Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 708. máls.

Þingskjal 1141  —  708. mál.


Frumvarp til laga

um útgáfu og meðferð rafeyris.

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um útgáfu og meðferð rafeyris hér á landi.
    Lög þessi gilda um innlend rafeyrisfyrirtæki og um starfsemi erlendra rafeyrisfyrirtækja hér á landi.
    Um rafeyrisfyrirtæki með takmarkað starfsleyfi skv. 16. gr. gilda ekki ákvæði 11.–14. gr. og 1. mgr. 26. gr.

2. gr.

    Lög þessi gilda ekki um:
     a.      peningaleg verðmæti sem geymd eru á miðlum sem aðeins er unnt að nota til kaupa á vörum og þjónustu á athafnasvæði útgefanda eða samkvæmt viðskiptasamningi við útgefanda, annaðhvort innan afmarkaðs þjónustukerfis þjónustuveitenda eða fyrir takmarkað svið vara og þjónustu, og fjárhæð sem geymd er á miðlinum á hverjum tíma fari ekki yfir 100.000 kr. eða
     b.      peningaleg verðmæti sem notuð eru til greiðslna sem framkvæmdar eru með tilstyrk hvers kyns fjarskiptabúnaðar, stafræns búnaðar eða upplýsingatæknibúnaðar þegar keyptar vörur eða þjónusta er afhent til og skal notuð í slíkum búnaði, að því tilskildu að rekstraraðili búnaðarins starfi ekki einvörðungu sem milliliður milli notanda greiðsluþjónustu og afhendingaraðila vara og þjónustu.

3. gr.
Útgefendur rafeyris.

    Útgáfa rafeyris er þeim einum heimil hér á landi er teljast til útgefenda rafeyris í skilningi laga þessara, enda hafi þeir tilskilin leyfi íslenskra stjórnvalda eða stjórnvalda í öðru aðildarríki.

4. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum merkir:
     1.      Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar.
     2.      Rafeyrisfyrirtæki: Lögaðili sem hefur fengið starfsleyfi til að gefa út rafeyri skv. III. kafla, hér á landi eða í öðru aðildarríki.
     3.      Rafeyrir: Peningaleg verðmæti, í formi kröfu á útgefanda sem er geymd í rafrænum miðli, þ.m.t. á segulformi, gefin út í skiptum fyrir fjármuni, í þeim tilgangi að framkvæma greiðslu í skilningi laga um greiðsluþjónustu og samþykkt er sem slík af öðrum aðilum en útgefandanum sjálfum.
     4.      Útgefandi rafeyris, sbr. 3. gr.:
                  a.      rafeyrisfyrirtæki skv. III. kafla,
                  b.      fjármálafyrirtæki með starfsleyfi til móttöku innlána eða annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi og veitingar útlána fyrir eigin reikning,
                  c.      Seðlabanki Evrópu (ECB) og seðlabankar ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu þegar þeir eru ekki í hlutverki stjórnvalds peningamála,
                  d.      stjórnvöld þegar þau starfa á eigin vegum sem opinber yfirvöld.
     5.      Meðaltal útistandandi rafeyris: Meðaltal heildarfjárskuldbindinga vegna rafeyris sem gefinn hefur verið út við lok hvers almanaksdags næstliðna sex mánuði, reiknað út fyrsta almanaksdag hvers almanaksmánaðar og gildir þann mánuð.
     6.      Útibú: Starfsstöð önnur en aðalskrifstofa sem er hluti af rafeyrisfyrirtæki og telst ekki sjálfstæður lögaðili og annast beint, að öllu leyti eða að hluta, þá starfsemi sem fram fer hjá rafeyrisfyrirtæki. Allar starfsstöðvar rafeyrisfyrirtækis í einu og sama ríkinu á Evrópska efnahagssvæðinu skulu teljast eitt útibú ef aðalskrifstofa rafeyrisfyrirtækis er í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.

II. KAFLI
Útgáfa rafeyris og möguleiki á innlausn.
5. gr.
Útgáfa rafeyris.

    Útgefandi rafeyris skal gefa rafeyri út á nafnverði þegar fjármunum er veitt viðtaka.

6. gr.
Bann við vöxtum.

    Óheimilt er að reikna vexti eða veita handhafa rafeyris önnur hlunnindi sem byggjast á lengd þess tíma sem handhafi hefur rafeyri undir höndum.

7. gr.
Innlausn rafeyris.

    Útgefanda rafeyris ber að innleysa peningalegt verðmæti rafeyris án tafar og á nafnverði, að kröfu handhafa rafeyrisins.
    Handhafi rafeyris getur krafist innlausnar hvort heldur í heild eða að hluta.
    Í samningi útgefanda og handhafa rafeyris skal á greinilegan og áberandi hátt tilgreina skilyrði fyrir innlausn rafeyrisins, þ.m.t. mögulega greiðslu þóknunar vegna innlausnarinnar. Handhafi rafeyris skal upplýstur um skilyrði innlausnar áður en samningur eða tilboð verður bindandi fyrir hann.
    Ef handhafi rafeyris krefst innlausnar við lok samnings eða allt að ári eftir að samningurinn fellur úr gildi skal:
     a.      samtala peningalegs verðmætis rafeyrisins innleyst eða
     b.      innleysa alla þá fjármuni sem handhafi rafeyrisins krefst, ef rafeyrisfyrirtæki annast aðra starfsemi skv. e-lið 1. mgr. 24. gr. og ekki er vitað fyrir fram hvaða hlutfall fjármuna á að nota sem rafeyri.

8. gr.
Þóknun vegna innlausnar.

    Gjaldtaka vegna innlausnar skv. 7. gr. er aðeins heimil ef hún á stoð í samningi aðila og aðeins í eftirfarandi tilvikum:
     a.      ef gerð er krafa um innlausn fyrir lok samnings,
     b.      ef um ræðir tímabundinn samning og handhafi rafeyrisins segir honum upp fyrir lokadag eða
     c.      ef innlausnar er krafist meira en ári eftir lokadag samnings.
    Gjaldtaka vegna innlausnar skal vera hófleg og endurspegla raunkostnað útgefanda vegna innlausnarinnar.
    Víkja má frá ákvæðum 7. og 8. gr. með samningi, í heild eða að hluta, þegar handhafi er ekki neytandi.

III. KAFLI
Rafeyrisfyrirtæki.
A. Stofnun og fjárhagsgrundvöllur.
9. gr.
Rekstrarform og höfuðstöðvar.

    Rafeyrisfyrirtæki skal starfa sem lögaðili.
    Rafeyrisfyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 15. eða 16. gr. laga þessara skal hafa höfuðstöðvar sínar hér á landi.

10. gr.
Heiti.

    Rafeyrisfyrirtæki með starfsleyfi samkvæmt lögum þessum er einu heimilt að nota í firma sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni orðið „rafeyrisfyrirtæki“, eitt sér eða samtengt öðrum orðum.
    Sé hætta á að villst verði á nöfnum erlends og innlends rafeyrisfyrirtækis sem starfa hér á landi getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að annað fyrirtækjanna verði auðkennt sérstaklega.

11. gr.
Stofnfé.

    Stofnfé rafeyrisfyrirtækis skal á hverjum tíma nema að lágmarki jafnvirði 350.000 evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni og skal samsett úr þeim þáttum sem taldir eru upp í 5. mgr. 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

12. gr.
Eiginfjárgrunnur.

    Eiginfjárgrunnur rafeyrisfyrirtækis samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki má á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en kveðið er á um í 11. eða 13. gr., hvor fjárhæðin sem er hærri.
    Rafeyrisfyrirtæki sem tilheyrir samstæðu þar sem í er annað rafeyrisfyrirtæki, fjármálafyrirtæki, greiðslustofnun eða vátryggingafélag er einungis heimilt að telja eiginfjárliði einu sinni til eiginfjárgrunns. Það sama á við ef rafeyrisfyrirtæki stundar aðra starfsemi en útgáfu rafeyris samkvæmt lögum þessum.

13. gr.
Útreikningur eigin fjár rafeyrisfyrirtækja.

    Eigið fé rafeyrisfyrirtækis skal á hverjum tíma nema að lágmarki summu útreikninga skv. 2. og 3. mgr.
    Eigið fé rafeyrisfyrirtækis vegna veitingar greiðsluþjónustu skv. a-lið 1. mgr. 24. gr. og sú starfsemi tengist ekki útgáfu rafeyris skal reiknað í samræmi við 12. gr. laga um greiðsluþjónustu.
    Eigið fé rafeyrisfyrirtækis vegna útgáfu rafeyris skal reiknað í samræmi við aðferð D, sbr. 4. mgr.
    Aðferð D: Eigið fé rafeyrisfyrirtækis vegna útgáfu rafeyris skal að lágmarki nema 2% af meðaltali útistandandi rafeyris.
    Ef rafeyrisfyrirtæki annast veitingu greiðsluþjónustu skv. a-lið 1. mgr. 24. gr., og sú starfsemi tengist ekki útgáfu rafeyris, eða aðra starfsemi sem um getur í b–e-lið 1. mgr. 24. gr. og fjárhæð útistandandi rafeyris er óþekkt fyrir fram skal Fjármálaeftirlitið heimila rafeyrisfyrirtækinu að reikna út kröfur um eigið fé á grundvelli lýsandi hlutar sem ætla má að notaður sé til útgáfu rafeyris, að því tilskildu að hægt sé að meta slíkan lýsandi hlut með góðu móti á grundvelli sögulegra gagna og með þeim hætti sem Fjármálaeftirlitið fellst á. Ef rafeyrisfyrirtæki hefur ekki starfað í nægilega langan tíma skulu kröfur um eigið fé reiknaðar á grundvelli áætlaðs útistandandi rafeyris samkvæmt viðskiptaáætlun fyrirtækisins, með fyrirvara um breytingar á áætluninni sem Fjármálaeftirlitið kann að vilja gera á henni.
    Fjármálaeftirlitið getur, á grundvelli mats á áhættustýringarferlum, gagnagrunni yfir tapsáhættu og innra eftirlitskerfi rafeyrisfyrirtækis, gert kröfu um að eigið fé rafeyrisfyrirtækis sé allt að 20% hærra en fjárhæðin sem leiðir af beitingu aðferðarinnar sem valin er í samræmi við 1.–3. mgr. Á sama grundvelli getur Fjármálaeftirlitið heimilað að fjárhæð eigin fjár rafeyrisfyrirtækis sé allt að 20% lægri en fjárhæðin sem leiðir af beitingu þeirra aðferðar sem valin er í samræmi við 1.–3. mgr.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur samkvæmt þessu ákvæði.

14. gr.
Virkur eignarhlutur.

    Ákvæði VI. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, gilda um meðferð virkra eignarhluta í rafeyrisfyrirtækjum.

B. Starfsleyfi.
15. gr.
Starfsleyfi.

    Aðilar, aðrir en þeir sem taldir eru upp í b–d-lið 4. tölul. 4. gr. er hyggjast gefa út rafeyri skulu afla sér starfsleyfis sem rafeyrisfyrirtæki.
    Fjármálaeftirlitið veitir rafeyrisfyrirtækjum starfsleyfi samkvæmt lögum þessum. Rafeyrisfyrirtæki er heimilt að hefja útgáfu rafeyris að fengnu starfsleyfi.
    Starfsleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal gilda í öllum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. nánari ákvæði þessa kafla.

16. gr.
Takmarkað starfsleyfi á Íslandi.

    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita lögaðila með höfuðstöðvar hér á landi takmarkað starfsleyfi til útgáfu rafeyris að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
     a.      enginn þeirra einstaklinga, sem ábyrgir eru fyrir stjórn eða rekstri fyrirtækisins, hafa á síðustu tíu árum verið dæmdir fyrir brot sem tengjast peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverkastarfsemi eða auðgunarbrot,
     b.      samanlögð áætluð útgáfa fjárhæðar rafeyris fer ekki yfir 30 milljónir króna á almanaksári.
    Takmarkað starfsleyfi veitir aðeins heimild til útgáfu rafeyris hér á landi.
    Lögaðili sem hlotið hefur takmarkað starfsleyfi skal í byrjun hvers almanaksárs senda Fjármálaeftirlitinu yfirlit með upplýsingum um heildarfjárskuldbindingar vegna rafeyris sem gefinn hefur verið út síðastliðið almanaksár auk útgáfuspár fyrir yfirstandandi ár. Yfirlitið skal undirritað af stjórn lögaðilans.
    Lögaðili sem hlotið hefur takmarkað starfsleyfi skal tafarlaust tilkynna Fjármálaeftirlitinu ef samanlögð útgáfa fjárhæðar rafeyris sem gefinn hefur verið út á einu og sama almanaksárinu fer yfir 30 milljónir króna.
    Ef fjárhæð rafeyris skv. b-lið 1. mgr. fer yfir tilgreind fjárhæðarmörk er lögaðila þó heimil áframhaldandi útgáfa rafeyris á grundvelli þessa ákvæðis ef fullbúin umsókn um starfsleyfi skv. 15. gr. berst Fjármálaeftirlitinu innan 30 daga frá þeim tíma. Þrátt fyrir 2. mgr. 21. gr. skal ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu eða synjun starfsleyfis tilkynnt umsækjanda eigi síðar en 15 dögum eftir að fullbúin umsókn barst.

17. gr.
Skrá yfir rafeyrisfyrirtæki.

    Fjármálaeftirlitið heldur skrá yfir rafeyrisfyrirtæki samkvæmt lögum þessum. Í skránni skal tilgreina helstu upplýsingar um rafeyrisfyrirtæki, svo sem um starfsheimildir og, ef við á, um umboðsaðila og útibú.
    Almenningur skal hafa aðgang að skrá Fjármálaeftirlitsins yfir rafeyrisfyrirtæki.

18. gr.
Umsókn um starfsleyfi.

    Umsókn um starfsleyfi skv. 15. gr. eða takmarkað starfsleyfi skv. 16. gr. skal berast Fjármálaeftirlitinu. Hún skal vera skrifleg og ítarleg. Í umsókninni skal gera nákvæmlega grein fyrir þeirri starfsemi sem fyrirhugað er að sinna, svo og hvernig fyrirhugað er að sinna henni. Umsækjandi skal sýna fram á hæfi lögaðilans sem æskir starfsleyfis til starfrækslu rafeyrisfyrirtækis í samræmi við ákvæði laga þessara með fullnægjandi hætti að mati Fjármálaeftirlitsins, með framvísun þeirra gagna sem stofnunin metur nauðsynleg.
    Fjármálaeftirlitið skal setja reglur um þær upplýsingar sem greina þarf í umsókn, svo og nauðsynleg fylgigögn, til þess að umsóknin teljist fullnægjandi.

19. gr.
Viðvarandi upplýsingaskylda.

    Rafeyrisfyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 15. gr. eða takmarkað starfsleyfi skv. 16. gr. skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu án tafar um allar breytingar á áður veittum upplýsingum í tengslum við umsókn og veitingu starfsleyfis.

20. gr.
Starfsleyfisskilyrði.

    Starfsleyfi skal veitt ef umsækjandi sýnir að mati Fjármálaeftirlitsins fram á að skipulag í fyrirhuguðum rekstri rafeyrisfyrirtækis sé skýrt, fullnægjandi verklagsreglur séu til staðar er þjóni markmiðum um traustan og varfærinn rekstur og að starfsemin hafi á að skipa fullnægjandi innra eftirlitskerfi að því er varðar aðferðir við stjórnun, fyrirkomulag áhættustýringar og reikningsskil samkvæmt nánari reglum sem Fjármálaeftirlitið setur.
    Þær kröfur sem gerðar eru til umsækjanda skv. 1. mgr. skulu vera í samræmi við eðli og umfang þeirrar þjónustu sem fyrirhugað er að veita.
    Við mat á umsókn um starfsleyfi er Fjármálaeftirlitinu heimilt að leita ráðgjafar Seðlabanka Íslands eða annarra viðeigandi opinberra yfirvalda.
    Fjármálaeftirlitið getur gert kröfu um stofnun sérstakrar einingar fyrir rekstur rafeyrisfyrirtækis samkvæmt lögum þessum ef rafeyrisfyrirtækið sinnir annarri starfsemi samhliða útgáfu rafeyris og sá hluti rekstrarins hefur áhrif á fjárhagslegan styrk rafeyrisfyrirtækisins eða torveldar eftirlit með því, að mati Fjármálaeftirlitsins.
    Fjármálaeftirlitið skal synja um veitingu starfsleyfis ef það telur hluthafa eða eigendur virkra eignarhluta í rafeyrisfyrirtæki ekki hæfa með tilliti til traustrar og varfærinnar stjórnunar fyrirtækisins.
    Starfsleyfi skal ekki veitt ef náin tengsl rafeyrisfyrirtækis við einstaklinga eða lögaðila hindra eftirlit með starfseminni af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Hið sama á við ef lög eða reglur, sem gilda um slíka tengda aðila, hindra eftirlit. Með nánum tengslum er í lögum þessum átt við náin tengsl í skilningi laga um fjármálafyrirtæki.

21. gr.
Tilkynning um veitingu eða synjun starfsleyfis.

    Fullnægi umsókn um starfsleyfi skilyrðum laga þessara að mati Fjármálaeftirlitsins veitir Fjármálaeftirlitið starfsleyfi. Að öðrum kosti skal Fjármálaeftirlitið synja um starfsleyfi með rökstuddum hætti.
    Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu eða synjun starfsleyfis skal tilkynnt umsækjanda eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst.

22. gr.
Afturköllun leyfis.

    Fjármálaeftirlitið getur afturkallað starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis í heild eða að hluta ef:
     a.      rafeyrisfyrirtæki nýtir ekki starfsleyfi innan 12 mánaða frá því að það var veitt, afsalar sér ótvírætt leyfinu eða hættir starfsemi í meira en sex mánuði samfellt,
     b.      starfsleyfis hefur verið aflað á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt,
     c.      rafeyrisfyrirtæki uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir leyfisveitingu,
     d.      áframhaldandi rekstur rafeyrisfyrirtækis ógnar stöðugleika greiðslukerfis,
     e.      starfsemi rafeyrisfyrirtækis fellur undir annað ákvæði í landslögum sem kveður á um afturköllun leyfis eða
     f.      rafeyrisfyrirtæki brýtur að öðru leyti alvarlega eða ítrekað gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.
    Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal rafeyrisfyrirtæki veittur hæfilegur frestur til úrbóta ef unnt er að koma úrbótum við að mati Fjármálaeftirlitsins. Þetta á þó ekki við um a-lið 1. mgr.
    Afturköllun á starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis skal tilkynnt stjórn þess og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynninguna í Lögbirtingablaði og auglýsa í fjölmiðlum. Tilkynning skal enn fremur send lögbærum eftirlitsaðilum í þeim ríkjum þar sem hlutaðeigandi rafeyrisfyrirtæki starfrækir útibú eða veitir þjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila.

23. gr.
Góðir viðskiptahættir og þagnarskylda.

    Rafeyrisfyrirtæki skal viðhafa eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur.
    Um þagnarskyldu stjórnarmanna rafeyrisfyrirtækis, framkvæmdastjóra, endurskoðenda, starfsmanna og hverra þeirra sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins fer samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

C. Starfsheimildir.
24. gr.
Starfsemi.

    Rafeyrisfyrirtækjum er heimilt að stunda eftirfarandi starfsemi, auk útgáfu rafeyris:
     a.      veitingu greiðsluþjónustu samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu,
     b.      lánveitingar í tengslum við greiðsluþjónustu sem um getur í 4., 5. og 7. tölul. 4. gr. laga um greiðsluþjónustu, að uppfylltum skilyrðum 5. mgr. 19. gr. þeirra laga,
     c.      aðra starfsemi og stoðþjónustu er tengist útgáfu rafeyris eða veitingu greiðsluþjónustu sem um getur í a-lið,
     d.      rekstur greiðslukerfa samkvæmt skilgreiningu laga um greiðsluþjónustu,
     e.      aðra starfsemi, nema því séu takmörk sett í þessum lögum eða öðrum lögum.
    Lánveitingar skv. b-lið 1. mgr. má ekki fjármagna með þeim fjármunum sem rafeyrisfyrirtæki tekur við í skiptum fyrir útgefinn rafeyri og varðveittir skulu í samræmi við 25. gr.
    Rafeyrisfyrirtæki er óheimilt að taka við innlánum eða öðrum endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi í skilningi laga um fjármálafyrirtæki.
    Rafeyrisfyrirtæki er heimilt að halda greiðslureikninga sem skal einungis nota við framkvæmd greiðslna.

25. gr.
Varðveisla fjármuna.

    Rafeyrisfyrirtæki skal varðveita fjármuni sem mótteknir hafa verið í skiptum fyrir rafeyri tryggilega og halda þeim skýrt aðgreindum frá eigin fé sínu. Fjármunir teljast tryggilega varðveittir ef þeir eru geymdir á innlánsreikningi hjá fjármálafyrirtæki eða ef fjárfest er með þeim í öruggum, seljanlegum og áhættulitlum eignum.
    Fjármunum sem mótteknir hafa verið frá notendum greiðsluþjónustu eða frá öðrum greiðsluþjónustuveitendum vegna framkvæmdar greiðslu skal haldið skýrt aðgreindum frá eigin fé greiðsluþjónustuveitanda, þ.m.t. rafeyrisfyrirtækisins, og fjármunum í eigu annarra en notenda greiðsluþjónustu.
    Fjármunir sem rafeyrisfyrirtæki veitir viðtöku í formi greiðslu með greiðslumiðli skulu varðveittir í samræmi við 1.–2. mgr. frá þeim tíma sem þeir eru lagðir inn á greiðslureikning rafeyrisfyrirtækisins, eða þeir eru aðgengilegir því til ráðstöfunar í samræmi við ákvæði laga um greiðsluþjónustu um framkvæmdartíma, og í síðasta lagi innan fimm viðskiptadaga, í skilningi laga um greiðsluþjónustu, frá útgáfu rafeyris. Hvað sem öðru líður skulu slíkir fjármunir varðveittir tryggilega eigi síðar en fimm viðskiptadögum síðar, eins og þeir eru skilgreindir í 29. tölul. 8. gr. laga um greiðsluþjónustu, eftir útgáfu rafeyris.
    Fjármunir skv. 1.–3. mgr. skulu teljast forgangskröfur í þrotabú rafeyrisfyrirtækis komi til gjaldþrots. Um rétthæð þeirra fer skv. 109. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., enda sýni eigandi fjármuna fram á eignarrétt sinn að þeim.
    Rafeyrisfyrirtæki skulu tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um breytingar sem máli skipta hvað varðar ráðstafanir til varðveislu fjármuna skv. 1.–3. mgr.
    Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um tryggilega varðveislu fjármuna samkvæmt þessari grein.

D. Stjórn. Reikningsskil og endurskoðun.
26. gr.
Hæfi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda.

    Um hæfi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda samkvæmt skipulagi rafeyrisfyrirtækis gilda hæfisreglur laga um fjármálafyrirtæki eftir því sem við á.
    Rafeyrisfyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan og síðari breytingar á stjórn fyrirtækis og framkvæmdastjórn og skulu tilkynningunni fylgja fullnægjandi upplýsingar til að hægt sé að meta hvort skilyrðum 1. mgr. sé fullnægt.

27. gr.
Reikningsskil og endurskoðun.

    Reikningsár rafeyrisfyrirtækis er almanaksárið. Ákvæði laga um fjármálafyrirtæki gilda að öðru leyti um bókhald, endurskoðun og tilkynningarskyldu endurskoðenda rafeyrisfyrirtækja til Fjármálaeftirlitsins.

E. Eftirlit.
28. gr.
Eftirlit.

    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi rafeyrisfyrirtækja, þ.m.t. umboðsaðilum, útibúum og útvistunaraðilum, sem falla undir ákvæði þessa kafla, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga þessara og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Fjármálaeftirlitið skal hafa samstarf við lögbær yfirvöld í aðildarríkjum um framkvæmd eftirlits með starfsemi umboðsaðila, útibúa og útvistunaraðila á vegum rafeyrisfyrirtækja sem fengið hafa starfsleyfi samkvæmt lögum þessum í þeim ríkjum.
    Fjármálaeftirlitið skal tilkynna lögbærum yfirvöldum um það fyrir fram hyggist það framkvæma skoðun erlendis á starfsstöð rafeyrisfyrirtækis sem fengið hefur starfsleyfi samkvæmt lögum þessum. Slík skoðun skal framkvæmd í samstarfi við lögbær yfirvöld í hlutaðeigandi ríki. Óski Fjármálaeftirlitið á hinn bóginn eftir því er því heimilt að fela lögbærum yfirvöldum í hlutaðeigandi ríki framkvæmd slíkrar skoðunar.
    Fjármálaeftirlitið skal að ósk lögbærra yfirvalda í aðildarríkjum veita viðeigandi upplýsingar um rafeyrisfyrirtæki sem fengið hafa starfsleyfi samkvæmt lögum þessum, einkum þegar brot eða grunur um brot umboðsaðila, útibús eða einingar sem starfsemi er útvistuð til er annars vegar. Mikilvægar upplýsingar skulu enn fremur sendar að frumkvæði Fjármálaeftirlitsins til lögbærra yfirvalda í hlutaðeigandi ríki þar sem rafeyrisfyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi samkvæmt lögum þessum hefur starfsemi eða útvistar verkefni til.

F. Veiting þjónustu yfir landamæri með eða án stofnunar útibús eða í gegnum umboðsaðila.
29. gr.
Starfsemi innlendra rafeyrisfyrirtækja erlendis án stofnunar útibús.

    Hyggist rafeyrisfyrirtæki veita þjónustu samkvæmt lögum þessum í öðru aðildarríki án stofnunar útibús skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram heiti og heimilisfang fyrirtækis, hvaða aðildarríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð þjónusta sé fólgin. Innan mánaðar frá viðtöku slíkrar tilkynningar skal Fjármálaeftirlitið áframsenda lögbærum yfirvöldum í hlutaðeigandi aðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækis.
    Þegar Fjármálaeftirlitið hefur sent tilkynningu skv. 1. mgr. skal það færa viðeigandi upplýsingar í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 17. gr.

30. gr.
Starfsemi innlendra rafeyrisfyrirtækja erlendis með stofnun útibús.

    Hyggist rafeyrisfyrirtæki veita þjónustu samkvæmt lögum þessum í öðru aðildarríki með stofnun útibús skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram hvaða aðildarríki á í hlut, í hverju fyrirhuguð þjónusta sé fólgin, heiti og heimilisfang fyrirtækis, nöfn þeirra sem ábyrgir eru fyrir stjórn útibúsins, þau ríki sem útibúið hyggst veita þjónustu í og skipulag þess. Innan mánaðar frá viðtöku slíkrar tilkynningar skal Fjármálaeftirlitið áframsenda lögbærum yfirvöldum í hlutaðeigandi aðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækis.
    Þegar Fjármálaeftirlitið hefur sent tilkynningu skv. 1. mgr. skal það færa viðeigandi upplýsingar í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 17. gr.
    Berist Fjármálaeftirlitinu tilkynning frá lögbærum yfirvöldum í öðru aðildarríki, sem rafeyrisfyrirtæki óskar eftir að veita þjónustu í með stofnun útibús, sem hafa gilda ástæðu til að ætla að stofnun útibúsins gæti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka getur Fjármálaeftirlitið hafnað því að færa upplýsingar um útibúið í skrá skv. 17. gr. eða afturkallað skráningu hafi hún þegar farið fram.
    Rafeyrisfyrirtæki skal sjá til þess að útibú sem veitir þjónustu fyrir hennar hönd upplýsi notendur þjónustu um þá staðreynd.

31. gr.
Veiting þjónustu erlendis í gegnum umboðsaðila.

    Ef rafeyrisfyrirtæki óskar eftir því að dreifa rafeyri í öðru aðildarríki, með því að ráða til þess umboðsaðila, hvort heldur einstakling eða lögaðila, skal Fjármálaeftirlitinu tilkynnt um það fyrir fram. Í tilkynningu skulu koma fram upplýsingar skv. 1. mgr. 35. gr., auk upplýsinga um hvaða ríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð starfsemi sé fólgin.
    Innan mánaðar frá viðtöku slíkrar tilkynningar skal Fjármálaeftirlitið senda lögbærum yfirvöldum í hlutaðeigandi ríki upplýsingar skv. 1. mgr. auk staðfestingar á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækis ásamt beiðni um umsögn.
    Þegar Fjármálaeftirlitið hefur sent tilkynningu skv. 2. mgr. skal það færa viðeigandi upplýsingar í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 17. gr.
    Hafi lögbær yfirvöld í hlutaðeigandi ríki gilda ástæðu til að ætla að peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka eigi sér stað, hafi átt sér stað eða sé í undirbúningi eða að skráning umboðsaðila geti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka er Fjármálaeftirlitinu heimilt að hafna eða afturkalla skráningu hafi hún þegar farið fram. Er þá rafeyrisfyrirtæki óheimilt að notast við hlutaðeigandi umboðsaðila til að dreifa eða innleysa rafeyri fyrir þess hönd frá þeim tíma.
    Rafeyrisfyrirtæki ber ábyrgð á því að umboðsaðili upplýsi notendur þjónustu um að þjónustan sé veitt fyrir hönd erlends rafeyrisfyrirtækis.

32. gr.
Þjónusta rafeyrisfyrirtæki innan EES án stofnunar útibús.

    Erlendu rafeyrisfyrirtæki, sem hefur staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, er heimilt að veita þjónustu samkvæmt lögum þessum hér á landi án stofnunar útibús.
    Svissnesk og færeysk rafeyrisfyrirtæki geta veitt þjónustu samkvæmt þessari grein enda séu sömu kröfur gerðar til þeirra og rafeyrisfyrirtækja með staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og gerður hafi verið samstarfssamningur á milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra svissneskra eða færeyskra yfirvalda.
    Erlendu rafeyrisfyrirtæki skv. 1.–2. mgr. er heimilt að veita þjónustu hér á landi þegar tilkynning sem uppfyllir skilyrði 4. mgr. hefur borist Fjármálaeftirlitinu frá lögbæru yfirvaldi aðildarríkis.
    Í tilkynningu skal koma fram heiti og heimilisfang fyrirtækis, hvers konar þjónustu fyrirtæki hyggst veita og staðfestingu þess að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækis.

33. gr.
Þjónusta rafeyrisfyrirtæki innan EES með stofnun útibús.

    Erlendu rafeyrisfyrirtæki, sem hefur staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, er heimilt að veita þjónustu samkvæmt lögum þessum hér á landi með stofnun útibús.
    Svissnesk og færeysk rafeyrisfyrirtæki geta veitt þjónustu samkvæmt þessari grein enda séu sömu kröfur gerðar til þeirra og rafeyrisfyrirtækja með staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og gerður hafi verið samstarfssamningur á milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra svissneskra eða færeyskra yfirvalda.
    Erlendu rafeyrisfyrirtæki skv. 1.–2. mgr. er heimilt að veita þjónustu hér á landi þegar tilkynning sem uppfyllir skilyrði 4. mgr. hefur borist Fjármálaeftirlitinu frá lögbæru yfirvaldi aðildarríkis.
    Í tilkynningu skal koma fram heiti og heimilisfang fyrirtækis, hvers konar þjónustu fyrirtæki hyggst veita, staðfesting á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækis, nöfn þeirra sem ábyrgir eru fyrir stjórn útibúsins og skipulag þess.
    Hafi Fjármálaeftirlitið gilda ástæðu til að ætla að peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka eigi sér stað, hafi átt sér stað eða sé í undirbúningi eða að stofnun útibús gæti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skal Fjármálaeftirlitið tilkynna lögbærum yfirvöldum heimaríkis um það. Ákveði lögbær yfirvöld heimaríkis að hafna eða afturkalla skráningu í framhaldi slíkrar tilkynningar er viðkomandi útibúi ekki heimilt að veita þjónustu hér á landi frá þeim tíma.
    Útibú sem veitir þjónustu fyrir hönd erlends rafeyrisfyrirtækis skulu upplýsa notendur þjónustu um þá staðreynd.
    Ákvæði hlutafélagalaga varðandi útibú erlendra hlutafélaga eiga ekki við um útibú skv. 1. mgr.

34. gr.
Þjónusta eða stofnun útibús hjá rafeyrisfyrirtæki utan EES.

    Fjármálaeftirlitið getur heimilað rafeyrisfyrirtæki með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins að opna útibú hér á landi. Skilyrði fyrir veitingu slíks leyfis er að fyrirtækið hafi leyfi til að stunda starfsemi í heimaríki sínu hliðstæða þeirri sem það hyggst stunda hér á landi og að sú starfsemi sé háð sambærilegu eftirliti í heimaríkinu.
    Ef Fjármálaeftirlitið veitir heimild skv. 1. mgr. skal stofnunin tilkynna það til Eftirlitsstofnunar EFTA.

G. Umboðsaðilar.
35. gr.
Veiting rafeyrisþjónustu í gegnum umboðsaðila.

    Rafeyrisfyrirtæki sem hyggst dreifa eða innleysa rafeyri fyrir milligöngu umboðsaðila skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Tilkynningunni skulu fylgja upplýsingar um nafn og heimilisfang umboðsaðilans og lýsing á innra eftirlitskerfi sem m.a. skal uppfylla kröfur laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, svo og nauðsynlegar upplýsingar og gögn til að sýna fram á að stjórnendur uppfylli hæfiskröfur að mati Fjármálaeftirlitsins.
    Fjármálaeftirlitið skráir umboðsaðila í skrá skv. 17. gr., að fengnum upplýsingum skv. 1. mgr. Telji Fjármálaeftirlitið vafa leika á um að upplýsingarnar séu réttar skal það grípa til aðgerða til að sannreyna þær. Fjármálaeftirlitið synjar um skráningu á umboðsaðila í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki ef það er mat þess að ósannað teljist að upplýsingar skv. 1. mgr. séu réttar eða fullnægjandi.
    Ef Fjármálaeftirlitið metur upplýsingar skv. 1. mgr. ófullnægjandi eða rangar er því heimilt að hafna skráningu og er þá rafeyrisfyrirtæki óheimilt að notast við hlutaðeigandi umboðsaðila til að dreifa eða innleysa rafeyri fyrir þess hönd frá þeim tíma.
    Rafeyrisfyrirtækjum er heimilt að dreifa rafeyri og innleysa hann í gegnum umboðsaðila sem aðhafast fyrir þeirra hönd eftir að Fjármálaeftirlitið hefur skráð hann í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 17. gr. Útgáfa rafeyris í gegnum umboðsaðila er óheimil.
    Ef rafeyrisfyrirtæki óskar eftir því að dreifa rafeyri í öðru aðildarríki í gegnum umboðsaðila fer um slíkt skv. 31. gr.

36. gr.
Veiting greiðsluþjónustu af hálfu rafeyrisfyrirtækja í gegnum umboðsaðila.

    Rafeyrisfyrirtæki er heimil veiting greiðsluþjónustu samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu, sbr. a-lið 1. mgr. 24. gr., þar á meðal fyrir tilstilli umboðsaðila að uppfylltum skilyrðum 23. gr. f laga um greiðsluþjónustu.
    Ef rafeyrisfyrirtæki óskar eftir því að veita greiðsluþjónustu í öðru aðildarríki í gegnum umboðsaðila fer um slíkt skv. 23. gr. b laga um greiðsluþjónustu

H. Útvistun.
37. gr.
Útvistun.

    Rafeyrisfyrirtæki sem hyggst útvista rekstrarþáttum í starfsemi sinni skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram.
    Útvistun mikilvægra rekstrarþátta sem dregur umtalsvert úr gæðum innra eftirlits rafeyrisfyrirtækis og torveldar eftirlit með framkvæmd laga þessara er óheimil. Rekstrarþáttur telst mikilvægur ef ágalli eða brestur í framkvæmd hans hefur umtalsverð neikvæð áhrif á getu rafeyrisfyrirtækis til að uppfylla þær kröfur sem liggja til grundvallar starfsleyfi hennar eða skyldur samkvæmt lögunum, fjárhagslega afkomu rafeyrisfyrirtækis eða styrkleika eða samfelldni þjónustunnar sem um ræðir.
    Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um hvernig rafeyrisfyrirtæki er heimilt að standa að útvistun mikilvægra rekstrarþátta.

I. Annað.
38. gr.
Bótaábyrgð.

    Rafeyrisfyrirtæki ber skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem rakið verður til athafna starfsmanna þess, umboðsaðila, útibúa og þeirra aðila sem rekstrarþáttum rafeyrisfyrirtækis hefur verið útvistað til.
    Rafeyrisfyrirtæki sem reiðir sig á þriðja aðila til að annast tiltekna rekstrarþætti skal gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að farið sé að lögum þessum.

39. gr.
Varðveisla gagna.

    Rafeyrisfyrirtæki ber að varðveita öll viðeigandi gögn er varða þennan kafla að lágmarki í fimm ár.

IV. KAFLI
Eftirlit, réttarúrræði og viðurlög.
40. gr.
Fjármálaeftirlitið.

    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara að því er varðar eftirlitsskylda aðila samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi rafeyrisfyrirtækja, þ.m.t. umboðsaðilum, útibúum og útvistunaraðilum, sem falla undir ákvæði III. kafla, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
    Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins fer samkvæmt ákvæðum laga þessara og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

41. gr.
Úrskurðar- og réttarúrræði.

    Útgefendur rafeyris skulu hafa aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði ef ágreiningur rís milli handhafa rafeyris og útgefanda rafeyris, m.a. um málskot til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki skv. 2. mgr.
    Handhafar rafeyris geta skotið ágreiningi er varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, sbr. 19. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Rafeyrisfyrirtækjum er skylt að eiga aðild að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

42. gr.
Stjórnvaldssektir.

    Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og, eftir atvikum, reglum settum á grundvelli þeirra:
     1.      3. gr. um einkarétt útgefanda rafeyris til útgáfu rafeyris hérlendis,
     2.      5. gr. um að rafeyrir skuli gefinn út á nafnverði þegar fjármunum er veitt viðtaka,
     3.      6. gr. um bann við vöxtum,
     4.      7. gr. um innlausn rafeyris,
     5.      8. gr. um þóknun vegna innlausnar,
     6.      11. gr. um stofnfé,
     7.      12. og 13. gr. um eiginfjárgrunn og útreikning eigin fjár,
     8.      14. gr. um meðferð virkra eignarhluta,
     9.      15. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis,
     10.      2.–4. mgr. 16. gr. um heimildir og skyldur aðila með takmarkað starfsleyfi,
     11.      19. gr. um viðvarandi upplýsingaskyldu,
     12.      23. gr. um góða viðskiptahætti og þagnarskyldu,
     13.      2. og 3. mgr. 24. gr. um aðra starfsemi,
     14.      25. gr. um varðveislu fjármuna,
     15.      26. gr. um hæfi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda,
     16.      27. gr. um reikningsskil og lögboðna endurskoðun,
     17.      1. mgr. 29. gr., 1. og 4. mgr. 30. gr., 1. og 5. mgr. 31. gr. og 6. mgr. 33. gr. um veitingu þjónustu yfir landamæri,
     18.      1. og 4. mgr. 35. gr. og 36. gr. um veitingu þjónustu í gegnum umboðsaðila,
     19.      1.–2. mgr. 37. gr. um útvistun rekstrarþátta,
     20.      2. mgr. 38. gr. um skyldu til að tryggja að þriðji aðili, sem falið hefur verið að annast tiltekna rekstrarþætti, geri viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að farið sé að lögum þessum,
     21.      39. gr. um varðveislu gagna.
    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10 þús. kr. til 20 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 50 þús. kr. til 50 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar af stjórn Fjármálaeftirlitsins og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi. Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara, reglur settar á grundvelli þeirra eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.
    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
    Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
    Frestur skv. 5. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

43. gr.
Sektir eða fangelsi.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og, eftir atvikum, reglum settum á grundvelli þeirra:
     1.      3. gr. um einkarétt útgefanda rafeyris til útgáfu rafeyris hérlendis,
     2.      12. og 13. gr. um eiginfjárgrunn og útreikning eigin fjár,
     3.      15. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis,
     4.      2. mgr. 23. gr. um þagnarskyldu,
     5.      27. gr. um reikningsskil og lögboðna endurskoðun.
    Þá varðar það sömu refsingu að gefa vísvitandi rangar eða villandi upplýsingar um hagi útgefanda rafeyris eða annað er hann varðar, opinberlega eða til Fjármálaeftirlitsins, annarra opinberra aðila eða notenda þjónustu útgefanda rafeyris.
    Brot gegn lögum þessum er varða sektum eða fangelsi varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi.
    Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
    Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins.
    Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Fjármálaeftirlitið hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Fjármálaeftirlitinu að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum og ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Fjármálaeftirlitið á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rannsóknar lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
    Með kæru Fjármálaeftirlitsins skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kæra mál til lögreglu.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 7. mgr. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 7. mgr.
    Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 7. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Fjármálaeftirlitsins sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 7. mgr.
    Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Fjármálaeftirlitsins til meðferðar og ákvörðunar.

V. KAFLI
Önnur ákvæði.
44. gr.
Innleiðing.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/110/EB frá 16. september 2009 um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og varfærniseftirlit með þeim, breytingu á tilskipunum 2005/60/EB og 2006/48/EB og um niðurfellingu á tilskipun 2000/46/EB, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2010, frá 10. nóvember 2010, sem birt var 3. mars 2011 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 12/2011.

45. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2012.

46. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

     1.      Lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum:
                  a.      5. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.
                  b.      4. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna fellur brott.
                  c.      Orðið „rafeyrisfyrirtæki“ í 1. mgr. 12. gr. laganna fellur brott.
                  d.      4. mgr. 14. gr. laganna fellur brott
                  e.      24. gr. laganna ásamt fyrirsögn fellur brott.
                  f.      IX. kafli laganna fellur brott.
                  g.      Á eftir orðunum „fyrirtækjum tengdum fjármálasviði“ í 1. og 3. mgr. 85. gr. laganna kemur: rafeyrisfyrirtækjum.
                  h.      38.–39. tölul. 1. mgr. 110. gr. laganna falla brott.
                  i.      24. tölul. 1. mgr. 112. gr. b laganna fellur brott.
     2.      Lög nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, með síðari breytingum:
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 2. gr. laganna:
                      1.      Í stað orðanna „a–c-lið“ í d-lið kemur: a–c- og m–n-lið.
                      2.      Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Rafeyrisfyrirtæki samkvæmt lögum um útgáfu og meðferð rafeyris.
                  b.      Við 15. gr. a bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Við útgáfu rafeyris, í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris, þegar fjárhæð rafeyris sem geymd er á greiðslumiðli fer ekki yfir 250 evrur þegar um er að ræða greiðslumiðil sem ekki er hægt að endurhlaða eða fjárhæð rafeyris sem geymd er á greiðslumiðli fer ekki yfir 500 evrur þegar um er að ræða greiðslumiðil sem ekki er hægt að endurhlaða og aðeins er hægt að nota hérlendis eða heildarfjárhæð rafeyris sem geymd er á greiðslumiðli fer ekki yfir 2.500 evrur á almanaksárinu þegar um er að ræða endurhlaðanlegan greiðslumiðil, nema þegar handhafi innleysir rafeyri að hærri fjárhæð en 1.000 evrur innan sama almanaksárs.
                  c.      Á eftir orðunum „fjármálafyrirtækis sem hlotið hefur starfsleyfi á Íslandi“ í 1. málsl. 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: greiðslustofnunar, rafeyrisfyrirtækis.
     3.      Breyting á lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum: 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo: rafeyrisfyrirtækja samkvæmt lögum um útgáfu og meðferð rafeyris og greiðslustofnana samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu.
     4.      Breytingar á lögum nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu:
                  a.      6. gr. laganna verður ný 13. gr. a og orðast svo ásamt fyrirsögn:

Skrá yfir greiðslustofnanir.

                      Fjármálaeftirlitið heldur skrá yfir greiðslustofnanir samkvæmt lögum þessum. Í skránni skal tilgreina helstu upplýsingar um greiðslustofnanir, svo sem um starfsheimildir og, ef við á, um umboðsaðila og útibú.
                      Almenningur skal hafa aðgang að skrá Fjármálaeftirlitsins yfir greiðslustofnanir.
                  b.      Í stað orðanna „laga um fjármálafyrirtæki“í 4. tölul. 8. gr., 2. mgr. 55. gr. og 7. mgr. 56. gr. laganna kemur: laga um útgáfu og meðferð rafeyris.
                  c.      Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Stofnfé greiðslustofnunar skal samsett úr þeim þáttum sem taldir eru upp í 5. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
                  d.      Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Starfsleyfi skal gilda í öllum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu.
                  e.      7. mgr. 15. gr. laganna fellur brott.
                  f.      3. mgr. 18. gr. laganna orðast svo:
                      Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um tryggilega varðveislu fjármuna samkvæmt þessari grein.
                  g.      Í stað 23. gr. laganna koma sex nýjar greinar, 23. gr. og 23. gr. a – 23. gr. e, sem orðast svo ásamt fyrirsögnum:

                  a.     (23. gr.)

Starfsemi innlendra greiðslustofnana erlendis án stofnunar útibús.

                      Hyggist greiðslustofnun veita þjónustu samkvæmt lögum þessum í öðru aðildarríki án stofnunar útibús skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram heiti og heimilisfang fyrirtækis, hvaða aðildarríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð greiðsluþjónusta sé fólgin. Innan mánaðar frá viðtöku slíkrar tilkynningar skal Fjármálaeftirlitið áframsenda lögbærum yfirvöldum í hlutaðeigandi aðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækis.
                      Þegar Fjármálaeftirlitið hefur sent tilkynningu skv. 1. mgr. skal það færa viðeigandi upplýsingar í skrá yfir greiðsluþjónustuveitendur skv. 13. gr. a.

                  b.     (23. gr. a.)

Starfsemi innlendra greiðslustofnana erlendis með stofnun útibús.


                      Hyggist greiðslustofnun veita þjónustu samkvæmt lögum þessum í öðru aðildarríki með stofnun útibús skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram hvaða aðildarríki á í hlut, í hverju fyrirhuguð greiðsluþjónusta sé fólgin, heiti og heimilisfang fyrirtækis, nöfn þeirra sem ábyrgir eru fyrir stjórn útibúsins, þau ríki sem útibúið hyggst veita greiðsluþjónustu í og skipulag þess. Innan mánaðar frá viðtöku slíkrar tilkynningar skal Fjármálaeftirlitið áframsenda lögbærum yfirvöldum í hlutaðeigandi aðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækis.
                      Þegar Fjármálaeftirlitið hefur sent tilkynningu skv. 1. mgr. skal það færa viðeigandi upplýsingar í skrá yfir greiðsluþjónustuveitendur skv. 13. gr. a.
                      Berist Fjármálaeftirlitinu tilkynning frá lögbærum yfirvöldum í öðru aðildarríki, sem greiðslustofnun óskar eftir að veita greiðsluþjónustu í með stofnun útibús, sem hafa gilda ástæðu til að ætla að stofnun útibúsins gæti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka getur Fjármálaeftirlitið hafnað því að færa upplýsingar um útibúið í skrá skv. 13. gr. a eða afturkallað skráningu hafi hún þegar farið fram.
                      Greiðslustofnun skal sjá til þess að útibú sem veitir greiðsluþjónustu fyrir hennar hönd upplýsi notendur þjónustu um þá staðreynd.

                  c.     (23. gr. b.)

Veiting þjónustu erlendis í gegnum umboðsaðila.


                      Greiðslustofnun sem óskar eftir að veita greiðsluþjónustu í öðru aðildarríki, fyrir milligöngu umboðsaðila, skal hún tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skulu koma fram upplýsingar skv. 1. mgr. 23. gr. f, auk upplýsinga um hvaða ríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð starfsemi sé fólgin.
                      Innan mánaðar frá viðtöku slíkrar tilkynningar skal Fjármálaeftirlitið senda lögbærum yfirvöldum í hlutaðeigandi ríki upplýsingar skv. 1. mgr. auk staðfestingar á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækis ásamt beiðni um umsögn.
                      Þegar Fjármálaeftirlitið hefur sent tilkynningu skv. 2. mgr. skal það færa viðeigandi upplýsingar í skrá skv. 13. gr. a.
                      Berist Fjármálaeftirlitinu tilkynning frá lögbærum yfirvöldum í öðru aðildarríki, sem greiðslustofnun óskar eftir að veita greiðsluþjónustu í fyrir milligöngu umboðsaðila, sem hafa gilda ástæðu til að ætla að peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka eigi sér stað, hafi átt sér stað eða sé í undirbúningi eða að tilnefning umboðsaðila gæti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka getur Fjármálaeftirlitið hafnað því að færa upplýsingar um umboðsaðilann í skrá skv. 13. gr. a eða afturkallað skráningu hafi hún þegar farið fram.
                      Greiðslustofnun skal sjá til þess að umboðsaðili sem veitir greiðsluþjónustu fyrir hennar hönd upplýsi notendur greiðsluþjónustu um þá staðreynd.

                  d.     (23. gr. c.)

Þjónusta greiðslustofnunar innan EES án stofnunar útibús.


                      Erlendri greiðslustofnun, sem hefur staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, er heimilt að veita greiðsluþjónustu samkvæmt lögum þessum hér á landi án stofnunar útibús.
                      Svissneskar og færeyskar greiðslustofnanir geta veitt greiðsluþjónustu samkvæmt þessari grein enda séu sömu kröfur gerðar til þeirra og greiðslustofnana með staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og gerður hafi verið samstarfssamningur á milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra svissneskra eða færeyskra yfirvalda.
                      Erlendri greiðslustofnun skv. 1.–2. mgr. er heimilt að veita þjónustu hér á landi þegar tilkynning sem uppfyllir skilyrði 4. mgr. hefur borist Fjármálaeftirlitinu frá lögbæru yfirvaldi aðildarríkis.
                      Í tilkynningu skal koma fram heiti og heimilisfang fyrirtækis, hvers konar greiðsluþjónustu fyrirtæki hyggst veita og staðfestingu þess að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækis.

                  e.     (23. gr. d.)

Þjónusta greiðslustofnunar innan EES með stofnun útibús.


                      Erlendri greiðslustofnun, sem hefur staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, er heimilt að veita greiðsluþjónustu samkvæmt lögum þessum hér á landi með stofnun útibús.
                      Svissneskar og færeyskar greiðslustofnanir geta veitt greiðsluþjónustu samkvæmt þessari grein enda séu sömu kröfur gerðar til þeirra og greiðslustofnana með staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og gerður hafi verið samstarfssamningur á milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra svissneskra eða færeyskra yfirvalda.
                      Erlendri greiðslustofnun skv. 1.–2. mgr. er heimilt að veita greiðsluþjónustu hér á landi þegar tilkynning sem uppfyllir skilyrði 4. mgr. hefur borist Fjármálaeftirlitinu frá lögbæru yfirvaldi aðildarríkis.
                      Í tilkynningu skal koma fram heiti og heimilisfang fyrirtækis, hvers konar greiðsluþjónustu fyrirtæki hyggst veita, staðfestingu þess að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækis, nöfn þeirra sem ábyrgir eru fyrir stjórn útibúsins og skipulag þess.
                      Hafi Fjármálaeftirlitið gilda ástæðu til að ætla að peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka eigi sér stað, hafi átt sér stað eða sé í undirbúningi eða að stofnun útibús gæti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skal Fjármálaeftirlitið tilkynna lögbærum yfirvöldum heimaríkis um það. Ákveði lögbær yfirvöld heimaríkis að hafna eða afturkalla skráningu í framhaldi slíkrar tilkynningar er viðkomandi útibúi ekki heimilt að veita greiðsluþjónustu hér á landi frá þeim tíma.
                      Útibú sem veitir þjónustu fyrir hönd erlendrar greiðslustofnunar skulu upplýsa notendur greiðsluþjónustu um þá staðreynd.
                      Ákvæði hlutafélagalaga varðandi útibú erlendra hlutafélaga eiga ekki við um útibú skv. 1. mgr.

                  f.     (23. gr. e.)

Þjónusta eða stofnun útibús hjá greiðslustofnun utan EES.


                      Fjármálaeftirlitið getur heimilað greiðslustofnun með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins að opna útibú hér á landi. Skilyrði fyrir veitingu slíks leyfis er að fyrirtækið hafi leyfi til að stunda starfsemi í heimaríki sínu hliðstæða þeirri sem það hyggst stunda hér á landi og að sú starfsemi sé háð sambærilegu eftirliti í heimaríkinu.
                      Ef Fjármálaeftirlitið veitir heimild skv. 1. mgr. skal stofnunin tilkynna það til Eftirlitsstofnun EFTA.
                  h.      Fyrirsögn F-hluta II. kafla laganna orðast svo: Veiting þjónustu yfir landamæri með eða án stofnunar útibús eða í gegnum umboðsaðila.
                  i.      Á eftir F-hluta II. kafla laganna kemur nýr hluti, G. Umboðsaðilar, með einni nýrri grein, 23. gr. f, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Veiting greiðsluþjónustu í gegnum umboðsaðila.

                      Greiðslustofnun sem hyggst veita greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila skal tilkynna það Fjármálaeftirlitinu fyrir fram. Tilkynningunni skulu fylgja upplýsingar um nafn og heimilisfang umboðsaðilans og lýsing á innra eftirlitskerfi sem m.a. skal uppfylla kröfur laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, svo og nauðsynlegar upplýsingar og gögn til að sýna fram á að stjórnendur uppfylli hæfiskröfur að mati Fjármálaeftirlitsins.
                      Fjármálaeftirlitið skráir umboðsaðila í skrá skv. 13. gr. a, að fengnum upplýsingum skv. 1. mgr. Telji Fjármálaeftirlitið vafa leika á að upplýsingarnar séu réttar skal það grípa til aðgerða til að sannreyna þær. Fjármálaeftirlitið synjar um skráningu á umboðsaðila í skrá yfir greiðslustofnanir ef það er mat þess að ósannað teljist að upplýsingar skv. 1. mgr. séu réttar.
                      Ef Fjármálaeftirlitið metur upplýsingarnar ófullnægjandi eða rangar þá er því heimilt að hafna skráningu og er þá greiðslustofnun óheimilt að notast við hlutaðeigandi umboðsaðila frá þeim tíma.
                      Greiðslustofnun er heimilt að veita greiðsluþjónustu í gegnum umboðsaðila sem aðhefst fyrir hönd þess eftir að Fjármálaeftirlitið hefur fært hann í skrá skv. 13. gr. a.
                      Ef greiðslustofnun óskar eftir því að veita greiðsluþjónustu í öðru aðildarríki í gegnum umboðsaðila fer um slíkt skv. 23. gr. b.
                  j.      Á undan 24. gr. laganna kemur ný fyrirsögn, H. Útvistun, og breytist röð annarra hluta II. kafla samkvæmt því

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði laga þessara gilda um greiðsluþjónustuveitendur og notendur greiðsluþjónustu takmarkanir sem kunna að felast í ákvæðum laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, og reglum sem settar eru með stoð í þeim, á hverjum tíma.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Almennt.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/110/EB um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim er breytir tilskipunum 2005/60/EB og 2006/48/EB og nemur úr gildi eldri tilskipun um sama efni, þ.e. tilskipun 2000/46/EB (þ.e. svokölluð E-Money Directive II eða EMDII). Tilskipunin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (hér eftir EES-samninginn) með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2010 dags. 10. nóvember 2010.
    Ákvæði rafeyristilskipunarinnar hinnar fyrri, 2000/46/EB (hér eftir EMDI), voru upphaflega innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 37/2002, um rafeyrisfyrirtæki. Við setningu laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, voru lög nr. 37/2002 hins vegar felld úr gildi og ákvæðum þeirra fundinn staður í IX. kafla laga nr. 161/2002. Rafeyrisfyrirtæki eru því ein tegund fjármálafyrirtækja samkvæmt gildandi lögum. Með frumvarpi þessu er því um afturhvarf til fyrri tíðar að ræða, að því leyti að lagt er til að rafeyrisfyrirtæki verði sérstök tegund fjármálastofnana, en ekki ein tegund fjármálafyrirtækja.
    Samning og samþykkt nýju rafeyristilskipunarinnar (hér eftir EMDII) var hluti af heildarendurskoðun Evrópusambandsins á reglum sínum á sviði rafrænnar greiðslumiðlunar. Eldri tilskipunin, EMDI, þótti hamla þróun raunverulegs innri markaðar á Evrópska efnahagssvæðinu fyrir viðskipti með rafeyri og því var ákveðið að endurskoða tilskipunina með það markmið að leiðarljósi að afnema aðgangshindranir að rafeyrismarkaði og stuðla að bættu samræmdu regluverki um útgáfu og meðferð rafeyris. Nánar verður vikið að regluverki Evrópusambandsins á sviði rafrænnar greiðslumiðlunar í sérkafla hér á eftir.
    EMDII er „full harmonisation“ gerð, sem þýðir að heimildir til frávika frá efnisákvæðum tilskipunarinnar, við innleiðingu í landsrétt, eru takmarkaðar. Slíkum gerðum er ætlað að samræma réttarreglur í landsrétti einstakra aðildarríkja á Evrópska efnahagssvæðinu (hér eftir EES) og því eru heimildir til frávika aðeins heimilar að því marki sem sérstaklega er kveðið á um það í tilskipuninni. Sérstaklega er gerð grein fyrir valkvæðum ákvæðum í athugasemdum við einstök ákvæði frumvarpsins þegar það á við.
    Hinn 25. maí 2011 skipaði efnahags- og viðskiptaráðherra nefnd sem falið var það verkefni að semja frumvarp til innleiðingar á ákvæðum EMDII í íslenskan rétt.
    Í nefndina voru skipuð þau Guðmundur Kári Kárason, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Erla Þ. Pétursdóttir, samkvæmt tilnefningu Samtaka fjármálafyrirtækja, Páll Kolka Ísberg, samkvæmt tilnefningu Seðlabanka Íslands, Pétur Friðriksson, samkvæmt tilnefningu Samtaka fjármálafyrirtækja, Sigríður Rafnar Pétursdóttir, samkvæmt tilnefningu Seðlabanka Íslands og Tinna Ósk Óskarsdóttir, samkvæmt tilnefningu Fjármálaeftirlitsins.

II.     Greiðslumiðlun og rafeyrir (EES-reglur).
1.     Almennt um greiðslumiðlun.
    Greiðslumiðlun og greiðslukerfi eru undirstöður hagkerfisins sem sjá um tilflutning fjármagns í þágu einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og ríkja. Greiðslumiðlun grundvallast á greiðslukerfum og framkvæmist með ólíkum hætti eftir því hvaða greiðslumiðil notast er við (t.d. seðla/mynt eða greiðslukort).
    Hlutfall rafrænnar greiðslumiðlunar er mjög hátt á Íslandi miðað við aðrar vestrænar þjóðir; greiðslukort eru óvíða jafnmikið notuð og hér á landi. Ef tekið er mið af kortanotkun í nágrannaríkjunum mætti ætla að á Íslandi byggi yfir ein milljón manna, en ekki rúmlega þrjú hundruð þúsund. Þá eru seðlar og mynt í umferð hér á landi aðeins um þriðjungur af því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum, ef miðað er við landsframleiðslu. Þrátt fyrir það er fjárhæð seðla og myntar í umferð nú helmingi meiri en var fyrir bankahrunið 2008.

2.     Rafeyrir samkvæmt gildandi lögum og frumvarpi þessu.
    Rafeyrir er dæmi um andlag rafrænnar greiðslumiðlunar. Útgáfa og umsýsla rafeyris er starfsleyfisskyld starfsemi samkvæmt gildandi lögum og þar af leiðandi einungis heimil fjármálafyrirtækjum á Íslandi, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Með rafeyri er skv. 78. gr. laga nr. 161/2002 átt við „peningaleg verðmæti, í formi kröfu á útgefanda sem er geymd í rafrænum miðli, gefin út í skiptum fyrir fjárhæð sem er ekki lægri en þau peningalegu verðmæti sem eru gefin út og samþykkt sem greiðslumiðill af öðrum fyrirtækjum en útgefanda“. Í athugasemdum frumvarpsins er varð að lögum nr. 161/2002 segir m.a., um 78. gr.: „Unnt er að líta á rafeyri sem rafrænan staðgengil peningaseðla og myntar sem eru geymd á rafrænum miðli, t.d. smartkorti eða tölvuminni, ætlaðan til rafrænnar greiðslu lágrar fjárhæðar. Það er skilgreiningaratriði að rafeyrir sé samþykktur sem greiðslumiðill hjá öðrum en útgefanda“.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að ákvæði löggjafar um rafeyri verði færð úr lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og í ný sérlög um útgáfu og meðferð rafeyris. Þau taki jafnframt breytingum í samræmi við efni EMDII. Gert er ráð fyrir breytingu á skilgreiningu hugtaksins rafeyrir, til samræmis við ákvæði EMDII. Breytingin felst fyrst og fremst í tengingu við hugtakanotkun nýrra laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011. Hugtakið verði m.ö.o. skilgreint þannig: „Peningaleg verðmæti, í formi kröfu á útgefanda sem er geymd í rafrænum miðli, þ.m.t. á segulformi, gefin út í skiptum fyrir fjármuni, í þeim tilgangi að framkvæma greiðslu í skilningi laga um greiðsluþjónustu og samþykkt er sem slík af öðrum aðilum en útgefandanum sjálfum“.
    Sérstök athygli skal vakin á að í frumvarpi þessu er ekki gert ráð fyrir fjárhæðartakmörkunum í tengslum við rafeyri, nema ef um rafeyrisfyrirtæki með takmarkað starfsleyfi er að ræða. Áhersla skal jafnframt lögð á að það er grundvallaratriði í skilgreiningu hugtaksins rafeyris að hann er fyrir fram greiddur. Þannig má sem dæmi nefna að greiðslukort eru ýmist fyrir fram greidd eða skuldir vegna notkunar þeirra gerðar upp eftir á (hið síðarnefnda hefur verið algengara fyrirkomulag á Íslandi). Ljóst má vera að einungis fyrir fram greiddu greiðslukortin teljast rafeyrir. Eins verður að gera greinarmun á innlánum, sem fjármálafyrirtæki hafa ein heimildir til móttöku á frá almenningi, og rafeyri.
    Útgáfa rafeyris hefur verið í mikilli sókn víða um heim undanfarin ár, líkt og m.a. má lesa út úr samanburðarrannsóknum á vegum Bank for International Settlements (BIS) frá í janúar 2012 (sjá t.d. samanburðartöflu 10a á vefslóðinni www.bis.org/publ/cpss99.htm). Vinsældir rafeyris á alþjóðavísu má m.a. skýra með vísan til þess að fjármálafyrirtæki gera tilteknar lágmarkskröfur til viðskiptavina, sem ekki allir uppfylla.

3.     Tengslin við lög um greiðsluþjónustu.
    Innleiðing á EMDII er hluti af heildarendurskoðun á reglum Evrópusambandsins á sviði rafrænnar greiðslumiðlunar. Nýverið tóku gildi hér á landi ný lög um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, en með setningu þeirra voru ákvæði svokallaðrar greiðsluþjónustutilskipunar Evrópuþingsins og -ráðsins 2007/64/EB eða Payment Services Directive (hér eftir PSD) innleidd í íslenskan rétt. Þau gilda m.a. um framkvæmd greiðslna (þ.m.t. úr netbanka eða hraðbanka), útgáfu og notkun greiðslumiðla (t.d. greiðslukorta) og færsluhirðingu. Með lögunum eru kröfur til aðila sem veita greiðsluþjónustu í skilningi 4. gr. laganna samræmdar (þ.e. svokallaðir greiðsluþjónustuveitendur), svo og reglur um aðgengi nýrra aðila að greiðsluþjónustumarkaði. Lögin geyma m.a. ítarleg ákvæði um upplýsingagjöf í tengslum við greiðsluþjónustu, sem miða m.a. að því að gera greiðanda og viðtakanda kleift að bera kennsl á greiðslu (III. kafli), og grundvallarreglur um framkvæmd greiðslu, notkun greiðslumiðla og ábyrgð aðila vegna óheimilaðra greiðslna (IV. kafli).
    Framvegis verður þeim einum heimilt að veita greiðsluþjónustu sem teljast til greiðsluþjónustuveitenda í skilningi laganna þ.e.: a) fjármálafyrirtæki með starfsleyfi til móttöku innlána eða annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi og veitingar útlána fyrir eigin reikning (viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki); b) rafeyrisfyrirtæki, sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir að verði sérstök tegund fjármálastofnunar en ekki ein tegund fjármálafyrirtækja; c) greiðslustofnanir samkvæmt lögum nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu; d) peninga- og verðmætasendingarþjónusta samkvæmt lögum nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka; e) póstrekendur með rekstrarleyfi samkvæmt lögum nr. 19/2002, um póstþjónustu; f) Seðlabanki Evrópu og seðlabankar ríkja innan EES þegar þeir eru ekki í hlutverki stjórnvalds peningamála; og g) stjórnvöld ef greiðsluþjónusta tengist ekki hlutverki þeirra sem slíkra.
    Fyrstgreindar þrjár tegundir greiðsluþjónustuveitenda (a–c) eiga það sameiginlegt að vera starfsleyfis- og eftirlitsskyldar hjá Fjármálaeftirlitinu. Búast má við að þær verði umsvifamestar á markaði greiðsluþjónustu í framtíðinni. Af þeim hafa fjármálafyrirtækin umfangsmestu starfsheimildirnar; auk þess að taka við innlánum eða öðrum endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi er þeim heimilt að gefa út rafeyri og að veita greiðsluþjónustu. Rafeyrisfyrirtæki samkvæmt EMDII og frumvarpi þessu munu hafa næst víðfeðmustu starfsheimildirnar; þeim verður heimilt að gefa út rafeyri auk þess að veita greiðsluþjónustu. Greiðslustofnanir hafa enn takmarkaðri starfsheimildir en fjármálafyrirtæki og rafeyrisfyrirtæki samkvæmt EMDII og frumvarpi þessu; þær mega veita greiðsluþjónustu og stunda nánar skilgreinda tengda starfsemi en er hvorki heimil móttaka innlána eða annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi né útgáfa rafeyris, sbr. m.a. skilgreiningu frumvarps þessa á hugtakinu útgefandi rafeyris (sjá 4. tölul. 4. gr., sbr. 3. gr.).
    Ólíkt umfang starfsheimilda fjármálafyrirtækja, rafeyrisfyrirtækja og greiðslustofnana samkvæmt EES-reglum (þ.e. einkum bankatilskipuninni 2006/48/EB, EMDII og PSD) endurspeglast í þeim kröfum sem gerðar eru til hlutaðeigandi starfsemi: Afmarkaðri áhætta leiðir af sér vægari kröfur en ella, t.a.m. að því er varðar umfang varfærnisreglna sem um starfsemina gilda og fjárhagslegan grundvöll fyrirtækjanna.
    Um veitingu greiðsluþjónustu af hálfu greiðsluþjónustuveitenda fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu. Frumvarp þetta gerir hinsvegar ráð fyrir að ákvæðum um útgáfu og meðferð rafeyris verði fundinn staður í nýjum sérlögum, svo og ákvæðum um starfsheimildir, stofnsetningu og starfsemi rafeyrisfyrirtækja. Um móttöku innlána og annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi fer samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

4.     Breytt umhverfi íslenskra greiðslukortafyrirtækja.
    Núgildandi reglur um rafeyrisfyrirtæki og útgáfu og meðferð rafeyris er að finna í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eins og áður greinir. Um ræðir starfsleyfisskylda starfsemi skv. 3. gr. laganna, auk þess sem að helstu efnisreglur greinir í IX. kafla.
    Fram til þessa hefur lagaumhverfi greiðsluþjónustu og útgáfu rafeyris verið strangara á Íslandi en tíðkast hefur í Evrópu. Áður en lög nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, öðluðust gildi var útgáfa og umsýsla greiðslukorta starfsleyfisskyld starfsemi skv. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Minnt skal á að aðeins fyrir fram greidd greiðslukort teljast til rafeyris. Útgáfa og umsýsla rafeyris er enn starfsleyfisskyld starfsemi skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 (þ.e. samkvæmt núverandi 4. tölul., að teknu tilliti til áorðinna breytinga á ákvæðinu með 81. gr. 120/2011). Starfandi íslensk greiðslukortafyrirtæki eru því fjármálafyrirtæki; þau hafa starfsleyfi sem lánafyrirtæki skv. 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki og eru þ.a.l. eftirlitsskyldir aðilar hjá Fjármálaeftirlitinu samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Til skamms tíma var kveðið á um heimildir dótturfélaga erlendra fjármálafyrirtækja með starfsleyfi til móttöku innlána eða annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi til umsýslu greiðslukorta hér á landi í 3. gr. reglugerðar nr. 244/2004, um heimildir fyrirtækja sem tengjast fjármálasviði og dótturfélaga lánastofnana með staðfestu í öðru ríki innan EES til að stunda fjármálastarfsemi hér á landi, en með áorðnum breytingum á 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, hefur fyrrgreint ákvæði reglugerðarinnar ekki lagastoð lengur. Umsýsla greiðslukorta er ein tegund greiðsluþjónustu í skilningi laga nr. 120/2011 og einungis greiðsluþjónustuveitendum er heimilt að veita slíka þjónustu hér á landi, enda hafi þeir tilskilin leyfi stjórnvalda hér á landi eða í öðru aðildarríki EES, sbr. 5. gr. laga nr. 120/2011.
    Með tilkomu nýju laganna um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, hafa fleiri aðilar heimildir til veitingar greiðsluþjónustu hér á landi en fjármálafyrirtæki. Þau lög eru nú grundvöllur veitingar greiðsluþjónustu; efnisákvæði um greiðsluþjónustu hafa verið flutt úr lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, yfir í hinn nýja heildstæða lagabálk. Með frumvarpi þessu, til nýrra laga um útgáfu og meðferð rafeyris, er ennfremur lagt til að þau ákvæði laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem varða rafeyri verði fjarlægð úr þeim lagabálki. Þar með verða öll efnisákvæði íslenskrar löggjafar staðsett í sérlögum (annars vegar lögum nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, og hins vegar nýjum lögum um útgáfu og meðferð rafeyris), en gert er ráð fyrir að fjármálafyrirtækjum verði hér eftir sem hingað til heimil bæði veiting greiðsluþjónustu og útgáfa rafeyris – nú í samkeppni við aðra greiðsluþjónustuveitendur og útgefendur rafeyris.
    Grundvöll núverandi starfsemi íslenskra greiðslukortafyrirtækja verður því framvegis að finna í annars vegar lögum nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, og hins vegar nýjum lögum um útgáfu og meðferð rafeyris, verði frumvarp þetta að lögum. Líkur eru því á að breytingar verði á starfsleyfum greiðslukortafyrirtækja í náinni framtíð. Áður hefur verið vikið að því að gildandi regluverk um fjármálafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki og greiðslustofnanir er og verður misíþyngjandi.

5.     Áhrif innleiðingar PSD og EMDII á Evrópska efnahagssvæðinu?
    Allar líkur eru á því að innleiðing PSD og EMDII í landsrétt ríkja innan EES muni leiða af sér aukna samkeppni á sviði greiðsluþjónustu og verður að hafa í huga að allar áðurgreindar tegundir greiðsluþjónustuveitenda munu hafa heimildir til veitingar þjónustu yfir landamæri, innan EES. Hið breytta landslag mun væntanlega hafa áhrif á íslenskan fjármálamarkað á komandi árum. Áhugavert verður að fylgjast með samkeppnishæfi fjármálafyrirtækja á greiðsluþjónustumarkaði framtíðarinnar andspænis bæði rafeyrisfyrirtækjum og greiðslustofnunum, en mun umfangsmeira og flóknara regluverk umlykur starfsemi fjármálafyrirtækja eins og kunnugt er, sem kallar á stærri og kostnaðarsamari yfirbyggingu en í tilviki hinna tveggja. Þá má vænta þess að dreifing fjármagns á hverjum tíma á fleiri tegundir greiðsluþjónustuveitenda en áður muni leiða til dreifðari áhættu fyrir notendur greiðsluþjónustu. Að því er rafeyrinn varðar sérstaklega, verður fróðlegt að fylgjast með þróuninni þegar EMDII hefur verið innleidd hér á landi, þ.e. gagnvart annars vegar hefðbundnum íslenskum kreditkortum sem skuldfært er fyrir notkun á eftir á og hins vegar debetkortareikningum (innlánsreikningum).
    Það er ekki aðeins líklegt að nýir innlendir aðilar muni hefja starfsemi á þessu sviði í kjölfar breyttrar lagaumgjarðar, heldur mun samkeppnin einnig koma erlendis frá á grundvelli sameiginlegra EES-reglna. Tækninni fleygir stöðugt fram og veiting rafrænnar þjónustu yfir landamæri verður sífellt auðveldari viðfangs. Ljóst er að stórfyrirtæki með alla innviði til staðar, s.s. Google, Apple og Facebook, kunna að hafa nokkuð samkeppnislegt forskot á þessu sviði ef/þegar þau beina sjónum sínum að greiðsluþjónustu (síðastnefnt fyrirtæki hefur a.m.k. þegar blásið til sóknar á þessu sviði, þ.e. með sk. Facebook Credits). Loks má nefna að nú þegar mun talsverður fjöldi evrópskra greiðslustofnana hafa tilkynnt Fjármálaeftirlitinu um (mögulega) fyrirhugaða veitingu greiðsluþjónustu yfir landamæri og örfá rafeyrisfyrirtæki.
    Við umfjöllun um erlenda samkeppni í þessu samhengi verður þó vissulega að gera fyrirvara á meðan gjaldeyrishöft eru enn við lýði á Íslandi, en á meðal helstu markmiða sameiginlegra EES-reglna er að tryggja frjálst flæði fjármagns og þjónustu á hinum svokallaða innri markaði. Samræmingu reglna á sviði rafrænnar greiðslumiðlunar er ætlað að skila notendum greiðsluþjónustu og handhöfum rafeyris ódýrari og skilvirkari þjónustu en ella, á grundvelli sameiginlegs regluverks.

6.     Óinnleidd reglugerð 924/2009/EB um greiðslur yfir landamæri.
    Reglugerð Evrópuþingsins og -ráðsins 924/2009/EB um greiðslur yfir landamæri tengist PSD og EMDII og er hluti afrakstar af endurskoðun Evrópusambandsins á regluverki um rafræna greiðslumiðlun. Með reglugerð 924/2009/EB var numin úr gildi eldri reglugerð, 2560/ 2001/EB, sem innleidd var hér á landi með lögum nr. 146/2004, um greiðslur yfir landamæri í evrum. Reglugerð 924/2009/EB öðlaðist gildi innan Evrópusambandsins hinn 1. nóvember 2009 og frá þeim tíma féll eldri reglugerð úr gildi. Reglugerð
    Eitt af meginmarkmiðum PSD er að skapa raunverulegan innri markað um veitingu greiðsluþjónustu. Slíkt er ekki mögulegt nema greiðsluþjónustuveitendum sé kleift að framkvæma greiðslur yfir landamæri án þess að til komi óhóflegur kostnaður. Reglugerð 924/2009/EB er ætlað að tryggja að gjaldtaka vegna framkvæmdar greiðslna yfir landamæri í evrum verði hliðstæð því sem gerist innanlands vegna greiðslna að fjárhæð allt að 50.000 evrum. Reglugerðin gildir samkvæmt orðanna hljóðan um greiðslur í evrum, en aðildarríkjum er heimilt að útvíkka gildissvið hennar svo það nái til gjaldmiðils viðkomandi aðildarríkis. Með það að markmiði að liðka fyrir staðlaðri framkvæmd greiðslna yfir landamæri er í reglugerðinni kveðið á um veitingu upplýsinga um IBAN númer notenda greiðsluþjónustu og BIC númer hlutaðeigandi greiðsluþjónustuveitenda.
    Taka verður tillit til gildandi gjaldeyrishafta við innleiðingu ákvæða reglugerðar 924/ 2009/EB í íslenskan rétt.

III.     Skilmálar frumvarpsins fyrir útgáfu rafeyris og innlausn hans.
    Lagt er til að efnisákvæðum EMDII um útgáfu og innlausn rafeyris verði fundinn staður í II. kafla frumvarpsins. Af helstu meginreglum má nefna eftirfarandi atriði:
     *      Rafeyrir skal gefinn út á nafnverði þegar útgefandi hans veitir fjármunum viðtöku.
     *      Óheimilt er að reikna vexti eða veita önnur hlunnindi til handhafa rafeyris sem byggjast á lengd þess tíma sem handhafinn hefur rafeyri með höndum.
     *      Útgefanda ber að innleysa peningalegt verðmæti rafeyris án tafar og á nafnverði, þegar handhafi rafeyrisins gerir kröfu um slíkt.
     *      Handhafi rafeyris getur hvort heldur krafist innlausnar rafeyris í heild eða að hluta.
     *      Upplýsa ber handhafa rafeyris fyrir fram um mögulega greiðslu þóknunar vegna innlausnar, svo og önnur skilyrði fyrir innlausn rafeyris.
     *      Gjaldtaka vegna innlausnar er því aðeins heimil ef hún á stoð í samningi aðila. Hún er óheimil í vissum tilfellum.
     *      Gjaldtaka vegna innlausnar skal vera hófleg og endurspegla raunkostnað útgefanda vegna innlausnarinnar.
     *      Ákvæði um gjaldtöku vegna innlausnar eru frávíkjanleg þegar handhafi rafeyris er ekki neytandi.

IV.     Útgefendur rafeyris.
    Lagt er til að útgáfa rafeyris verði þeim einum heimil hér á landi er teljast til útgefenda rafeyris í skilningi þessa frumvarps, enda hafi þeir tilskilin leyfi íslenskra stjórnvalda eða stjórnvalda í öðru aðildarríki (sjá 3. gr., sbr. 4. tölul. 4. gr.):
    Í fyrsta lagi rafeyrisfyrirtækjum skv. III. kafla frumvarpsins, sem verða starfsleyfis- og eftirlitsskyld hjá Fjármálaeftirlitinu. Það athugast að gert er ráð fyrir tvenns konar rafeyrisfyrirtækjum í frumvarpinu, annars vegar með fullt starfsleyfi og hins vegar með takmarkað starfsleyfi (og takmarkaðar starfsheimildir).
    Í öðru lagi fjármálafyrirtækjum með starfsleyfi til mótttöku innlána eða annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi og veitingar útlána fyrir eigin reikning, þ.e. viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki.
    Í þriðja lagi Seðlabanki Evrópu (European Central Bank eða ECB) og seðlabankar ríkja innan EES þegar þeir eru ekki í hlutverki stjórnvalds peningamála.
    Í fjórða og síðasta lagi stjórnvöld þegar þau starfa á eigin vegum sem opinber yfirvöld. Samkvæmt túlkun Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þýðir þetta m.a. að Tryggingastofnun gæti gefið út rafeyri til útgreiðslu á félagslegum bótum án þess að sækja sérstaklega um starfsleyfi sem rafeyrisfyrirtæki. Útgáfa rafeyris á almennum markaði (þ.e. í samkeppni við einkaaðila) væri Tryggingastofnun hins vegar óheimil án sérstaks starfsleyfis sem rafeyrisfyrirtæki, enda vandséð að hægt væri að fella slíkt undir lögbundið hlutverk stofnunarinnar sem opinbert yfirvald.

V.     Rafeyrisfyrirtæki.
    Meginþorri ákvæða EMDII lýtur að rafeyrisfyrirtækjum; þ.e. reglur um stofnsetningu, rekstur og starfsheimildir slíkra fyrirtækja. Lagt er til að umræddum ákvæðum verði fundinn staður í III. kafla þessa frumvarps.
    Kveðið verði á um að rafeyrisfyrirtæki skuli starfa sem lögaðili, ýmist með fullt starfsleyfi eða takmarkað starfsleyfi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að rafeyrisfyrirtæki með takmarkað starfsleyfi hafi takmarkaðar starfsheimildir, en verði eigi að síður starfsleyfis- og eftirlitsskylt hjá Fjármálaeftirlitinu líkt og rafeyrisfyrirtæki með fullt starfsleyfi. Í 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að tiltekið verði hvaða ákvæði III. kafla gildi ekki um rafeyrisfyrirtæki með takmarkað starfsleyfi. Vísast til athugasemda um einstakar greinar frumvarpsins að því er hið takmarkaða starfsleyfi varðar, en athygli skal vakin á því að reglur um takmarkað starfsleyfi eru ekki samræmdar innan EES. Í frumvarpi þessu er lagt til að nýttar verði valkvæðar heimildir til undanþága frá ákvæðum EMDII í þessu sambandi.
    Líkt og áður greinir hafa rafeyrisfyrirtæki til þessa verið ein tegund fjármálafyrirtækja, samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Ekki mun slíkt fyrirtæki hafa verið starfandi á Íslandi frá setningu laga nr. 161/2002. Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum verður því til ný tegund fjármálastofnana; rafeyrisfyrirtæki, með takmarkaðri starfsheimildir en fjármálafyrirtæki. Þó er í ýmsum ákvæðum III. kafla frumvarpsins lagt til að nánar tiltekin ákvæði laga nr. 161/2002 gildi eigi að síður áfram um rafeyrisfyrirtæki (líkt og við á um greiðslustofnanir skv. II. kafla laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu).

VI. Mat á áhrifum.
    Verð frumvarp þetta að lögum verður til ný tegund fjármálastofnana hér á landi, svokölluð rafeyrisfyrirtæki. Eins og komið hefur verið að þá munu þær stofnanir hafa heimild til útgáfu rafeyris og getur starfsleyfi þeirra auk þess heimilað veitingu greiðsluþjónustu í skilningi laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, og aðra starfsemi sem nánar greinir í 24. gr. frumvarpsins. Með tilkomu þessara nýju stofnana má gera ráð fyrir að aukinni samkeppni hvað varðar útgáfu rafeyris hérlendis, enda mun kröfur til þessara nýju stofnana vera minna íþyngjandi heldur en gagnvart fjármálafyrirtækjum samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

VII. Samráð.
    Með tilliti til þess að frumvarp þetta var samið af nefnd sem skipuð var af efnahags- og viðskiptaráðherra og samanstóð af fulltrúum helstu hagsmunaaðila og að hún felur í sér innleiðingu á Evróputilskipun sem kveður á um fulla samræmingu (e. full harmonisation) taldi ráðuneytið ekki ástæðu til að óska sérstaklega eftir umsögnum fyrir þinglega meðferð frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.

    Lagt er til að í I. kafla frumvarpsins verði innleidd almenn ákvæði EMDII. Um gildissvið nýrra laga um útgáfu og meðferð rafeyris verði fjallað í 1. og 2 gr. Í 3. gr. verði kveðið á um að öðrum en þeim sem teljast til útgefenda rafeyris í skilningi frumvarpsins verði óheimilt að gefa út rafeyri, enda hafi þeir tilskilin leyfi. Orðskýringar greinir í 4. gr.

Um 1. gr.

    Lagt er til að gildissvið laganna verði skilgreint í 1. gr. Frumvarpið felur í sér innleiðingu á EMDII-tilskipuninni, sbr. nánari umfjöllun í almennum athugasemdum.
    Vakin er athygli á að í III. kafla frumvarpsins greinir ákvæði um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja og eftirlit með þeim.
    Lagt er til að um útgefendur rafeyris með takmarkað starfsleyfi gildi ekki ákvæði frumvarpsins um stofnfé, eiginfjárgrunn og um meðferð virkra eignarhluta. Jafnframt að almenn ákvæði frumvarpsins (þ.e. 1. mgr. 26. gr.) um hæfi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda gildi ekki um rafeyrisfyrirtæki með takmarkað starfsleyfi. Þess í stað gildi um einstaklinga sem ábyrgir eru fyrir stjórn eða rekstri slíks fyrirtækis sérákvæði a-liðar 1. mgr. 16. gr. Nánari umfjöllun um hæfnisreglur stjórnenda rafeyrisfyrirtækja með takmarkað starfsleyfi er að finna í athugasemdum við 16. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Lagt er til að 4. og 5. mgr. 1. gr. EMDII verði innleiddar með ákvæði 2. gr. frumvarpsins. Í ákvæðinu verði neikvætt gildissvið m.ö.o. skilgreint, þ.e. starfsemi/háttsemi tilgreind sem ætla mætti að félli undir gildissvið frumvarpsins en er einmitt ætlað að falla utan þess.
     Um a-lið.
    Lagt er til að ákvæði laganna eigi ekki við um peningaleg verðmæti sem geymd eru á miðlum sem aðeins er unnt að nota til kaupa á vörum og þjónustu á athafnasvæði útgefanda eða samkvæmt viðskiptasamningi við útgefanda, þ.e. innan afmarkaðs þjónustukerfis eða fyrir takmarkað svið vara/þjónustu („lokað kerfi“). Undanþága þessi er í samræmi við undanþágu frá gildissviði laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, 11. tölul. 2. gr. (þ.e. k-lið 3. gr. PSD), að viðbættum fjárhæðarmörkum. Sem dæmi um peningaleg verðmæti sem falla myndu undir þessa undanþágu má nefna ýmis konar fyrir fram greidd kort, s.s. bensínkort og gjafakort sem aðeins er hægt að nota innan afmarkaðs þjónustukerfis tiltekins þjónustuveitenda eða fyrir takmarkað svið vara og þjónustu, svo fremi að sú fjárhæð sem geymd er á miðlinum á hverjum tíma fari ekki yfir 100.000 kr. Fyrir fram greidd inneignarkort fyrir mat hjá vinnuveitanda sem hefur margar starfsstöðvar og nokkur mötuneyti eru einnig dæmi um peningaleg verðmæti sem falla myndu undir þessa undanþágu.
    Í síðasta hluta 5. tölul. formála tilskipunarinnar er vikið að því hvar mörk undanþágu skv. a-lið 2. gr. frumvarpsins eiga að liggja. Efnislega segir þar að í þeim tilfellum sem slíkt lokað kerfi (e. specific-purpose instrument) þróast yfir í opið kerfi (e. general-purpose instrument) eigi undanþága frá gildissviði tilskipunarinnar ekki lengur við. Tekið er sem dæmi ef inneign á fyrir fram greiddu gjafakorti átti upphaflega aðeins að vera hægt að nota til kaupa á vöru/þjónustu innan afmarkaðs þjónustukerfis, en fleiri seljendur samþykkja það sem greiðslu síðar, þá eigi undanþágan frá gildissviði tilskipunarinnar ekki við lengur. Fyrir fram greidd inneign sem hægt er að nota hjá hópi söluaðila sem ekki er tæmandi fellur m.ö.o. ekki undir undanþáguna skv. 5. tölul. formála tilskipunarinnar þar sem slíkt fyrirkomulag er að jafnaði sett upp fyrir hóp þjónustuaðila sem sífellt fer stækkandi.
    Í frumvarpi þessu er, eins og áður greinir, lagt til að gengið verði lengra en texti tilskipunarinnar gerir ráð fyrir við skilgreiningu á „lokuðu kerfi“ og fjárhæðarhámarki bætt við ákvæðið. Þessi leið hefur m.a. verið farin í Frakklandi og fleiri aðildarríki, s.s. Spánn, munu einnig hafa í hyggju að taka upp þrengri skilgreiningar á lokuðu kerfi m.a. í því skyni að auðvelda framkvæmd eftirlits. Fyrirsjáanlegt er að mun erfiðara verður fyrir eftirlitsaðila að leggja mat á hvar mörk lokaðs kerfis liggja, ef slíkra viðmiða nýtur ekki við. Peningaþvætti með notkun á rafeyri mun vera stórt vandamál víða erlendis og ein af ástæðunum fyrir því að ýmis aðildarríki telja nauðsynlegt að þrengja skilgreiningu sína á lokuðu kerfi. Ef mögulegt er að geyma hærri fjárhæð en 100.000 kr. á hlutaðeigandi miðli á hverjum tíma þá teljast þeir fjármunir rafeyrir og innan gildissviðs laganna. Vert er að taka fram að hér er miðað við heildarfjárhæð sem geymd er á miðlinum á hverjum tíma, ekkert er því til fyrirstöðu að hægt sé að „hlaða“ meiri fjármunum inn á miðilinn þegar hluti þeirra hefur verið notaður, þ.e. eins lengi og heildarfjárhæðin á hverjum tíma fer ekki yfir 100.000 kr.
     Um b-lið.
    Lagt er til að ákvæði laganna eigi ekki við um peningaleg verðmæti sem notuð eru til greiðslna sem framkvæmdar eru með tilstyrk hvers kyns fjarskiptabúnaðar, stafræns búnaðar eða upplýsingatæknibúnaðar þegar keyptar vörur eða þjónusta er afhent til og skal notuð í slíkum búnaði, að því tilskildu að rekstraraðili búnaðarins starfi ekki einvörðungu sem milliliður milli notanda greiðsluþjónustu og afhendingaraðila vara og þjónustu. Undanþága þessi er í samræmi við undanþágu frá gildissviði laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, þ.e. 12. tölul. 2. gr. (sbr. l-lið 3. gr. PSD). Hér er einkum um kaup á stafrænni vöru eða upplýsingatækni að ræða, svo sem heimild til niðurhals tónlistar eða myndefnis á veraldarvefnum eða í gegnum ljósvakamiðil eða kaup á hugbúnaði á netinu sem afhendist beint í tölvuna, og andvirðið er greitt beint til seljanda. Það áréttast að rekstraraðili fjarskiptabúnaðar, stafræns búnaðar eða upplýsingatæknibúnaðar verður að vera meira en einungis milliliður milli notanda greiðsluþjónustu og afhendingaraðila vöru eða þjónustu. Gagnálykta verður frá þessu ákvæði á þá vegu að ef hlutaðeigandi rekstraraðili búnaðar er einungis milliliður sem annast greiðsluþjónustu í skilningi laga nr. 120/2011 fellur starfsemi hans undir gildissvið frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Lagt er til að 10. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., EMDII verði innleidd með ákvæði 3. gr. frumvarpsins. Hér á landi verði útgáfa rafeyris, í skilningi 3. tölul. 4. gr. frumvarpsins, einskorðuð við svokallaða útgefendur rafeyris, sbr. 4. tölul. 4. gr., með tilskilin leyfi stjórnvalda hér á landi eða í öðru aðildarríki. Öðrum aðilum, sem hvorki teljast til útgefenda rafeyris samkvæmt frumvarpi þessu né eru ótvírætt undanskildir gildissviði frumvarpsins, er óheimilt að gefa út rafeyri.

Um 4. gr.

    Hér er m.a. um innleiðingu á 2. gr. EMDII að ræða.
    Í 1. tölul er orðið aðildarríki skilgreint. Skilgreiningin er í samræmi við skilgreiningu laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. þeirra laga. Gert er ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins nái til aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Færeyja, með vísan til svokallaðra Hoyvikur- og Vaduz-samninga. Nánari umfjöllun um samningana er að finna í athugasemdum við 32. gr. frumvarpsins.
    Í 2. tölul. er orðið rafeyrisfyrirtæki skilgreint. Í III. kafla frumvarpsins greinir ákvæði um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja. Um er að ræða innleiðingu á 1. tölul. 2. gr. tilskipunarinnar.
    Í 3. tölul. er orðið rafeyrir skilgreint. Um er að ræða innleiðingu á 2. tölul. 2. gr. tilskipunarinnar. Skilgreining þessi leysir af hólmi eldri skilgreiningu á sama hugtaki í 78. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem byggð var á rafeyristilskipuninni fyrri, nr. 2000/ 46/EB (EMDI). Skilgreining frumvarpsins tekur mið af breyttu lagaumhverfi, þ.e. setningu laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu. Greiðsla er skilgreind með eftirfarandi hætti í 7. tölul. 8. gr. laga nr. 120/2011: „Aðgerð sem greiðandi eða viðtakandi greiðslu á frumkvæði að með því að leggja inn, millifæra eða taka út fjármuni, án tillits til þess hvort skuldbindingar liggi til grundvallar aðgerðinni milli greiðanda og viðtakanda greiðslu“. Líkt og greinir í 7.–8. tölul. formála EMDII þarf skilgreiningin á rafeyri að vera tæknilega hlutlaus og nægilega víð til þess að koma í veg fyrir að tómarúm skapist í löggjöf í framtíðinni vegna tækniframþróunar. Hún á m.ö.o. ekki aðeins að taka til þeirra tegunda rafeyris sem nú er völ á á markaði, heldur einnig rafeyris framtíðarinnar. Skilgreiningin skal ná yfir rafeyri, hvort sem hann er geymdur í greiðslumiðli sem handhafi rafeyris hefur undir höndum, t.d. geymdur á korti eða síma, eða á sérstökum reikningi sem vistaður er á netþjóni og handhafi rafeyris hefur aðgang að.
    Það er lykilatriði í skilgreiningu hugtaksins rafeyrir að hann sé viðurkenndur sem andlag greiðslu af öðrum aðilum en útgefandanum sjálfum. Ennfremur að hér er einungis um fyrir fram greidd peningaleg verðmæti í formi kröfu á útgefandann að ræða, s.s. fyrir fram greidd greiðslukort. Greiðslukort með úttektarheimild sem gerð eru upp eftir á (t.d. mánaðarlega), líkt og algengt er hér á landi, falla m.ö.o. ekki undir skilgreiningu hugtaksins rafeyrir í merkingu frumvarpsins.
    Í 4. tölul. er orðið útgefandi rafeyris skilgreint. Aðeins útgefendum rafeyris er heimil útgáfa rafeyris skv. 3. gr. frumvarpsins. Um er að ræða innleiðingu á 3. tölul. 2. gr. tilskipunarinnar. Til útgefenda rafeyris samkvæmt frumvarpi þessu teljast a) rafeyrisfyrirtæki skv. III. kafla frumvarpsins, b) fjármálafyrirtæki með starfsleyfi til móttöku innlána eða annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi og veitingar útlána fyrir eigin reikning, c) Seðlabanki Evrópu (ECB) og seðlabankar ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu þegar þeir eru ekki í hlutverki stjórnvalds peningamála og d) stjórnvöld þegar þau starfa á eigin vegum sem opinber yfirvöld. Í þessu samhengi er nauðsynlegt að skýra hvað felst nákvæmlega í liðum b–d.
    Með fjármálafyrirtæki skv. b-lið er átt við fjármálafyrirtæki sem hefur starfsleyfi skv. 1., 2. eða 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, þ.e. starfsleyfi sem viðskiptabanki, sparisjóður eða lánastofnun. Enda skulu aðilar með starfsleyfi skv. 1.–2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna (viðskiptabankar og sparisjóðir) ætíð hafa heimild til móttöku innlána (sem telst til endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi skv. a-lið 1. tölul. 1. mgr. 3. mgr. laganna) og til veitingu útlána sem fjármögnuð eru með endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi skv. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Aðili með starfsleyfi sem lánafyrirtæki skv. 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna (lánastofun) skal ætíð hafa heimild til móttöku skuldaviðurkenninga (sem telst til endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi skv. b-lið 1. tölul. 1. mgr. 3. mgr. laganna) og til veitingu útlána sem fjármögnuð eru með endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi skv. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna.
    Með seðlabönkum þegar þeir eru ekki í hlutverki stjórnvalds peningamála skv. c-lið er átt við að seðlabönkum sé heimilt að gefa út rafeyri án sérstaks starfsleyfis svo lengi sem útgáfan telst ekki framkvæmd sem hluti af hlutverki þeirra sem stjórnvald peningamála. Samkvæmt upplýsingum sem fengust frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þann 7. desember 2011 þá hafði þá enginn seðlabanki innan EES nýtt sér þessa heimild.
    Í d-lið 4. tölul. kemur fram að til útgefanda rafeyris teljast stjórnvöld þegar þau starfa á eigin vegum sem opinber yfirvöld. Samkvæmt túlkun Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þýðir þetta m.a. að Tryggingastofnun gæti gefið út rafeyri til útgreiðslu á félagslegum bótum til viðskiptavina sinna án þess að sækja sérstaklega um starfsleyfi sem rafeyrisfyrirtæki. Ef Tryggingastofnun gæfi hinsvegar út rafeyri, án þess að um væri að ræða útgreiðslu á bótum, eða ef hleðsla á öðrum fjármunum en bótagreiðslum væri möguleg í „opnu kerfi“, þá væri stofnuninni ekki heimil slík útgáfa án sérstaks starfsleyfis, t.d. sem rafeyrisfyrirtæki. Slík útgáfa myndi enda teljast starfsemi á almennum markaði og ekki hluti af starfsemi Tryggingastofnunar sem opinbert yfirvald.
    Í lögum nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, sem innleiðir PSD er fjallað um hlutverk opinberra yfirvalda hvað varðar veitingu greiðsluþjónustu og útgáfu greiðslumiðla. Í 14. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna kemur fram að til greiðsluþjónustuveitenda teljast stjórnvöld ef greiðsluþjónusta tengist ekki hlutverki þeirra sem slíkra.
    Í 5. tölul. er hugtakið meðaltal útistandandi rafeyris skilgreint. Þar er horft til samtölu meðalfjárskuldbindinga hvers dags í næstliðna 180 daga, en ekki til meðaltals 180 daga tímabils (upphaf og lok), þar sem miklar sveiflur geta verið á fjárskuldbindingum innan hvers dags sem rétt þykir að tekið sé tillit til. Með öðrum orðum er horft til meðaltals af daglegri lokastöðu útgefins rafeyris síðastliðinna sex mánaða. Þetta meðaltal er reiknað út einu sinni í mánuði, á fyrsta degi mánaðar, og gildir út þann mánuð. Eðlilegt er að taka stöðuna á föstum tímapunkti á hverjum degi. Hafa ber í huga að ef útgefinn rafeyrir er þegar nýttur af handhafa hans þá reiknast meðaltal útistandandi rafeyris lægra en þegar rafeyrir er keyptur og ekki nýttur strax. Um er að ræða innleiðingu á 4. tölul. 2. gr. tilskipunar 2009/110/EB.

Um II. kafla.

    Í kaflanum er að finna efnisákvæði vegna útgáfu og meðferð rafeyris, sem gilda um alla útgefendur rafeyris samkvæmt skilgreiningu í 4. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.

    Lagt er til að 1. mgr. 11. gr. EMDII, um útgáfu rafeyris, verði innleidd í 5. gr. frumvarpsins. Ákvæðið kveður á um að við kaup á rafeyri skuli útgefandi rafeyris ætíð gefa rafeyrinn út á nafnvirði þegar fjármunum er veitt viðtaka, sbr. skilgreiningu orðsins rafeyrir í 4. gr. frumvarpsins. Þetta þýðir að gefa skal rafeyrinn út á því virði sem hann er skráður fyrir. Ef hver rafeyriskróna er t.d. 1 kr. að nafnvirði þá skal rafeyririnn seldur á því virði. Sem dæmi má nefna að ef aðili greiðir 1.000 kr. inn á fyrir fram greitt greiðslukort þá skal hann eiga 1.000 kr. að nafnvirði í rafeyri inni á kortinu, sem hann getur notað til að greiða fyrir vörur og þjónustu með sama hætti og ef um hefðbundið eftir á greitt greiðslukort væri að ræða. Minnt skal á að rafeyrir ber ekki vexti sbr. 8. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Ákvæðið kveður á um að óheimilt er að veita vexti eða önnur hlunnindi á grundvelli þess tíma sem handhafi er með rafeyri í vörslum sínum. Gagnálykta verður frá þessu ákvæði á þá vegu að heimilt sé að veita hlunnindi sem tengjast ekki lengd þess tíma sem handhafi hefur rafeyri undir höndum. Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 12. gr. EMDII.

Um 7. gr.

    Ákvæðið fjallar um innlausn rafeyris og felur í sér innleiðingu á 11. gr. EMDII
    Í 1. mgr. er lagt til að 2. mgr. 11. gr. EMDII verði innleidd. Gert er ráð fyrir að útgefanda rafeyris beri að innleysa peningalegt verðmæti án tafar og á nafnverði þegar handhafi rafeyris gerir kröfu um innlausn. Ef handhafi rafeyris krefst innlausnar á andvirði 3.000 kr. sem hann á í rafeyri þá ber hlutaðeigandi útgefanda tafarlaust að greiða handhafanum þá fjárhæð.
    Í 2. mgr. er lagt til að 5. mgr. 11. gr. EMDII verði innleidd. Gert er ráð fyrir að handhafi rafeyris geti hvort heldur óskað eftir því að fá andvirði þess rafeyris sem hann hefur undir höndum að fullu innleyst eða eingöngu að hluta. Vert er að taka fram að eftir lokadag samnings, sé um tímabundinn samning að ræða, þá á handhafi rafeyris almennt aðeins heimtingu á að fá rafeyri innleystan að fullu, sbr. 4. mgr. 7. gr.
    Í 3. mgr. er lagt til að 3. mgr. 11. gr. EMDII verði innleidd. Í samningum á milli útgefanda og handhafa rafeyris skal skýrlega greina skilyrði fyrir innlausn rafeyrisins. Hér er ekki síst átt við hvaða þóknana útgefanda er heimilt að krefjast vegna innlausnar rafeyris. Jafnframt gæti hér verið um að ræða formskilyrði fyrir innheimtu, s.s. ákvæði um með hvaða hætti krefjast skuli innlausnar. Sem dæmi má nefna ef að útgefandi rafeyris er eingöngu með starfsemi sína á netinu þá væri ekki óraunsætt að ætla að honum væri heimilt að gera kröfu um að ósk um innlausn yrði að berast í gegnum vefsíðu hans. Gerð er krafa um að handhafi rafeyris sé upplýstur um hvaða skilyrði gilda um innlausn rafeyrisins áður en samningur eða tilboð verður bindandi fyrir hann.
    Í 4. mgr. er lagt til að 6. mgr. 11. gr. EMDII verði innleidd. Ef handhafi rafeyris krefst innlausnar innan árs frá lokadegi samnings skal útgefandi innleysa peningaleg verðmæti rafeyrisins að fullu. Í þeim tilfellum sem rafeyrisfyrirtæki stundar starfsemi sem fellur undir e-lið 1. mgr. 24. gr. og ekki er vitað fyrir fram hvaða hlutfall fjármuna á að nota sem rafeyri er heimilt að innleysa aðeins þann hluta fjármunana sem handhafi fer fram á.

Um 8. gr.

    Lagt er til ákvæði 11. gr. EMDII, um þóknun vegna innlausnar rafeyris, verði innleidd í 8. gr frumvarpsins.
    Í 1.–2. mgr. er lagt til að 4. mgr. 11. gr. EMDII verði innleidd. Greinin kveður á um þau skilyrði sem þurfa að verða uppfyllt ætli útgefandi rafeyris sér að innheimta gjald (þóknun) fyrir innlausn rafeyris. Í fyrsta lagi er innheimta gjalds aðeins heimil ef hún á sér stoð í samningi á milli útgefanda og handhafa rafeyris. Að því skilyrði uppfylltu þá þarf eitt af eftirtöldu að eiga við: 1) Innlausnar er krafist fyrir lokadag samnings, s.s. ef um ótímabundinn samning er að ræða, 2) um ræðir tímabundinn samning og handhafi rafeyris segir honum upp fyrir lokadag hans, eða 3) innlausnar er krafist meira en ári eftir lokadag samnings. Jafnframt er lagt til að kveðið verði á um að gjaldtaka vegna innlausnar skuli vera hófleg og endurspegla raunkostnað útgefanda vegna innlausnarinnar
    Í 3. mgr. er lagt til að 7. mgr. 11. gr. EMDII verði innleidd. Gert er ráð fyrir að útgefendum rafeyris og handhafa sem ekki er neytandi sé frjálst að semja sig frá ákvæðum 7. gr. og 8. gr. frumvarpsins.

Um III. kafla.

    Í III. kafla er fjallað um þau skilyrði sem rafeyrisfyrirtæki skulu lúta.

Um 9. gr.

    Lagt er til að það verði gert að skilyrði að þau rafeyrisfyrirtæki sem sækja um og öðlast starfsleyfi hér á landi skuli starfa sem lögaðilar með höfuðstöðvar sínar hér á landi, hvort heldur um ræðir fullt eða takmarkað starfsleyfi. Hér er um að ræða innleiðingu á 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 1. mgr. 10. gr. PSD.

Um 10. gr.

    Lagt er til að í 10. gr. frumvarpsins verði kveðið á um hverjum sé heimilt að nota heitið „rafeyrisfyrirtæki“ til skýringar á starfsemi sinni og um heimildir Fjármálaeftirlitsins til að bregðast við því sé hætta á ruglingi vegna keimlíkra nafna tveggja rafeyrisfyrirtækja. Sambærilegt ákvæði er að finna í 12. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
    Í 1. mgr. er mælt fyrir um einkarétt lögaðila með starfsleyfi sem rafeyrisfyrirtæki skv. III. kafla frumvarpsins til að kynna sig með heitinu rafeyrisfyrirtæki.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimild Fjármálaeftirlitsins til að hafa afskipti af því, á grundvelli almennra heimilda sinna til að tryggja eðlilega viðskiptahætti, sé nafngift rafeyrisfyrirtækis villandi.

Um 11. gr.

    Lagt er til að 4. gr. EMDII verði innleidd í 11. gr. frumvarpsins, um lágmarksstofnfé rafeyrisfyrirtækis á hverjum tíma. Rafeyrisfyrirtæki er ávallt skylt að uppfylla kröfur um lágamarksstofnfé frá því að starfsleyfi er veitt.

Um 12. gr.

    Lagt til að 1. mgr. 5. gr. verði EMDII verði innleidd í 1. mgr. 12. gr. frumvarpsins. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að eigið fé rafeyrisfyrirtækis, í skilningi tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2006/48/EB um stofnun og rekstur lánastofnana (þ.e. 84. og 85. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki), megi á hverjum tíma ekki nema lægri fjárhæð en kveðið er á um í 11. gr. (um lágmarksstofnfé) eða 13. gr. frumvarpsins (um útreikning eigin fjár rafeyrisfyrirtækja), hvor fjárhæðin sem er hærri.
    Lagt er til að 6. mgr. 5. gr. EMDII verði innleidd í 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins.

Um 13. gr.

    Lagt er til að 2.–5. mgr. 5. gr. EMDII um eiginfjárkröfur verði innleidd í 13. gr. frumvarpsins.
    Í 1. mgr. er kveðið á um hvernig haga skuli útreikningi á eigin fé rafeyrisfyrirtækis, á grundvelli eðlis þeirrar starfsemi sem hlutaðeigandi fyrirtæki sinnir. Á hverjum tíma skal eigið fé nema að lágmarki summu útreikninga skv. 2. og 3. mgr.
    Í 2. mgr. er fjallað um eiginfjárkröfur rafeyrisfyrirtækis vegna veitingar greiðsluþjónustu, sem ekki er tengd útgáfu rafeyris. Gert ráð fyrir að um útreikninginn fari skv. 12. gr. laga um greiðsluþjónustu, þ.e. samkvæmt nánar skilgreindum Aðferðum A, B eða C.
    Í 3. og 4. mgr. er kveðið á um að um eiginfjárútreikninga vegna starfsemi sem snýr að útgáfu rafeyris fari samkvæmt Aðferð D; eigið fé skuli að lágmarki nema 2% af meðaltali útistandandi rafeyris. Hugtakið meðaltal útistandandi rafeyris er skilgreint í 4. gr. frumvarpsins.
    Í 5. mgr. er að finna ákvæði um eiginfjárútreikninga í þeim tilfellum sem rafeyrisfyrirtæki annast greiðsluþjónustu sem ekki tengist útgáfu rafeyris eða aðra þá starfsemi sem um getur í stafliðum b–e 1. mgr. 24. gr. (þ.e. önnur starfsemi en eiginleg útgáfa rafeyris, sem þó getur tengst henni) og fjárhæð útistandandi rafeyris er óþekkt fyrir fram. Við slíkar aðstæður skal Fjármálaeftirlitinu vera heimilt að reikna út eiginfjárkröfur á hverjum tíma á grundvelli svokallaðs lýsandi eða áætlaðs hlutar.
    Í 6. mgr. er gert ráð fyrir heimild Fjármálaeftirlitsins til að gera kröfu um aukið eigið fé rafeyrisfyrirtækis en leiðir af beitingu þeirrar aðferðar sem valin er í samræmi við 1.–3. mgr. Ennfremur er gert ráð fyrir heimild Fjármálaeftirlitsins til eftirgjafar, þ.e. að fjárhæð eigin fjár rafeyrisfyrirtækis geti verið lægri en leiðir af beitingu þeirrar aðferðar sem valin er í samræmi við 1.–3. mgr. Sambærilegar heimildir er að finna í 6. mgr. 12. gr. laga um greiðsluþjónustu, að því er eiginfjárútreikninga vegna greiðslustofnana varðar.
    Í 7. mgr. er lagt til að kveðið verði á um heimild til handa Fjármálaeftirlitinu um nánari reglusetningu á grundvelli ákvæðisins, s.s. um heimild til, að uppfylltum skilyrðum 69. gr. tilskipunar 2006/48/EB, að undanþiggja rafeyrisfyrirtæki sem fellur undir samstæðueftirlit móðurlánastofnunar frá ákvæðum 1.–4. mgr, sbr. 7. mgr. 5. gr. EMDII.

Um 14. gr.

    Lagt er til að ákvæði VI. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, verði látin gilda um meðferð virkra eignarhluta í rafeyrisfyrirtækjum. Með virkum eignarhlut er átt við beina eða óbeina hlutdeild í félagi sem nemur 10% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti eða önnur hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi félags, sbr. skilgreining í 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laga nr. 161/2002. Um er að ræða innleiðingu á 3. mgr. 3. gr. EMDII.

Um 15. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að 1. mgr. 10. gr. EMDII verði innleidd. Starfsleyfi skal einungis veita lögaðilum, en ekki einstaklingum, sbr. 1. mgr. 9. gr.
    Í 2. mgr. er lagt til að 1. mgr. 3. gr. EMDII verði innleidd, sbr. 1. mgr. 20. gr. PSD.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis samkvæmt þessu ákvæði frumvarpsins skuli gilda í öllum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Hér er enn fremur um innleiðingu á 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 9. mgr. 10. gr. PSD, að ræða. EMDII leggur þá skyldu á rafeyrisfyrirtæki sem hyggjast veita þjónustu samkvæmt tilskipuninni í öðru aðildarríki með eða án stofnunar útibús eða í gegnum umboðsaðila tilkynni um slíkt til lögbærs eftirlitsaðila í heimaríki sínu. Innan mánaðar frá viðtöku slíkrar tilkynningar skal eftirlitsaðili heimaríkis áframsenda lögbærum yfirvöldum í hlutaðeigandi aðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu þess að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækis. Nánari ákvæði um veitingu þjónustu af hálfu rafeyrisfyrirtækja yfir landamæri, með eða án stofnunar útibús eða í gegnum umboðsaðila, greinir í F-hluta III. kafla frumvarpsins.

Um 16. gr.

    Lagt er til að nýtt verði valkvætt ákvæði 9. gr. EMDII með setningu ákvæðis 16. gr. frumvarpsins, um heimild Fjármálaeftirlitsins til veitingar takmarkaðs starfsleyfis sem rafeyrisfyrirtæki.
    Í 1. mgr. koma fram þau skilyrði sem lögaðili þarf að uppfylla til þess að geta öðlast takmarkað starfsleyfi, sem rafeyrisfyrirtæki, til útgáfu rafeyris hér á landi. Í 2. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að takmarkað starfsleyfi veiti einungis heimild til útgáfu rafeyris hér á landi, en ekki annars staðar á evrópska efnahagssvæðinu. Í 3.–5. mgr. greinir skilyrði sem uppfylla verður til að viðhalda takmörkuðu starfsleyfi samkvæmt ákvæðinu og við hvaða aðstæður rafeyrisfyrirtæki með takmarkað starfsleyfi skal sækja um fullt starfsleyfi. Lagt er til að Fjármálaeftirlitið hafi aðeins 15 daga frá því að fullbúin umsókn barst um fullt starfsleyfi, í stað 3 mánaða skv. 2. mgr. 21. gr. frumvarpsins, til þess að taka afstöðu til umsóknar rafeyrisfyrirtækis með takmarkað starfsleyfi um almennt starfsleyfi sem rafeyrisfyrirtæki. Hér er um að ræða aðila sem stundar útgáfu rafeyris, er komin yfir fjárhæðarmörk skv. b-lið 1. mgr. og takmarkaðar reglur gilda um. Full ástæða er til að kveði á um flýtimeðferð umsókna með tilliti til þeirra hagsmuna sem í húfi geta verið.
    Í 1. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar segir að aðildarríkjum sé heimilt að undanþiggja aðila með takmarkað starfsleyfi nánar tilgreindum ákvæðum tilskipunarinnar, þ.á m. um almenn hæfisskilyrði stjórnenda. Þó gerir tilskipunin ráð fyrir að stjórnendur viðkomandi fyrirtækis uppfylli lágmarks hæfisskilyrði, þ..e hafi ekki dæmdir fyrir brot sem tengjast peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverkastarfsemi eða auðgunarbrot og að samanlögð útgáfa fyrirtækisins á rafeyri fari ekki yfir 5 milljón evrur á hverjum tíma. Sérstök hæfisskilyrði 1. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar ganga skemur en þær kröfur sem gerðar eru til rafeyrisfyrirtækja almennt skv. 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2009/110/EB, sbr. i-lið 5. gr. tilskipunar 2007/64/EB. Í 1. mgr. 26. gr. frumvarpsins eru fyrrgreind almenn hæfisskilyrði stjórnenda rafeyrisfyrirtækja með fullt starfsleyfi innleiddar, en ákvæðið vísar til hæfisreglna laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Með 1. mgr. 9. gr. er því veitt heimild fyrir því að aðildarríki láti vægari hæfisskilyrði gilda um stjórnendur rafeyrisfyrirtækja með takmarkað starfsleyfi og er hér lagt til að sú heimild verði nýtt, enda eru almennu hæfisreglurnar ítarlegar og geta verið óþarflega íþyngjandi fyrir nýja aðila í útgáfu rafeyris með lítil umsvif á markaði.
    Þau aðildarríki sem þegar hafa innleitt EMDII í landsrétt og nýtt valkvæða undanþágu 1. mgr. 9. gr. hafa notast við tilgreint fjárhæðarhámark, þ.e. fimm milljón evrur. Vegna smæðar hins íslenska markaðar er vart ráðlegt að notast við umrætt hámarksfjárhæðarviðmið og því lagt til í frumvarpi þessu að aðilum með takmarkað starfsleyfi samkvæmt ákvæðinu verði heimil útgáfa á rafeyri fyrir allt að 30 milljónir íslenskra króna á almanaksári. Sú tillaga er byggð á samanburði stærðar hins íslenska markaðar við hinn sænska og norska með tilliti til greiðslukortaútgáfu (í Noregi voru gefin út 12,1 milljón korta árið 2010 og í Svíþjóð 13,94 milljónir korta). Tölur frá Danmörku voru ekki aðgengilegar.

Um 17. gr.

    Lagt er til að 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 13. gr. tilskipunar PSD verði innleidd í 17. gr. frumvarpsins. Ákvæðið gerir ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið haldi skrá yfir rafeyrisfyrirtæki, umboðsaðila og útibú þeirra, svo og starfsheimildir. Almenningur skal hafa aðgang að skránni, en í því felst að skráin skuli uppfærð reglulega og birtast á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins, svo og vera aðgengileg á starfsstöð Fjármálaeftirlitsins.
    Erlend rafeyrisfyrirtæki sem hyggjast gefa út rafeyri hér á landi fyrir milligöngu umboðsaðila eða með stofnun útibús skulu tilkynna það fyrir fram til lögbærs eftirlitsaðila í heimaríki sínu, í samræmi við ákvæði F-hluta III. kafla frumvarpsins. Hinn erlendi eftirlitsaðili gefur þá Fjármálaeftirlitinu kost á að gera athugasemdir við fyrirhugaða skráningu upplýsinga um umboðsaðilann eða útibú hér á landi í skrá heimaríkisins yfir rafeyrisfyrirtæki. Það stendur eftirlitsaðilanum í heimaríki hlutaðeigandi útgefanda rafeyris nær að uppfæra upplýsingar um umboðsaðila og útibú erlendis, þannig að skrá yfir rafeyrisfyrirtæki geymi sem réttastar upplýsingar á hverjum tíma. Æskilegt er þó að Fjármálaeftirlitið birti á vefsíðu sinni, og hafi aðgengilegar fyrir almenning á Íslandi, upplýsingar um og tengla á rafrænar skrár systurstofnana erlendis yfir rafeyrisfyrirtæki, umboðsaðila þeirra og útibú á erlendri grundu, líkt og við á um fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002 og um greiðslustofnanir samkvæmt lögum nr. 120/2011. Í II. kafla frumvarpsins er nánar fjallað um skyldur rafeyrisfyrirtækja, líkt og annarra útgefenda rafeyris, til upplýsingagjafar gagnvart kaupendum/handhöfum rafeyris.

Um 18. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að 1. mgr. 3. gr. EMDII verði innleidd, sbr. 5. gr. PSD. Markmiðið er að umsækjendur útlisti nákvæmlega þá starfsemi sem fyrirhugað er að sinna, hvernig henni verði sinnt og sýni fram á að þeir séu hæfir til að sinna henni. Það er ekki fullnægjandi að umsækjandi um leyfi til að starfrækja rafeyrisfyrirtæki tilgreini í umsókn að hann hyggist sinna allri þeirri starfsemi sem rafeyrisfyrirtæki er heimil lögum samkvæmt. Gera þarf grein fyrir einstökum þáttum starfseminnar, þ.m.t. ólíkum tegundum greiðsluþjónustu í skilningi 4. gr. laga um greiðsluþjónustu, svo og annarrar starfsemi sbr. nánari ákvæði frumvarpsins. Óheimilt er að veita þjónustu samkvæmt þessum lögum nema heimild til þeirrar tilteknu starfsemi greini í starfsleyfi útgefnu af Fjármálaeftirlitinu.
    Í 2. mgr. er um að ræða innleiðingu á sama ákvæði og í 1. mgr. Hér er gert ráð fyrir nánari reglusetningu af hálfu FME, sbr. sambærilegt ákvæði 2. mgr. 14. gr. laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu. Skulu slíkar reglur taka mið af efni 5. gr. PSD.

Um 19. gr.

    Í greininni er lagt til að 1. mgr. 3. gr. tilskipunar EMDII verði innleidd, sbr. 14. gr. PSD. Gerð er krafa um að rafeyrisfyrirtæki uppfæri tafarlaust allar áður gefnar upplýsingar í tengslum við veitingu starfsleyfis gagnvart Fjármálaeftirlitinu.

Um 20. gr.

    Lagt er til að 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 2. og 4.–9. mgr. 10. gr. PSD, verði innleidd í 20. gr. frumvarpsins, um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis.
    Í 1. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að starfsleyfi skuli veitt ef umsækjandi sýnir að mati Fjármálaeftirlitsins fram á að stjórnun hans sé skýr, traust, varfærin og undirsett fullnægjandi innra eftirliti samkvæmt nánari reglum sem Fjármálaeftirlitið setur. Reglur Fjármálaeftirlitsins skulu m.a. taka mið af efni 5. gr. PSD og snúa að skýrleika stjórnskipulags, traustri og varfærinni stjórnun, skýrum verklagsreglum er lúta að áhættu sem starfsemin er eða kann að vera óvarin fyrir og fullnægjandi innri eftirlitskerfum. Með skýru stjórnskipulagi er varðar rekstur rafeyrisfyrirtækis er átt við að ábyrgð umsækjanda sé vel skilgreind, gagnsæ og samræmd. Í 2. mgr. verði tekið fram að þær kröfur sem gerðar séu til umsækjanda um starfsleyfi skuli vera í samræmi við eðli og umfang þeirrar þjónustu sem fyrirhugað sé að veita.
    Í 3. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að leita ráðgjafar Seðlabanka Íslands eða annarra viðeigandi opinberra yfirvalda við mat á umsókn um starfsleyfi. Ráðgjöf getur til að mynda varðað fyrirhugaða þátttöku umsækjanda í greiðslukerfi.
    Í 4. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti gert kröfu um stofnun sérstakrar einingar fyrir rekstur rafeyrisfyrirtækis, til aðskilnaðar frá annarri starfsemi sem fyrirtækið sinnir eða hyggst sinna og sá hluti rekstrarins hefur áhrif á fjárhagslegan styrk fyrirtækisins eða torveldar eftirlit með því.
    Í 5. og 6. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að synja beri um starfsleyfisveitingu ef Fjármálaeftirlitið metur hluthafa eða eigendur virkra eignarhluta ekki hæfa með tilliti til traustrar og varfærinnar stjórnunar rafeyrisfyrirtækis og ef náin tengsl, í skilningi laga um fjármálafyrirtæki, hindra eftirlit með starfsemi fyrirtækis.

Um 21. gr.

    Lagt er til að 1. mgr. 3. gr. tilskipunar EMDII, sbr 2. mgr. 10. gr. og 11. gr. PSD, um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu eða synjun um starfsleyfi og tilkynningu þar um, verði innleidd í 21. frumvarpsins. Það er Fjármálaeftirlitsins að meta hvenær umsókn telst fullbúin og hvort skilyrðum laga þessara sé fullnægt.

Um 22. gr.

    Lagt er til að 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 12. gr. tilskipunar PSD, verði innleidd í 22. gr. frumvarpsins.
    Í 1. mgr. er lagt til að talin verði upp helstu tilvik sem leitt geta til afturköllunar starfsleyfis rafeyrisfyrirtækis. Afturköllun starfsleyfis er íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem veltur á mati. Eðlilegt er að Fjármálaeftirlitið hafi svigrúm til að meta hvort beitt skuli afturköllun eða öðrum vægari úrræðum við nánar tilgreindar aðstæður, en í 40. gr. frumvarpsins gert er ráð fyrir að um framkvæmd eftirlits fari samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Þá felur orðalag 1. mgr. í sér að unnt er að afturkalla starfsleyfi fyrir einstökum þáttum starfsemi (þ.e. afturköllun að hluta). Fjármálaeftirlitið getur því látið við það sitja að afturkalla heimild rafeyrisfyrirtækis til að stunda afmarkaða þætti starfsemi sinnar, ef ástæður afturköllunar snerta ekki hæfi til að sinna öðrum þáttum í starfseminni. Er þetta í samræmi við hina almennu meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.
    Um a-lið 1. mgr. Í samræmi við a-lið 12. gr. PSD getur Fjármálaeftirlitið áskilið að starfsleyfi falli sjálfkrafa úr gildi ef þau atriði sem talin eru upp í ákvæðinu eiga við.
    Um b-lið 1. mgr. Hafi starfsleyfi verið veitt á grundvelli rangra eða falsaðra yfirlýsinga, eða á annan óeðlilegan hátt að mati Fjármálaeftirlitsins, má afturkalla það.
    Um c-lið 1. mgr. Uppfylli rafeyrisfyrirtæki ekki lengur skilyrði fyrir leyfisveitingu samkvæmt frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að afturkalla megi starfsleyfi hennar.
    Um d-lið 1. mgr. Ef áframhaldandi rekstur rafeyrisfyrirtækis ógnar stöðugleika greiðslukerfisins í heild að mati Fjármálaeftirlitsins má afturkalla starfsleyfi þess. Eðlilegt er að gera ráð fyrir ráðgefandi hlutverki Seðlabanka Íslands í þessu samhengi, í ljósi lögbundinna verkefna hans. Í gildi er samstarfssamningur milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans frá 6. janúar 2011, í samræmi við 4. mgr. 15. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, og 35. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Samstarfssamningurinn gerir ráð fyrir greiðum og skjótvirkum upplýsingaskiptum milli aðila og meðal markmiða hans er að stuðla að skilvirkni og öryggi greiðslu- og uppgjörskerfa og að þau kerfi uppfylli þær kröfur sem til þeirra eru gerðar.
    Um e-lið 1. mgr. Kveði önnur ákvæði laga á um slíkt er gert ráð fyrir að afturkalla megi starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis.
    Um f-lið 1. mgr. Afturköllunarástæður eru ekki tæmandi taldar í 1. mgr., enda er ekki unnt að sjá fyrir öll þau tilvik sem kunna að gera afturköllun nauðsynlega vegna þeirra verndarhagsmuna sem frumvarp þetta byggist á. Því er gert ráð fyrir að alvarleg eða ítrekuð brot gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim kunni að varða afturköllun starfsleyfis.
    Í 2. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að afturköllun starfsleyfis skuli að jafnaði ekki beitt án þess að rafeyrisfyrirtæki hafi fyrst gefist færi á að koma starfsemi sinni í löglegt horf. Slíkur frestur kann þó í einhverjum tilfellum að geta leitt til tjóns t.d. fyrir viðskiptamenn rafeyrisfyrirtækis, auk þess sem frestur til úrbóta á ekki við aðstæður samkvæmt sumum stafliðanna í 1. mgr. Því er ekki um fortakslausan rétt rafeyrisfyrirtækis til úrbóta að ræða samkvæmt ákvæðinu. Þá athugast að ekki er gert ráð fyrir að 2. mgr. eigi við um a-lið 1. mgr., enda eðlilegast að líta svo að starfsleyfi teljist niður fallið við þær aðstæður.
    Loks er í 3. mgr. gert ráð fyrir að ákvörðun um afturköllun starfsleyfis samkvæmt ákvæði þessu verði tilkynnt stjórn hlutaðeigandi rafeyrisfyrirtækis, með skriflegum rökstuðningi, og kynnt opinberlega. Sérstaklega er kveðið á um að tilkynning um afturköllun skuli send lögbærum eftirlitsaðilum í þeim ríkjum þar sem hlutaðeigandi rafeyrisfyrirtæki starfrækir útibú eða veitir þjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila.

Um 23. gr.

    Lagt er til að 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 22. gr. PSD, verði innleidd í 23. gr. frumvarpsins.
    Í 1. mgr. er kveðið á um skyldu rafeyrisfyrirtækis til að viðhafa eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í starfsemi sinni. Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með starfsemi rafeyrisfyrirtækja, sbr. 40. gr. frumvarpsins, og að um eftirlitið fari samkvæmt ákvæðum laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Samkvæmt lögum nr. 87/1998 skal Fjármálaeftirlitið m.a. fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Við skýringu á því hvað felst í hugtökunum eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir og venjur verður bæði litið til laga, almennra siðareglna og viðtekinna venja. Þá geta ákvæði reglugerða og reglur og tilmæli Fjármálaeftirlitsins veitt leiðbeiningu hvað þetta varðar.
    Í 3. mgr. er lagt til að stjórnarmenn rafeyrisfyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins verði bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Um þagnarskylduna fer samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki (58.–60. gr.).

Um 24. gr.

    Lagt er til að 6. gr. tilskipunar EMDII verði innleidd í 24. gr. frumvarpsins. Í ákvæðinu eru taldar upp þær starfsheimildir sem rafeyrisfyrirtækjum er heimilt að stunda, auk útgáfu rafeyris.

Um 25. gr.

    Lagt er til að 7. gr. EMDII , sbr. 1.–2. mgr. 9. gr. PSD verði innleidd í 25. gr. frumvarpsins og með nánari reglusetningu af hálfu Fjármálaeftirlitsins.
    Í 1. mgr. eru lagðar skyldu á herðar rafeyrisfyrirtækjum um tryggilega varðveislu fjármuna sem mótteknir hafa verið í skiptum fyrir rafeyri.
    Í 2. mgr. er fjallað um þá tímafresti sem gilda um varðveislu fjármuna.
    Í 3. mgr. eru lagðar skyldur á herðar rafeyrisfyrirtækjum um tryggilega varðveislu fjármuna sem mótteknir hafa verið vegna framkvæmdar greiðslu.
    Í 4. mgr. er fjallað um rétthæð þeirra fjármuna sem rafeyrisfyrirtæki varðveitir skv. 1.–3. mgr., við gjaldþrot.
    Í 5. mgr. er lögð sú skylda á rafeyrisfyrirtæki að þau tilkynni Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um breytingar sem máli skipta hvað varðar ráðstafanir þess til að varðveita fjármuni skv. 1.–3. mgr.
    Í 6. mgr. er Fjármálaeftirlitinu falið að setja nánari reglur um það hvernig tryggilegri varðveislu fjármuna skal háttað. Reglugerðin skal byggð á 7. gr. EMDII og 1.–2. mgr. 9. gr. PSD.

Um 26. gr.

    Lagt er til að kveðið verði á um að hæfisreglur laga um fjármálafyrirtæki skuli gilda að því er varðar stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og aðra stjórnendur samkvæmt skipulagi rafeyrisfyrirtækis. Skv. 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. i-lið 5. gr. tilskipunar PSD skal sýna fram á það við umsókn um starfsleyfi sem rafeyrisfyrirtæki að fyrrgreindir aðilar hafi góðan orðstír og búi yfir viðeigandi þekkingu og reynslu til að annast útgáfu rafeyris samkvæmt því sem eftirlitsaðili í heimaríki ákvarðar.
    Í 52. gr. laga um fjármálafyrirtæki er fjallað um hæfisskilyrði stjórnenda. Í ákvæðum greinarinnar kemur m.a. fram að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða og hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu 10 árum fyrir refsiverðan verknað á grundvelli laga sem talin eru upp í greininni.
    Vakin er athygli á að í 1. mgr. 16. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir sérstökum hæfisskilyrðum stjórnenda í rafeyrisfyrirtækjum með takmarkað starfsleyfi.
    Tilkynna ber Fjármálaeftirlitinu um skipan og síðari breytingar á stjórn og framkvæmdastjórn rafeyrisfyrirtækis. Upplýsingar sem nauðsynlegar kunna að teljast til hæfismats hlutaðeigandi einstaklinga skulu fylgja slíkum tilkynningum, ellegar kann Fjármálaeftirlitið að kalla eftir ítarlegri gögnum við framkvæmd matsins.

Um 27. gr.

    Lagt er til að reikningsár rafeyrisfyrirtækis sé almanaksárið og að ákvæði laga um fjármálafyrirtæki gildi að öðru leyti um bókhald, endurskoðun og tilkynningarskyldu endurskoðenda rafeyrisfyrirtækja til Fjármálaeftirlitsins. Um innleiðingu á 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 15. gr. PSD að ræða.

Um 28. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði falið eftirlit með starfsemi rafeyrisfyrirtækja sem falla undir ákvæði III. kafla laganna, þ.m.t. umboðsaðila, útibúa og útvistunaraðilum. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga þessara svo og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í síðarnefndum lögum er m.a. fjallað um vettvangsathuganir og því m.a. ætlunin að heimild Fjármálaeftirlitsins til slíkra athugana nái til rafeyrisfyrirtækja líkt og annarra eftirlitsskyldra aðila, þ.m.t. umboðsaðila þeirra, útibúa og útvistunaraðila. Í lögum um opinbert eftirlit er enn fremur t.d. fjallað um leiðbeinandi tilmæli, athugasemdir og úrbætur. Heimilt er að bera ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins undir dómstóla. Hér er um innleiðingu á 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 21. gr. PSD, að ræða.
    Í 2. mgr. er lagt til að innleidd verði 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 2. mgr. 25. gr. PSD, um samstarf Fjármálaeftirlitsins við systurstofnanir erlendis vegna starfsemi á vegum rafeyrisfyrirtækja sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi á grundvelli III. kafla.
    Í 3. mgr. er lagt til að innleidd verði 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 3. mgr. 25. gr. PSD, um tilkynningarskyldu og samstarf eftirlitsstofnana við framkvæmd skoðana á starfsstöðum á vegum rafeyrisfyrirtækja erlendis.
    Í 4. mgr. er lagt til að 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 4. mgr. 25. gr. PSD, verði innleidd, um upplýsingaskipti eftirlitsstofnana. Með mikilvægum upplýsingum er í ákvæði þessu einkum átt við upplýsingar um rekstur og starfsemi rafeyrisfyrirtækis sem kunna að hafa áhrif á skilyrði starfsleyfisveitingar hlutaðeigandi fyrirtækis eða traustleika og heilbrigði rekstrar þess. Á það skal jafnframt minnt að gert er ráð fyrir að lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi gildi um eftirlit með rafeyrisfyrirtækjum, sbr. 1. mgr., en í IV. kafla þeirra er m.a. fjallað um samskipti við eftirlitsstjórnvöld.

Um 29. gr.

    Hér er um innleiðingu á 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 1. mgr. 25. gr. PSD, að ræða. Lagt er til að rafeyrisfyrirtæki sem hyggur á veitingu þjónustu samkvæmt lögum þessum í öðru aðildarríki skuli tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Jafnframt er lagt til að Fjármálaeftirlitið skuli veita lögbærum yfirvöldum hluteigandi ríkis upplýsingar um rafeyrisfyrirtækið innan mánaðar frá móttöku tilkynningar þess efnis. Fram kemur í leiðbeiningum Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um tilkynningarskyldu vegna þjónustu rafeyrisfyrirtækja yfir landamæri ( Guidelines on Electronic Money Directive Passport Notifications) að eftirlitsaðili heimaríkis skal tilkynna rafeyrisfyrirtæki þegar tilkynning hefur verið send eftirlitsaðila hluteigandi ríkis og að við móttöku slíkrar tilkynningar sé rafeyrisfyrirtæki heimilt að hefja starfsemi í hluteigandi ríki. Leiðbeiningarnar eru ekki bindandi fyrir aðildarríki og ekki er í íslenskum lögum hægt að kveða á um hvenær íslensku rafeyrisfyrirtæki er heimilt að hefja starfsemi í öðru ríki. Telja verður þó líklegt að leiðbeiningunum verði fylgt, enda nauðsynlegt til að tryggja samræmda túlkun reglna er kemur að þjónustu rafeyrisfyrirtækja innan EES.

Um 30. gr.

    Lagt er til að 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 1. mgr. 25. gr. PSD verði innleidd í ákvæðið. Varðandi almennar skýringar við ákvæðið vísast til athugasemda við 29. gr. frumvarpsins.
    Í 4. mgr. er kveðið á um skyldu rafeyrisfyrirtækja til að tilkynna notendum þjónustu um það sé þjónusta veitt fyrir tilstilli útibús. Innleiðing á 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 8. mgr. 17. gr. PSD.

Um 31. gr.

    Ef rafeyrisfyrirtæki hyggst selja eða innleysa rafeyri í gegnum umboðsaðila í öðru landi þá skal fyrirtækið tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það. Innan mánaðar frá móttöku slíkrar tilkynningar skal Fjármálaeftirlitið miðla upplýsingunum áfram til lögbærra yfirvalda í í hluteigandi ríki, auk staðfestingar að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækis. Upplýsingunum skal fylgja beiðni um umsögn. Athygli er vakin á því að útgáfa rafeyris er óheimil í gegnum umboðsaðila, sbr. almennt ákvæði frumvarpsins um veitingu rafeyrisþjónustu í gegnum umboðsaðila í 35. gr.
    Er Fjármálaeftirlitið hefur sent tilkynningu skal það færa viðeigandi upplýsingar í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 17. gr. Berist Fjármálaeftirlitinu athugasemdir frá lögbæru yfirvaldi í hluteigandi ríki, þess efnis að þau hafi gilda ástæðu til að ætla að peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka eigi sér stað, hafi átt sér stað eða sé í undirbúningi eða að skráning umboðsaðila geti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka er Fjármálaeftirlitinu heimilt að hafna eða afturkalla skráningu hafi hún þegar farið fram, er þá rafeyrisfyrirtæki óheimilt að notast við hluteigandi umboðsaðila til að dreifa eða innleysa rafeyri fyrir þess hönd frá þeim tíma.
    Rafeyrisfyrirtæki skal ávallt tryggja að umboðsaðili upplýsi notendur þjónustu um að þjónustan sé veitt fyrir hönd erlends rafeyrisfyrirtækis.
    Um heimildir umboðsaðila innanlands fer samkvæmt ákvæðum 35. gr. frumvarpsins, líkt og áður greinir. Í ákvæðinu er 4. mgr. 3. gr. EMDII innleidd.

Um 32. gr.

    Í greininni er kveðið á um heimild erlendra rafeyrisfyrirtækja með staðfestu og starfsleyfi innan Evrópska efnahagssvæðisins til að starfa hér á landi án stofnunar útibús. Hér er um innleiðingu á 1. gr. 3. gr. EMDII, sbr. 1. mgr. 25 gr. PSD að ræða.
    Í 2. mgr. er vísað til þeirra réttinda sem Færeyingar njóta hér á landi á grundvelli Hoyvíkur-samningsins um sameiginlegt efnahagssvæði á yfirráðasvæði Íslands og Færeyja og Svisslendingar njóta á grundvelli Vaduz-samningsins, stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) eins og honum var breytt í Vaduz 12. júní 2001. Samstarfssamningar á milli lögbærra yfirvalda sem vísað er til í greininni hafa ekki verið gerðir og því eru skilyrði ákvæðisins um að sömu kröfur skuli gerðar til svissneskra og færeyskra rafeyrisfyrirtækja og rafeyrisfyrirtækja innan Evrópska efnahagssvæðisins ekki uppfyllt sem stendur.

Um 33. gr.

    Lagt er til að 1. gr. 3. gr. EMDII, sbr. 1. mgr. 25 gr. PSD verð innleidd í 33. gr. Í ákvæðinu er kveðið á um heimild erlendra rafeyrisfyrirtækja með staðfestu og starfsleyfi innan Evrópska efnahagssvæðisins til að starfa hér á landi með stofnun útibús.
    Í 2. mgr. er vísað til þeirra réttinda sem Færeyingar Svisslendingar njóta hér á landi. Nánari umfjöllun er að finna í athugasemdum við 31. gr. frumvarpsins.
    Í 5. mgr. er fjallað um skyldu Fjármálaeftirlitsins til að tilkynna lögbærum yfirvöldum heimaríkis um það ef það hefur gilda ástæðu til að ætla að útibúið tengist peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka með einum eða öðrum hætti. Verði slík tilkynning til þess að heimaríki ákveður að hafna eða fella út skráningu útibúsins þá missir útibúið sjálfkrafa heimild sína til veitingar þjónustu hér á landi.
    Í 6. mgr. er kveðið á um skyldu rafeyrisfyrirtækja til að tilkynna notendum þjónustu um það ef þjónusta er veitt fyrir milligöngu útibús. Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 8. mgr. 17. gr. PSD.

Um 34. gr.

    Fjármálaeftirlitið getur heimilað rafeyrisfyrirtæki með staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins að opna útibú hér á landi. Hér er um sambærilegt ákvæði að ræða og finna má í 33. gr. laga 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Ef Fjármálaeftirlitið veitir slíka heimild það tilkynnt til Eftirlitsstofnun EFTA. Greinin felur í sér innleiðingu á 8. gr. EMDII.

Um 35. gr.

    Lagt er til að 4.–5. mgr. 3. gr. EMDII verði innleidd í 35. gr. frumvarpsins. Í greininni er fjallað um heimild rafeyrisfyrirtækja til að veita þjónustu tengda rafeyri í gegnum umboðsaðila eftir að Fjármálaeftirlitið hefur fært hann í skrá skv. 17. gr. Af efni greinarinnar er ljóst að umboðsaðilar mega dreifa og innleysa rafeyri fyrir hönd rafeyrisfyrirtækis, en þeim er óheimilt að gefa út rafeyri. Ef þriðji aðili vill selja þegar útgefinn rafeyrir hérlendis, t.d. fyrir fram greidd gjafakort, er honum það frjálst samkvæmt frumvarpi þessu. Enginn má hinsvegar gefa út rafeyri án tilskilinna starfsleyfa sem útgefandi rafeyris (t.d. sem rafeyrisfyrirtæki), sbr. 3. og 4. gr. frumvarpsins.

Um 36. gr.

    Starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis getur falið í sér heimild til veitingar greiðsluþjónustu í skilningi laga um greiðsluþjónustu, sbr. a-liður 1. mgr. 24. gr. frumvarpsins. Í þeim tilfellum hefur rafeyrisfyrirtæki sömu heimildir og greiðslustofnun til veitingar þjónustu fyrir tilstilli umboðsaðila. Ákvæðið felur í sér innleiðingu á 5. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 1.–6 og 8. mgr. 17. gr. PSD.

Um 37. gr.

    Lagt er til að 1. mgr. 3. gr. EMDII um útvistun, sbr. 7. mgr. 17. gr. PSD, verði innleidd í ákvæðið.
    Í 1. mgr. segir að rafeyrisfyrirtæki beri að tilkynna um fyrirhugaða útvistun til Fjármálaeftirlitsins fyrir fram.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að það gilda sérstakar reglur um svokallaða mikilvæga rekstrarþætti. Rekstrarþáttur telst mikilvægur ef ágalli eða brestur í framkvæmd hans hefur umtalsverð neikvæð áhrif á getu rafeyrisfyrirtækis til að uppfylla þær kröfur sem liggja til grundvallar starfsleyfi þess samkvæmt lögum þessum eða skyldur samkvæmt lögunum, eða fjárhagslega afkomu rafeyrisfyrirtækis, traustleika eða samfelldni þjónustunnar sem um ræðir. Útvistun slíkra þátta má ekki draga verulega úr gæðum innra eftirlits rafeyrisfyrirtækis og getu Fjármálaeftirlitsins til að hafa eftirlit með starfsemi rafeyrisfyrirtækis, geri hún það er hún óheimil.
    Í 3. mgr. er Fjármálaeftirlitinu falið að setja nánari reglur um hvernig rafeyrisfyrirtæki skuli standa að útvistun mikilvægra rekstrarþátta samkvæmt þessu ákvæði, m.a. til að tryggja að reglur þessara laga séu í heiðri hafðar.

Um 38. gr.

    Lagt er til að 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 18. gr. PSD verði innleidd í 38. gr. frumvarpsins. Ákvæðið mælir fyrir um að rafeyrisfyrirtæki beri skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem rakið verður til athafna starfsmanna þess, umboðsaðila, útibúa og þeirra aðila sem rekstrarþáttum rafeyrisfyrirtækis hefur verið útvistað til.

Um 39. gr.

    Lagt er til að 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 19. gr. PSD verði innleidd í 39. gr. frumvarpsins. Ákvæðið kveður á um að rafeyrisfyrirtæki beri að varðveita öll viðeigandi gögn er varða III. kafla frumvarpsins í a.m.k. fimm ár. Hafa verður í huga að önnur lög kunna að gera ríkari kröfur um varðveislu gagna en þetta ákvæði gerir ráð fyrir. Sem dæmi má nefna lög um bókhald og lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Um IV. kafla.

    Í IV. kafla er fjallað um eftirlit með framkvæmd frumvarpsins, réttarúrræði handhafa rafeyris og viðurlög við brotum gegn ákvæðum frumvarpsins.

Um 40. gr.

    Lagt er til að 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 20.–21. gr. tilskipunar PSD verði innleidd í 40. gr. frumvarpsins. Vert er að taka fram að ekki eru allir útgefendur rafeyris eftirlitsskyldir á grundvelli laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, aðeins rafeyrisfyrirtæki og fjármálafyrirtæki sem heimil er útgáfa rafeyris.

Um 41. gr.

    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir skyldu útgefenda rafeyris til upplýsingagjafar gagnvart handhafa rafeyris um möguleg úrskurðar- og réttarúrræði ef ágreiningur rís vegna útgáfu rafeyris. Hér er því um sambærilegt ákvæði og nú er í 1. mgr. 19. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og í 76. gr. laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu.
    Fjármálaeftirlitið eða aðrir opinberir eftirlitsaðilar, svo sem Neytendastofa, skera ekki úr um einkaréttarleg álitaefni eða kröfur um skaðabætur. Eftirlit með framkvæmd laganna skv. 40. gr. er allsherjarréttarlegs eðlis. Því er gert ráð fyrir að handhafar rafeyris geti skotið ágreiningi er varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, sbr. 19. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Handhafar rafeyris geta jafnframt, augljóslega, borið ágreining um fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni undir dómstóla, en í 13. gr. EMDII, sbr. 83. gr. PSD er gert ráð fyrir að aðildarríki sjái handhöfum rafeyris fyrir þeim möguleika að skjóta slíkum málum til úrskurðaraðila, annars en dómstóla. Jafnframt er lagt til að rafeyrisfyrirtækjum verði gert skylt að eiga aðild að úrskurðarnefndinni. Málarekstur fyrir úrskurðarnefnd þessari hefur reynst ódýr og skjótvirk leið fyrir viðskiptamenn fjármálafyrirtækja til að fá úr einkaréttarlegum kröfum skorið. Í ljósi þess að helstu aðilar sem samkvæmt frumvarpi þessu munu teljast til útgefenda rafeyris eiga nú þegar aðild að nefndinni þykir ekki réttlætanlegt (m.a. út frá kostnaðarsjónarmiðum) að setja á fót sérstaka úrskurðarnefnd um útgáfu rafeyris.

Um 42. og 43. gr.

    Lagt er til kveðið verði á um viðurlagaheimildir o.fl. í 42. og 43. gr. frumvarpsins, að fyrirmynd sambærilegra ákvæða í annarri löggjöf á sviði fjármálaþjónustu.

Um V. kafla.

    Í V. kafla frumvarpsins er að finna ákvæði um innleiðingu tilskipunarinnar, gildistöku og breytingar á öðrum lögum.

Um 44. gr.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að tilskipun 2009/110/EB (EMDII) verði innleidd í íslenskan rétt, með vísan til ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2010, frá 10. nóvember 2010.

Um 45. gr.

    Lagt er til að lögin taki gildi 1. maí 2012, verði frumvarpið að lögum.

Um 46. gr.

    Í greininni er lagt til að nauðsynlegar breytingar verði gerðar á öðrum lögum vegna innleiðingar EMDII.
     Um 1. tölul.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði sérlög um útgáfu og meðferð rafeyris hér á landi sem í dag er fjallað um í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Í ákvæðinu eru talin upp þau ákvæði laga um fjármálafyrirtæki sem þarf að fella út með tilliti til þess að þeim er ætlaður staður í sérlögum um rafeyrisfyrirtæki verði frumvarp þetta að lögum.
     Um 2. tölul.
    Lagt er til að 19. gr. EMDII verði innleidd í 2.tölul.
    A-liður: Ákvæðið gerir ráð fyrir að rafeyrisfyrirtækjum verði bætt við upptalningu 1. mgr. 2. gr. laga nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, yfir þá sem falla undir gildissvið laganna.
    B-liður: Lagt er til að útgáfu rafeyris verði bætt við upptalningu 15. gr. a yfir þau tilvik þar sem beita má einfaldaðri könnun á áreiðanleika viðskiptamanna, þ.e. að því skilyrði uppfylltu að upphæð fjárhæðar í rafeyri sem geymd er á greiðslumiðli fari ekki yfir nánar tilgreind mörk.
    C-liður: Eðlilegt þykir að tilkynningarskyldum aðilum sé heimilt að reiða sig á upplýsingar greiðslustofnana og rafeyrisfyrirtækja um áreiðanleika viðskiptamanna, með sama hætti og þeim er heimilt að reiða sig á sambærilegar upplýsingar fjármálafyrirtækja samkvæmt núgildandi lögum.
     Um 3. tölul.
    
Lagt er til að rafeyrisfyrirtækjum og greiðslustofnunum verði bætt við upptalningu þeirra aðila sem sæta eftirliti á grundvelli laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     Um 4. tölul.
    A-liður: Lagt er til að þeim ákvæðum laga um greiðsluþjónustu er vísa til rafeyris í skilningi laga um fjármálafyrirtæki verði breytt á þann veg að vísað verði til rafeyris í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris.
    B-liður: Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 120/2011 var kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skyldi halda skrá yfir greiðslustofnanir í samræmi við 13. gr. tilskipunar 2007/64/EB. Þrátt fyrir ákvæði 86. gr. tilskipunar 2007/64/EB þar sem fram kemur að um er að ræða „ full harmonisation“ gerð var ákvæði 17. gr. frumvarpsins sem kvað á um skrá yfir greiðslustofnanir felld út við þinglega meðferð málsins og í staðinn sett nýtt ákvæði, 6. gr. sem kveður á um að Fjármálaeftirlitið skulu halda skrá yfir greiðsluþjónustuveitendur. Að óbreyttu ganga lög um greiðsluþjónustu lengra en PSD. Í 16. gr. þessa frumvarps er lagt til að kveðið verði á um, í samræmi við 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 13. gr. PSD, að Fjármálaeftirlitið birti sambærilega skrá yfir rafeyrisfyrirtæki en ekki útgefendur rafeyris.
    C-liður: Lagt er til að vísað verði til 5. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, hvað varðar þá þætti sem stofnfé greiðslustofnunar skal samanstanda af. Ákvæðið er í samræmi við 10. gr. þessa frumvarps.
    D-liður: Í d- og e-lið eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga nr. 120/2011, um veitingu þjónustu yfir landamæri, þ.e. til nánari útfærslu í samræmi við frumvarp þetta. Lagt er til að við 13. gr. laganna verði bætt við nýrri málsgrein er fjalli um að starfsleyfi sem greiðslustofnun skuli gilda í öllum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Þessi breyting er lögð til í samræmi við ákvæði d-liðar 3. tölul. 40. gr. þessa frumvarps þar sem lagt er til að 7. mgr. 15. gr. laga um greiðsluþjónustu falli brott.
    E-liður: Lagt er til að 7. mgr. 15. gr. laganna falli brott. Tillaga þessi er í samræmi við d og g-lið 3. tölul. frumvarps þessa þar sem annarsvegar er lagt til að fjallað verði um að starfsleyfi gildi í öllum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu í 13. gr. laga um greiðsluþjónustu og hins vegar að umfjöllun um veitingu þjónustu yfir landamæri verði færð í F-lið II. kafla laganna.
    F-liður: Í ákvæðinu er lagt til að Fjármálaeftirlitið setji reglur um tryggilega varðveislu fjármuna fremur en ráðherra. Tillagan er í samræmi við 6. tölul. 24. gr. þessa frumvarps.
    G-liður: Lagt er til að öll umfjöllun um veitingu þjónustu yfir landamæri verði færð í einn hluta, F-hluta II. kafla. Hin tillögðu ákvæði eru nokkuð ítarlegri en núverandi ákvæði laga um greiðsluþjónustu um sama efni. Einnig er lagt til að settur verði upp sérkafli fyrir umboðsaðila. Tillagðar breytingar er í samræmi við F- og G-lið II. kafla frumvarps þessa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Höftin eru frávik frá skuldbindingum Íslands um frjálst flæði fjármagns samkvæmt EES- samningnum og því neyðarráðstöfun til skamms tíma. Stjórnvöldum á Íslandi ber, í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum, að vinna að afnámi gjaldeyrishaftanna. Stefnt er að afnámi gjaldeyrishafta í árslok 2013, samkvæmt áætlun stjórnvalda og lögum nr. 127/2011, um breytingu á lögum um gjaldeyrismál o.fl.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um útgáfu og meðferð rafeyris.


    Í frumvarpi þessu felst innleiðing á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2009/110/EB, um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim. Með tilskipuninni er ætlunin að koma á meira samræmi í regluverki aðildarríkja EES um útgáfu og meðferð rafeyris og afnema aðgangshindranir að rafeyrismörkuðum ríkjanna. Jafnframt er með frumvarpinu felld úr gildi eldri tilskipun sama efnis sem upphaflega var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 37/2002, um rafeyrisfyrirtæki. Með gildistöku laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, var ákvæðum um rafeyri fundinn staður í þeim lögum og lögin um rafeyrisfyrirtæki afnumin. Því má segja að frumvarp þetta færi lagaumgjörðina um rafeyri til fyrra horfs. Í þeim tilgangi eru einnig lagðar til breytingar á eftirtöldum lögum, nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, með síðari breytingum, nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum, og lögum nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu.
    Frumvarpið felur í sér að til getur orðið ný tegund fjármálafyrirtækja, svokölluð rafeyrisfyrirtæki. Þeir aðilar sem hyggja á rekstur slíks fyrirtækis munu þurfa að sækja um starfsleyfi hjá Fjármálaeftirlitinu sem einnig mun hafa eftirlit með fyrirtækjunum. Eftirtaldir aðilar munu þó ekki þurfa að sækja um starfsleyfi, fjármálastofnanir sem hafa leyfi til að stunda inn- og útlánastarfsemi, Seðlabankinn og stjórnvöld þegar þau starfa á eigin vegum. Til að mynda gæti Tryggingastofnun gefið út rafeyri til útgreiðslu félagslegra bóta. Slík starfsemi væri engu síður undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins.
    Lögunum er ætlað að taka gildi í byrjun maí nk. og tillögur frumvarpsins fela í sér að verkefnum sem falla undir eftirlitsskyldu Fjármálaeftirlitsins fjölgar frá því sem nú er. Ekki er gert ráð fyrir þessum útgjöldum í gildandi fjárlögum en ætla má að sá kostnaður verði óverulegur fyrst um sinn og rúmist innan gildandi fjárheimilda Fjármálaeftirlitsins sem er um 2 milljarðar kr. Rekstur Fjármálaeftirlitsins er alfarið fjármagnaður með eftirlitsgjaldi á fjármálastofnanir og því hefur hækkun rekstrarkostnaðar stofnunarinnar í för með sér hækkun á bæði tekjum og útgjöldum ríkissjóðs.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er því ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á afkomu ríkissjóðs.