Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 118. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1209  —  118. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um varðveislu íslenskrar menningararfleifðar
á stafrænu formi.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur frá Landsbókasafni Íslands – háskólabókasafni og Margréti Hallgrímsdóttur frá Þjóðminjasafni Íslands. Umsagnir bárust um málið frá Landsbókasafni Íslands – háskólabókasafni, Náttúruminjasafni og Þjóðminjasafni Íslands.
    Í tillögunni felst að mennta- og menningarmálaráðherra setji fram stefnu um varðveislu íslenskrar menningararfleifðar á stafrænu formi. Gert er ráð fyrir því í tillögunni að verkið verði unnið á næstu tíu til tuttugu árum. Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni byggist hún á grein eftir Styrmi Gunnarsson sem birtist í Morgunblaðinu 23. janúar 2010. Í greininni er bent á mikilvægi þess að Íslendingar varðveiti menningararfleifð sína og að komandi kynslóðir geti kynnt sér og þekki sögu landsins og þjóðarinnar.
    Markmið tillögunnar er það annars vegar að koma í veg fyrir að menningarverðmæti glatist eða eyðileggist og hins vegar að auðvelda fólki aðgang að menningarverðmætum sem er að finna á stafrænu formi.
    Í þeim umsögnum sem bárust um málið var tekið undir efni þess og mælt með að það yrði samþykkt. Meðal annars kom fram í einni umsagnanna að það væri gleðiefni og bæri vott um framsýni ef unnt yrði að koma málinu í réttan farveg og ná mikilvægum áföngum við varðveislu stafræns efnis á árinu 2018 en þá verður Landsbókasafnið 200 ára.
    Nefndin telur mikilvægt að koma verkefninu í farveg hið fyrsta og leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Baldvin Jónsson og Þráinn Bertelsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. mars 2012.



Björgvin G. Sigurðsson,


form.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir,


frsm.

Skúli Helgason.



Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Bjarkey Gunnarsdóttir.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.



Siv Friðleifsdóttir.