Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 112. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1577  —  112. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsaleigubætur,
nr. 138/1997, með síðari breytingum.


Frá velferðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og borist hafa umsagnir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bláskógabyggð, Grundarfjarðarbæ, Hrunamannahreppi, Ísafjarðarbæ, Mosfellsbæ, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Stúdentaráði Háskóla Íslands og Sveitarfélaginu Árborg.
    Með frumvarpinu er ætlunin að koma til móts við tímabundinn húsnæðisvanda námsmanna með því að leggja til að skilyrði til greiðslu húsaleigubóta til námsmanna verði rýmkuð. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er biðlisti eftir leiguhúsnæði á stúdentagörðum mjög langur og ekki fyrirsjáanlegt að hann muni styttast í náinni framtíð. Nýlega hófust þó framkvæmdir við nýja stúdentagarða í Vatnsmýri en enn er nokkur tími þar til byggingu þeirra verður lokið. Þeir stúdentar sem ekki fá inni á stúdentagörðum grípa því margir til þess ráðs að leigja nokkrir saman eina íbúð þar sem hver hefur sitt herbergi. Slíkt fyrirkomulag hefur það þó í för með sér að þeir námsmenn eiga ekki rétt á húsaleigubótum þar sem húsaleigubætur greiðast almennt ekki vegna herbergjaleigu. Frá þeirri reglu er þó sú undantekning að þeir námsmenn sem leigja herbergi á stúdentagörðum eða heimavist eiga rétt á húsaleigubótum. Með frumvarpinu er lagt til að takmörkun laganna við búsetu námsmanna á námsgörðum eða stúdentagörðum verði felld brott þannig að þeir námsmenn sem deila eldunar- og salernisaðstöðu annars staðar en á stúdentagörðum geti átt rétt til greiðslu húsaleigubóta.
    Umsagnaraðilar eru almennt jákvæðir í garð frumvarpsins enda nauðsynlegt að bæta úr því ástandi sem ríkir á húsnæðismarkaði fyrir námsmenn. Líklegt er að ástandið sé aðeins tímabundið þar til nýir stúdentagarðar verða teknir í notkun og endurskoðun húsnæðisbótakerfisins verði lokið.
    Nefndin telur að frumvarpið feli í sér sanngjarna réttarbót fyrir stúdenta og leggur til að það verði samþykkt óbreytt.
    Kristján L. Möller og Ragnheiður Ríkharðsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. júní 2012.



Álfheiður Ingadóttir,


form.


Guðmundur Steingrímsson,      frsm.


Magnús M. Norðdahl.



Ólína Þorvarðardóttir.


Valgerður Bjarnadóttir.


Unnur Brá Konráðsdóttir.



Birkir Jón Jónsson.