Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 382. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1014  —  382. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um brottfall ýmissa laga á sviði fræðslumála (úrelt lög).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Agnesi Guðjónsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Kennarasambandi Íslands, Landgræðslu ríkisins og Listaháskóla Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að nokkrir lagabálkar verði felldir brott úr lagasafninu en við undirbúning frumvarps til nýrra laga um Stjórnarráð Íslands kom í ljós að láðst hafði að leggja til brottfall þeirra. Hér er um að ræða: lög um Myndlista- og handíðaskóla Íslands, lög um Leiklistarskóla Íslands, lög um landgræðslustörf skólafólks og lög um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn. Um ástæður þessa má nefna að Listaháskóli Íslands yfirtók starfsemi og eignir Myndlista- og handíðaskólans 5. maí 1999 og varð skólinn að sérstakri myndlistar- og hönnunardeild Listaháskóla Íslands 1. ágúst 1999. 1. ágúst 2000 var Leiklistarskóli Íslands samtengdur Listaháskóla Íslands og yfirtók Listaháskólinn starfsemi og eignir Leiklistarskólans samkvæmt samningi. Þá er talið að lög um landgræðslustörf skólafólks samrýmist hvorki því skólaumhverfi né réttindahugmyndum sem eiga við í dag en í lögunum er meðal annars kveðið á um að heimilt sé að kveðja börn 12 ára og eldri, hraust og ófötluð, er stunda nám við skóla sem kostaður er af ríkinu til starfa við landgræðslu. Að lokum má nefna að lög um leikskóla leysa af hólmi lög um byggingu og rekstur dagvistarheimila.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu að lögin öðlist þegar gildi en í frumvarpinu er kveðið á um að þau öðlist gildi 1. janúar 2012.
    Skúli Helgason, Þráinn Bertelsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir og Þuríður Backman voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    5. gr. orðist svo:
    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Alþingi, 15. mars 2012.



Björgvin G. Sigurðssson,


form.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir,


frsm.

Þorgerður K. Gunnarsdóttir.



Eygló Harðardóttir.


Birgitta Jónsdóttir.