir verður nauðsynleg uppbygging hans ekki að veruleika fyrr en eftir tæpan áratug. Ástand vegarins gerir það að verkum að færð um hann spillist fljótt að vetri til. Fámenn sveitarfélög hafa ekki bolmagn til að standa undir snjómokstri. Ríkissjóður hefur styrkt áætlunarflug til Gjögurs en þrátt fyrir metnað flugrekenda hefur það sýnt sig að þær samgöngur nægja íbúum ekki einar og sér þegar vegurinn hefur lokast. Auðsætt er að skipuleg vetrarþjónusta veitir íbúum og gestum Árneshrepps nauðsynlegan stöðugleika og gerir þeim fært að skipuleggja ferðir til annarra byggðarlaga.
    Nauðsynlegt er að bragarbót verði gerð á samgöngumálum í Árneshreppi. Áætlanir virðast þó ekki gera ráð fyrir því að farið verði í vegaframkvæmdir í sveitarfélaginu á næstunni. Því má segja að ákveðin tjónstakmörkun felist í því að efla vetrarþjónustu við Strandaveg innan Árneshrepps.