Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 290. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1449  —  290. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003,
með síðari breytingum (forsjá og umgengni).

(Eftir 2. umræðu, 1. júní.)



1. gr.


    Á undan I. kafla laganna kemur nýr kafli, I. kafli, Réttindi barns, með einni grein, 1. gr., ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Réttindi barns.


    Barn á rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Óheimilt er að beita barn hvers kyns ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.
    Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess.
    Barn á rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum sem það varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska.

2. gr.

    1. gr. laganna verður 1. gr. a; og í stað tilvísunarinnar „1. gr.“ í 4. mgr. 7. gr. laganna kemur: 1. gr. a.

3. gr.

    I. kafli laganna verður I. kafli A.

4. gr.

    28. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Almennt um inntak forsjár.


    Barn á rétt á forsjá foreldra sinna, annars eða beggja, uns það verður sjálfráða og eru þeir forsjárskyldir við það.
    Foreldrum ber að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum.
    Forsjá barns felur í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn hvers kyns ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.
    Foreldrum ber að afla barni sínu lögmæltrar fræðslu og ala með því iðjusemi og siðgæði. Foreldrum ber að stuðla eftir mætti að því að barn þeirra fái menntun og starfsþjálfun í samræmi við hæfileika þess og áhugamál.
    Forsjá barns felur í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess. Forsjárforeldri fer enn fremur með lögformlegt fyrirsvar barns.
    Foreldrum ber að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Skal afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast.

5. gr.

    Á eftir 28. gr. laganna bætist við ný grein, 28. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Almennt um inntak sameiginlegrar forsjár.


    Þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns skulu þeir taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barn. Ef foreldrar búa ekki saman hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Foreldrar sem fara saman með forsjá barns skulu þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barns er ráðið til lykta.
    Ef annað forsjárforeldra barns er hindrað í að sinna forsjárskyldum sínum eru nauðsynlegar ákvarðanir hins um persónulega hagi barns gildar.
    Nú fara foreldrar sameiginlega með forsjá barns og er öðru foreldrinu þá óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
     a.      3. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað „28. gr., 5. og 6. mgr. 30. gr., 3.–5. mgr. 32. gr. og 33.–35. gr.“ í 4. mgr. kemur: 28. gr., 28. gr. a, 5. og 6. mgr. 30. gr., 3.–5. mgr. 32. gr., 33.–35. gr. og 46. gr.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Forsjá foreldra.

7. gr.

    Á eftir 29. gr. laganna bætist við ný grein, 29. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Forsjá stjúp- og sambúðarforeldra.


    Ef foreldri, sem er ekki í hjúskap og fer eitt með forsjá barns síns, gengur í hjúskap með öðrum en hinu foreldrinu, þá geta foreldri og stjúpforeldri samið um að forsjá barns verði sameiginleg. Hið sama á við ef foreldri hefur tekið upp sambúð með öðrum en hinu foreldrinu enda hafi skráð sambúð í þjóðskrá staðið samfleytt í eitt ár.
    Samningur öðlast gildi við staðfestingu sýslumanns. Leita skal umsagnar þess foreldris sem ekki fer með forsjá barns og um samning gilda að öðru leyti ákvæði 32. gr. eftir því sem við á.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
     a.      Í stað „3. mgr. 29. gr.“ í 1. mgr. kemur: 29. gr. a.
     b.      Í stað „3. mgr. 29. gr.“ í 2. mgr. kemur: 29. gr. a.

9. gr.

    Við 31. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvæði þetta gildir einnig um skilnað og sambúðarslit foreldris og stjúp- eða sambúðarforeldris sem einnig hefur farið með forsjá skv. 29. gr. a.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „breytingu á forsjá barns þannig að forsjá flytjist“ í 2. mgr. kemur: breytingu á forsjá eða lögheimili barns þannig að forsjá eða lögheimili flytjist.
     b.      Orðin „enda mæli barnaverndarnefnd með þeirri skipan“ í 1. málsl. 3. mgr. falla brott.
     c.      Í stað orðanna „Samning foreldra um forsjá“ í 4. mgr. kemur: Samning foreldra um forsjá eða lögheimili.
     d.      Í stað orðanna „Samningur um forsjá“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: Samningur um forsjá eða lögheimili.
     e.      Í stað orðanna „samningi foreldra um forsjá“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: samningi foreldra um forsjá eða lögheimili.
     f.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Samningar foreldra um forsjá og lögheimili.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Sýslumaður getur boðið aðilum forsjár-, umgengnis- og dagsektarmála sérfræðiráðgjöf. Markmið með sérfræðiráðgjöf er að leiðbeina aðilum með tilliti til þess sem er barni fyrir bestu. Sá sem veitir ráðgjöf getur rætt við barn, sem mál varðar, telji hann það þjóna hagsmunum þess.
     b.      2. mgr. fellur brott.
     c.      4. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra setur nánari reglur um ráðgjöf skv. 1. mgr., svo sem um hæfi sérfræðinga sem veita ráðgjöf, inntak og framkvæmd ráðgjafar.
     d.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Ráðgjöf.

12. gr.

    Á eftir 33. gr. laganna bætist við ný grein, 33. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Sáttameðferð.


    Áður en krafist er úrskurðar eða höfðað mál um forsjá, umgengni eða dagsektir er foreldrum skylt að leita sátta samkvæmt þessari grein.
    Sýslumaður skal bjóða aðilum forsjár-, umgengnis- og dagsektarmála sáttameðferð en aðilar geta einnig leitað til annarra sem hafa sérfræðiþekkingu í sáttameðferð og málefnum barna.
    Markmið með sáttameðferð er að hjálpa foreldrum að gera samning um þá lausn máls sem er barni fyrir bestu. Foreldrar skulu mæta sjálfir á þá sáttafundi sem sáttamaður boðar til. Veita skal barni, sem náð hefur nægilegum þroska, kost á að tjá sig við sáttameðferð nema telja megi að slíkt geti haft skaðleg áhrif á barnið eða sé þýðingarlaust fyrir úrslit málsins.
    Sáttamaður skal gæta þess að vera hlutlaus í máli og leitast við að draga fram þá hagsmuni sem leitt geta til þess að máli verði lokið með sátt.
    Ef foreldrum tekst ekki að gera samning gefur sáttamaður út vottorð um sáttameðferð. Heimilt er að gefa út vottorð um sáttameðferð ef foreldrar mæta ekki á sáttafund eftir að hafa fengið kvaðningu tvívegis.
    Í vottorði um sáttameðferð skal gera grein fyrir því hvernig sáttameðferð fór fram, helstu ágreiningsatriðum, afstöðu aðila og sjónarmiðum barns nema það sé talið ganga gegn hagsmunum barnsins. Þeim sem sinnir sáttameðferð er skylt að gæta þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt skulu fara skv. 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Brot á þagnarskyldu varðar refsingu skv. XIV. kafla almennra hegningarlaga.
    Vottorð um sáttameðferð er gilt í sex mánuði eftir útgáfu.
    Ákvæði þetta gildir einnig um aðra en foreldra sem geta gert kröfu um forsjá, umgengni eða dagsektir.
    Ráðherra setur nánari reglur um sáttameðferð, svo sem um hæfi sáttamanna, framkvæmd og vottorð um sáttameðferð.

13. gr.

    34. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Dómur um forsjá, lögheimili barns o.fl.


    Þegar foreldra greinir á um forsjá eða lögheimili barns sker dómari úr málinu með dómi hafi sátt ekki tekist. Ef foreldrar leita skilnaðar fyrir dómi leysir dómari um leið úr ágreiningi um forsjá eða lögheimili . Sýslumaður getur veitt leyfi til skilnaðar hjóna þótt ágreiningsmál um forsjá eða lögheimili barns þeirra sé rekið fyrir dómi.
    Dómari kveður á um hvernig forsjá barns verði háttað eftir því sem barni er fyrir bestu. Dómari lítur m.a. til hæfis foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska.
     Dómari getur ákveðið að annað foreldra fái forsjá barns. Þá getur dómari ákveðið að kröfu foreldris að forsjáin verði sameiginleg ef dómari telur þær aðstæður fyrir hendi að slíkt geti þjónað hagsmunum barnsins. Ef dómari dæmir sameiginlega forsjá ber jafnframt að kveða á um hjá hvoru foreldra barn skuli eiga lögheimili. Í máli um lögheimili barns kveður dómari á um hjá hvoru foreldra barn skuli eiga lögheimili.
    Við mat á því hvort forsjá skuli vera sameiginleg ber dómara, auk atriða sem nefnd eru í 2. mgr., að taka mið af því hvort forsjáin hafi áður verið sameiginleg og aldri og þroska barns. Þá ber sérstaklega að líta til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði.
    Í ágreiningsmáli um forsjá barns ber dómara að kröfu annars foreldris eða beggja að kveða á um meðlag í dómi, sem og um inntak umgengnisréttar barns og foreldris og kostnað vegna umgengni, hafi sátt ekki tekist um þessi efni, enda hafi krafa um það verið gerð í stefnu eða greinargerð stefnda. Um ákvörðun dómara um umgengni gilda ákvæði 1.–4. mgr. 47. gr. og 47. gr. b.
    Um meðferð þessara mála fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum VI. kafla.
    Dómari skal senda Þjóðskrá Íslands upplýsingar um niðurstöðu máls um forsjá barns á eyðublaði sem hún leggur til.

14. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Í máli um forsjá eða lögheimili barns hefur dómari heimild til að úrskurða til bráðabirgða að kröfu aðila hvernig fara skuli um forsjá þess eða lögheimili eftir því sem barni er fyrir bestu.
     b.      Í stað orðsins „forsjármáli“ í 1. málsl. 4. mgr. og orðsins „forsjármál“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: máli um forsjá eða lögheimili barns; og: mál um forsjá eða lögheimili barns.
     c.      Í stað orðanna „ákveða skal forsjá“ í 6. mgr. kemur: ákveða skal forsjá, lögheimili.
     d.      Í stað orðanna „dómur um forsjá“ í 1. málsl. 8. mgr. kemur: dómur um forsjá eða lögheimili.
     e.      Í stað „6. mgr. 34. gr.“ í 9. mgr. kemur: 7. mgr. 34. gr.
     f.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Úrskurður til bráðabirgða um forsjá, lögheimili barns o.fl.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „um forsjá barns“ í 1. mgr. og 1. málsl. 4. mgr. kemur: um forsjá eða lögheimili barns.
     b.      Í stað orðanna „Um forsjárþátt málsins“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: Við ákvörðun um forsjá eða lögheimili barns.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „vegna forsjár barns“ í 1. mgr. kemur: vegna forsjár eða lögheimilis barns.
     b.      Í stað orðsins „forsjármáli“ í 2. mgr. kemur: máli um forsjá eða lögheimili barns.
     c.      Í stað orðsins „forsjármáls“ í 3. mgr. kemur: máls um forsjá eða lögheimili barns.

17. gr.

    Fyrirsögn VI. kafla laganna verður: Dómsmál vegna ágreinings um forsjá eða lögheimili barns.

18. gr.

    40. gr. laganna orðast svo:
    Dómari skal á öllum stigum máls meta hvort líklegt er að sættir náist og leggja sitt af mörkum til að sætta mál með tilliti til hagsmuna barns.
    Dómari getur leitað til sérfræðings eftir aðstoð við sáttaumleitan eða ákveðið að sátta verði leitað milli aðila eftir ákvæði 33. gr. a.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Öllum þeim sem dómari leitar til ber að láta honum endurgjaldslaust í té afrit af gögnum sem dómari telur nauðsynleg fyrir úrlausn málsins.
     b.      Við 2. málsl. 3. mgr. bætist: og getur mælt svo fyrir að matsmaður hafi heimild til að afla gagna skv. 2. mgr.
     c.      Á eftir 2. málsl. 3. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Dómari getur einnig hafnað kröfu um dómkvaðningu eða kröfu um yfirmat enda telji hann öflun sérfræðilegrar álitsgerðar ganga gegn hagsmunum barns eða augljóslega óþarfa.

20. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „forsjánni verði komið á“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: lögheimili eða forsjá verði komið á.
     b.      Í stað 2. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Við meðferð málsins ber dómara að gæta ákvæða 43. gr. og getur dómari hafnað aðfararbeiðni ef varhugavert verður talið að gerðin nái fram að ganga með tilliti til hagsmuna barns. Fer um málsmeðferð að öðru leyti samkvæmt ákvæðum 13. kafla laga um aðför.
     c.      Á eftir orðunum „fulltrúa barnaverndarnefndar“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: í umdæmi þar sem aðför fer fram.
     d.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Framkvæmd ákvörðunar um forsjá eða lögheimili.

21. gr.

     Fyrirsögn VII. kafla laganna verður: Framkvæmd ákvörðunar um forsjá eða lögheimili.

22. gr.

    46. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Umgengni við foreldri.


    Barn á rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Með umgengni er átt við samveru og önnur samskipti. Þegar foreldrar búa ekki saman hvílir sú skylda á þeim báðum að grípa til þeirra ráðstafana sem við verður komið til að tryggja að þessi réttur barnsins sé virtur.
    Foreldri sem barn býr ekki hjá á í senn rétt og ber skylda til að rækja umgengni við barn sitt. Foreldri sem barn býr hjá er skylt að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt nema hún sé andstæð hag og þörfum barns að mati dómara eða lögmælts stjórnvalds.
    Foreldri sem nýtur umgengni er heimilt að taka þær nauðsynlegu ákvarðanir um daglegt líf barnsins sem fylgja umgengninni. Foreldri sem barn býr hjá ber að tryggja að foreldri sem nýtur umgengni fái nauðsynlegar upplýsingar til þess að umgengnin þjóni hag og þörfum barnsins.
    Foreldrar geta samið um hvernig skipa skuli umgengnisrétti, þ.m.t. hvort greiði kostnað vegna umgengni, enda fari sú skipan ekki í bága við hag og þarfir barnsins.
    Foreldrar geta óskað staðfestingar sýslumanns á samningi skv. 4. mgr. Sýslumaður skal leiðbeina þeim um réttaráhrif samnings. Sýslumaður getur synjað um staðfestingu samnings ef hann er andstæður hag og þörfum barns.

23. gr.

    Á eftir 46. gr. laganna kemur ný grein, 46. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Umgengni við aðra.


    Ef annað foreldra barns er látið eða bæði, foreldri er ókleift að rækja umgengnisskyldur sínar við barn eða foreldri nýtur verulega takmarkaðrar umgengni á barnið rétt á umgengni við nána vandamenn þess foreldris eða aðra nákomna barni, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið.
    Ákvæði 2. málsl. 1. mgr. og 3.–5. mgr. 46. gr. eiga við um umgengni skv. 1. mgr.

24. gr.

    47. gr. laganna orðast svo:
    Ef foreldra greinir á um umgengni tekur sýslumaður ákvörðun um umgengni samkvæmt þessari grein með úrskurði. Ákvörðun skal ávallt tekin eftir því sem barni er fyrir bestu. Sýslumaður lítur m.a. til tengsla barns við báða foreldra, aldurs barns, stöðugleika í lífi barns, búsetu foreldra og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska. Þá ber sýslumanni að meta hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og líta sérstaklega til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði. Ef sýslumaður telur að umgengni barns við foreldri sé andstæð hag og þörfum þess getur hann kveðið svo á að umgengnisréttar njóti ekki við.
    Sýslumaður úrskurðar um inntak umgengnisréttar, skilyrði og hversu honum verði beitt. Sýslumaður getur einnig hafnað því að ákveða inntak umgengnisréttar ef slík úrlausn þykir barni fyrir bestu.
    Heimilt er þegar sérstaklega stendur á að úrskurða um umgengni allt að 7 daga af hverjum 14 dögum.
    Þegar sérstök ástæða er til getur sýslumaður mælt svo fyrir í úrskurði að umgengni skuli fara fram undir eftirliti sérfræðings í málefnum barna.
    Sýslumaður getur breytt eða fellt úr gildi úrskurð eða samning um umgengni ef slík úrlausn þykir barni fyrir bestu. Þá getur hann hafnað því að breyta ákvörðun um umgengni ef slík úrlausn þykir barni fyrir bestu.
    Þótt inntak umgengnisréttar hafi verið ákveðið með dómi eða dómsátt, sbr. 34. gr., hefur sýslumaður sömu heimildir til breytinga á þeirri skipan og hefði hún verið ákveðin með úrskurði hans.
    Sýslumaður úrskurðar með sama hætti um umgengni barns við nána vandamenn eða aðra nákomna skv. 46. gr. a enda verði umgengni talin til hagsbóta fyrir barnið. Leita skal umsagnar þess foreldris sem á umgengnisrétt við barn þegar við á.
    Um meðferð mála samkvæmt þessari grein fer samkvæmt ákvæðum XI. kafla.

25. gr.

    Á eftir 47. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 47. gr. a og 47. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (47. gr. a.)

Úrskurður sýslumanns til bráðabirgða um umgengni.


    Í máli um umgengni hefur sýslumaður heimild til að úrskurða skv. 47. gr. til bráðabirgða að kröfu aðila hvernig fara skuli um umgengni eftir því sem barni er fyrir bestu. Heimilt er að ákveða að úrskurður til bráðabirgða gildi í tiltekinn tíma eða gildi þar til máli er ráðið endanlega til lykta.
    Nú hefur umgengnismáli eigi verið ráðið til lykta og getur sýslumaður þá, að kröfu málsaðila, kveðið svo á í úrskurði að ekki megi að óloknu máli fara með barnið úr landi. Sýslumaður skal þegar í stað senda úrskurð um farbann til embættis ríkislögreglustjóra.
    Breyta má úrskurði skv. 1. og 2. mgr. vegna sérstakra ástæðna þyki það vera barni fyrir bestu.
    Heimilt er að kæra úrskurð sýslumanns skv. 1.–3. mgr. til ráðherra innan tveggja vikna frá dagsetningu hans.
    Úrskurður skv. 1.–3. mgr. bindur ekki hendur sýslumanns þegar umgengni er ákveðin skv. 47. gr.
    Sýslumaður verður ekki vanhæfur til að leysa úr máli skv. 47. gr. af þeirri ástæðu einni að hann hefur kveðið upp úrskurð skv. 1.–3. mgr.
    Úrskurður skv. 1.–3. mgr. fellur sjálfkrafa niður þegar úrskurður um umgengni er kveðinn upp. Þetta gildir þó ekki hafi sýslumaður ákveðið að kæra úrskurðar fresti réttaráhrifum hans. Þegar svo stendur á fellur úrskurðurinn sjálfkrafa niður þegar annaðhvort kærufrestur skv. 78. gr. er liðinn eða úrskurður ráðherra liggur fyrir.

    b. (47. gr. b.)

Úrskurður sýslumanns um kostnað vegna umgengni.


    Ef foreldra greinir á úrskurðar sýslumaður, að kröfu foreldris, um skiptingu kostnaðar af ferðum barns í tengslum við umgengni.
    Við úrlausn máls skv. 1. mgr. skal almennt miða við að foreldri sem nýtur umgengni greiði kostnað vegna umgengninnar. Sýslumaður getur þó ákveðið að foreldri sem barn býr hjá greiði að nokkru eða öllu leyti kostnað vegna umgengni með hliðsjón af fjárhagslegri og félagslegri stöðu og högum beggja foreldra svo og atvikum máls að öðru leyti.
    Gera má fjárnám fyrir kostnaði vegna umgengni á grundvelli úrskurðar sýslumanns eða samnings foreldra staðfests af sýslumanni.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 48. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „fulltrúa barnaverndarnefndar“ í 3. mgr. kemur: sérfræðings.
     b.      1. málsl. 4. mgr. fellur brott.
     c.      Við 6. mgr. bætist: eða ef aðför til að koma á umgengni nær ekki fram að ganga.

27. gr.

    49. gr. laganna orðast svo:
    Gera má fjárnám fyrir dagsektum samkvæmt kröfu þess sem tálmað er að njóta umgengnisréttar og renna þær í ríkissjóð.
    Kröfu skal beint til sýslumanns sem sér um að beina greiðsluáskorun til gerðarþola. Ef gerðarþoli lætur ekki af tálmunum sendir sýslumaður aðfararbeiðni til héraðsdóms. Að fenginni áritun héraðsdómara ákveður sýslumaður svo fljótt sem verða má hvar og hvenær fjárnám fari fram og tilkynnir gerðarbeiðanda og gerðarþola um ákvörðun sína. Ekki verður af fjárnámi nema gerðarbeiðandi sé sjálfur viðstaddur gerðina.
    Ákvæði þetta gildir einnig um aðrar fullnustugerðir eftir því sem við á. Um aðför til að koma á umgengni gildir þó ákvæði 50. gr., sbr. 45. gr.
    Um meðferð máls og framkvæmd fullnustugerða samkvæmt þessari grein gilda að öðru leyti ákvæði aðfararlaga eða laga um viðeigandi fullnustugerðir.
    Ekki skal greiða gjald í ríkissjóð eða kostnað vegna meðferðar kröfu samkvæmt þessari grein.

28. gr.

     50. gr. laganna orðast svo:
    Tálmi forsjármaður umgengni þrátt fyrir úrskurð um dagsektir og fjárnám fyrir ógreiddum dagsektum getur héraðsdómari, að kröfu þess sem rétt á til umgengni við barn, heimilað að henni verði komið á með aðfarargerð.
    Dómari getur, að kröfu þess sem rétt á til umgengni við barn, úrskurðað að umgengni verði komið á með aðför í eitt skipti eða að umgengni á vissu tímabili verði komið á með aðfarargerð.
    Ekki verður af aðför nema gerðarbeiðandi sé sjálfur viðstaddur gerðina.
    Um meðferð máls og framkvæmd aðfarar gilda að öðru leyti ákvæði 45. gr.

29. gr.

    51. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Fyrirhugaður flutningur lögheimilis.


    Þegar annað foreldra á umgengnisrétt við barn samkvæmt samningi, úrskurði, dómi eða dómsátt ber hvoru foreldri að tilkynna hinu með minnst sex vikna fyrirvara ef foreldri hyggst flytja lögheimili sitt og/eða barnsins hvort sem er innan lands eða utan.
    Ákvæði 3. mgr. 28. gr. a gildir einnig um för með barn úr landi þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá.

30. gr.

    Á eftir 51. gr. laganna bætist við ný grein, 51. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Úrskurður sýslumanns um utanlandsferð.


    Ef foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barns greinir á um utanlandsferð barns úrskurðar sýslumaður, að kröfu foreldris, um rétt til að fara í ferðalag með barn úr landi.
    Við úrlausn máls skv. 1. mgr. skal m.a. líta til tilgangs ferðar, tímalengdar og áhrifa á umgengni.
    Um meðferð mála samkvæmt þessari grein fer samkvæmt ákvæðum XI. kafla.

31. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 52. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „upplýsingar“ í 1. mgr. kemur: munnlegar upplýsingar.
     b.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Það foreldri sem ekki hefur forsjá barns á rétt á að fá aðgang að skriflegum gögnum um barnið frá skólum og leikskólum.
     c.      Á eftir 1. málsl. 2. mgr. bætist við nýr málsliður, svohljóðandi: Það foreldri á einnig rétt á að fá munnlegar upplýsingar um barnið frá öðrum aðilum sem fara með mál þess, svo sem sjúkrahúsum, heilsugæslu- og félagsmálastofnunum, félagsmálanefndum, barnaverndarnefndum og lögreglu.

32. gr.

    2. mgr. 53. gr. laganna orðast svo:
    Skylt er stjúp- og sambúðarforeldri að framfæra stjúpbarn sitt svo sem eigið barn þess væri meðan hjúskapur eða sambúð stendur, ef það fer með forsjá þess skv. 29. gr. a. Hið sama á við ef stjúp- eða sambúðarforeldri fer með forsjá barns eftir skilnað eða sambúðarslit ef annað kynforeldra barns er látið.

33. gr.

    Orðin „í ágreiningsmálum um umgengni“ í 4. mgr. 71. gr. laganna falla brott.

34. gr.

    3. mgr. 72. gr. laganna orðast svo:
    Ef aðilar máls sinna eigi kvaðningum eða tilmælum sýslumanns um gagnaöflun, sbr. 70. gr., þá ber öllum þeim sem sýslumaður leitar til að láta honum endurgjaldslaust í té afrit af gögnum sem hann telur nauðsynleg fyrir úrlausn málsins.

35. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 73. gr. laganna:
     a.      Orðin „eða aðili sinni ekki ítrekuðum kvaðningum sýslumanns“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      2. mgr. fellur brott.

36. gr.

    74. gr. laganna orðast svo:
    Sýslumaður getur á öllum stigum máls leitað liðsinnis sérfræðings í málefnum barna. Sýslumaður getur m.a. falið sérfræðingi að kynna sér viðhorf barns eða foreldris og gefa skýrslu um það. Þá getur sýslumaður falið sérfræðingi að gefa umsögn um tiltekin álitaefni þegar ástæða þykir til og getur mælt svo fyrir að sérfræðingur hafi í þessu skyni heimild til að afla gagna skv. 3. mgr. 72. gr.
    Ef þörf er á skal sýslumaður tilkynna barnaverndarnefnd um aðstæður barns. Ber barnaverndarnefnd að taka málið til meðferðar á grundvelli ákvæða barnaverndarlaga og beita viðeigandi úrræðum til stuðnings barni þegar það á við.

37. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2013.
    Lög þessi gilda um öll börn óháð því hvort þau eru fædd fyrir eða eftir gildistöku laganna nema annað sé tekið fram.
    Ákvæði 7. gr. um forsjá stjúp- og sambúðarforeldra gildir ekki í þeim tilvikum þegar stjúp- eða sambúðarforeldri fer við gildistöku laga þessara þegar með forsjá barns eftir ákvæðum eldri laga.
    Dómsmál sem hafa verið þingfest fyrir 1. janúar 2013 en hefur ekki verið lokið skulu rekin og dæmd eftir ákvæðum eldri laga. Hið sama gildir ef úrskurður í slíku máli er kærður til Hæstaréttar eða dómi áfrýjað.
    Um meðferð og úrlausn stjórnsýslumála sem komið hafa til meðferðar hjá sýslumönnum fyrir 1. janúar 2013 en hefur ekki verið lokið skal fara samkvæmt ákvæðum eldri laga. Hið sama gildir ef úrskurður í slíku máli er kærður til ráðherra.
    Beita skal lögum þessum um endurupptöku mála þótt þau hafi verið dæmd fyrir gildistöku laganna. Hið sama gildir um endurupptöku stjórnsýslumála.