Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 147. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1090  —  147. mál.

3. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið eftir 2. umræðu og fengið á sinn fund Guðríði Þorsteinsdóttur, Sindra Kristjánsson og Vilborgu Ingólfsdóttur frá velferðarráðuneyti, Geir Gunnlaugsson landlækni, Önnu Björgu Aradóttur og Kristrúnu Kristinsdóttur frá embætti landlæknis.
    Nefndin ræddi breytingartillögur sem 1., 2. og 3. minni hluti lögðu fram við 2. umræðu um málið. Meiri hlutinn telur vert að árétta og skýra nánar einstök atriði.
    Meðal annars voru hagsmunatengsl heilbrigðisstarfsmanna og mögulegir hagsmunaárekstrar teknir til umfjöllunar en 3. minni hluti lagði til við 2. umræðu að haldin yrði sérstök skrá um hagsmunatengsl heilbrigðisstarfsmanna. Meiri hlutinn áréttar það sem fram kemur í áliti 1. minni hluta við 2. umræðu að málið þurfi frekari skoðunar við og bendir á að skoða þarf málið heildstætt og með hliðsjón af því að um 33 heilbrigðisstéttir er að ræða. Hagsmunir geta því verið af mismunandi toga og reglurnar þurfa að taka mið af því. Meiri hlutinn ítrekar þó nauðsyn þess að velferðarráðuneytið skoði ítarlega setningu reglna sem miði að því að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra eða hið minnsta að upplýsa um mögulega hagsmunaárekstra til að sjúklingar geti tekið afstöðu til slíkra upplýsinga.
    Í 26. gr. frumvarpsins er lagt til að heilbrigðisstarfsmanni verði óheimilt að reka eigin starfsstofu eftir 70 ára aldur. Sæki viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður um það er landlækni þó heimilt samkvæmt frumvarpinu að framlengja leyfi til tveggja ára í senn, þó aldrei oftar en þrisvar. Í áliti 1. minni hluta er bent á að önnur regla gildir skv. 22. gr. lyfjalaga um leyfishafa lyfsöluleyfis. Slíkt leyfi fellur niður í lok þess árs þegar leyfishafi verður 70 ára en Lyfjastofnun er heimilt að framlengja leyfið um eitt ár í senn eftir það. Í áliti sínu við 2. umræðu benti 1. minni hluti á að um misræmi væri að ræða enda teljast lyfjafræðingar til heilbrigðisstarfsmanna samkvæmt frumvarpinu og samkvæmt lyfjalögum geta lyfjafræðingar einir fengið lyfsöluleyfi. Í áliti 1. minni hluta kemur jafnframt fram að hann telji ekki ástæðu til að breyta lyfjalögum nú enda er endurskoðun þeirra væntanleg. Meiri hlutinn telur þó brýnt að árétta að ný rammalöggjöf sem tekur til allra heilbrigðisstarfsmanna og -starfsstétta gangi hinum eldri lyfjalögum framar að þessu leyti, þó svo að þar sé um sérlög að ræða. Þannig eigi regla 26. gr. frumvarpsins einnig við um lyfsala og leyfishafa lyfsöluleyfis. Eftir samþykkt laga um heilbrigðisstarfsmenn verður því eingöngu heimilt að framlengja lyfsöluleyfi þrisvar sinnum til tveggja ára í senn eftir 70 ára aldur leyfishafa.
    Nefndin ræddi jafnframt eftirlitsheimildir landlæknis. Í áliti 1. minni hluta er farið ítarlega yfir skyldur heilbrigðisstarfsmanna, heilbrigðisstofnana og annarra sem veita heilbrigðisþjónustu að veita landlækni þær upplýsingar og gögn sem landlæknir krefst og hann telur nauðsynleg til að sinna eftirlitshlutverki sínu. Nokkuð hefur þó borið á gagnrýni á skýrleika lagaheimilda landlæknis skv. 7. og 8. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, til að sinna eftirliti og safna til þess gögnum. Þau ákvæði sem um ræðir eru ekki í fyrirliggjandi frumvarpi og því ljóst að ekki er unnt að skýra þessar heimildir með því að leggja til breytingar á því. Í ljósi ríkra almannahagsmuna af því að landlæknir hafi eftirlit með heilbrigðisþjónustu og mikilvægi þess að tryggja að landlæknir geti sinnt þessu lögbundnu hlutverki sínu stefnir nefndin á að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um landlækni og lýðheilsu sem ætlað er að skýra og tryggja eftirlitsheimildir embættisins.
    Eygló Harðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 27. mars 2012.



Álfheiður Ingadóttir,


form., frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Lúðvík Geirsson.



Magnús M. Norðdahl.


Skúli Helgason.


Guðmundur Steingrímsson.