Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 15. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1266  —  15. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um tillögu til þingsályktunar um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi
og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Snorra Magnússon og Steinar Adolfsson frá Landssambandi lögreglumanna, Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, og Guðmund Guðjónsson frá embætti ríkislögreglustjóra. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Félagi yfirlögregluþjóna, Landssambandi lögreglumanna, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjóra og yfirlögregluþjóni í Vestmannaeyjum, yfirlögregluþjóni Snæfellinga og frá embætti ríkislögreglustjóra.
    Í tillögunni er lagt til að skipuð verði nefnd til að fjalla um löggæslumál hér á landi. Gert er ráð fyrir að nefndin verði skipuð fulltrúum þeirra þingflokka sem eiga sæti á Alþingi sem og fulltrúum hagsmunaaðila. Ætlunin er að fyrir hendi verði skýr stefna um hvernig löggæslumálum á Íslandi skuli háttað. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að hún miði að því að skilgreina eðli og umfang lögreglustarfsins auk þess að skilgreina ítarlega þau verkefni sem lögreglu er ætlað að sinna og hver kostnaður ríkissjóðs er af störfum lögreglu hverju sinni. Jafnframt er tekið fram að tilgangurinn sé að efla kostnaðarvitund þingsins um verkefni lögreglu en henni eru með lögum falin margs konar verkefni.
    Í umsögnum sem bárust um málið er lýst stuðningi við tillöguna. Þau atriði sem einkum koma fram í umsögnum eru eftirfarandi: Bent er á að grunnur fjárveitinga til lögreglu sé áratuga gamall og talið tímabært að endurskoða hann. Þau umdræmi sem lögregluembættin sinni séu misjöfn og taka þurfi tillit til sérstöðu og sérstakra verkefna hvers embættis fyrir sig. Þá er vísað til þess að tryggja þurfi öryggi íbúa á einangruðum stöðum og bent á mikilvægi þess að einnig veljist í nefndina einstaklingar með reynslu og þekkingu af löggæslu í hinum dreifðu byggðum. Jafnframt er vísað til mikilvægis þess að horft verði á þessa tillögu í föstu og ákveðnu samhengi við þingsályktunartillögu um mótun öryggisstefnu fyrir Ísland sem var samþykkt á Alþingi 16. nóvember 2011. Hlutverk nefndar í því máli er að fjalla um og gera tillögur um stefnu sem tryggi þjóðaröryggi Íslands og á hún að skila tillögum til utanríkisráðherra eigi síðar en í júní 2012 og ráðherra leggi að því búnu tillögu að þjóðaröryggisstefnu Íslands fyrir Alþingi. Utanríkisráðherra skipaði 30. janúar 2012 tíu þingmenn í nefnd um þjóðaröryggisstefnu.
    Vakin var athygli á starfi Norðmanna í löggæslumálum en fyrir nefndina var lögð skýrsla norska dóms- og lögreglumálaráðuneytisins (n. justis- og politidepartement) til norska þingsins frá 2005 sem fjallar um hlutverk og verkefni norsku lögreglunnar (St.meld nr. 42, 2004–2005. Politiets rolle og oppgaver). Þar er fjallað um hvernig lögreglan geti mætt áskorunum næstu 5–10 ára. Í skýrslunni er meðal annars getið um atriði eða þróun sem er fyrirséð að hafi áhrif á störf lögreglu, farið yfir þróun á afbrotatíðni og verkefni og skipulag lögreglu greind. Frekar hefur verið unnið að skipulagi lögreglumála í Noregi. Til að mynda er í skýrslunni vísað til vinnu nefndar sem var að störfum á níunda áratugnum og mótaði svokölluð tíu grunnviðmið fyrir norsku lögregluna. Þá má nefna skýrslu norska dóms- og lögreglumálaráðuneytisins frá 2000 sem nefnist Politireform 2000 og fjallar um framfarir í skipulagi, starfsmannamálum og tæknimálum. Á árinu 2008 var unnin skýrsla í norsku lögreglunni um mannaflaþörf til ársins 2020 (n. Politiet mot 2020, Bemannings- og kompetansebehov i politiet).
    Í 1. mgr. tillögugreinarinnar er lagt til að fulltrúar þingflokka sem og hagsmunaaðilar skuli tilnefna fulltrúa í nefndina. Ekki er getið um fjölda nefndarmanna og leggur nefndin því til breytingu á 1. mgr. þess efnis að í nefndinni eigi níu fulltrúar sæti, fimm tilnefndir af þeim þingflokkum sem eiga sæti á Alþingi, tveir af ráðherra og að Landssamband lögreglumanna og ríkislögreglustjóri tilnefni hvor sinn fulltrúa. Gengið er út frá því að hlutverk fulltrúa þingflokkanna lúti fremur að skilgreiningum á löggæslunni en verkefni fulltrúa ráðherra og fulltrúa lögreglu og lögregluyfirvalda beinist að því að útfæra sjálfa áætlunina.
Jafnframt er lögð til breyting á 4. mgr. í þá veru að kveða á um að ráðherra leggi fyrir þingið tillögu til þingsályktunar um löggæsluáætlun, eigi síðar en 1. mars 2013, sem kæmi þá til meðferðar í þinginu.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     a.      1. mgr. orðist svo:
                  Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að skipa nefnd níu fulltrúa sem fjalli um grundvallarskilgreiningar á löggæslu og geri löggæsluáætlun fyrir Ísland. Þeir þingflokkar sem eiga sæti á Alþingi tilnefni hver sinn fulltrúa, Landssamband lögreglumanna tilnefni einn fulltrúa, ríkislögreglustjóri tilnefni einn fulltrúa og innanríkisráðherra tilnefni tvo fulltrúa og verði annar þeirra formaður nefndarinnar.
     b.      4. mgr. orðist svo.
                  Ráðherra leggi tillögu til þingsályktunar um löggæsluáætlun fyrir Alþingi eigi síðar en 1. mars 2013.

    Jónína Rós Guðmundsdóttir og Þuríður Backman voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. apríl 2012.



Björgvin G. Sigurðsson,


form.


Siv Friðleifsdóttir,


frsm.


Skúli Helgason.



Þráinn Bertelsson.


Birgitta Jónsdóttir.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.



Ragnheiður Ríkharðsdóttir.