Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 604. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1275  —  604. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og aðildarríkja Samstarfsráðs Arabaríkjanna
við Persaflóa og landbúnaðarsamnings milli Íslands og aðildarríkja
Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnar S. Kristjánsson og Ingólf Friðriksson frá utanríkisráðuneytinu.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og aðildarríkja Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa sem undirritaður var í Hamar 22. júní 2009. Jafnframt er leitað heimildar til fullgildingar á landbúnaðarsamningi milli Íslands og aðildarríkja Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa sem undirritaður var sama dag. Aðilar að Samstarfsráði Arabaríkjanna við Persaflóa eru Sameinuðu arabísku furstadæmin, Konungsríkið Barein, Konungsríkið Sádi-Arabía, Soldánsveldið Óman, Katar og Kúveit.
    Tillagan var áður flutt á 139. löggjafarþingi en hlaut ekki fullnaðarafgreiðslu.
    Í athugasemdum með tillögunni kemur fram að fríverslunarsamningurinn er af svokallaðri annarri kynslóð fríverslunarsamninga og inniheldur, auk ákvæða um vöruviðskipti, ákvæði um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, hugverkaréttindi, samkeppnismál, opinber innkaup, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála. Samningurinn kveður á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. Þannig munu tollar á sjávarafurðir og allar helstu iðnaðarvörur frá Íslandi falla niður við gildistöku samningsins eða að loknu fimm ára aðlögunartímabili.
    Landbúnaðarsamningurinn milli Íslands og Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa er viðbótarsamningur og gerður með vísan til fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og samstarfsráðsins. Viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur falla undir landbúnaðarsamninginn og kveður hann á um að tollar á tilteknar landbúnaðarvörur verði lækkaðir eða felldir niður. Samstarfsráðið mun m.a. fella niður tolla á lifandi hross og íslenskt lambakjöt við gildistöku samningsins. Ísland mun m.a. fella niður tolla á ýmsar matjurtir, kaffi, kakó og ávaxtasafa. Landbúnaðarsamningurinn öðlast gildi á sama degi og fríverslunarsamningurinn.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 8. maí 2012.



Árni Þór Sigurðsson,


form.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,


frsm.


Árni Páll Árnason.



Bjarni Benediktsson.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


með fyrirvara.


Gunnar Bragi Sveinsson.



Helgi Hjörvar.


Mörður Árnason.


Ragnheiður E. Árnadóttir.