Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 670. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1078  —  670. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um bann við skipulagðri glæpastarfsemi.

Flm.: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Ásmundur Einar Daðason, Birkir Jón Jónsson,

Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir, Vigdís Hauksdóttir.

    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að leggja frumvarp til laga fyrir Alþingi sem banna að á Íslandi starfi brotahópar sem stunda starfsemi sem fellur undir alþjóðlegar skilgreiningar um skipulagða glæpastarfsemi.

Greinargerð.


    Síðustu ár hafa hópar sem standa fyrir skipulagðri glæpastarfsemi fest rætur á Íslandi. Um nokkurra ára skeið hefur ríkislögreglustjóraembættið unnið stefnumiðaða greiningu (e. strategic analysis) varðandi skipulagða glæpastarfsemi og ógn af hryðjuverkum til lengri tíma. Unnið hefur verið á víðtækum grunni og tekið mið af þróun mála hérlendis og erlendis. Jafnframt hefur verið sagt til um líklega framtíðarþróun þessara mála. Greiningar þessar hafa ítrekað bent á þá ógn sem felast í starfsemi skipulagðra glæpahópa, svo sem vélhjólagengja. Einnig hefur komið fram að lögregluyfirvöld annars staðar á Norðurlöndum sem og stjórnmálamenn hafa hvatt Íslendinga til að bregðast af hörku við þessari ógn. Í greiningunum hefur verið fjallað um hugtakið „skipulögð glæpastarfsemi“ eins og það er skilgreint af hálfu Evrópulögreglunnar (Europol). Samkvæmt þeirri skilgreiningu þurfa eftirfarandi fjórir liðir ávallt að eiga við:
     *      Til þarf að koma samvinna fleiri en tveggja einstaklinga.
     *      Starfsemin þarf að standa yfir í langan eða óskilgreindan tíma.
     *      Grunur þarf að liggja fyrir um alvarlegt afbrot.
     *      Markmið viðkomandi eru auðgun og/eða völd.
    Auk framangreindra liða þurfa einhverjir tveir af eftirtöldum liðum að eiga við til að unnt sé að ræða um afbrot sem „skipulagða glæpastarfsemi“ samkvæmt skilgreiningu Europol:
     1.      Hver þátttakandi þarf að hafa fyrir fram ákveðið verkefni.
     2.      Starfsemin lúti einhvers konar skipulagi og stjórnun.
     3.      Starfsemin þarf að vera alþjóðleg.
     4.      Þátttakendur þurfa að beita ofbeldi eða öðrum aðferðum sem henta þykja til ógnunar.
     5.      Skipulag starfseminnar þarf að vera svipað því og þekkist í viðskiptum og rekstri.
     6.      Viðkomandi þurfa að stunda peningaþvætti.
     7.      Viðkomandi leitist við að hafa áhrif á stjórnmál, fjölmiðla, opinbera stjórnsýslu, réttarkerfið eða hagkerfið.
    Einnig er rétt að líta til skilgreiningar Sameinuðu þjóðanna, svokallaðrar Palermó-skilgreiningar um skipulögð brotasamtök og hvernig sú skilgreining endurspeglast í íslenskum lögum. Skipulögð brotasamtök eru skilgreind í íslenskum hegningarlögum (175. gr. a) að fyrirmynd samnings Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi (Palermó-samningsins). Þar segir: „Með skipulögðum brotasamtökum er átt við félagsskap þriggja eða fleiri manna sem hefur það að meginmarkmiði, beint eða óbeint í ávinningsskyni, að fremja með skipulegum hætti refsiverðan verknað sem varðar að minnsta kosti 4 ára fangelsi, eða þegar verulegur þáttur í starfseminni felst í því að fremja slíkan verknað.“
    Þróun skipulagðrar glæpastarfsemi er ógnvekjandi að mati flutningsmanna. Í fjölmiðlum kom fram fyrir stuttu (Ríkisútvarpi 6. mars 2012) að um 89 manns í allt að 11 hópum tengist skipulagðri glæpastarfsemi. Af þessu má ljóst vera að brýnt er að grípa inn í þessa þróun hið fyrsta og banna starfsemi skipulagðra glæpahópa hér á landi.
    Miðað við þróun mála hérlendis er ljóst að hér hafa hópar, sem stunda skipulagða glæpastarfsemi samkvæmt skilgreiningum Europol, fest rætur. Flutningsmenn vilja banna slíka starfsemi og telja að hún brjóti í bága við 74. gr. stjórnarskrárinnar, svokallaða félagafrelsisgrein, en hún hljóðar svo:
    „74. gr. Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.
    Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.
    Rétt eiga menn á að safnast saman vopnlausir. Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur. Banna má mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir.“
     Flutningsmenn telja að glæpahóparnir sem hafa fest rætur hérlendis að undanförnu hafi ekki verið stofnaðir í löglegum tilgangi og því beri að banna starfsemi þeirra. Félagafrelsi víki við þessar aðstæður því starfsemi þessara hópa uppfyllir skilyrði um skipulagða glæpastarfsemi. Benda má á frekari röksemdafærslu í ritgerð Elísu Sóleyjar Magnúsdóttur, meistaranema í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, en hún skrifaði BS-ritgerð í viðskiptalögfræði frá Háskólanum í Bifröst, þar sem bornar eru saman íslenskar lagaheimildir við lagaheimildir í Danmörku og Kanada hvað þessi mál varðar. Niðurstaða hennar er að bann við starfsemi glæpahópa sem starfa í ólöglegum tilgangi standist stjórnarskrá Íslands.
    Að undanförnu hafa ýmsir aðilar viljað skoða bann við starfsemi skipulagðra glæpahópa. Nefna má Rögnu Árnadóttur, fyrrum dómsmálaráðherra, í þessu sambandi, lögregluyfirvöld og nokkra þingmenn. Að mati flutningsmanna eru æ fleiri að átta sig á alvöru málsins og hafa því líkur á því aukist að samfélagið vilji grípa inn í þá óheillaþróun sem hér hefur orðið. Að mati flutningsmanna er brýnt að Alþingi taki afstöðu til málsins hið fyrsta svo ekki verði flotið sofandi að feigðarósi.