Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 608. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 964  —  608. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björn Rúnar Guðmundsson og Þóru Hjaltested frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Arnór Sighvatsson, Ingibjörgu Guðbjartsdóttur og Frey Hermannsson frá Seðlabanka Íslands, Kristján Óskarsson og Pál Eiríksson frá Glitni hf., Vilhjálm Egilsson frá Samtökum atvinnulífsins, Magnús Harðarson, Magnús Ásgeirsson og Pál Harðarson frá Kauphöll Íslands, Davíð Gíslason og Kolbein Árnason frá Kaupþingi, Pétur Örn Sverrisson, Kristin Bjarnason og Halldór Backman frá Landsbankanum, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands og Ásu Ólafsdóttur.
    Í frumvarpinu er lagt til að tilteknar fjármagnshreyfingar á milli landa, sem verið hafa heimilar til þessa, verði takmarkaðar. Undanþágurnar sem um ræðir eru almenn undanþáguheimild til útgreiðslna í íslenskum krónum úr innlendum þrotabúum til erlendra aðila, sérstök undanþáguheimild búa föllnu fjármálafyrirtækjanna til fjármagnshreyfinga í erlendum gjaldeyri, sem m.a. gerir föllnu fjármálafyrirtækjunum mögulegt að greiða kröfuhöfum sínum í erlendum gjaldeyri, og að síðustu undanþáguheimild til að skipta jafngreiðslum og verðbótum af höfuðstól skuldabréfa. Í stað þeirra heimilda sem slitastjórnir föllnu fjármálafyrirtækjanna hafa nú samkvæmt lögum mundi Seðlabankinn setja reglur er heimiluðu útgreiðslur til kröfuhafa með hætti er samrýmist stöðugleika.
    Við umræður í nefndinni kom fram að höftin hafi verið neyðarráðstöfun og frá upphafi hafi legið fyrir að þau gætu tekið breytingum, ýmist ívilnandi, til að mynda til að draga úr áhrifum á daglegt líf og hins vegar íþyngjandi, til að mynda til að stemma stigu við sniðgöngu. Fulltrúar Seðlabankans sem á fund nefndarinnar komu vöktu athygli á því að viðskipti með svokölluð jafngreiðslubréf Íbúðalánasjóðs (HFF) bentu til þess að markaðsaðilar væru að koma sér undan höftunum. Það eitt og sér væri verulegt áhyggjuefni en jafnframt það að teikn væru um að í undirbúningi væri útgáfa annarra sambærilegra skuldabréfaflokka. 2. gr. frumvarpsins mun samkvæmt því eiga við um alla þá sem eiga skuldabréf í íslenskum krónum en ekki einvörðungu þá sem eiga HFF-bréf.
    Fulltrúar slitastjórna gömlu bankanna sem komu á fund nefndarinnar lýstu áhyggjum af áhrifum frumvarpsins sem þeir töldu óljós og til þess fallin að rýra traust kröfuhafa gagnvart slitaferlinu. Töldu þeir að sú neyð sem lægi að baki framlagningu frumvarpsins, einkum 3. gr. þess, væri ekki nægilega rökstudd, ekki síst með tilliti til þeirra neikvæðu áhrifa sem það gæti haft á erlendar eignir bankanna og innstæður þeirra hjá Seðlabanka Íslands. Fulltrúar Seðlabankans áréttuðu af þessu tilefni að tilgangur frumvarpsins væri ekki að koma í veg fyrir greiðslur til kröfuhafa heldur að takmarka hættuna á því að þær stefni stöðugleika hagkerfisins hér í hættu. Einnig kom fram að Seðlabankinn ætlaði sér ekki að hrófla við gjaldeyriseignum bankanna í Seðlabankanum eða takmarka ráðstöfunarrétt reiðufjár í erlendum gjaldeyri erlendis eða í Seðlabanka til kröfuhafa. Fulltrúar Seðlabankans telja mikilvægt að fara vel yfir framangreinda áhættu með fulltrúum hlutaðeigandi slitastjórna.
    Meiri hlutinn fellst á þær röksemdir sem búa að baki frumvarpinu og varða brýna nauðsyn þess að koma í veg fyrir að umræddar undanþágur grafi undan áætlun um losun fjármagnshafta og valdi alvarlegum óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði, sem aftur geti leitt til verulegrar gengislækkunar krónunnar.
    Loks bendir meiri hlutinn á að í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 127/2011 kemur fram að þeir flokkar fjármagnshreyfinga sem bannaðir yrðu með þeim lögum tækju mið af nauðsyn þess að loka öllum mögulegum leiðum sem innlendir og erlendir aðilar hafa til að loka krónustöðum sínum fyrr en ella. Þær takmarkanir á ráðstöfunarrétti sem mögulega kunna að leiða af frumvarpinu ber því að skilja í því ljósi og enn fremur þeirri staðreynd að flestum verðbréfaviðskiptum fylgir áhætta.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 12. mars 2012.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Skúli Helgason.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.



Magnús M. Norðdahl.


Björn Valur Gíslason.