Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 538. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1215  —  538. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu
EES-nefndarinnar nr. 65/2009 um breytingu á XIII. viðauka
(Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.


Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhönnu B. Bjarnadóttur og Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Kjartan Ingvarsson frá umhverfisráðuneyti. Málið var sent til umsagnar til umhverfis- og samgöngunefndar en engar athugasemdir bárust.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 65/2009, frá 29. maí 2009, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/35/EB um mengun sem á upptök sín um borð í skipum og innleiðingu viðurlaga við brotum. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 29. nóvember 2010. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Markmið tilskipunar 2005/35/EB er að innleiða í löggjöf Evrópusambandsins alþjóðlegar viðmiðanir varðandi mengun, sem á upptök sín í skipum, og tryggja að einstaklingar, sem bera ábyrgð á losun, sæti hæfilegum viðurlögum, með það að markmiði að bæta siglingaöryggi og auka vernd umhverfis sjávar gegn mengun af völdum skipa.
    Fram kemur í athugasemdum við tillöguna að til að innleiða tilskipun 2005/35 hér á landi þarf að breyta lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda eða setja ný lög hvað varðar mengun frá skipum sem á sér stað á úthafinu. Fyrirhugað er að umhverfisráðherra leggi fram frumvarp til slíkra lagabreytinga á næsta löggjafarþingi, til innleiðingar á tilskipuninni.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Árni Páll Árnason, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar og Ragnheiður E. Árnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. mars 2012.



Árni Þór Sigurðsson,


formaður.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,

framsögumaður.


Gunnar Bragi Sveinsson.



Mörður Árnason.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.