Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 101. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1425  —  101. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.



Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Karl M. Kristjánsson frá skrifstofu Alþingis og Pál Þórhallsson og Óðin H. Jónsson frá forsætisráðuneyti.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þingsköpum í þá veru að veita ráðherra sem jafnframt er kjörinn alþingismaður heimild til að sitja á Alþingi einungis samkvæmt embættisstöðu sinni sem ráðherra, sbr. 51. gr. stjórnarskrár, þannig að varamaður hans taki sæti á Alþingi í hans stað á meðan hann gegnir embættinu. Samkvæmt 51. gr. stjórnarskrár eiga ráðherrar samkvæmt embættisstöðu sinni sæti á Alþingi, og eiga þeir rétt á að taka þátt í umræðum eins oft og þeir vilja, en gæta verða þeir þingskapa. Atkvæðisrétt eiga þeir þó því aðeins að þeir séu jafnframt alþingismenn. Verði frumvarpið að lögum felur það í sér að ráðherrar sem nýta sér heimildina geta tekið þátt í umræðum og flutt mál en eiga ekki atkvæðisrétt. Varaþingmaður sem tæki sæti ráðherra á Alþingi færi með atkvæðisrétt, hefði öll réttindi alþingismanns og sömu skyldur.
    Málið varðar aðskilnað ríkisvaldsins sem greinist í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald skv. 2. gr. stjórnarskrár, þ.e. aðskilnað milli tveggja þátta þess, löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Ráðherrar eru æðstu handhafar framkvæmdarvalds en sitja á Alþingi, flytja mál og taka virkan þátt í löggjafarstarfinu. Meiri hlutinn telur ríka þörf á skýrari aðskilnaði milli þessara tveggja þátta ríkisvaldsins og telur að þessi tilhögun feli það í sér. Meiri hlutinn telur einnig að þetta muni styðja við vandaðri vinnubrögð við löggjafarstörfin eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu.
    Nefndin ræddi málið í tengslum við réttindi minni hluta eða stjórnarandstöðu á Alþingi en nokkur gagnrýni hefur komið fram um að verið sé að styrkja stöðu meiri hluta á Alþingi á kostnað minni hluta. Með þessu fái stjórnarmeirihlutinn fleiri raddir innan þings til að tala sínu máli. Meiri hlutinn telur að þeirri gagnrýni hafi að nokkru verið mætt m.a. með síðustu breytingum á þingsköpum Alþingis þar sem heimilt er að skipta formennsku og varaformennsku milli flokkanna eftir þingstyrk ef samkomulag næst.
    Nefndin fjallaði um þessa heimild í tengslum við þær breytingar sem gerðar hafa verið á lögum um Stjórnarráð Íslands með fækkun ráðuneyta og ráðherra sem munu verða átta talsins næsta haust. Með fækkun ráðuneyta hefur málefnasvið hvers ráðuneytis aukist mjög að umfangi og þar með viðfangsefni ráðherra sem æðsta handhafa framkvæmdarvaldsins á viðkomandi málefnasviði. Meiri hlutinn telur því meiri ástæðu en áður til þess að veita ráðherrum þessa heimild þannig að þeir geti betur einbeitt sér að þeim umfangsmiklu verkefnum sem í ráðuneytunum eru. Meiri hlutinn bendir einnig á að þessi háttur er hafður á í Noregi og Svíþjóð og enn fremur að hér er gert ráð fyrir heimild til þessa. Í tillögum stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga er lagt til að það verði skylda ráðherra að víkja úr þingsæti meðan hann gegni ráðherraembætti.
    Nefndin fjallaði um kostnað við þær breytingar sem frumvarpið felur í sér ef ráðherra nýtir sér heimildina. Fyrir nefndinni kom fram að beinn kostnaður sem Alþingi greiðir, þ.e. laun og launatengd gjöld vegna hvers þingmanns, er að meðaltali um 12 millj. kr. á ári. Þessu til viðbótar greiðir forsætisráðuneyti laun og launatengd gjöld til hvers ráðherra sem nemur tæplega 7 millj. kr. á ári. Þannig hefur fækkun ráðherra um fjóra leitt til sparnaðar í launum og launatengdum gjöldum um sem nemur 27,6 millj. kr. á ári.
    Viðbótarlaunakostnaður við innkomu varaþingmanna í stað ráðherra sem kjósa að víkja sæti getur því numið á bilinu 12–96 millj. kr. en þá eru ótalin útgjöld vegna starfsaðstöðu og þjónustu, ferðakostnaðar og húsnæðiskostnaðar, að meðaltali um það bil 5,5 millj. kr. á hvern þingmann. Á móti kemur að ekki hefur verið tekið tillit til sparnaðar við aðstoðarmenn, bíla, bílstjóra, ritara, húsnæði o.fl. vegna sameiningar ráðuneyta og fækkunar ráðherra.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 25. maí 2012.



Valgerður Bjarnadóttir,


form.


Álfheiður Ingadóttir,


frsm.


Róbert Marshall.



Lúðvík Geirsson.


Magnús M. Norðdahl.


Margrét Tryggvadóttir.