Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 367. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 1051  —  367. mál.
Leiðrétt tilvísun.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ögmund Hrafn Magnússon frá fjármálaráðuneytinu, Hörð Davíð Harðarson og Karen Bragadóttur frá tollstjóra, Andrés Magnússon frá Samtökum verslunar og þjónustu, Almar Guðmundsson og Pál Rúnar Mikael Kristjánsson frá Félagi atvinnurekenda, Sigþór Kristin Skúlason frá Express, Atla Frey Einarsson frá DHL á Íslandi, Héðin Gunnarsson frá TNT á Íslandi og Jón Óla Bergþórsson frá Ice Transport. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Félagi atvinnurekenda, Samtökum verslunar og þjónustu og sameiginlega frá TNT á Íslandi, DHL á Íslandi, Ice Transport og Express.
    Í frumvarpinu eru lagðar til margvíslegar breytingar á tollalögum.

Einstakar greinar frumvarpsins.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að gildistími álita um tollflokkun verði takmarkaður við sex ár í stað þess að þau gildi ótímabundið.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að heimild tollmiðlara til að afhenda hraðsendingar til notkunar innan lands áður en tollskjöl eru látin tollstjóra í té verði felld brott. Er talið að þetta fyrirkomulag torveldi verulega tolleftirlit og er breytingunum ætlað að hafa í för með sér að skilyrði fyrir tollafgreiðslu hraðsendingar verði þau sömu og fyrir almenna tollafgreiðslu, þ.e. að öllum aðflutningsskjölum til að geta tollafgreitt vöruna þurfi að framvísa við tollafgreiðsluna. Samhliða er lagt til að heimild tollmiðlara til að afhenda hraðsendingu án greiðslu aðflutningsgjalda verði felld brott, sbr. 3. gr. frumvarpsins, sem og sjö daga greiðslufrestur eftir tollafgreiðslu hraðsendingar, sbr. 7. gr.
    Í 4. gr. frumvarpsins er lögð til orðalagsbreyting er varðar hæfi stjórnarmanna lögaðila sem sækir um leyfi til reksturs tollvörugeymslu fyrir ótollafgreiddar vörur. Samkvæmt gildandi lögum má viðkomandi ekki hafa hlotið dóm vegna brota á tollalögum „fyrir fíkniefnabrot“ en breytingin gerir ráð fyrir að á undan tilvitnuðu orðalagi komi „eða“.
    Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að heimilt verði að flytja vörur í umflutningsgeymslu á annað geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur en það er bannað nú. Óheimilt verði að afhenda vörur úr umflutningsgeymslu til notkunar innan lands, sem merkir að vörur úr umflutningsgeymslu þarf að flytja í tollvörugeymslu áður en þær eru afhentar til notkunar innan lands.
    Í 6. gr. frumvarpsins er lagt til að frestur tollstjóra til að kveða upp úrskurð við endurálagningu aðflutningsgjalda verði lengdur úr 30 dögum í 60 daga. Er það gert með hliðsjón af þeirri afstöðu ríkistollanefndar að það auki verulega hættu á ógildingu úrskurða séu þeir ekki felldir innan réttra tímamarka.
    Í 8. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á upphafsmarki dráttarvaxta vegna vangreiddra aðflutningsgjalda. Almennt reiknast dráttarvextir á vangreidd aðflutningsgjöld frá og með gjalddaga en sérregla gildir varðandi endurákvörðun aðflutningsgjalda eftir rafræna tollafgreiðslu þar sem þá er miðað við að dráttarvextir verði einungis ákvarðaðir frá því að innflytjanda barst tilkynning um fyrirhugaðan úrskurð um endurákvörðun. Lagt er til að sama regla verði látin gilda hvort sem um er að ræða endurákvörðun vegna rafrænnar tollafgreiðslu eða skriflegrar og að tollstjóra verði heimilt að reikna dráttarvexti allt að tvö ár aftur í tímann frá þeim degi sem úrskurður um endurákvörðun er kveðinn upp.
    Í 9. gr. frumvarpsins er lagt til að verðmætamörk á reiðufé sem tollstjóra er heimilt að leggja hald á vegna gruns um brot á almennum hegningarlögum verði lækkuð til samræmis við skyldu ferðamanna og farmanna til að gera grein fyrir hærri fjárhæðum en sem nemur 10.000 evrum við komu til landsins.
    Í 10. gr. frumvarpsins er lagt til að veitt verði heimild til gjaldtöku vegna þjónustu tollgæslu sem óskað er eftir utan almenns opnunartíma tollskrifstofu, svo sem vegna eftirlits í tengslum við innflutning og afgreiðslu hraðsendinga og póstsendinga.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Í athugasemdum frumvarpsins kemur fram að það hafi verið samið af hálfu fjármálaráðuneytis í samráði við tollstjóra. Jafnframt er þar tekið fram að vegna tímaskorts hafi skort á samráð við þá hagsmunaaðila sem ákvæði frumvarpsins snerta fyrst og fremst. Hér er átt við innflutningsaðila á vörum og aðila sem veita þeim þjónustu en verði frumvarpið óbreytt að lögum er í athugasemdunum talað um að hraðsendingarfyrirtæki þurfi að breyta skilum á aðflutningsskýrslum.
    Í upphafi umfjöllunar óskaði efnahags- og viðskiptanefnd eftir að tollyfirvöld viðhefðu samráð við hagsmunaaðila í von um að samráðið leiddi til ásættanlegrar niðurstöðu fyrir báða aðila. Fram hefur komið að í málinu vegast annars vegar á þörfin fyrir eftirlit með hraðsendingum, ekki síst með tilliti til skipulagðrar glæpastarfsemi, og hins vegar hagsmunir viðskiptalífsins af hraðsendingum en hlutfall þeirra gagnvart almennum sendingum er í dag metið u.þ.b. 42%. Aðilar lýstu þeim sameiginlega skilningi að afloknu samráði að mikilvægt væri að þróa viðunandi eftirlit með hraðsendingum, eftir atvikum þannig að upplýsingar um kennitölur innflytjenda og sendenda, vörulýsingu o.fl. bærust inn í tollkerfið innan ákveðins tímaramma. Auk þess var viðurkennt mikilvægi þess að þegar innflutningur væri háður innflutningsskilyrðum tryggðu hraðflutningafyrirtæki að skilyrðum væri fullnægt áður en vara væri afhent innflytjanda.
    Í samræmi við framangreind markmið hefur fjármálaráðuneyti komið á framfæri við nefndina tillögum til breytinga á frumvarpinu sem aðilar sem á fund nefndarinnar hafa komið eru ásáttir um. Nefndin leggur því til breytingartillögu sama efnis sem er ætlað að taka gildi 1. október 2012.
    Í skýringum ráðuneytisins við tillöguna segir að í stað þess að hraðflutningafyrirtækjum verði gert skylt að tollafgreiða sendingar fyrir afhendingu eins og lagt er til í frumvarpinu verði þeim heimilað að afhenda sendingar án tollafgreiðslu en ítarlegri kröfur verði gerðar til upplýsingagjafar en ella. Þannig hafi fyrirtækin áfram möguleika á að skila aðflutningsgjöldum og aðflutningsskjölum allt að sjö dögum eftir afhendingu sendingar. Hins vegar verði það skilyrði sett samtímis að innflytjandi útvegi tollstjóra með rafrænum hætti ítarlegri upplýsingar um sendingu fyrir afhendingu en núgildandi lög gera ráð fyrir.
    Félag atvinnurekenda gerði við umfjöllun málsins jafnframt athugasemdir við aðra þætti frumvarpsins en að framan getur. Félagið mótmælti m.a. lengingu á fresti tollstjóra til að kveða upp úrskurð við endurálagningu aðflutningsgjalda úr 30 dögum í 60 daga. Atvinnulífið hefði ótvírætt mikla hagsmuni af skjótri úrlausn mála fyrir tollyfirvöldum og að hyggilegra væri að fjárveitingarvaldið gerði þau betur í stakk búin til að virða setta tímafresti í stað þess að lengja þá. Á móti bentu fulltrúar fjármálaráðuneytisins á að með breytingunni væri gætt samræmis við þann frest sem ríkisskattstjóri hefur til að kveða upp rökstuddan úrskurð um endurákvörðun álagningar, sbr. 5. mgr. 96. gr. tekjuskattslaga.
    Félag atvinnurekenda mótmælti í annan stað þeim áformum frumvarpsins að gildistími álita um tollflokkun verði takmarkaður við sex ár og benti á að fordæmisgildi slíkra úrlausna ráðist einatt af þeim aðstæðum sem uppi eru á hverjum tíma og tvímælis orki út frá jafnræðisreglu ef stjórnvöld þurfa ekki að gæta samræmis í úrlausnum sínum. Á móti bentu fulltrúar ráðuneytisins á að varasamt gæti verið að gefa eldri fordæmum of mikið vægi þar sem umhverfi tollyfirvalda væri breytingum háð en auk þess væri breytingin lögð til með hliðsjón af tollalöggjöf innan Evrópusambandsins þar sem gildistíminn væri þrjú ár.
    Í tilefni af athugasemdum við ákvæði frumvarpsins um auknar heimildir tollyfirvalda til gjaldtöku hefur verið áréttað af hálfu ráðuneytisins að eingöngu sé um að ræða gjaldtöku vegna vinnu sem framkvæmd er utan opnunartíma tollskrifstofa að ósk tollmiðlara, inn- eða útflutningsaðila, farmflytjenda eða umboðsmanna skipa. Vinnan sem gjald er tekið fyrir fari því alfarið fram samkvæmt beiðni og ákvörðun annarra en tollstarfsmanna.
    Að lokum leggur nefndin til breytingu til samræmis við breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 121/2011 um niðurfellingu almennra tolla og vörugjalda á vörutegundir í tilgreindum tollflokkum. Í athugasemdum sem þeim fylgdu kemur fram að lögunum hafi einkum verið ætlað að leiðrétta tiltekið misræmi í skattlagningu afspilunartækja. Breytingartillagan sem hér er lögð til gerir ráð fyrir að niðurfellingin taki einnig til tónhlaða og annarra slíkra spilara sem jafnframt eru búnir útvarpsspilara.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      2. gr. falli brott.
     2.      3. gr. orðist svo:
                  1. málsl. 3. mgr. 36. gr. laganna orðast svo: Tollmiðlara er heimilt að afhenda hraðsendingu til notkunar innan lands án greiðslu aðflutningsgjalda, enda láti hann tollstjóra tímanlega í té með rafrænum hætti upplýsingar um nöfn og kennitölur sendanda og innflytjanda auk upplýsinga um verðmæti, tegund og þyngd sendingar og setji tryggingu fyrir greiðslu aðflutningsgjalda.
     3.      7. gr. falli brott.
     4.      Á eftir 10. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  A-tollur tollskrárnúmersins 8527.1303 í viðauka I við lögin verður 0%.
     5.      Síðari málsliður 11. gr. orðist svo: Þó skal 2. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. október 2012.

    Tryggvi Þór Herbertsson og Jón Gunnarsson gera fyrirvara við álitið.
    Þráinn Bertelsson og Birkir Jón Jónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. mars 2012.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Skúli Helgason.



Tryggvi Þór Herbertsson,


með fyrirvara.


Lilja Mósesdóttir.


Magnús M. Norðdahl.



Jón Gunnarsson,


með fyrirvara.