Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 782. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1315  —  782. mál.




Álit fjárlaganefndar



á ábendingu Ríkisendurskoðunar um skil, samþykkt og skráningu rekstraráætlana.


    Hin 15. febrúar 2012 gaf Ríkisendurskoðun út ábendingu um skil, samþykkt og skráningu rekstraráætlana. Í kjölfarið fjallaði fjárlaganefnd um skipulag á framkvæmd fjárlaga og fjárhagseftirlit vegna framkvæmdarinnar.
    Nefndin fékk á sinn fund starfsmenn Ríkisendurskoðunar og fjármálaráðuneytisins, auk fulltrúa þriggja ráðuneyta, velferðar-, innanríkis- og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Einnig var óskað eftir uppfærðum upplýsingum frá Ríkisendurskoðun sem bárust þann 15. mars sl. Nefndin hyggst nýta þessar upplýsingar til þess að gefa Alþingi skýrslu í maímánuði um eftirlit með framkvæmd fjárlaga, en einnig þykir nefndinni rétt að gefa út sérstakt álit vegna ábendingarinnar.
    Samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 1061/2004 um framkvæmd fjárlaga skal skila áætlunum til ráðuneytis fyrir áramót og ráðuneytum ber að staðfesta þær fyrir miðjan janúar ár hvert. Ríksendurskoðun hefur einu sinni áður tekið saman upplýsingar um skil áætlana sem miðast við framangreind tímamörk. Það var árið 2009 og er því um sambærilegar upplýsingar að ræða. Þetta verklag Ríkisendurskoðunar er mjög til bóta frá því sem áður var og fjárlaganefnd leggur áherslu á að stofnunin framkvæmi könnun með þessum hætti á hverju ári, þannig að framvegis verði handhægt að bera saman stöðuna hjá öllum ráðuneytum á sama tímapunkti ár hvert.

Skil og samþykkt rekstraráætlana.


Ráðuneyti Fjárlög 2012 Fjárlög2009
Á að skila Skilað Samþykkt Á að skila Skilað Samþykkt
Forsætisráðuneyti 10 100% 100% 10 30% 70%
Mennta- og menningarmálaráðuneyti 56 100% 0% 56 0% 0%
Utanríkisráðuneyti 5 20% 40% 4 50% 50%
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti 18 78% 0% 18 6% 0%
Innanríkisráðuneyti 50 92% 78% 46 0% 0%
Velferðarráðuneyti 36 36% 0% 48 3% 0%
Fjármálaráðuneyti 10 90% 80% 18 0% 0%
Iðnaðarráðuneyti 3 33% 100% 4 0% 0%
Viðskiptaráðuneyti 4 50% 100% 5 0% 100%
Umhverfisráðuneyti 14 79% 0% 14 7% 0%
Samtals 206 217

    Ráðuneytin hafa skilgreint að alls séu 206 fjárlagaliðir í fjárlögum 2012 sem eiga að skila rekstraráætlun. Þeir voru 217 talsins árið 2009.
    Eins og fram kemur í töflunni hafa skil batnað töluvert frá árinu 2009. Þess ber að geta í þessu sambandi að sökum bankahrunsins voru rekstraráætlanir ársins 2009 samþykktar óvenju seint. Ríkisendurskoðun kannaði sérstaklega skil, skráningar og samþykktir rekstraráætlana árin 2003 og 2008 en þær eru ekki að fullu sambærilegar. Helstu niðurstöður benda þó til að staða þessara mála sé svipuð á yfirstandandi ári eins og árið 2008 en miklu mun betri heldur en árið 2003, enda hefur fjármálastjórn verið styrkt verulega hjá aðalskrifstofum ráðuneyta frá þeim tíma. Engu að síður er staða mála ófullnægjandi hjá nokkrum ráðuneytum, en eins og fram kemur í töflunni þá var ekki búið að samþykkja neina áætlun hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, velferðarráðuneyti eða umhverfisráðuneyti á tilskildum tíma.
    Fjárlaganefnd hefur kannað samþykkt áætlana miðað við 20. apríl og í ljós kemur að enn eru ósamþykktar rekstraráætlanir hjá 12 stofnunum sem heyra undir sex ráðuneyti.
    Ríkisendurskoðun bendir jafnframt á að hjá a.m.k. 13 stofnunum sé uppsafnaður rekstrarvandi af þeirri stærðargráðu að stofnunin telur ógerlegt að vinna á honum að fullu á árinu 2012. Því hafa ráðuneytin ýmist samþykkt áætlanir sem gera ráð fyrir hallarekstri miðað við heildarheimildir eða ekki samþykkt áætlanir yfirhöfuð. Þessar stofnanir falla undir fjögur ráðuneyti. Flestar þessar stofnanir er einnig að finna á lista yfir fjárhagsveikleika sem fjármálaráðuneytið hefur tekið saman. Fjárlaganefnd bendir á að samkvæmt reglugerð um framkvæmd fjárlaga er ekki heimilt að samþykkja rekstraráætlanir sem rúmast ekki innan heildarfjárheimilda stofnana.
    Í væntanlegri skýrslu fjárlaganefndar til Alþingis um framkvæmd fjárlaga nú í maímánuði verður gerð frekari grein fyrir stöðu rekstraráætlunarmála hjá þessum stofnunum.

Alþingi, 14. maí 2012.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Kristján Þór Júlíusson.


Ásbjörn Óttarsson.



Höskuldur Þórhallsson.


Árni Þór Sigurðsson.


Illugi Gunnarsson.



Björgvin G. Sigurðsson.