Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 269. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1061  —  269. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/1997, um vörumerki, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Dr. Einar Karl Friðriksson og Magnús H. Magnússon hrl. frá Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa, Borghildi Erlingsdóttur, Ólöfu Vigdísi Ragnarsdóttur og Láru Helgu Sveinsdóttur frá Einkaleyfastofu og Lárus M.K. Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa, Samtökum verslunar og þjónustu og Valborgu Kjartansdóttur.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um vörumerki sem samkvæmt athugasemdum þess eru af þrennum toga. Í fyrsta lagi þær sem rekja má til aðildar Íslands að Singapúrsamningnum um vörumerkjarétt sem hefur það yfirlýsta markmið að koma á samræmdu skipulagi og framkvæmd vegna umsókna um skráningu vörumerkja. Í öðru lagi breytingar sem gerðar eru að norrænni fyrirmynd og loks breytingar sem ætlað er að skýra einstök ákvæði gildandi laga.

Einstakar greinar frumvarpsins.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 1. mgr. 13. gr. laganna sem fjallar um skráningarhæfi vörumerkis, nánar tiltekið skilyrðið um að merki sé til þess fallið að greina vörur frá vörum annarra. Er lagt til að orðalag ákvæðisins taki jafnt til vöru og þjónustu eins og tíðkast hefur í framkvæmd.
    Í 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til tvær breytingar á 14. gr. laganna en þar eru tiltekin ýmis önnur skilyrði fyrir skráningarhæfi vörumerkis. Meðal annars kemur fram það skilyrði að ef merki er til þess fallið að villst verði á því og vörumerki sem telst „vel þekkt“ hér á landi á þeim tíma sem umsókn um skráningu er lögð inn megi ekki skrá það. Í a-lið 2. gr. frumvarpsins er lagt til að orðið „alþekkt“ komi í stað orðanna „vel þekkt“ og er sú orðanotkun m.a. talin samræmast betur dönsku vörumerkjalögunum. Athygli er vakin á því í athugasemdum frumvarpsins að í 2. mgr. 4. gr. vörumerkjalaga er fjallað um heimild eiganda vel þekkts vörumerkis til að banna notkun þess fyrir annars konar vöru eða þjónustu ef notkunin hefur í för með sér misnotkun eða rýrir aðgreiningareiginleika eða orðspor hins þekkta merkis. Ekki eru lagt til að þessu lagaákvæði verði breytt.
    Í b-lið 2. gr. frumvarpsins er lagt til að nýju skilyrði fyrir skráningarhæfi vörumerkis verði bætt við 14. laganna þess efnis að ekki megi skrá vörumerki ef villast má á merkinu og merki sem verið hefur í notkun í öðru landi, á þeim tíma er umsókn var lögð inn eða frá forgangsréttardegi, og er enn notað þar fyrir sömu eða líkar vörur/þjónustu og yngra merkið óskast skráð fyrir og umsækjandi vissi eða hefði mátt vita um erlenda merkið. Hugsunin sem hér liggur að baki er að koma í veg fyrir óréttmæta notkun á viðskiptavild sem byggð hefur verið upp erlendis.
    Í 3. gr. frumvarpsins eru lagðar til tvær breytingar á 19. gr. laganna en greinin tilgreinir málsmeðferð fyrir Einkaleyfastofu í þeim tilvikum þegar umsækjanda er synjað um skráningu á þeim grundvelli að umsókn fullnægi ekki að hennar mati ákvæðum laga eða reglna. Í a-lið 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um að umsækjandi fái heimild til að tjá sig um synjunina eða til að lagfæra umsóknina innan tiltekins frests. Berist engar athugasemdir innan frestsins er lagt til í b-lið 3. gr. að umsóknin falli úr gildi en að umsækjandi eigi eftir sem áður rétt á endurupptöku berist beiðni þar að lútandi innan tveggja mánaða frá lokum andmælafrestsins.
    Í 4. gr. frumvarpsins er Einkaleyfastofu heimilað að taka gjald af þeim sem andmæla skráningu vörumerkis eftir birtingu, sbr. 22. gr. laganna. Af athugasemdum við frumvarpsgreinina má ráða að gjaldtökunni sé ekki ætlað að standa undir kostnaði af mati stofnunarinnar á skráningarhæfi vörumerkis, þ.e. hvort það uppfylli kröfur laganna um sérkenni, sbr. 13. gr. laganna, eða hvort skilyrði 14. gr. laganna standi í vegi fyrir skráningu. Gjaldinu sé ætlað að standa undir kostnaði stofnunarinnar af því að úrskurða í málum eftir að slík rannsókn hefur farið fram og í þeim tilvikum þar sem andmæli berast frá þeim sem telur sig eiga betri rétt innan tveggja mánaða frá birtingardegi.
    Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að við lög um vörumerki bætist ný lagagrein, er verði 24. gr. a., er kveði á um hlutun umsókna og skráninga. Er þetta lagt til vegna fyrirhugaðrar aðildar Íslands að Singapúrsamningnum á sviði vörumerkjaréttar.
    Í 6. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 25. gr. laganna sem varðar heimild til að ógilda skráningu vörumerkis með dómi vegna notkunarleysis eigandans. Heimildinni er einkum ætlað að sporna við því að merki séu skráð í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að samkeppnisaðilar umsækjanda merkis noti það. Breytingin felst í því að færa einkaleyfayfirvöldum slíkar valdheimildir einnig þar sem dómstólaleiðin þyki jafnan kostnaðarsöm og tímafrek. Tekið er fram í athugasemdum að ákvörðunum Einkaleyfastofu verði ávallt unnt að áfrýja til áfrýjunarnefndar og fara með fyrir dómstóla.
    Í 7. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 27. gr. laganna sem varðar heimild til endurnýjunar á skráningu vörumerkis. Í 26. gr. laganna er tekið fram að vernd skráðs vörumerkis gildi í 10 ár frá skráningu og að skráning verði endurnýjuð til 10 ára hverju sinni, talið frá lokum skráningartímabils. Umsókn um endurnýjun á skráningu vörumerkis er heimilt að leggja inn sex mánuðum áður en skráningartímabili lýkur en ekki síðar en sex mánuðum eftir lok tímabilsins og segir að umsókn skuli fylgja tilskilið gjald. Berist umsókn ekki innan umræddra tímamarka gerir frumvarpsgreinin ráð fyrir að eigandi merkis geti innan tveggja mánaða frá lokum umsóknarfrests um endurnýjun óskað endurupptöku á umsókn sinni gegn greiðslu endurupptökugjalds.
    Í 8. gr. frumvarpsins eru lagðar til tvær breytingar á 28. gr. laganna sem varðar heimild til að fella skráningu úr gildi með dómi hafi vörumerki verið skráð andstætt ákvæðum laganna. Í athugasemdum frumvarpsins segir að einungis sé unnt að ógilda skráningar sem eru andstæðar efnisreglum laganna. Lagt er til í a-lið 8. gr. að Einkaleyfastofu verði auk dómstóla veitt heimild til að fella skráningu úr gildi en þar að baki búa svipuð sjónarmið og að baki 6. gr. frumvarpsins. Í b-lið 8. gr. er lagt til að krefjist eigandi eldra vörumerkis ógildingar yngra merkis vegna ruglingshættu verði hann að geta sýnt fram á að eldra merkið uppfylli skilyrði laganna varðandi notkunarskyldu.
    Í 9. gr. frumvarpsins er lögð til breyting sem tengist þeirri breytingu sem lögð er til í a-lið 8. gr. frumvarpsins. Er lagt til að við lög um vörumerki bætist ný lagagrein, er verði 30. gr. a., er hafi að geyma reglur um málsmeðferð í því tilviki þegar sá er hefur lögvarða hagsmuni að gæta fer fram á að Einkaleyfastofa felli skráningu úr gildi. Í ákvæðinu er einnig kveðið nánar á um skilyrði þess að hægt sé að hafa uppi slíka kröfu, s.s. að henni fylgi rökstuðningur og tilskilið gjald.
    Í 10. gr. frumvarpsins eru lagðar til tvær breytingar á 31. gr. laganna sem varðar heimild Einkaleyfastofu til að leiðrétta augljós mistök við skráningu vörumerkis „innan þriggja mánaða frá skráningar- eða innfærsludegi“. Í a-lið 10. gr. er lagt til að tilvitnaður frestur verði felldur brott auk þess sem lagt er til í b-lið að eigandi umsóknar eða skráningar vörumerkis geti lagt fram beiðni um leiðréttingu á slíkum villum sem fram koma í umsókn eða skráningu. Fyrir breytingunni eru færð þau rök í athugasemdum að á hverjum tíma sé mikilvægt að tryggja að vörumerkjaskráin sé rétt.
    Í 11. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 1. mgr. 32. gr. laganna sem varðar þau tilvik sem leiða til þess að vörumerki er afmáð úr vörumerkjaskrá. Er lagt til í samræmi við 8. og 9. gr. frumvarpsins að bætt verði við upptalningu lagagreinarinnar nýjum tölulið þess efnis að vörumerki skuli afmáð úr vörumerkjaskrá hafi Einkaleyfastofa fellt skráningu þess úr gildi.
    Í 12. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 1. mgr. 35. gr. laganna. Lagagreinin kveður í fyrsta lagi á um að eigandi vörumerkis, sem ekki hefur lögheimili hér á landi, skuli hafa umboðsmann búsettan hérlendis, í öðru lagi að umboðsmaður skuli hafa heimild eiganda merkis til þess að taka við stefnu af hans hálfu, svo og öðrum tilkynningum er verkið varða þannig að bindi eigandann og í þriðja lagi að nafn umboðsmanns og heimilisfang skuli skráð í vörumerkjaskrá. Í athugasemdum við frumvarpsgreinina er vísað til þess að skilyrði um búsetu í tilteknu ríki stríði gegn þjónustufrelsi innan EES og er því lagt til að aðeins eiganda vörumerkis sem ekki hefur lögheimili á EES, í aðildarríki EFTA eða í Færeyjum verði skylt að hafa umboðsmann búsettan á einhverju framangreindra landsvæða. Tekið er fram í athugasemdunum að samskipti umsækjanda og eiganda vörumerkja við Einkaleyfastofu muni að meginstefnu til vera áfram á íslensku.
    Í 13. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 64. gr. laganna sem varðar aðgang almennings að vörumerkjaskránni. Er lagt til að frá fyrsta virka degi eftir móttöku skuli vörumerkjaumsóknir og önnur móttekin gögn jafnframt vera aðgengileg almenningi, að undanskildum fylgiskjölum eða gögnum sem geyma viðskiptaleyndarmál og varða almennt ekki skráningu merkis eða einkarétt. Kemur fram í athugasemdum við frumvarpsgreinina að Einkaleyfastofa taki afstöðu til þess hvort gögn eða tilteknar upplýsingar séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings.
    Í 14. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 65. gr. laganna sem varðar heimildir ráðherra til að setja nánari reglur um tiltekin atriði. Er lagt til að lagaákvæðið verði lagað að þeim breytingum sem lagðar eru til í 5., 9. og 15. gr. frumvarpsins.
    Í 15. gr. frumvarpsins er lagt til að við lög um vörumerki bætist ný lagagrein, er verði 65. gr. a., þar sem mælt er fyrir um heimildir til töku þjónustugjalda. Er lagt til að ráðherra setji reglugerð um töku gjaldanna og eiga gjöldin að standa undir kostnaði af tilgreindum þáttum í starfsemi Einkaleyfastofu. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur af þessu tilefni komið á framfæri minnisblaði stofnunarinnar til ráðuneytisins frá 28. febrúar sl. þar sem fjallað er um kostnaðarútreikning vegna nýrra gjaldaliða samkvæmt frumvarpinu, þ.e. gjalds fyrir endurupptöku umsókna og skráninga, hlutun umsókna og skráninga, andmæli og kröfu um stjórnsýslulega niðurfellingu.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Nefndin ræddi þá breytingu sem lögð er til í 12. gr. frumvarpsins en með henni er felld brott sú skylda eiganda vörumerkis, sem ekki hefur lögheimili hér á landi, að hafa umboðsmann búsettan hérlendis. Þess í stað gerir frumvarpsgreinin einungis ráð fyrir að umsækjandi sem búsettur er utan EES, aðildarríkis EFTA eða í Færeyjum beri skylda til að hafa umboðsmann á einhverju þessara svæða. Fram kemur í athugasemdum við frumvarpsgreinina að skilyrði um búsetu í tilteknu ríki stríði gegn þjónustufrelsi innan EES.
    Félag umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa benti á í þessu sambandi að frumvarpið væri endurflutt og að hliðstætt ákvæði í fyrra frumvarpi frá 139. löggjafarþingi mælti fyrir um að eigandi vörumerkis, sem ekki hefði lögheimili hér á landi, skyldi hafa umboðsmann búsettan á EES, í aðildarríki EFTA eða í Færeyjum. Fyrra frumvarp væri að þessu leyti í meira samræmi við ákvæði annarra laga á sviði hugverkaréttinda, sbr. lög nr. 12 og 66. gr. einkaleyfalaga, nr. 17/1991, og 47. gr. laga um hönnun, nr. 46/2001, en það frumvarp sem hér er til umfjöllunar.
    Ýmsir aðrir viðmælendur nefndarinnar tóku undir framangreindar áhyggjur og telja ekki tímabært að afnema umboðsmannaskylduna með öllu. Var lagt til að 12. gr. yrði færð til sama horfs og í upphaflegu frumvarpi og þannig gætt samræmis við löggjöf á öðrum sviðum hugverkaréttinda. Upplýsingar komu fram um að umboðsmannaskyldan hefði verið afnumin í Danmörku, Noregi og Svíþjóð en eftir sem áður hefðu einkaleyfayfirvöld þar í landi heimildir til þess að fara fram á að umsækjendur um skráningu vörumerkis tilnefni umboðsmann. Jafnframt sé staðan þar önnur en hér á landi í ljósi möguleika yfirvalda til að taka við rafrænum umsóknum og greiðslum þeim samfara. Færð voru rök fyrir því að umboðsmannaskyldan væri ekki í andstöðu við fjórfrelsisákvæði EES og í því sambandi vísað til 31. gr. finnsku vörumerkjalaganna sem gerir ráð fyrir að umsækjendur um vörumerki og eigendur vörumerkja sem ekki eru búsettir þar í landi skuli vera með umboðsmann búsettan innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Við meðferð málsins féllst efnahags- og viðskiptaráðuneytið á framangreind sjónarmið og lagði til við nefndina að 12. gr. yrði breytt til fyrra horfs og á þá leið að umsækjendum um skráningu vörumerkis sem ekki hafa lögheimili hér á landi verði skylt að vera með umboðsmann búsettan á EES, í aðildarríki EFTA eða í Færeyjum. Tillagan mun samkvæmt því gera ráð fyrir því að greinarmun á umsækjendum eftir búsetu verði áfram viðhaldið í lögunum en með þeirri tilslökun að ekki er gerð krafa um að umboðsmaður sé búsettur hér á landi. Eru sjónarmiðin þar að baki hin sömu og áður, þ.e. að Einkaleyfastofa geti átt samskipti við fjarstadda eigendur á sem greiðastan hátt. Samkvæmt 35. gr. vörumerkjalaga hefur umboðsmaður heimild eiganda merkis til að taka við stefnu af hans hálfu, svo og öðrum tilkynningum er merkið varða þannig að bindi eigandann, sbr. 35. gr. vörumerkjalaga.
    Samhliða hefur verið lagt til við nefndina að lögfest verði ákvæði um að samskipti Einkaleyfastofu við umsækjendur og eigendur vörumerkjaskráningar eða umboðsmenn fari að meginstefnu til fram á íslensku eins og verið hefur. Hefur komið fram að þetta skilyrði sé samræmi við gildandi rétt og þá meginreglu sem býr að baki 1. gr. reglugerðar um skráningu vörumerkja o.fl., nr. 310/1997. Reglugerðarákvæðið er svohljóðandi: „Umsókn um skráningu vörumerkis skal leggja inn hjá Einkaleyfastofu. Umsóknir skulu vera á íslensku á eyðublöðum sem Einkaleyfastofan lætur í té eða samsvarandi eyðublöðum. Einkaleyfastofan getur krafist löggiltrar þýðingar á fylgiskjölum sem ekki eru á íslensku.“
    Fulltrúar Einkaleyfastofu hafa bent á að undantekningar frá meginreglunni geti verið til komnar vegna umsókna um alþjóðlega skráningu sem hingað berast á ensku og í samræmi við Madrídarsamning um alþjóðlegar skráningar vörumerkja sem Ísland hefur gerst aðili að. Jafnframt sé stofnuninni heimilt að krefjast þýðingar þegar fylgiskjöl, svo sem nafnbreytingar og framsöl, eru lögð fram á öðru tungumáli en íslensku. Aldrei sé tekið við greinargerðum frá umsækjendum eða eigendum skráninga á öðru tungumáli en íslensku.
    Í tengslum við breytingar sem lagðar eru til í a-lið 2. gr. frumvarpsins var af hálfu Samtaka verslunar og þjónustu undirstrikað mikilvægi þess að notkun hugtakanna „vel þekkt“ og „alþekkt“ yrði með samræmdum hætti þannig að sá merkingarfræðilegi munur sem þeim væri ætlað að undirstrika réðist ekki af huglægu mati. Á móti hefur verið á það bent að umrædd hugtakanotkun sé í samræmi við Parísarsamþykktina um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar og danskan vörumerkjarétt.
    Samtök verslunar og þjónustu lögðu einnig áherslu á að gjaldtökuheimildum frumvarpsins, sem fram koma í 15. gr., verði beitt til samræmis við kröfur 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Var í því sambandi áréttað það almenna sjónarmið að þjónustugjöldum sé ekki ætlað að standa undir öðrum kostnaðarliðum en þeim sem eru í nánum og efnislegum tengslum við viðkomandi þjónustu. Ráðuneytið tók fram af þessu tilefni að umrædd gjaldtökuheimild ætti sér fyrirmynd í lögum um einkaleyfi sem lögfest hefði verið á síðasta löggjafarþingi, sbr. lög nr. 25/2011. Í fjárlagafrumvarpi ársins kemur fram að tekjur Einkaleyfastofu af gjöldum fyrir einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd og faggildingu eru áætlaðar 191,2 millj. kr. en áætlaður rekstrarkostnaður er 205,4 millj. kr. Bent hefur verið á í þessu sambandi að komi í ljós að veruleg vandkvæði séu við það bundin að tryggja nægileg efnisleg tengsl milli gjaldtökunnar og þeirrar þjónustu sem stofnunin veitir geti verið tilefni til að festa álagningarhlutföll í lög.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem fram koma í sérstöku þingskjali.
    Tryggvi Þór Herbertsson, Jón Gunnarsson og Lilja Mósesdóttir gera fyrirvara við álitið.
    Þráinn Bertelsson og Birkir Jón Jónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. mars 2012.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Skúli Helgason.



Tryggvi Þór Herbertsson,

með fyrirvara.


Lilja Mósesdóttir,

með fyrirvara.


Magnús M. Norðdahl.


Jón Gunnarsson,
með fyrirvara.