Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 716. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1589  —  716. mál.

2. umræða.


Breytingartillaga




við frumvarp til laga um breytingu á lögum um nauðungarsölu, lögum um aðför,
lögum um meðferð einkamála og lögum um fjármálafyrirtæki (auglýsing
nauðungarsölu, mál til heimtu bóta, gjafsókn, vörslusviptingar).


Frá Magnúsi M. Norðdahl, Margréti Tryggvadóttur og Eygló Harðardóttur.



     1.      Við 4. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi:
                   c. (III.)
                  Þrátt fyrir 1. mgr. 80. gr. um frest til að leita úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu og 2. mgr. 80. gr. um samþykki þeirra sem hafa haft uppi kröfur fyrir sýslumanni er uppboðsþola heimilt að leita úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu íbúðarhúsnæðis sem uppboðsþoli hafði til afnota fyrir sig og fjölskyldu sín og sem fram hefur farið til fullnustu kröfu sem er umdeild í ljósi hæstaréttardóma um lögmæti og endurreikning gengistryggðra lána enda hafi uppboðskaupandi jafnframt verið eigandi hinnar umdeildu kröfu og er eigandi uppboðsandlags. Að kröfu uppboðsþola er nauðungarsala til fullnustu kröfu samkvæmt framansögðu ógild. Ákvæði þetta gildir til loka árs 2013.
     2.      Við 8. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Án tillits til þeirra fresta sem greindir eru í 1. mgr. 137. gr. getur þrotamaður, þrátt fyrir að útivist hafi verið af hans hálfu, krafist endurupptöku gjaldþrotaúrskurðar í máli þar sem skiptum á búi hans er ekki lokið, enda leiði hann líkur að því að greiðsluerfiðleika hans sé að rekja til gengistryggðra lána. Ákvæði þetta gildir til loka árs 2013. Ákvæði þetta á ekki við um lögaðila.
     3.      Á eftir 9. gr. komi nýr kafli, V. kafli, Breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum, með einni nýrri grein, svohljóðandi:
                  Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Þrotamanni er heimilt að leita úrlausnar héraðsdómara um gildi sölu fasteignar samkvæmt ákvörðun veðhafafundar til fullnustu kröfu sem er umdeild í ljósi hæstaréttardóma um lögmæti og endurreikning gengistryggðra lána, enda hafi kaupandi jafnframt verið eigandi hinnar umdeildu kröfu og hann er eigandi uppboðsandlags. Að kröfu þrotamanns er sala til fullnustu kröfu samkvæmt framansögðu ógild. Ákvæði þetta gildir til loka árs 2013.
     4.      Heiti frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðför, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., lögum um nauðungarsölu, lögum um meðferð einkamála og lögum um fjármálafyrirtæki (auglýsing nauðungarsölu, mál til heimtu bóta, gjafsókn, vörslusviptingar).

Greinargerð.

    Í breytingartillögu þessari er lagt til að bætt verði úr annmörkum á ákvæði til bráðabirgða XIII í lögum nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010, um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og lögum um umboðsmann skuldara. Reynt hefur á ákvæðið fyrir dómi og má þar vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 25/2012 frá 24. janúar 2012, úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. Y-10/2011 frá 22. nóvember 2011 og úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. X-20/2011 frá 22. nóvember 2011.
    Lagt er til að við frumvarpið bætist ákvæði um breytingu á lögum um nauðungarsölu, lögum um meðferð einkamála og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. Gildistími ákvæða breytingartillögunnar er til ársloka 2013 en gera má ráð fyrir að þá verði búið að leysa úr allflestum ef ekki öllum ágreiningi um gildi gengistryggðra lána.