Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 680. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1108  —  680. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um bætta heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks.


Frá velferðarnefnd.


    Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp til að vinna að bættri heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks á aldrinum 14–23 ára. Starfshópnum verði falið að halda áfram þeirri vinnu sem starfshópur sem skipaður var í september 2010 í sama skyni skilaði af sér og vinna úr tillögum hans. Hópurinn leggi fram tillögur að leiðum til úrbóta. Að auki verði hópnum falið að undirbúa stofnun unglingamóttöku fyrir fólk á aldrinum 14–23 ára þar sem heilbrigðisþjónusta verði sniðin að þörfum þess. Litið skal til reynslu af starfsemi unglingamóttaka í Svíþjóð, Danmörku og Noregi og reynslu af þeim auk þess sem leita skal til fagfólks með mismunandi bakgrunn. Verkefnið verði tilraunaverkefni og grundvöllur að fleiri unglingamóttökum þegar reynsla af verkefninu hefur verið metin.

Greinargerð.


    Í september 2011 skilaði starfshópur velferðarráðherra skýrslu um bætta heilbrigðisþjónustu og bætt heilbrigði ungs fólks á aldrinum 14–23 ára. Velferðarráðherra skipaði hópinn í september 2010 og lauk störfum hans með útgáfu skýrslunnar. Í starfshópinn voru skipuð þau Katrín Davíðsdóttir, barnalæknir Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, formaður nefndarinnar, Auður Axelsdóttir, forstöðumaður Geðheilsu eftirfylgd og Hugarafls Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Bryndís Þorvaldsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu, Helga Ágústsdóttir, deildarstjóri í heilbrigðisráðuneytinu, Orri Smárason, sálfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, Sigurlaug Hauksdóttir, yfirfélagsráðgjafi hjá landlæknisembættinu, Sveinbjörn Kristjánsson, verkefnisstjóri hjá Lýðheilsustöð, og Þóroddur Bjarnason, prófessor hjá Háskólanum á Akureyri. Í skýrslunni eru raktar niðurstöður ýmissa rannsókna og staða ýmissa málaflokka sem snúa að heilbrigði og lífsstíl ungs fólks og tiltekin ýmis úrræði og þjónusta sem í boði er. Þá er að auki í skýrslunni að finna tillögur um næstu skref sem byggjast á að leita eftir viðhorfum þeirra sem annars vegar veita þjónustuna og hins vegar sem njóta hennar með það fyrir augum að vinna tillögur að leiðum til úrbóta. Skýrsluna má nálgast í heild á vef velferðarráðuneytisins: www. velferdarraduneyti.is/media/ritogskyrslur2011/Velferd-barna_04102011.pdf.
    Velferðarnefnd hefur haldið þrjá fundi um efni skýrslunnar með ýmsum meðlimum starfshópsins og telur brýnt að halda starfi hans áfram. Með tillögunni er því lagt til að velferðarráðherra verði falið að skipa starfshóp til að halda áfram vinnu hins fyrri og leita áfram leiða til að bæta heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks á aldrinum 14–23 ára og vinna úr þeim tillögum sem starfshópurinn setti fram í skýrslu sinni. Samhliða þessu gæti hópurinn sinnt ráðgjafahlutverki í heilbrigðisþjónustu og heilsugæslu almennt enda samræmist það vel hlutverki hans þar sem honum er ætlað að leggja fram tillögur til úrbóta.
    Þá telur nefndin mikilvægt að starfshópurinn vinni að undirbúningi þess að koma á fót unglingamóttöku þangað sem fólk á aldrinum 14–23 ára getur leitað og þar sem heilbrigðisþjónusta verði sniðin að þörfum ungs fólks. Lagt er til að við það verkefni skoði starfshópurinn starfsemi sambærilegra unglingamóttaka í Svíþjóð, Danmörku og Noregi og áralanga og góða reynslu af slíkri starfsemi þar og að lögð verði áhersla á að leita til fagfólks með mismunandi bakgrunn. Lagt er til að einungis ein unglingamóttaka verði opnuð til að byrja með, t.d. í miðborg Reykjavíkur, og reynsla af starfseminni verði notuð sem grundvöllur fyrir opnun fleiri unglingamóttaka.

Heilbrigði ungs fólks.
    Í skýrslunni um bætta heilbrigðisþjónustu og bætt heilbrigði ungs fólks á aldrinum 14–23 ára koma fram ýmsar áhugaverðar upplýsingar um heilbrigði ungs fólks. Í skýrslunni er fjallað almennt um lífsstíl og heilbrigði ungmenna auk þess sem fjallað er um ofþyngd og offitu hjá ungu fólki, tannheilsu ungs fólks, geðheilbrigði ungmenna, sjálfsvíg og sjálfsvígshugleiðingar hjá þessum hópi fólks, vímu-, fíkniefna- og áfengisneyslu ungs fólks, slys og meiðsli meðal ungmenna, ofbeldi sem ungt fólk verður fyrir, þar á meðal kynferðislegt ofbeldi, kynheilbrigði og kynhegðun ungmenna og ungt fólk með langvinnan heilsuvanda. Þá eru lögð til næstu skref til að vinna að bættu heilbrigði og bættri heilbrigðisþjónustu ungs fólks.
    Í skýrslunni kemur m.a. fram að ofþyngd og offita hafi aukist á Íslandi undanfarna áratugi og að tannheilsu barna sé mjög ábótavant auk þess sem tannlækningar barna séu dýrar og kostnaðarþátttaka almennings meiri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum þar sem tannlækningar ungmenna eru að fullu greiddar af hinu opinbera.
    Ætla má að um 12–15% ungmenna glími við vægan geðrænan vanda og að 2–5% eigi við alvarlegar hegðunar- og geðraskanir að stríða. Í skýrslunni er greint frá stofnun vinnuhóps til að bregðast við vaxandi misnotkun á rítalíni og skyldum geðlyfjum en notkun geðlyfja hefur farið mjög vaxandi undanfarin ár. Fram kemur að samvinnu milli stofnana sé oft ábótavant og erfitt fyrir unga einstaklinga með geðraskanir að fara á milli skólastiga vegna þessa. Bæta þurfi samvinnu stofnana og eftirfylgni þegar ungmenni færist á milli skólastiga. Við 18 ára aldur breytist þjónusta við ungmenni með geðraskanir mikið þar sem þau teljast þá fullorðin og þurfa að leita þjónustu annarra lækna og geðdeilda fyrir fullorðna. Tekið er undir það sem kemur fram í skýrslunni að mikilvægt er að skoða hvernig geðheilbrigðiskerfið stendur að yfirfærslu mála þegar einstaklingur nær sjálfræðisaldri.
    Við umfjöllun nefndarinnar um vímu- og fíkniefnaneyslu íslenskra ungmenna kom fram að mikill árangur hefði náðst á grunnskólastigum og færri börn neyttu áfengis eða annarra vímuefna að 16 ára aldri. Margt breyttist þó þegar börn færu í framhaldsskóla en að sama skapi væri forvörnum mjög beint að börnum til 16 ára aldurs. Nefndin telur brýnt að halda forvarnarstarfi áfram þegar börn fara í framhaldsskóla.
    Í skýrslunni kemur fram að um 42% kvenna hafi verið beittar ofbeldi einhvern tímann á ævinni frá 16 ára aldri og að líklegra sé að konur á aldrinum 18–24 ára verði fyrir ofbeldi en þær sem eldri eru. Nefndin telur mikilvægt að huga að þessu. Stúlkur og konur eru í áhættuhóp hvað ofbeldi varðar og þá ekki síst kynferðisofbeldi. Nauðsynlegt er að greina áhættuþættina og grípa til aðgerða til að draga úr hættu á því að ungmenni, stúlkur jafnt sem drengir, verði fyrir ofbeldi.
    Kynheilbrigði íslenskra ungmenna virðist ekki eins gott og jafnaldra þeirra annars staðar á Norðurlöndum. Tíðni fólks sem greinist með klamydíu og kynfæravörtur er hærra hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum. Ungmenni eiga einnig fleiri bólfélaga að meðaltali en jafnaldrar þeirra annars staðar á Norðurlöndum. Mikilvægt er að grípa til aðgerða til að sporna við þessari þróun. Nefndin ræddi m.a. nauðsyn þess að gera smokka aðgengilegri fyrir ungmenni og telur vert að starfshópurinn skoði þetta atriði með tilliti til þess að bæta kynheilbrigði ungs fólks. Einnig þarf að kanna nánar kynhegðun ungmenna hér á landi, ræða við ungmenni og foreldra þeirra og vekja til umhugsunar um þessi mál.
    Þegar kemur að þjónustu við ungt fólk með langvinnan heilsuvanda og langveik ungmenni er nokkuð hið sama uppi á teningnum og þegar um er að ræða ungmenni með geðraskanir. Þjónustan er dreifð í kerfinu og samvinnu milli stofnana er ábótavant. Mikilvægt er að tryggja samvinnu í þessum málum og jafnframt samhæfða þjónustu við ungmenni. Þegar ungmenni verða lögráða breytist þjónusta við þau oft skyndilega þegar heilbrigðisþjónusta flyst frá barnadeildum til fullorðinsdeilda. Misjafnlega er staðið að slíkri yfirfærslu og mikilvægt að það sé gert í samráði og samvinnu við viðkomandi einstakling svo hann upplifi sem minnsta röskun og álag.

Tillögur úr skýrslu um bætta heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks á aldrinum 14–23 ára.
    Í lokakafla skýrslunnar eru lagðar fram tillögur um leiðir til að halda áfram þeirri vinnu sem hafin er með skýrslunni. Þar er þess getið að næsta viðfangsefni verði að leita eftir viðhorfum þeirra sem annars vegnar veita þá heilbrigðiþjónustu sem í boði er fyrir ungmenni og hins vegar þeirra sem njóta þjónustunnar. Út frá því verði unnar tillögur að leiðum til úrbóta. Undir þetta tekur nefndin.
    Starfshópurinn leggur fram eftirfarandi 13 tillögur um leiðir að þeim markmiðum sem verði þá verkefni hins nýja starfshóps:
     1.      Efla þekkingu og vitund fagfólks á sérstöðu og sérþörfum ungs fólks.
     2.      Bæta aðgengi ungs fólks að heilbrigðisþjónustu.
     3.      Sníða heilbrigðisþjónustuna að þörfum ungs fólks.
     4.      Auka samstarf ólíkra fagaðila í heilbrigðisþjónustu við ungt fólk.
     5.      Kanna möguleika á unglingamóttökum með þverfaglegum teymum um land allt.
     6.      Tryggja að ungt fólk um allt land njóti sambærilegrar heilbrigðisþjónustu í nærsamfélagi sínu.
     7.      Huga að yfirfærslu þjónustu þegar börn verða unglingar og unglingar verða fullorðnir.
     8.      Samhæfa þjónustu við ungt fólk með fjölþættan vanda og auka samvinnu stofnana sem þjóna sömu einstaklingum.
     9.      Efla stuðning við barnafjölskyldur sem standa höllum fæti, til dæmis vegna atvinnuleysis eða örorku, sérstaklega á niðurskurðartímum.
     10.      Efla forvarnir og samþætta forvarnastarf eftir því sem við á.
     11.      Efla rannsóknir með bættu aðgengi rannsóknasamfélagsins að þeim opinberu gögnum og frumgögnum rannsókna sem gerðar eru með opinberu fé.
     12.      Leita hugmynda og samstarfs við ungt fólk um útfærslu þessara mála.
     13.      Byggja á reynslu annarra þjóða eftir því sem við á.

Unglingamóttaka.
    Það hefur sýnt sig að ungt fólk sækir síður á heilsugæslu en þeir sem eldri eru. Víða erlendis hefur þessari staðreynd verið mætt með því að koma á fót sérstökum unglingamóttökum þangað sem ungt fólk getur leitað heilbrigðisþjónustu. Reynsla er komin á móttökur sem þessar annars staðar á Norðurlöndum og er skipulag þessara mála til fyrirmyndar víða í Svíþjóð, Danmörku og Noregi. Hér á landi hefur verið reynt að koma á fót móttöku sem þessum t.d. í Reykjavík og á Akureyri en það ekki tekist sem skyldi og hefur verið bent á að ekki hafi verið gætt að ákveðnum þáttum sem gæti skýrt að árangurinnn varð ekki betri. Móttakan á Akureyri var t.d. opin aðeins einu sinni í viku en mikilvægt er að ungt fólk hafi greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Þá hafa þær móttökur sem komið hefur verið á fót hér á landi oftast verið í beinum tengslum við heilsugæslu og þá í sama húsnæði. Erlendis hefur aftur á móti verið lögð áhersla á að hafa unglingamóttökur á stað sem er miðsvæðis og þannig aðgengilegur ungmennum og ekki í tengslum við heilsugæslu.
    Mikilvægt er að koma á fót unglingamóttökum hér á landi til að auðvelda ungmennum aðgengi að heilbrigðisþjónustu en einnig er að mati nefndarinnar mikilvægt að efla heilsugæslu í framhaldsskólum. Nefndin leggur því til að starfshópnum verði falið að undirbúa stofnun slíkrar móttöku og að einungis verði um eina móttöku að ræða til að byrja með. Lögð er rík áhersla á að kanna reynslu annarra af starfsemi slíkra móttaka og bendir nefndin m.a. á að Svíar hafa áratugareynslu af unglingamóttökum. Til staðar eru því dýrmætar upplýsingar sem unnt er að byggja á við undirbúning þessarar þjónustu. Þá er lögð áhersla á að unglingamóttakan verði rekin óháð heilsugæslu á viðkomandi svæði og staðsett utan hennar þar sem hún er aðgengileg og aðlaðandi fyrir ungmenni. Mikilvægt er einnig að á unglingamóttökunni starfi fagfólk með mismunandi bakgrunn og reynslu og þekkingu af störfum með ungu fólki og að fjármagn verði tryggt fyrir starfsemina. Horfa þarf til þess að unglingamóttakan verði opin á þeim tíma sem ungmenni eru líklegust til að leita sér heilbrigðisþjónustu en reynsla annarra þjóða er að ungt fólk panti sér síður tíma og mæti síður ef langur tími líður þar til bókaður tími fæst.
    Leggur nefndin ríka áherslu á að við undirbúning stofnunar unglingamóttökunnar verði samráð haft við fagfólk með mismunandi bakgrunn og menntun sem hefur reynslu af því að vinna með og ræða við ungmenni.
    Lagt er til að einungis ein unglingamóttaka verði opnuð sem nokkurs konar tilraunaverkefni sem svo verði nýtt sem grundvöllur að opnun fleiri.

Skipan nýs starfshóps.
    Við skipan í starfshópinn þarf að horfa til þess að kalla til valda fulltrúa sem hafa þekkingu og reynslu af málaflokknum. Nefndin telur ekki nægilegt að viðkomandi hafi þekkingu á sviðið heilbrigðisþjónustu heldur þurfi viðkomandi jafnframt að hafa reynslu af því að sinna eða vinna með ungmennum. Leggja þarf áherslu á fjölbreytta þekkingu sem nýtist við vinnuna. Þarf bæði að líta til gæða og samfellu þjónustunnar, sem og þess hvort þörf sé á sérhæfðri þjónustu fyrir þennan aldurshóp svo hægt sé að tryggja betur velferð hans og þar með hafa jákvæð áhrif á það hvernig honum farnast. Sérstaklega ber að kanna hvernig bæta má viðmót heilbrigðisþjónustunnar, svo aðlaðandi verði fyrir þennan aldurshóp að leita viðeigandi þjónustu, sem og hvort kostnaðarþátttöku þurfi að breyta, m.a. hvað varðar getnaðarvarnir.
    Til að samfella verði í störfum hópsins telur nefndin mikilvægt að a.m.k. einhverjir þeirra sem voru í starfshópnum sem skilaði skýrslunni verði í hinum nýja starfshópi sem m.a. er falið að vinna áfram með tillögur hins fyrri starfshóps. Þá leggur nefndin áherslu á að fulltrúi ungmenna fái sæti í hópnum til að tryggja aðkomu notenda heilbrigðisþjónustunnar að starfinu.