Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 468. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1454  —  468. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006 (sjálfstæði
og lýðræði í háskólum, réttindi fatlaðra nemenda).

(Eftir 2. umræðu, 1. júní.)


1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Við 3. málsl. 1. mgr. bætist: með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.
     b.      Í stað orðsins „vísindalegra“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: fræðilegra.
     c.      Á eftir 1. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Háskóli undirbýr nemendur til ábyrgrar þátttöku í lýðræðissamfélagi.
     d.      3. mgr. orðast svo:
                   Háskólar ráða skipulagi starfsemi sinnar og ákveða hvernig henni er best fyrir komið.

2. gr.

    Á eftir 2. gr. laganna kemur ný grein, 2. gr. a, svohljóðandi:
    Háskólum er skylt að virða fræðilegt sjálfstæði starfsmanna sinna. Fræðilegt sjálfstæði starfsmanna felur í sér rétt þeirra til að fjalla um kennslugrein sína á þann hátt sem þeir telja skynsamlegt og í samræmi við fræðilegar kröfur. Fræðilegt sjálfstæði dregur ekki úr ábyrgð starfsmanna á að fara að almennum starfsreglum og siðareglum viðkomandi háskóla. Viðfangsefni rannsókna og kennslu á einstökum fræðasviðum háskóla skulu vera óháð afskiptum þeirra sem eiga skólann eða leggja honum til fé.
    Háskólar skulu setja sér siðareglur, m.a. um réttindi og skyldur starfsmanna skv. 1. mgr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Orðið „hlutafélag“ í 1. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Háskóli skal ekki rekinn með fjárhagslegan ágóða að markmiði.
     c.      Í stað orðanna „hæfni og færni“ í h-lið 3. mgr. kemur: leikni og hæfni.
     d.      Við 4. mgr. bætist: og undirflokka þeirra.
     e.      Við 8. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Engri stofnun er heimilt að starfa á Íslandi undir heitinu háskóli nema hún hafi hlotið viðurkenningu ráðherra.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „hæfni og færni“ í 2. og 4. málsl. kemur: leikni og hæfni.
     b.      Lokamálsliður greinarinnar fellur brott.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. 2. mgr. bætist: og undirflokka þeirra.
     b.      Fyrri málsliður 3. mgr. fellur brott.
     c.      5. mgr. fellur brott.

6. gr.

    2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
    Við undirbúning og skipulagningu nýrra námsleiða skal háskóli senda ráðuneytinu upplýsingar um hvernig námið uppfyllir viðmið um æðri menntun og prófgráður skv. 5. gr.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. bætist: og námsleiða.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Með þeim hætti skulu háskólar á Íslandi leitast við að vinna saman til að nýta sem best opinberar fjárveitingar og styrkja stöðu sína á alþjóðlegum vettvangi.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „öðrum háskólum“ í 1. málsl. kemur: öðrum viðurkenndum háskólum og rannsóknastofnunum.
     b.      Í stað orðanna „háskólum heimilt að meta til eininga nám“ í 2. málsl. kemur: háskólum heimilt í undantekningartilvikum að meta til eininga námskeið.
     c.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Farið skal að alþjóðlegum samningum um viðurkenningu á háskólamenntun og hæfi sem íslensk stjórnvöld eru aðilar að.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „umsýslu“ í 1. mgr. kemur: umsjón.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er heimilt að setja reglur um fyrirkomulag ytra mats á háskólum.
     c.      2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Að því mati skulu koma óháðir sérfræðingar og fulltrúi nemenda.

10. gr.

     1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
    Yfirstjórn háskóla er falin háskólaráði og rektor eftir því sem nánar er kveðið á um í sérlögum, skipulagsskrá, samþykktum eða öðrum stofnskjölum háskóla. Í stjórnskipulagi háskóla skal gert ráð fyrir setu nemenda og kennara í þeim stjórnunareiningum þar sem fjallað er um kennslu, rannsóknir og gæðamál. Rektor skal uppfylla kröfur 1. mgr. 18. gr. sem háskólakennari á einu eða fleiri viðurkenndum fræðasviðum viðkomandi háskóla.

11. gr.

     16. gr. laganna orðast svo:
    Yfirstjórn háskóla skal tryggja að fulltrúar kennara, nemenda og annars starfsliðs geti tekið þátt í ráðgefandi vettvangi um fagleg málefni innan háskólans sem og tekið þátt í fræðilegri stefnumótun.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Þeir sem bera framangreind starfsheiti skulu hafa þekkingu og reynslu í samræmi við alþjóðleg viðmið fyrir viðkomandi starfsheiti á þeirra fræðasviði, staðfest með áliti dómnefndar eða með doktorsprófi frá viðurkenndum háskóla.
     b.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Í dómnefndir má skipa þá eina sem lokið hafa doktorsprófi úr háskóla eða aflað sér jafngildrar þekkingar og reynslu.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Í reglugerð sem ráðherra gefur út er heimilt að mæla fyrir um samræmt fyrirkomulag innritunar á landsvísu, meðferð umsókna og auglýsingu umsóknarfrests um skólavist í háskólum. Áður en reglugerðin er gefin út skal háskólum gefinn kostur á að veita umsögn um efni hennar.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er heimilt að gefa út reglur um aðfaranám í háskólum.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Háskólar skulu veita fötluðum nemendum, sbr. 2. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, og nemendum með tilfinningalega eða félagslega örðugleika kennslu og sérstakan stuðning í námi. Látin skal í té sérfræðileg aðstoð og viðeigandi aðbúnaður eftir því sem þörf krefur. Fatlaðir nemendur skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er. Háskólar skulu jafnframt leitast við að veita þeim nemendum sérstakan stuðning sem eiga við sértæka námsörðugleika að stríða eða veikindi.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      E-liður 2. mgr. fellur brott.
     b.      3. mgr. fellur brott.

15. gr.

    1. málsl. 24. gr. laganna orðast svo: Hver háskóli skal birta opinberlega lista yfir prófgráður sem eru í boði hverju sinni.

16. gr.

    Við 25. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Háskóla er skylt að láta ráðuneytinu í té allar þær upplýsingar og gögn sem það þarfnast vegna eftirlits með starfsemi hans og fjármálum. Um skjöl háskóla fer að lögum um Þjóðskjalasafn Íslands, nr. 66/1985, með síðari breytingum. Ef starfsemi háskóla er lögð niður eða færð undir aðra stofnun skulu skjöl hans færð til Þjóðskjalasafns.

17. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Ákvæði 12. gr. eiga aðeins við um þá starfsmenn sem eru ráðnir eftir gildistöku laga þessara.

II.


    Ráðherra skal skipa nefnd til að gera tillögur í frumvarpsformi um leiðir til að auka samvinnu, verkaskiptingu og sameiningu háskóla á Íslandi. Nefndin taki m.a. til skoðunar heildarumgjörð háskólakennslu á Íslandi, rekstrarform, fjármögnun, fjölda stofnana og lagaumgjörð þeirra, með það að markmiði að nýta sem best styrkleika hvers háskóla og tryggja aukið samstarf, verkaskiptingu og hagræðingu þar sem við á. Nefndin leggi mat á hugmyndir um samstæðu háskóla og mismunandi kosti til sameiningar háskóla út frá markmiðum um aukin gæði og hagkvæmni í háskólastarfi.
    Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar. Nefndin skal skipuð einum fulltrúa hvers þingflokks sem á sæti á Alþingi og skulu nefndarmenn vera sérfróðir um málefni háskóla. Nefndin skal í störfum sínum hafa samráð við samstarfsnefnd háskólastigsins og leita ráðgjafar sérfróðra aðila um háskólamál. Nefndin skal skila ráðherra tillögum sínum fyrir 1. nóvember 2012.