Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 290. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 1474  —  290. mál.
Undirskrift.

3. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum (forsjá og umgengni).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju og fengið á sinn fund Gísla Björnsson og Þorvald Daníelsson.
    Fram hafa komið athugasemdir við 23. gr. frumvarpsins sem kveður á um að við lögin bætist ný grein, 46. gr. a, þar sem fram komi að ef annað foreldri barns er látið eða bæði, foreldri er ókleift að rækja umgengnisskyldur sínar við barn eða foreldri nýtur verulegrar takmarkaðrar umgengni, á barnið rétt á umgengni við nána vandamenn þess foreldris eða aðra nákomna barni, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Í 24. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 47. gr. laganna sem fjallar um úrskurð sýslumanns um umgengni. Lagt er til að í 7. mgr. verði kveðið á um að sýslumaður geti með sama hætti úrskurðað um umgengni barns við nána vandamenn eða aðra nákomna barni skv. 46. gr. a enda verði umgengni talin til hagsbóta fyrir barnið. Þá er lagt til að leita skuli umsagnar þess foreldris sem á umgengnisrétt við barn þegar við á.
    Í umsögn sem borist hefur velferðarnefnd og á fundi nefndarinnar með umsagnaraðila kom fram að með fyrrgreindri breytingu sé verið að breyta lágmarksumgengni barns við foreldri, og víkka út aðildina að þessum rétti, þannig að nánir aðstandendur, aðrir en foreldri sem getur ekki sinnt umgengni sinni við barn, geti fengið aðgang að þessum rétti barna og krafist úrskurðar þar um fyrir sýslumanni. Þá er vísað til þess að skylda foreldra til að sinna börnum sínum sé stjórnarskrárvarin.
    Af þessu tilefni telur nefndin rétt að fjalla um þetta atriði. Í athugasemdum við 23. gr. frumvarpsins kemur fram að með ákvæðinu sé kveðið með skýrum hætti á um rétt barns til umgengni við nákomna aðra en foreldri. Þá kemur fram að efnislega leiði þetta af 3. mgr. 47. gr. gildandi laga þar sem fram kemur að sýslumaður geti úrskurðað um umgengni barns að kröfu náinna vandamanna þess foreldris sem er ókleift að rækja uppeldisskyldur sínar. Þá kemur fram að þessi möguleiki náinna vandamanna hljóti að grundvallast á rétti og hagsmunum barns. Með 23. gr. frumvarpsins er því ekki lögð til efnisleg breyting á ákvæðum barnalaga um umgengni við nákomna ættingja þegar foreldri getur ekki rækt umgengnisskyldu sína. Hins vegar er með ákvæðinu lögð til sú jákvæða breyting að kveðið verði skýrt á um það í lögum að barnið eigi rétt til umgengninnar en ekki aðeins að nánir vandamenn geti óskað úrskurðar sýslumanns þar um. Með breytingunni er því verið að styrkja rétt barns með hliðsjón af því sem er barni fyrir bestu, sem er í anda þeirra breytinga á barnalögum sem lagðar eru til með frumvarpinu, en ekki er verið að breyta umgengni náinna vandamanna þannig að þeir geti í einhverjum tilfellum erft umgengnisrétt kynforeldris. Á umgengni kynforeldris og umgengni barns við nána vandamenn er grundvallarmunur sem endurspeglast í síðasta málslið ákvæðisins þar sem fram kemur að barn eigi rétt á umgengninni enda verði það talið til hagsbóta fyrir barn. Með þessu er sérstaklega kveðið á um að rétti barns til umgengni við nána vandamenn er ekki hægt að jafna við rétt barns til umgengni við kynforeldra. Í 22. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 46. gr. laganna og í 1. mgr. kemur fram að barn eigi rétt á umgengni við foreldri sem það býr ekki hjá, enda verði það ekki talið andstætt hagsmunum barns. Af þessu sést að um ólík skilyrði er að ræða en nefndin telur þó vert að taka fram að þessi sjónarmið hafa hingað til legið til grundvallar í umgengnismálum en með frumvarpinu er lagt til að þessi ólögfestu sjónarmið verði lögfest með vísan til skýrleika.
    Nefndin telur afar mikilvægt að það komi skýrt fram að ekki beri að túlka 22. gr. frumvarpsins á þá leið að um sé að ræða að nánir vandamenn geti erft umgengni kynforeldris eða að ákvæðið kveði með einhverjum hætti á um rétt náinna vandamanna til lágmarksumgengni við barn samkvæmt ákvörðun sýslumanns. Nefndin leggur áherslu á að með ákvæðinu er ekki lögð til efnisleg breyting á gildandi rétti. Til grundvallar beitingu þess ber, hér eftir sem hingað til, alltaf að hafa hagsmuni barns að leiðarljósi.
    Þá telur nefndin vert að taka fram að vernd auðkenna barns og möguleikar þess á að þekkja ættingja sína og uppruna sinn er réttur sem er varinn af 71. gr. stjórnarskrárinnar. Með því að tryggja rétt barnsins til umgengni við nána ættingja sína í sérstökum tilvikum, verði það talið barni til hagsbóta, er styrktur réttur barnsins að þessu leyti. Þá telur nefndin rétt að benda á að aðrir umsagnaraðilar fögnuðu því sérstaklega að kveðið yrði skýrt á um rétt barns til umgengni við nána ættingja í þeim tilvikum sem foreldri getur ekki sinnt umgengninni.
    Að öllu framangreindu virtu telur nefndin ekki þörf á því að ákvæðinu verði breytt og leggur því til að málið verði samþykkt.
    Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.
    Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 1. júní 2012.



Álfheiður Ingadóttir,


form.


Guðmundur Steingrímsson,


frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.



Lúðvík Geirsson.


Valgerður Bjarnadóttir.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.



Unnur Brá Konráðsdóttir.


Eygló Harðardóttir.