Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 666. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1572  —  666. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt,
með síðari breytingum (undanþágur, endurgreiðslur o.fl.).


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Guðmundsson, Hlyn Ingason og Ögmund Hrafn Magnússon frá fjármálaráðuneyti, Hörð Davíð Harðarson frá tollstjóra, Elínu Ölmu Arthúrsdóttur og Óskar Albertsson frá ríkisskattstjóra, Tryggva Þórhallsson og Gunnlaug Júlíusson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Runólf Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Soffíu Eydísi Björgvinsdóttur frá KPMG, Jónu Björk Guðnadóttur, Ingibjörgu Árnadóttur og Kristínu Elfu Ingólfsdóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Özur Lárusson og Sverri V. Hauksson frá Bílgreinasambandinu, Jón Björn Skúlason frá Íslenskri NýOrku, Dofra Hermannsson frá Metanorku og Sigurð Ástgeirsson frá Íslenska Gámafélaginu og Gunnar V. Sveinsson, Rúnar Garðarsson og Kristján Daníelsson frá Samtökum ferðaþjónustu. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Bílgreinasambandinu, Even hf., KPMG, ríkisskattstjóra, Samtökum ferðaþjónustunnar og Viðskiptaráði Íslands.

Meginefni frumvarpsins.
    Tilgangur frumvarpsins er að meginstefnu til tvíþættur. Í fyrsta lagi er lagt til að sveitarfélög og stofnanir eða félög alfarið í eigu þeirra á sviði brunavarna, brunamála eða mengunarvarna fái heimild til fullrar endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna innflutnings eða kaupa á tilgreindum ökutækjum og tækjabúnaði sem notaður er við rækslu umræddra starfa. Tilurð þessarar breytingar má rekja til samkomulags ríkis og sveitarfélaga frá 5. október 2011 þar sem ákveðið var að breyta því endurgreiðslufyrirkomulagi sem unnið er eftir í dag. Kemur fram í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu að sveitarfélögin hafi hingað til sótt um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna slökkvibúnaðar á grundvelli heimilda í fjárlögum en að það fyrirkomulag þyki ekki lengur heppilegt, m.a. vegna tafa sem það hefur í för með sér. Lagt er til að fyrirkomulagið verði fært til samræmis við það sem í gildi er við afgreiðslu beiðna frá björgunarsveitunum og öðrum sem njóta slíkra ívilnana auk þess sem réttur sveitarfélaga til endurgreiðslna er aukinn lítillega.
    Í annan stað er lagt til að við innflutning eða skattskylda sölu nýrra rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða verði heimilt að fella niður virðisaukaskatt að greindum skilyrðum. Heimildin er tímabundin og gildi til loka næsta árs og er markmið hennar að flýta og efla orkuskipti í samgöngum.
    Sá háttur sem hafður er á við niðurfellingu skattsins á að vera mismunandi eftir því hvort um tollafgreiðslu eða skattskylda sölu ræðir. Við tollafgreiðslu skal vera heimilt að miða útreikning skattsins við lækkað tollverð sem að hámarki getur verið 6.000.000 kr. vegna rafmagns- og vetnisbifreiðar og 4.000.000 kr. vegna tengiltvinnbifreiðar en við skattskylda sölu slíkra bifreiða á skattaðila að vera heimilt að undanþiggja frá skattskyldri veltu fjárhæðir allt að þeim sem að framan greinir.
    Samfara gildistöku gerir frumvarpið ráð fyrir að ákvæði til bráðabirgða XI falli úr gildi en samkvæmt því eiga þeir sem flytja inn vetnisbifreiðar í rannsóknarskyni, svo og sérhæfða varahluti í þær, rétt til fullrar endurgreiðslu virðisaukaskatts að greindum skilyrðum. Að óbreyttu hefði ákvæðið átt að falla úr gildi í lok þessa árs.
    Í frumvarpinu er loks að finna ýmsar breytingar á virðisaukaskattslögum sem lúta fyrst og fremst að lagfæringu tilgreindra ákvæða sem ekki er ætlað að hafa efnislega þýðingu.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir í garð frumvarpsins og sammála því markmiði að styðja við þróun umhverfisvænna farartækja. Rædd voru möguleg áhrif skattalegra ívilnana á innflutning rafmagns- og vetnisbifreiða og tengiltvinnbifreiða í ljósi þeirra áætlana um tekjutap ríkisins sem byggt er á í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Nefndin ræddi einnig hver möguleg þróun gæti orðið á þessu sviði á næstu árum og um skynsemi þess að gert sé upp á milli tæknilegra lausna í löggjöf.
    Við umfjöllun málsins skiptust fulltrúar ríkisskattstjóra og fulltrúar tollstjóra á skoðunum um hvort skynsamlegt væri að byggja aðferð við niðurfellingu virðisaukaskatts við tollafgreiðslu rafmagns- eða vetnisbifreiða og tengiltvinnbifreiða á lækkun skattstofns, þ.e. tollverðsins, eins og gert er í 10. gr. frumvarpsins. Tollstjóri gagnrýndi þessa aðferð og telur að lækkun tollverðsins við slíkar kringumstæður falli almennt illa að tollkerfum embættisins þar sem tollverð liggi til grundvallar útreikningi ýmissa opinberra gjalda.
    Nefndin leggur til breytingu á 1. og 2. efnismgr. 10. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að miðað verði við lækkun álagðs virðisaukaskatts í stað lækkaðs tollverðs. Felur hún í sér að tollstjóra verði heimilt við tollafgreiðslu að fella niður virðisaukaskatt af rafmagns- eða vetnisbifreið að hámarki 1.530.000 kr. og af tengiltvinnbifreið að hámarki 1.020.000 kr. Ríkisskattstjóri gerir ekki athugasemd við þessa breytingu sem unnin er að höfðu samráði við fjármálaráðuneyti og ætlað er að einfalda tollframkvæmd.
    Nefndin leggur jafnframt til þá breytingu að niðurfelling virðisaukaskattsins taki til innflutnings og fyrstu sölu notaðra rafmagns- eða vetnisbifreiða og tengiltvinnbifreiða með því skilyrði að ökutækið sé þriggja ára eða yngra á innflutningsdegi og söludegi miðað við fyrstu skráningu.
    Nefndin bendir á að enda þótt orðalag 10. gr. frumvarpsins gefi við fyrstu sýn tilefni til að ætla að um heimildarákvæði sé að ræða verði með hliðsjón af 40. og 77. gr. stjórnarskrár og þeim dæmum sem rakin eru í athugasemdum við frumvarpsgreinina að ganga út frá því að beiting hennar ráðist ekki af frjálsu mati skattyfirvalda heldur af hlutlægum skilyrðum, þ.e. verðmæti og eiginleikum viðkomandi ökutækja. Þá telur nefndin að stjórnarskrárákvæðin reisi því skorður að ráðherra breyti inntaki eða eðli undanþágunnar með einföldum reglugerðarbreytingum eins og virðist mega ráða af orðalagi 1. tölul. 4. efnismgr. 10. gr. frumvarpsins.
    Í umsögn Samtaka ferðaþjónustu var þess m.a. farið á leit að ákvæði til bráðabirgða X í lögum um virðisaukaskatt yrði markaður gildistími fram á mitt ár 2014. Ákvæðið kveður á um heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða og almenningsvagna til þeirra sem leyfi hafa til fólksflutninga í atvinnuskyni. Telja samtökin að breytingin auðveldi hópbifreiðafyrirtækjum að ákvarða og skipuleggja endurnýjun bílaflotans sem jafnan fer fram yfir vetrarmánuðina. Að höfðu samráði við fjármálaráðuneytið leggur nefndin til að gildistími ákvæðisins verði framlengdur til loka næsta árs en að óbreyttu fellur það úr gildi um næstu áramót.
    Í umsögn KPMG er vakin athygli á því að í lokamálsgrein 5. gr. og 6. gr. frumvarpsins sé lagt til að endurgreiðslur á grundvelli 42. og 43. gr. virðisaukaskattslaga verði háðar því skilyrði að seljandi þeirrar þjónustu eða vöru sem endurgreiðslan varðar sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskiptin eiga sér stað. Ríkisskattstjóri telur að ákvæðin séu til þess fallin að styrkja skattframkvæmdina en að mati félagsins eru slíkar kröfur ekki viðeigandi öllum tilvikum, til að mynda þegar fólk leggur í kostnað við viðhald íbúðarhúsnæði.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      1. og 2. efnismgr. 10. gr. orðist svo:
                  Við innflutning og skattskylda sölu nýrrar rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar er heimilt að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki eins og nánar er kveðið á um í ákvæði þessu. Ákvæði þetta skal jafnframt gilda um niðurfellingu virðisaukaskatts við innflutning og fyrstu sölu notaðrar rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar enda sé ökutækið þriggja ára eða yngra á innflutningsdegi og söludegi miðað við fyrstu skráningu.
                  Tollstjóra er heimilt við tollafgreiðslu að fella niður virðisaukaskatt af rafmagns- eða vetnisbifreið að hámarki 1.530.000 kr. og af tengiltvinnbifreið að hámarki 1.020.000 kr.
     2.      Á eftir 10. gr. komi ný grein er orðist svo:
                  Í stað dagsetningarinnar ,,31. desember 2012“ í ákvæði til bráðabirgða X í lögunum kemur: 31. desember 2013.

    Tryggvi Þór Herbertsson, Birkir Jón Jónsson, Lilja Mósesdóttir og Birgir Ármannsson skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Margrét Tryggvadóttir sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og styður álitið.

Alþingi, 16. júní 2012.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Tryggvi Þór Herbertsson,


með fyrirvara.



Birkir Jón Jónsson,


með fyrirvara.


Lilja Mósesdóttir,


með fyrirvara.


Álfheiður Ingadóttir.



Björn Valur Gíslason.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Birgir Ármannsson,


með fyrirvara.