Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 683. máls.

Þingskjal 1112  —  683. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 15/1998,
með síðari breytingum (aðstoðarmenn dómara).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    17. gr. laganna orðast svo:
    Til aðstoðar dómurum má ráða lögfræðinga sem fullnægja skilyrðum 2.–6. tölul. 2. mgr. 12. gr. Aðstoðarmaður skal ráðinn til fimm ára og er heimilt að endurnýja þá ráðningu einu sinni. Að öðru leyti gilda um hann almennar reglur um starfsmenn ríkisins.
    Dómstjóri getur falið aðstoðarmanni önnur dómstörf en þau að fara með og leysa að efni til úr hvers konar einkamálum, þar sem vörnum er haldið uppi, og sakamálum frá því að þau koma til aðalmeðferðar. Dómstjóri ber ábyrgð á störfum aðstoðarmanns og getur gefið honum fyrirmæli um hvað eina sem lýtur að rækslu þeirra.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu. Við gerð þess var leitað umsagnar Félags löglærðra aðstoðarmanna dómara og dómstólaráðs. Með frumvarpinu er lögð til breyting á 17. gr. laga um dómstóla sem fjallar um lögfræðilega aðstoðarmenn dómara. Í 17. gr. laganna er kveðið á um að til aðstoðar dómurum megi ráða til héraðsdómstólanna lögfræðinga sem fullnægja skilyrðum 2.–6. tölul. 2. mgr. 12. gr. laganna. Ekki er í lögunum kveðið frekar á um hver verkefni þessara aðstoðarmanna eru en í athugasemdum við frumvarp til laganna kemur fram að þessum löglærðu aðstoðarmönnum sé ekki heimilt að gegna dómstörfum þótt þeir megi veita dómurum margvíslega aðstoð við meðferð og úrlausn dómsmála. Með setningu laga um dómstóla var stefnt að því að breyta eðli starfa þessara lögfræðinga við héraðsdómstólana þannig að þeir yrðu dómurum fremur til hjálpar en að þeir fengjust sjálfstætt við verk. Komu þeir þannig í stað dómarafulltrúa sem samkvæmt eldri lögum gátu sinnt tilteknum dómstörfum í eigin nafni.
    Í frumvarpi þessu er lögð til sú breyting að dómstjóri geti falið aðstoðarmönnum dómara ákveðin störf í eigin nafni. Er því lagt til að starfsheimildir aðstoðarmanna verði færðar til þess horfs sem áður gilti um dómarafulltrúa. Eins og málum er nú háttað geta aðstoðarmenn ekki í eigin nafni gegnt dómstörfum, en í reynd hafa þeir leyst af hendi margvísleg verk af þeim meiði í nafni og undir umsjón dómstjóra eða einstakra héraðsdómara. Á sínum tíma komu stöður aðstoðarmanna í stað dómarafulltrúa, sem gátu sinnt tilteknum dómstörfum í eigin nafni. Með setningu laga um dómstóla var stefnt að því að breyta eðli starfa þessara lögfræðinga við héraðsdómstólana þannig að þeir yrðu dómurum fremur til hjálpar en að þeir fengjust sjálfstætt við verk. Þessar breyttu reglur hafa í reynd ekki komið að fullu til framkvæmda eins og ætlast var til. Ætla má að ýmislegt búi þar að baki, en öðru fremur virðast fjárhagslegar ástæður hafa valdið því að fjöldi aðstoðarmanna hefur ekki náð þeirri tölu að raunhæft yrði að koma að fullu á þeirri tilhögun sem stefnt var að í byrjun. Í frumvarpi þessu er lagt til að dómstjóri geti falið aðstoðarmönnum önnur dómstörf en þau að fara með og leysa efnislega úr einkamálum þar sem vörnum er haldið uppi og sakamálum frá því að þau koma til aðalmeðferðar. Á undanförnum árum hefur þessari hugmynd í auknum mæli verið hreyft á vettvangi héraðsdómstólanna og var tillaga um þetta meðal annars flutt á Alþingi í frumvarpi til laga um breyting á lögum um dómstóla á 133. löggjafarþingi 2006–2007 (496. mál) og aftur á 138. löggjafarþingi 2009–2010 (100. mál). Er þessi breyting nú lögð til í framhaldi af ályktun Félags löglærðra aðstoðarmanna dómara frá 18. nóvember 2011 sem send var innanríkisráðherra sem og áskorun dómstólaráðs til ráðherra um lagabreytingar af sama tilefni. Í ályktun félags aðstoðarmanna kemur fram að í máli nr. 577/2011 hafi Hæstiréttur Íslands komist að þeirri niðurstöðu að ómerkja yrði niðurstöðu héraðsdóms er varðaði synjun á heimild aðila til að leggja fram greinargerð í máli er varðaði gjaldþrotaskipti þar sem ákvörðun um synjun var tekin af aðstoðarmanni héraðsdómara en í dómi Hæstaréttar kemur eftirfarandi fram: „Samkvæmt 17. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla má ráða til héraðsdómstóla lögfræðinga sem ætlað er að vera héraðsdómurum til aðstoðar. Eins og tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga er þessum löglærðu aðstoðarmönnum ekki heimilt að gegna dómstörfum þótt þeir megi veita dómurum margvíslega aðstoð við meðferð og úrlausn dómsmála. Þar sem líta verður svo á að sú ákvörðun að synja málsaðila um að leggja fram gögn í slíkum málum sé dómsathöfn, sbr. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 91/ 1991, brast aðstoðarmann héraðsdómara vald til þess að synja sóknaraðila um að leggja fram greinargerð af sinni hálfu í þinghaldinu 29. september 2011. Af þessari ástæðu verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn kærða úrskurð og vísa málinu heim til meðferðar á ný.“
    Eins og fram kemur í áskorun dómstólaráðs til ráðherra er mikilvægt að skýrt liggi fyrir hverjar heimildir aðstoðarmanna til að stjórna þinghöldum eru. Þá hafi aðstoðarmenn í seinni tíð sinnt reglulegum dómþingum dómstólanna. Með því fyrirkomulagi sé héraðsdómari ekki bundinn af því að sitja á dómþingi og geti varið starfstíma sínum í önnur verkefni.
    Þá er í frumvarpinu lagt til að aðstoðarmenn dómara verði ráðnir tímabundið til fimm ára en heimilt verði að endurnýja þá ráðningu einu sinni. Er það breyting frá því sem er í gildi í dag þar sem ekki er fyrir hendi heimild til að endurnýja ráðningu aðstoðarmanna við sama dómstól.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla,
nr. 15/1998, með síðari breytingum (aðstoðarmenn dómara)

    Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að dómstjóri geti falið aðstoðarmönnum dómara ákveðin störf í eigin nafni. Er lagt til að starfsheimildir aðstoðarmanna verði færðar til þess horfs sem áður gilti um dómarafulltrúa. Þannig geti dómstjóri falið aðstoðarmönnum önnur dómstörf en þau að fara með og að leysa að efni til úr hvers konar einkamálum, þar sem vörnum er haldið uppi, og sakamálum frá því að þau koma til aðalmeðferðar. Dómstjóri beri ábyrgð á störfum aðstoðarmanns. Er þessi breyting lögð til í framhaldi af ályktun félags aðstoðarmanna dómara og áskorun dómstólaráðs um lagabreytingar af sama tilefni. Mikilvægt þykir að skýrt liggi fyrir hverjar heimildir aðstoðarmanna til að stjórna þinghöldum eru. Þá hafi aðstoðarmenn í seinni tíð sinnt reglulegum dómþingum dómstólanna. Með því fyrirkomulagi er héraðsdómari ekki bundinn af því að sitja á dómþingi og getur varið starfstíma sínum í annað. Þá er í frumvarpinu lagt til að aðstoðarmenn dómara verði ráðnir timabundið til fimm ára en heimilt verði að endurnýja þá ráðningu einu sinni. Er það breyting frá því sem er í gildi í dag þar sem ekki er fyrir hendi heimild til að endurnýja ráðningu aðstoðarmanna við sama dómstól.
    Verði frumvarpið að lögum er ekki ástæða til að ætla að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.