Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 852. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 1606  —  852. mál.
Leiðréttur texti.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum (starfstími, fjárlagafrumvarp, varamenn o.fl.).

Flm.: Birgir Ármannsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ragnheiður E. Árnadóttir, Þuríður Backman, Gunnar Bragi Sveinsson, Kristján L. Möller, Magnús Orri Schram.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist: sbr. og 81. gr.
     b.      Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nefnd getur leitað úrskurðar forseta um skilning eða framkvæmd reglna sem settar hafa verið um störf nefnda.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „fjórar annir“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: þrjár annir.
     b.      Orðin „1. október“ í 1. tölul. 2. mgr. falla brott.
     c.      4. tölul. 2. mgr. fellur brott.
     d.      Í stað orðanna „starfa þingmanna í kjördæmum“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: annarra starfa þingmanna, svo sem starfa í kjördæmum.
     e.      6. mgr. fellur brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 13. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „og fjármálastarfsemi“ í 2. tölul. kemur: fjármálastarfsemi og lífeyrismál.
     b.      Í stað orðsins „lífeyrismál“ í 1. málsl. 5. tölul. kemur: lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs.
     c.      2. málsl. 5. tölul. fellur brott.
     d.      Í stað 2. málsl. 1. mgr. 8. tölul. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Enn fremur fjallar nefndin um ársskýrslu og tilkynningar umboðsmanns Alþingis, svo og um skýrslur Ríkisendurskoðunar. Meti nefndin það svo að einstakar skýrslur Ríkisendurskoðunar eigi eftir efni sínu fremur að fá athugun í annarri nefnd vísar hún þeim skýrslum þangað. Nefnd sem tekur þannig við skýrslu Ríkisendurskoðunar skilar þá áliti til þingsins eftir athugun sína á skýrslunni.

4. gr.

    Við 7. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna bætist: milli þingmanna.

5. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Formaður, eða varaformaður í forföllum hans, boðar til fundar í nefnd, ákveður dagskrá, sbr. þó 2. mgr., og stýrir fundum nefndarinnar.

6. gr.

    Við 16. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Mannaskipti í þingnefndum getur þingflokkur enn fremur haft eftir reglum 1. mgr. þótt þau varði þingmann sem hefur sagt sig úr þingflokknum enda séu þau gerð innan viku frá því að tilkynning um úrsögn úr þingflokki er tilkynnt og þingflokkurinn á hlutfallslega rétt til sætis í nefndinni, sbr. 14. gr.

7. gr.

    17. gr. laganna orðast svo:
    Um skyldu nefndarmanna til að sækja nefndarfund gilda almennar reglur um fundarsókn þingmanna, sbr. 65. gr. Forföll skulu tilkynnt formanni eða eftir atvikum ritara nefndarinnar.
    Varaþingmaður, sem tekur sæti á Alþingi í forföllum þingmanns, skal að jafnaði sitja í þeim nefndum sem aðalmaður var kjörinn í. Þingflokkur hans getur þó ákveðið aðra skipan og skal þá annaðhvort varamaður þingflokksins í nefndinni taka sæti aðalmanns um stundarsakir eða, ef þingflokkur ákveður svo, fylgja reglum 3. mgr. um staðgengil. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda einnig við fráfall þingmanns eða afsögn.
    Í forföllum nefndarmanns og varamanns í nefndinni er þingflokki hans heimilt að tilnefna sem staðgengil annan þingmann sem varamann um stundarsakir til setu í nefnd og skal tilkynna formanni nefndar um það eða ritara nefndarinnar. Staðgengill nýtur allra sömu réttinda og aðrir nefndarmenn. Sé staðgengli ætluð seta í nefnd um ákveðinn tíma skal tilkynna um það á vefsvæði nefndarinnar.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „leita“ í 3. málsl. 3. mgr. kemur: um ákvörðun forseta.
     b.      4. mgr. fellur brott.

9. gr.

    Við 6. mgr. 19. gr. laganna bætist: frá fundunum.

10. gr.

    Við 23. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Við umfjöllun um þingmál sem vísað hefur verið til nefndar getur hún leitað umsagnar annarra fastanefnda um málið, annaðhvort um málið í heild eða um tiltekin atriði þess. Getur nefndin þá jafnframt ákveðið frest sem önnur nefnd eða aðrar nefndir hafa til að skila umsögn sinni. Skal prenta umsagnir annarra nefnda með nefndaráliti um þingmálið.
    Þegar nefnd hefur lokið umfjöllun um mál, sem ekki er þingmál skv. III. kafla né fellur undir mál skv. 26. eða 31. gr., getur hún gert þinginu grein fyrir athugun sinni með áliti á þingskjali. Í áliti nefndar má jafnframt gera tillögu til þingsályktunar, sbr. 5. mgr. 45. gr.

11. gr.

    Í stað orðsins „EES-mál“ í 2. mgr. 24. gr. laganna kemur: mál sem varða Evrópska efnahagssvæðið (EES-mál).

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Til fjárlaganefndar skal, auk málefna sem talin eru í 13. gr., vísa frumvarpi til fjárlaga, fjáraukalaga og lokafjárlaga er 1. umræðu um þau er lokið.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Fjárlagafrumvarp fyrir næsta fjárlagaár skal leggja fram á fyrsta fundi haustþings, sbr. 42. gr. stjórnarskrárinnar. Frumvörp um breytingar á lögum sem útgjöld og tekjur frumvarpsins byggjast á skulu lögð fram samhliða fjárlagafrumvarpi.
     c.      2. mgr. orðast svo:
                 Stefnt skal að því að 3. umræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár skuli lokið eigi síðar en við lok fyrstu heilu viku desembermánaðar.
     d.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Áður en fjárlaganefnd afgreiðir tekjuhluta fjárlagafrumvarps á nefndin rétt á því að fjármálaráðuneytið leggi fyrir hana endurskoðaða tekjuáætlun næsta árs.
     e.      Við 4. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Tillögunni skal vísa til fjárlaganefndar eftir fyrri umræðu. Nefndin getur leitað umsagnar annarra nefnda um einstök atriði tillögunnar eftir því sem hún ákveður hverju sinni og setur þá fresti til afgreiðslu umsagna annarra nefnda.

13. gr.

    Í stað orðsins „þingmannanefndar“ í 2. mgr. 35. gr. laganna kemur: þingmannanefnda.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Með útbýtingu samkvæmt þessari grein, svo og 6. mgr. 45. gr., er átt við að þingmál hafi borist skrifstofu Alþingis fullbúið, annaðhvort prentað eða tilbúið til birtingar á vef þingsins.

15. gr.

    Á eftir orðinu „ríkisstjórnar“ í 1. málsl. 8. mgr. 45. gr. laganna kemur: auk yfirlits um framkvæmd þingsályktana sl. þrjú ár.

16. gr.

    Á eftir 46. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist töluröð annarra greina samkvæmt því:
    Eftirriti stefnuræðu forsætisráðherra við upphaf þings skal fylgja yfirlit um þau mál sem ríkisstjórn hyggst leggja fram á þinginu ásamt áætlun um hvenær þeim verður útbýtt. Yfirlitið skal birta í Alþingistíðindum.
    Ríkisstjórnin skal við upphaf vetrarþings afhenda forseta endurskoðaða áætlun um framlagningu stjórnarfrumvarpa á vetrar- og vorþingi ásamt áætluðum útbýtingardegi, sbr. 1. mgr.
    Ráðherrar skulu að jafnaði á fyrstu vikum þings koma á fund þingnefnda er fjalla um málaflokka þeirra, sbr. 13. gr., og gera grein fyrir þeim þingmálum sem þeir hyggjast leggja fram á löggjafarþinginu, sbr. 1. mgr.

17. gr.

    4. mgr. 49. gr. laganna fellur brott.

18. gr.

    Við 2. mgr. 55. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við framhald umræðunnar gilda að nýju ákvæði þingskapa um ræðutíma um skýrslur.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. laganna:
     a.      Orðin „eða ráðherrum“ í 2. málsl. 3. mgr. falla brott.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                 Á sérstökum þingfundi skal forseti taka á dagskrá fyrirspurnir er útbýtt hefur verið og ráðherra er tilbúinn að svara. Við það skal miða að ráðherra svari eigi síðar en tveimur vikum eftir að fyrirspurn er útbýtt.
     c.      Í stað orðanna „að jafnaði fimm á hverjum fundi“ í 2. málsl. 7. mgr., sem verður ný grein á eftir 56. gr., kemur: að jafnaði eigi færri en þrír.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. laganna:
     a.      2. og 3. mgr. flytjast og verða ný grein á eftir 57. gr.
     b.      4. mgr. flyst og verður önnur ný grein á eftir 57. gr.

21. gr.

    3. mgr. 58. gr. laganna fellur brott.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 60. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „tvær vikur nema þingið hafi áður verið rofið eða því frestað“ í 3. málsl. kemur: eina viku nema þingi hafi áður verið frestað eða þinghlé sé hafið samkvæmt starfsáætlun.
     b.      Við 4. málsl. bætist: í a.m.k. fimm þingdaga.

23. gr.

    7. mgr. 62. gr. laganna flyst og verður ný grein á eftir 62. gr.

24. gr.

    2. mgr. 63. gr. laganna flyst og verður ný grein á eftir 63. gr.

25. gr.

    Í stað 2. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Þó má ákveða dagskrá næsta fundar samkvæmt tillögu sem þingið samþykkir. Slíka dagskrártillögu má leggja fram meðan á fundi stendur og kemur hún til afgreiðslu í lok fundar eða fyrr á fundinum ef forseti ákveður svo. Sé þingfundur ekki ályktunarbær, sbr. 78. gr., er tillagan kemur til atkvæða skal greiða atkvæði um tillöguna við upphaf næsta fundar.

26. gr.

    82. gr. laganna, um útvarp umræðu, flyst og kemur á eftir 59. gr. í lok kaflans „Eftirlitsstörf Alþingis og almennar umræður“. Jafnframt fellur brott fyrirsögn og númer VII. kafla og breytast númer annarra kafla laganna samkvæmt því.

27. gr.

    Í stað orðsins „prenta“ í 1. mgr. og tvívegis í 2. mgr. 84. gr. laganna kemur: birta.

28. gr.

    Lög þessi öðlast gildi við upphaf næsta löggjafarþings, 141. þings, nema síðari málsliður b-liðar 12. gr. sem tekur gildi 1. september 2013. Tilvísanir í greinar, málsgreinar og málsliði í lögunum breytast í samræmi við ákvæði laga þessara.

29. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara breytast eftirfarandi ákvæði annarra laga sem hér segir:
     1.      Lög um framboð og kjör forseta Íslands, nr. 36/1945, með síðari breytingum: Orðið „sameinaðs“ í 13. gr. laganna fellur brott.
     2.      Lög um landsdóm, nr. 3/1963, með síðari breytingum: Orðið „sameinuðu“ í b-lið 1. mgr. 2. gr., orðið „sameinaðs“ í 5., 9., 14. og 43. gr., orðin „í sameinuðu þingi“ í 13. gr. og orðið „sameinað“ í 13. gr. laganna falla brott.
     3.      Lög um Grænlandssjóð, nr. 102/1980, með síðari breytingum: Orðin „í sameinuðu Alþingi“ í 6. gr. laganna falla brott.
     4.      Lög um samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar, nr. 12/1982: Í stað orðanna „sameinaðs þings“ í 1. og 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: Alþingis.
     5.      Lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, með síðari breytingum: Í stað orðanna „Forsetar Alþingis gera“ í 3. mgr. 3. gr. laganna kemur: Forseti Alþingis gerir.
     6.      Lög um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, með síðari breytingum:
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
                      1.      Í stað orðsins „daga“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: þingdaga samkvæmt starfsáætlun.
                      2.      Í stað tilvísunarinnar „sbr. 2. mgr. 60. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: sbr. 2. mgr. 65. gr.
                      3.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt er heimilt að greiða þingmanni, sem víkur af þingi um sinn en uppfyllir ekki skilyrði um lágmarksfjarveru skv. 1. málsl., þingfararkaup og aðrar fastar greiðslur fyrir þá daga sem hann kann að vera í opinberum erindum þann tíma sem fjarvera hans varir og varamaður hans á sæti á þinginu.
                      4.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um nauðsynlega umönnun í alvarlegum veikindum eða eftir slys barns eða náins aðstandanda, samkvæmt nánari reglum sem forsætisnefnd setur.
                  b.      Við 12. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Varaþingmaður, sem fær leyfi frá starfi sínu meðan hann á sæti á Alþingi og fær greitt þingfararkaup, á rétt á greiðslu sem svarar ávinnslu orlofslauna í því starfi sem hann annars gegnir.
                  c.      Á eftir 13. gr. laganna kemur nýr grein, 13. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Aðrar greiðslur.

                      Í reglum forsætisnefndar um þingfararkostnað má kveða á um að ákvarðanir kjararáðs um almenn starfskjör þeirra sem undir ráðið falla skuli einnig gilda um alþingismenn eftir því sem við getur átt.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er samið og flutt af þingmönnunum í þingskapanefnd og hefur verið í vinnslu og til meðferðar í nefndinni á yfirstandandi löggjafarþingi. Málið var endanlega afgreitt frá nefndinni 18. júní en þann dag voru tveir nefndarmenn með varamann fyrir sig, þ.e. Árni Þór Sigurðsson, formaður nefndarinnar, en hann hefur stjórnað starfi hennar í vetur og Birgitta Jónsdóttir. Þau eru því ekki flutningsmenn málsins af formsástæðum.
    Með bréfi til forsætisnefndar Alþingis, dags. 29. júní 2011, óskaði Þórunn Sveinbjarnardóttir, þáverandi formaður þingskapanefndar sem starfaði á 139. löggjafarþingi, eftir því að á 140. löggjafarþingi yrði kosin ný þingskapanefnd til að fjalla um frekari breytingar á lögum um þingsköp Alþingis. Á þingfundi 11. október sl. var nefndin síðan kosin. Í nefndina voru kosnir eftirtaldir alþingismenn: Ásta R. Jóhannesdóttir, Kristján L. Möller og Oddný G. Harðardóttir frá Samfylkingunni, Árni Þór Sigurðsson og Þuríður Backman frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Ragnheiður E. Árnadóttir og Birgir Ármannsson frá Sjálfstæðisflokknum, Gunnar Bragi Sveinsson frá Framsóknarflokknum og Birgitta Jónsdóttir frá Hreyfingunni. Magnús Orri Schram tók sæti Oddnýjar G. Harðardóttur í nefndinni í janúar 2012. Á fyrsta fundi nefndarinnar var Árni Þór Sigurðsson kosinn formaður. Í framhaldi af því var Birgir Ármannsson kosinn fyrsti varaformaður og Ásta R. Jóhannesdóttir annar varaformaður. Á fyrstu fundum nefndarinnar var farið yfir helstu verkefni hennar. Nefndin skipti síðan fljótlega með sér verkum til að hægt væri að vinna að þeim málum sem þingskapanefndin, sem starfaði á 139. löggjafarþingi, lagði til í nefndaráliti (þskj. 1794, 596. mál) að unnið yrði að. Verkaskiptingin á milli nefndarmanna var með eftirfarandi hætti:
     1.      Skipulag þingstarfa og reglur um ræðutíma: Birgir Ármannsson og Þuríður Backman.
     2.      Fjárlagaferlið ásamt umgjörð og aðbúnaði fjárlaganefndar: Magnús Orri Schram og Ragnheiður E. Árnadóttir.
     3.      Vefur Alþingis, umgjörð þingflokka, lagaskrifstofa og aðbúnaður þingmanna, t.d. í þingsal: Kristján L. Möller og Birgitta Jónsdóttir.
     4.      Skipting málaflokka á milli fastanefnda og starfshættir nefnda: Ásta R. Jóhannesdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson.
Jafnframt var unnið að ýmsum lagfæringum á þingsköpum, flestum tæknilegum, af nokkrum starfsmönnum Alþingis.
    Þegar leið á veturinn urðu nefndarmenn sammála um að forgangsraða verkefnum og því er í frumvarpi þessu aðallega horft til þess að gera ýmsar lagfæringar á þingsköpum Alþingis sem eru flestar tæknilegar.
    Næsta haust ráðgerir þingskapanefnd að leggja fram annað frumvarp sem tekur á öðrum þeim þáttum sem nefndin hefur fjallað um í vetur varðandi breytingar á lögum um þingsköp Alþingis. Þar verður m.a. horft til þess að taka á skipulagi þingstarfanna með ýmsum hætti, t.d. með því að fjalla um reglur um ræðutíma. Þá verður þar einnig fjallað frekar um skiptingu málaflokka á milli fastanefnda og starfshætti nefnda en þá verður heilt löggjafarþing liðið frá því að veigamiklar breytingar voru gerðar á nefndaskipaninni og starfsháttum fastanefnda. Loks er ráðgert að þar verði lagðar til aðrar þær breytingar sem þingskapanefndin telur að þá eigi enn eftir að gera og nauðsynlegar eru til að ljúka þeim verkefnum sem nefnd eru hér að framan. Umfangsmeiri breytingar á þingsköpum en þær sem lagðar eru til í frumvarpi þessu og koma til kasta næsta löggjafarþings tækju þá gildi við upphaf nýs kjörtímabils.
    Hér eru lagðar til nokkrar óhjákvæmilegar breytingar á þingsköpum sem sú breyting að flytja samkomudag Alþingis frá 1. október til annars þriðjudags í september kallar á. Þá eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á nokkrum atriðum sem varða starfshætti fastanefnda og skiptingu málaflokka á milli nefnda. Loks eru í frumvarpinu lagðar til nokkrar breytingar á þeim ákvæðum þingskapa sem fjalla um fjárlagafrumvarpið og meðferð þess í þinginu, sérstaklega í ljósi breytinga sem verða á meðferð frumvarpsins á Alþingi frá og með næsta löggjafarþingi, svo og fjárlagaramma sem ætlað er að leggja fram á vorin.
    Samhliða breytingum sem þingskapanefnd leggur til á þingsköpum eru lagðar til breytingar á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, einkum hvað varðar innköllun varamanna, greiðslur til aðalmanna og starfskjör varamanna. Nefndin beinir því til forsætisnefndar að gerðar verði breytingar á reglum um greiðslu þingfararkostnaðar sem lúta m.a. að útborgun fæðingarstyrks í fæðingarorlofi, ákvörðun launa í alvarlegum veikindum maka eða barns, ákvörðun fastra greiðslna í forföllum þingflokksformanns, formanna og varaformanna þingnefnda og heimild til að byggja á ákvörðun kjararáðs um almenn starfskjör embættismanna og reglum um slysa- og ferðatryggingar alþingismanna.
    Á fundum sínum fjallaði þingskapanefnd einnig um nokkur önnur frumvörp sem lögð hafa verið fram á yfirstandandi löggjafarþingi og vísað hefur verið til umfjöllunar nefndarinnar af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og varða breytingar á starfsemi Alþingis og á þingsköpum Alþingis. Í fyrsta lagi er um að ræða 27. mál (umræðutími þingmála). Málið var rætt í nefndinni og var einnig til sérstakrar skoðunar hjá þeim nefndarmönnum sem fjallað hafa um skipulag þingstarfa og reglur um ræðutíma. Nefndin fjallaði í öðru lagi um 28. mál (afnám sérstakra álagsgreiðslna). Nefndin er ekki sammála þeirri leið sem þar er lögð til en leggur hins vegar til nokkrar breytingar á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað. Í þriðja lagi er um að ræða 57. mál (lagaskrifstofa Alþingis). Málið var rætt í nefndinni og þá var það einnig til skoðunar hjá þeim nefndarmönnum sem fjallað hafa um vef Alþingis, umgjörð þingflokka, lagaskrifstofu og aðbúnað þingmanna, t.d. í þingsal. Loks fjallaði þingskapanefnd í fjórða lagi um 565. mál (meðferð fjárlagafrumvarps). Málið var rætt í nefndinni og er hún í meginatriðum samþykk efni þess. Nefndin beinir því til forseta Alþingis að hann leiti eftir því við þingflokksformenn við upphaf 141. löggjafarþings að við umræður um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013 verði horft til efnis þess frumvarps. Í kjölfarið verði síðan lagt mat á það hvernig til hafi tekist.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Þar sem í þingsköp Alþingis er komið ákvæði um siðareglur þykir rétt að vísa til þeirra í upptalningu 1. mgr. 8. gr. þar sem fjallað er um skyldu forseta til að sjá um að „allt fari fram með góðri reglu“ á þingfundum og í störfum þingsins.
    Við 5. mgr. 8. gr. er bætt nýjum málslið til þess að gera skýrara úrskurðarvald forseta um hvernig beri að skilja og framkvæma þær reglur sem settar eru um störf nefndanna. Hafa ber í huga að með þessu ákvæði er aðeins verið að skýra vald forseta til túlkunar á reglum sem settar hafa verið um störf nefndanna af forseta eða forsætisnefnd en ekki er verið að veita forseta heimild til að hafa áhrif á efnislega meðferð mála sem fyrir þeim liggja. Í þeim efnum eru nefndirnar algerlega sjálfstæðar. Þá er vert að benda á að með orðalagi breytingartillögunnar er það á valdi nefndarinnar sjálfrar að beina úrskurðarefnum til forseta en ekki á valdi einstakra nefndarmanna eða minni hluta nefndar. Það er formanns nefndar að úrskurða um einstök ágreiningsefni á fundum og ekki ætlunin, né hefur það verið venja við framkvæmd greinarinnar, að gera forseta að áfrýjunardómi um ágreining sem kann að koma upp í nefndunum.

Um 2. gr.

    Gerðar eru lagfæringar á 2. mgr. 10. gr. þingskapa í samræmi við þær reglur sem settar voru við endurskoðun þeirra á sl. ári og taka eiga gildi 1. september nk. Þær varða nýjan samkomudag þingsins, annan þriðjudag í september í stað 1. október eins og verið hefur, og að lokafundir þingsins í september („septemberstubbur“) falli niður. Þinglotur hvers löggjafarþings verða því framvegis þrjár en ekki fjórar eins og verið hefur.
    Gerð er lítils háttar orðalagsbreyting í 4. mgr. til samræmis við þá framkvæmd starfsáætlunar þingsins að hlé á þingfundum sé ekki aðeins nýtt til nefndarfunda, þingflokksfunda og starfa í kjördæmum, heldur og til annarra starfa þingmanna án þess að það sé skilgreint nánar. Störf þingmanna eru mikil og margvísleg og ekki öll bundin þingfundum, nefndarfundum og þingflokksfundum, né heldur störfum í kjördæmum, heldur og ýmsum öðrum skyldum sem þeir hafa. Með þeirri reglu sem viðhöfð hefur verið síðustu ár, eftir að ákveðið var að lengja starfstíma þingsins án þess þó að fjölga þingfundadögum, þar sem þingfundalotur standa í þrjár vikur en fjórðu vikuna eru ekki þingfundir, var stefnt að því að skapa svigrúm fyrir þingmenn til annarra starfa sem þeir gætu þá skipulagt með hliðsjón af starfsáætlun þingsins.
    Lagt er til að 6. mgr. greinarinnar falli brott. Ákvæðið var sett í þingsköp 1991 er deildaskipting Alþingis var afnumin, en þá var víða í löggjöf að finna ákvæði sem tóku til forsetanna þriggja sem þá störfuðu á Alþingi, og sums staðar var vísað til forvígismanns þingsins sem „forseta sameinaðs Alþingis“. Nokkrar leifar eru enn í lagasafni um þetta, en þeim ákvæðum er breytt í sérstakri grein aftast í frumvarpinu. Breytinguna má því kalla lagahreinsun.

Um 3. gr.

    Eftir ábendingu frá fjárlaganefnd er talið eðlilegra að almenn lífeyrismál heyri fremur undir efnahags- og viðskiptanefnd, svo sem áður var, en fjárlaganefnd eins og nú er samkvæmt síðustu breytingum á þingsköpum. Fjárlaganefndin fjallar þá aðeins um lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs og þá aðallega þær sem snúa að lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna.
    Einnig er felldur brott 2. málsl. ákvæðisins um fjárlaganefnd. Hann kveður á um að nefndin eigi að veita efnahags- og viðskiptanefnd umsögn um þingmál er varða tekjuhlið fjárlaga. Í ljós kom við fjárlagaafgreiðslu sl. haust að málsliðurinn þótti í senn óskýr og óhentugur og kom hann ekki til framkvæmda eftir orðanna hljóðan samkvæmt úrskurði forseta. Því þykir rétt að fella ákvæðið alveg brott úr þingsköpum að þessu sinni.
    Undir málefnasvið stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar falla, eins og eðli máls býður, skýrslur eftirlitsstofnana þingsins, umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar. Í ljós hefur komið að margar af skýrslum Ríkisendurskoðunar eiga betur heima til umfjöllunar í öðrum nefndum, ekki síst fjárlaganefnd. Með breytingunni er mælt fyrir um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skuli, ef henni sýnist svo, vísa slíkum skýrslum frá stofnuninni til annarra nefnda. Þetta felur í sér að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tekur við öllum skýrslum Ríkisendurskoðunar eins og núverandi ákvæði segja til um en skal, ef hún metur það svo, framsenda þær skýrslur stofnunarinnar, sem hún telur að eðlilegra sé að fái málefnalega athugun í annarri nefnd, til þeirrar nefndar og sú nefnd skilar síðan áliti sínu beint til þingsins. Með þessu fyrirkomulagi ætti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að halda beinum tengslum sínum við Ríkisendurskoðun og hafa yfirlit yfir eftirlitsstörf hennar en jafnframt létta á þeirri vinnu sem farið hefur fram innan nefndarinnar við umfjöllun um skýrslurnar, þær sem að mati nefndarinnar eiga betur heima annars staðar í nefndakerfinu til nánari athugunar og eftirfylgni.

Um 4. gr.

    Breytingin felur aðeins í sér skýrara orðalag. Með ákvæðinu er stefnt að því að nefndarsæti þingmanna sem sitja í tveim nefndum rekist ekki á í fundatöflu þingnefndanna eða séu samtímis.

Um 5. gr.

    Með breytingunni eru störf formanns nefndar, svo og verkefni staðgengils hans, ef um það er að ræða, gerð skýrari, þ.e. að formaður ákveður dagskrá nefndarfundar, en varaformenn í hans forföllum eða sérstaklega tilnefndur nefndarmaður ef þeir eru báðir forfallaðir. Frá því er þó sú undantekning að sé boðað til fundar skv. 2. mgr. 15. gr. skal taka á dagskrá það mál sem beðið er um þegar óskað er nefndarfundar samkvæmt þeirri heimild (fjórðungur nefndarmanna).

Um 6. gr.

    Ákvæði nýrrar 2. mgr. 16. gr. er nýmæli. Það felst í því að þingmaður sem sagt hefur sig úr þingflokki getur ekki setið áfram sem nefndarmaður kosinn eða valinn af þeim þingflokki sem hann hverfur úr, nema þingflokkurinn vilji láta það afskiptalaust. Nokkur dæmi eru um að þingmenn sem kosnir eru til nefnda á vegum þingflokks segi sig síðar úr þeim þingflokki en víki ekki úr nefndum, m.a. vegna þess að ekki hefur verið unnt að koma mannaskiptum við eftir úrsögnina. Ákvæði gildandi 16. gr. gera einvörðungu ráð fyrir að mannaskipti í nefndum taki til þeirra þingmanna sem eru innan þingflokksins. Þetta getur verið bagalegt, t.d. ef þingflokkur á aðeins einn mann í nefnd, svo og ef meirihlutaflokkar hafa nýtt sér ákvæði 4. málsl. 1. mgr. 14. gr., þ.e. að hafa meiri hluta í öllum nefndum, og missa með þessum hætti meiri hluta í nefnd. Réttur þingflokksins til þess að halda sætinu er þó bundinn við að hann eigi áfram rétt til nefndarsætisins eftir hlutfallslegum styrk, sbr. 14. gr. þingskapanna (eftir d'Hondt-reglunni), eða eftir öðrum ákvæðum þeirrar greinar.

Um 7. gr.

    Breytingin á 1. mgr. 17. gr. felur aðeins í sér þá hagkvæmnisreglu að tilkynna megi ritara nefndarinnar um forföll á nefndarfundi, enda er hann jafnaðarlega í samskiptum við nefndarmenn, sendir út fundarboð o.s.frv. Nefndarritara ber svo eðli máls samkvæmt að tilkynna formanni um þau forföll sem honum er kunnugt um áður en nefndarfundur hefst eða í upphafi hans.
    Breytingar á 2. og 3. mgr. eru nær einvörðungu orðalagsbreytingar, ekki efnisbreytingar, og gerðar til að skýra betur setu varaþingmanna í nefndum, setu varamanna í nefnd og setu staðgengla á nefndarfundum. Jafnframt er skotið inn því atriði að tilkynningum um setu varamanna og staðgengla megi koma á framfæri við ritara nefndarinnar jafnt sem formann hennar, en það er svo ritarans að koma upplýsingum áfram til formanns nefndar. Við 3. mgr. er þó bætt nýju efnisatriði sem felur það í sér að sé staðgengli ætluð seta í nefnd um ákveðinn tíma (ekki aðeins á einum fundi) beri að tilkynna um slíkt á vefsvæði þeirrar nefndar sem um er að ræða. Stundum eru við innkomu varaþingmanna, ekki síst fyrir ráðherra, gerðar bráðabirgðabreytingar á nefndasetu þingflokks og er eðlilegt að um slíkt sé tilkynnt opinberlega. Er hér lagt til að svo verði gert á vefsvæði nefndar sem í hlut á. Má þá þeim sem eiga samskipti við nefndina vera ljóst hvernig hún er skipuð hverju sinni.

Um 8. gr.

    Breytingin er aðeins orðalagsbreyting, gerð til þess að skýra ákvæðið betur.

Um 9. gr.

    Breytingin felur aðeins í sér skýrara orðalag.

Um 10. gr.

    Við 23. gr. þingskapa er bætt tveimur nýjum málsgreinum. Hin fyrri lýtur að því að festa í þingsköp þá venju, sem tíðkast hefur, að við umfjöllun þingnefndar sem fengið hefur vísað til sín þingmáli megi hún leita umsagnar annarra fastanefnda þingsins um málið í heild eða um afmarkaða þætti þess. Nefndin sem fer formlega með athugun málsins ákveður þá nánar fresti sem öðrum nefndum eru gefnir til að skila umsögn sinni, og sú nefnd afmarkar þá þætti sem hún vill fá umsögn annarra nefnda um ef málið er ekki í heild lagt fyrir aðra nefnd. Er þeirri nefnd sem umsögn veitir þá skylt að fylgja þeirri afmörkun. Þá er fest í þingsköp að slíkar umsagnir annarra nefnda skuli prentaðar með nefndaráliti um málið, og þá eftir atvikum nefndaráliti meiri hluta ef nefnd klofnar. Svo hefur jafnan verið venja, en ekki þó alltaf. Eins hefur þess gætt að umsögn minni hluta nefndar sem fengið hefur mál til umfjöllunar sé prentuð með nefndaráliti minni hluta nefndar, en slíkt hlýtur að vera óeðlilegt þar sem í nefndaráliti meiri hluta nefndar er skylt að gera grein fyrir afgreiðslu nefndar á þingmálinu í heild. Loks er rétt að minna á að komi ekki umsögn frá nefnd sem fengið hefur þingmál til umfjöllunar beri að líta svo á að nefndin geri ekki athugasemd við málið.
    Þá er bætt við nýrri málsgrein sem er aðeins ætlað að skýra og festa notkun heita yfir skjöl þingnefndanna, en nokkur ruglingur hefur verið á því hvort nefndir þingsins skila af sér „nefndaráliti“ eða „áliti“. Með ákvæðinu er fest í þingsköp sú regla að frá nefndum komi, auk þingmála, þrenns konar skjöl, þ.e. nefndarálit um þingmál, sbr. III. kafla þingskapa (um lagafrumvörp, þingsályktunartillögur og skýrslur), skýrslur skv. 26. eða 31. gr. (um athugun nefndar að eigin frumkvæði o.fl.) og loks „álit“ um þau mál sem nefndir hafa til umfjöllunar en eru ekki þingmál með málsnúmeri. Á það ekki síst við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og fjárlaganefnd sem fjalla t.d. um skýrslur Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis og mál skv. 5. mgr. 45. gr. þingskapa. Þá skiptir hér máli að í áliti nefndar má gera tillögu til þingsályktunar og fer fram um hana ein umræða eins og álit skv. 5. mgr. 45. gr. Slíkar ályktunartillögur gætu helst orðið niðurstöður nefndar um t.d. ábendingar frá Ríkisendurskoðun eða umboðsmanni Alþingis þar sem kallað væri eftir afstöðu Alþingis til aðfinnslna og athugasemda við stjórnsýslu eða meðferð opinberra fjármuna. Loks má benda á að þegar álit kemur fram frá nefnd um málefni sem ekki er þingmál, eins og áður segir, stofnast nýtt þingmál sem fær málsnúmer.

Um 11. gr.

    Breytingin varðar aðeins orðalag, þ.e. að skrifa út skammstöfun sem annars er ekki skýrð í texta ákvæðisins, en kemur hér fyrst fyrir í þingsköpum.

Um 12. gr.

    Breyting á 1. mgr. 25. gr. þingskapa felst aðeins í því að uppfæra efni hennar til samræmis við breytingar sem orðið hafa á fjárlagaferlinu á Alþingi. Lokafjárlaga er ekki getið í gildandi þingsköpum, en hins vegar bæði lánsfjárlaga, sem falla nú innan fjárlaga, og samþykktar á ríkisreikningi sem fellur nú innan lokafjárlaga.
    Ekki hafa verið í þingsköpum ákvæði um framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir næsta ár sem afgreiða þarf á haustþingi, fyrir jólahlé þingsins. Mjög föst skipan hefur þó verið á framlagningunni, þ.e. að frumvarpið komi fram á þingsetningarfundi að hausti. Byggist það á ákvæðum 42. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir: „Fyrir hvert reglulegt Alþingi skal, þegar er það er saman komið, leggja frumvarp til fjárlaga fyrir það fjárhagsár, sem í hönd fer, og skal í frumvarpinu fólgin greinargerð um tekjur ríkisins og gjöld.“ Það eru orðið „þegar er“ sem hér skipta máli. Eðlilegt þykir hins vegar að ákvæðið sé tekið upp í þingsköp, svo mikilvægt sem fjárlagafrumvarpið er í öllu starfi Alþingis á haustþingi. Þá er, að ábendingu fjárlaganefndar, bætt við ákvæði með fyrirmælum um að samhliða fjárlagafrumvarpi verði lögð fram frumvörp að lagabreytingum, ef um þau er að tefla, sem fjárlagafrumvarpið hvílir ár. Er hér um að ræða frumvörp um breytingu á sköttum og gjöldum, svo og svokallaðan „ríkisfjármálabandorm“ þar sem hefur verið safnað saman ýmsum lagabreytingum sem nauðsynlegar eru til þess að fjárlagafrumvarpið hvíli á réttum lagalegum forsendum. Þannig fær þingið lengri tíma til að fjalla um fjárstjórnina næsta ár og enn fremur betri yfirsýn yfir stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum þegar í upphafi þinghaldsins.
    Í 2. mgr. (sem verður 3. mgr.) er gerð breyting til að setja því þrengri mörk hvenær lokið skuli afgreiðslu fjárlaga næsta árs. Í núgildandi þingsköpum er miðað við að 3. umræða hefjist eigi síðar en 15. desember, en hér er gerð tillaga um að henni ljúki eigi síðar en við lok fyrstu heilu viku desembermánaðar. Ber þá að setja starfsáætlun þingsins fram í samræmi við þetta ákvæði þingskapa og fjárlaganefnd er einnig skylt að miða vinnuáætlun sína um afgreiðslu fjárlaga við að fjárlagafrumvarp sé afgreitt það snemma frá nefndinni fyrir 3. umræðu að umræðum og atkvæðagreiðslum geti lokið eigi síðar en fyrir þann tíma sem tilgreindur er í hinu nýja ákvæði. Helgast þessi breyting líka af því að frá og með haustinu 2012 hefst vinna við fjárlagafrumvarp talsvert fyrr en áður hefur verið, þ.e. fyrir miðjan september í stað byrjunar októbermánaðar eins og verið hefur. Með hinu nýja ákvæði ætti afgreiðslu fjárlaga næsta árs að ljúka í kringum 10. desember ár hvert. Er það svipaður tími og var að festa sig í sessi áður en efnahagsáföll dundu yfir 2008.
    Bætt er við greinina nýrri málsgrein sem ætlað er að treysta umfjöllun fjárlaganefndar um tekjuhlið fjárlagafrumvarps. Nefndin hefur frumvarpið allt til meðferðar, bæði útgjöld og tekjur, þótt tekjur ráðist af þeim skattstofnum sem fyrir eru í lögum og breytt er með frumvörpum sem eru til afgreiðslu í efnahags- og viðskiptanefnd. Venja er að fjárlaganefnd flytji breytingartillögu, annaðhvort við 2. eða 3. umræðu, um tekjugrein fjárlaga, en sú breytingartillaga byggist jafnan á nýrri tekjuspá. Með ákvæðinu er festur í lög réttur nefndarinnar til þess að fá slíka tekjuspá þegar nefndin kallar eftir henni. Þannig liggur fyrir nefndinni hvernig útgjöld og tekjur skiptast áður en að lokaafgreiðslu fjárlagafrumvarps kemur í fjárlaganefnd.
    Við 4. mgr. greinarinnar (sem verður 6. mgr.) er bætt tveim málsliðum, annars vegar til að taka af allan vafa um hvert vísa skuli tillögu um ramma fjárlaga næsta árs, og hins vegar til þess að fjárlaganefnd geti, sýnist henni svo, leitað umsagnar annarra nefnda þingsins á römmum, tekjuáætlun o.s.frv. og setji þá fresti sem hún telur þörf á svo að afgreiða megi tillöguna fyrir þingfrestun að vori.

Um 13. gr.

    Breytingin felur aðeins í sér leiðréttingu en Íslandsdeildir EFTA og EES eru tvær, aðskildar að formi. Því á hér við fleirtölumynd en ekki eintölu.

Um 14. gr.

    Bætt er við 37. gr. þingskapa nýrri málsgrein til að festa í þingsköp þá framkvæmd að útbýtingarfrestir frumvarpa samkvæmt þeirri grein og þingsályktunartillagna skv. 45. gr. miðist við að þingmál sé komið til skrifstofu þingsins fullbúið innan þess frests sem tilgreindur er. Þetta þýðir að málum er ekki „útbýtt“ prentuðum á þingfundi eins og skilja má af greinunum heldur getur það dregist stuttan tíma meðan verið er að prenta skjöl og fullbúa þau til birtingar á vef. Hefur ekki þótt ástæða til að túlka ákvæði greinarinnar um útbýtingarfresti svo þröngt að prentað skjal þurfi að liggja á borðum þingmanna innan hins tilgreinda tíma heldur að ríkisstjórnin eða þingmenn hafi lokið efnislegri afgreiðslu máls að fullu frá sinni hendi og afhent skrifstofu þingsins. Það getur svo dregist í einhverja daga að skjal komist prentað í „útbýtingu“ en sá tími ætti að vera mjög stuttur sem líður frá skráningu máls og til birtingar þess á vef þingsins.

Um 15. gr.

    Breytingartillagan byggist á samhljóða áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á þskj. 1054 á yfirstandandi löggjafarþingi en nefndin fjallaði um skýrslu forsætisráðherra sem kom fram í upphafi þings samkvæmt þingsköpum um framkvæmd ályktana Alþingis næstliðið ár. Nefndin taldi að þingið þyrfti betri yfirsýn yfir feril ályktananna en þingsköp kvæðu nú á um og nefndi í því sambandi þrjú ár, en þá ætti að vera ljóst hvað orðið hefur úr eftirfylgni framkvæmdarvaldsins með ályktunum þingsins. Í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar (þskj. 1054) segir m.a.:
    „Nefndin telur það mikilvæga breytingu á þingsköpum Alþingis að kveðið sé á um skyldu forsætisráðherra til að leggja fram skýrslu um framkvæmd þeirra ályktana sem Alþingi hefur samþykkt. Það veiti framkvæmdarvaldinu nauðsynlegt aðhald að forsætisráðherra geri Alþingi árlega grein fyrir framkvæmd þingsályktana sem Alþingi hefur beint til þess. Þá bendir nefndin á að þingmenn geta nýtt efni skýrslunnar til að beina fyrirspurnum til ráðherra um framkvæmd ályktananna.
    Nefndin telur skýrsluna greinargóða en að í henni þyrfti að koma fram yfirlit yfir framkvæmd ályktana þingsins t.d. þrjú ár aftur í tímann enda koma ályktanir ekki alltaf til framkvæmda strax, m.a. vegna kostnaðar við verkefnin. Í slíku yfirliti gæti komið fram hve framkvæmdin er langt komin, hvort hún er hafin, í vinnslu eða lokið. Nefndin beinir því til þingskapanefndar að huga að því við endurskoðun laga um þingsköp hvort rétt sé að leggja til slíkar breytingar á 8. mgr. 45. gr. þeirra.“

Um 16. gr.

    Í tímans rás, við breytingar á þingsköpum, hefur orðið nokkur skekkja í innri uppbyggingu þingskapanna. Þannig hafa bæði greinar bæst við sem ekki hafa ratað í rétta kafla innan þingskapanna eða einstakar greinar lengst svo að örðugt er að fá yfirsýn um efni þeirra. Hér eru færðar saman úr þremur greinum þrjár málsgreinar sem allar fjalla um málaskrá ríkisstjórnar, að hausti og eftir jólahlé, svo og um kynningu þeirra á nefndarfundum.

Um 17. gr.

    Felld er brott 4. mgr. greinarinnar. Efni hennar er samhljóða ákvæðum 3. mgr.

Um 18. gr.

    Færst hefur í vöxt að skýrslum sé vísað til umfjöllunar í nefndum þingsins. Er það eðlileg og rétt þróun. Með hliðsjón af því er eðlilegt að við framhald umræðu, eftir umfjöllun nefndar, sé ræðutími sá sami og var áður en skýrslunni var vísað til nefndar því ella gæti svo farið að þingmenn, ekki síst þeir sem hafa látið efni skýrslu sig miklu varða, eigi ekki rétt til frekari umræðu um skýrsluna og álit nefndar á henni.

Um 19. gr.

    Felld eru brott í niðurlagsákvæði 3. mgr. 56. gr. þingskapa orðin „eða ráðherrum“ enda er ekki gert ráð fyrir því að fleiri en einn ráðherra svari fyrirspurn. Hér er gert ráð fyrir að munnlegra svara sé leitað en þá væri jafnframt vandasamt að sjá hvernig haga ætti umræðu og hvaða ráðherra hefði forræði málsins. Enn fremur leiðir það af ákvæðum 3. mgr. 48. gr. að „opinbert málefni“, sem þar er skýrgreint, á jafnan undir einn ráðherra að þessu leyti.
    Nauðsynlegt er að gera breytingar á ákvæðum þingskapa um munnleg svör ráðherra við fyrirspurnum. Núgildandi ákvæðum hefur ekki verið framfylgt sem skyldi og eru ýmsar ástæður fyrir því, m.a. að svör eru ekki tilbúin, ráðherra eða fyrirspyrjandi forfallaðir o.s.frv. Enn fremur hefur hefðbundnum fyrirspurnafundum fækkað frá því sem áður var og eru nú sjaldan oftar en tvisvar í mánuði á þingtíma. Breyting á orðalagi 4. mgr. er til samræmis við þessa þróun. Meginatriðið er þó að munnleg svör ráðherra við fyrirspurnum komi eins fljótt og auðið er þannig að tilgangur þessa umræðuforms haldi sér. Enn fremur er fellt út það ákvæði að ákveðinn tímafrestur sé til svara ráðherra (þrír dagar), en þess eru dæmi að ráðherrar séu tilbúnir að svara þingmönnum (ekki hvað síst varaþingmönnum) með mjög skömmum fyrirvara.
    Breytt er því ákvæði 7. mgr. greinarinnar að fimm ráðherrar skuli að jafnaði sitja fyrir svörum í svokölluðum óundirbúnum fyrirspurnatíma. Ráðherrum hefur fækkað síðan þetta ákvæði var sett í þingsköp, auk þess sem borið hefur á því að viðstaddir ráðherrar hafa ekki fengið fyrirspurnir. Er því talið eðlilegt að færa þennan fjölda viðstaddra ráðherra niður í þrjá, en orðalag haft sveigjanlegt þannig að hann geti að nokkru ráðist af því hvaða mál eru efst á baugi í þjóðfélagsumræðunni hverju sinni. Markmið þessa ákvæðis er að þingmenn, og þá einkum þingmenn stjórnarandstöðu, eigi á hverjum tíma greiðan aðgang að forustumönnum ríkisstjórnar með spurningar og ráðherrar hafi tækifæri til að svara fyrir gerðir sínar.

Um 20. gr.

    Sumar greinar þingskapanna hafa, eftir breytingar á undanförnum árum, orðið efnismiklar og stundum er efnið svo sundurleitt að betur fer á því að skipta því upp í aðskildar greinar. Þannig er með 57. gr. þingskapa. Með þeirri breytingu sem felst í þessari grein verða til þrjár greinar, ein um „störf þingsins“, önnur um „sérstakar umræður“ og sú þriðja um „sérstaka yfirlýsingu“.

Um 21. gr.

    Efnismálsgreinin sem fellur hér brott er tekin óbreytt upp í nýja grein, sbr. 19. gr. frumvarpsins.

Um 22. gr.

    Hér er gerð sú mikilvæga breyting á innkomu varaþingmanna að lágmarksseta þeirra er stytt úr tveimur vikum í eina. Núgildandi ákvæði þingskapa eru gömul og miðuðu við annars konar þjóðfélag og starfshætti í þinginu. Hið nýja ákvæði tekur mið af því sem lagt er til í niðurlagi málsgreinarinnar að aðalmaður haldi því aðeins þingfararkaupi sínu og öðrum greiðslum að hann sé fjarverandi í opinberum erindum erlendis, að jafnaði á vegum Alþingis, eða sökum veikinda í a.m.k. fimm þingdaga. Er þá miðað við þá daga sem fram koma í starfsáætlun þingsins, þ.e. fundadaga, nefndadaga, þingflokksfundadaga, kjördæmadaga og annað sem þar kemur fram. Í tillögu um breytingar á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað verður búið svo um að þingmaður, sem tekur inn varamann en á þó ekki rétt til þingfararkaups vegna „fimm-daga-reglunnar“, fái eigi að síður greitt þingfararkaup fyrir þá daga sem hann sannarlega er í erindum Alþingis erlendis, ef því er að skipta, einhvern hluta fjarveru sinnar. Loks er felld brott tilvísun til þingrofs í núgildandi ákvæði enda hefur þingrof sem slíkt ekki bein áhrif á störf þingsins heldur sú þingfrestun sem fram fer fram samtímis þingrofi eða síðar.

Um 23. og 24. gr.

    Breytingarnar felast aðeins í því að skipta upp efni tveggja greina svo að efnisskil séu gleggri og tilvísanir í efni þeirra sem einfaldastar.

Um 25. gr.

    Dagskrárvald þingfunda er að mestu í höndum forseta en lengi hefur verið í þingsköpum ákvæði um að þingið geti „ályktað“ um dagskrá næsta fundar. Er þó afar sjaldgæft að á slíkt reyni en þó eru nokkur nýleg dæmi um það, t.d. vorið 2009. Líta má svo á að ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 70. gr. þingskapa sé viðurlagaákvæði sem tryggi að forseti geti ekki með dagskrárvaldi sínu komið í veg fyrir að mál sem meiri hluti þingsins styður komist á dagskrá þingsins. Ljóst er að með orðinu „ályktun“ í 2. málsl. 1. mgr. greinarinnar er ekki átt við þingsályktun, enda gilda um slíkar tillögur vissir frestir sem ekki eiga við í þessu tilfelli. Hér merkir „ályktun“ samþykkt þingsins. Er orðalagi 2. málsl. breytt í samræmi við það. Síðast þegar á ákvæðið reyndi voru lagðar fram „dagskrártillögur“ og var í fyrstu nokkur óvissa um hvernig með þær ætti að fara en forseti úrskurðaði síðan að þær skyldu koma til afgreiðslu við lok fundar, þ.e. þegar dagskrá yfirstandandi fundar var tæmd. Er lagt til að svo verði meginreglan í nýju ákvæði um dagskrártillögu um næsta þingfund og er ákvæðið sett til að skýra málsgreinina betur. Þó er forseta veitt heimild til að láta slíka tillögu ganga til atkvæða fyrr en við lok fundar ef hagkvæmt þykir, enda sé þess gætt að allir þingmenn fái vitneskju um slíka atkvæðagreiðslu og hafi eðlilegt og venjubundið ráðrúm til að koma til fundarins séu þeir utan þinghússins. Þá er enn fremur veitt heimild til þess að komi dagskrártillaga fram seint á fundi, jafnvel um miðja nótt, og fáir þingmenn eru á fundi, megi taka tillöguna til afgreiðslu í upphafi næsta fundar fremur en að þingmenn séu kallaðir til atkvæðagreiðslu síðla kvölds eða að nóttu til að fá niðurstöðu um dagskrártillögu. Vert er að vekja athygli á að dagskrártillaga lýtur einvörðungu að dagskrá „næsta fundar“ og hún getur því ekki falið í sér ályktun um að slíta yfirstandandi fundi, taka mál út af dagskrá o.s.frv.

Um 26. gr.

    Ákvæði þingskapa um útvarp umræðu þykir eiga betur heima í kaflanum um umræður en í sérstökum kafla um „Útvarp umræðu“. Því er greinin, óbreytt, flutt til.

Um 27. gr.

    Síðastliðið sumar var tekin ákvörðun um að hætta hefðbundinni prentun Alþingistíðindanna, eins og velflestra annarra opinberra gagna, svo sem Stjórnartíðinda, Lögbirtingablaðs, Hæstaréttardóma o.s.frv. Útgáfa Alþingistíðindanna, a.m.k. frá og með 140. löggjafarþingi, verður á rafrænu formi, þ.e. á vef þingsins. Til samræmis við þetta er breytt ákvæðum 1. og 2. mgr. greinarinnar þar sem fjallað er um „prentun“ þingtíðindanna, en í staðinn kemur „birting“. Eigi að síður er reiknað með að nokkur eintök Alþingistíðindanna, öryggiseintök, verði prentuð eða ljósrituð og varðveitt af skjalasafni þingsins.

Um 28. gr.

    Stefnt er að því að breytingarnar sem frumvarp þetta felur í sér taki gildi við upphaf næsta löggjafarþings, þ.e. 141. löggjafarþings, sem á að hefjast þriðjudaginn 11. september 2012, nema síðari málsliður b-liðar 12. gr., sem fjallar um framlagningu frumvarpa um skatta og gjöld í tengslum við fjárlagafrumvarp, sem tekur gildi 1. september 2013.

Um 29. gr.

     Um 1.–5. tölul.
    Vísað er til athugasemda við 2. gr. frumvarpsins um breytingar á 10. gr. þingskapanna, en þar er fellt brott gamalt ákvæði sem segir að þar sem vísað sé til þingforseta (í fleirtölu) eins og gert var áður en deildaskiptingin var afnumin 1991, eða til „forseta sameinaðs Alþingis“, skuli framvegis átt við forseta Alþingis (í eintölu). Nú er með lítilli fyrirhöfn unnt að fara yfir lagasafnið til þess að finna slíka staði þar sem enn leifir eftir af gömlu orðalagi, sem ekki á við lengur, og því er í greininni hreinsað upp úrelt orðalag að því er varðar forseta þingsins og aðkomu hans að ýmsu er varðar aðrar stofnanir eða nefndir.
     Um a-lið 6. tölul.
    Í 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað er orðalagi breytt lítillega til samræmis við þá framkvæmdarvenju sem skapast hefur. Snýr það að svokallaðri „fimm-daga-reglu“ sem er lágmark fjarveru til þess að þingmaður haldi þingfararkaupi þótt hann taki inn varamann. Tekin eru af tvímæli um að miðað sé við þingdaga samkvæmt starfsáætlun. Geta það verið fundadagar, nefndadagar o.fl. sem tiltekið er í starfsáætlun þingsins.
    Við 1. mgr. er bætt nýjum málslið og opnað fyrir það að þingmenn, sem hverfa af þingi um sinn og kalla til varamann sinn, án þess þó að uppfylla skilyrði 1. málsl. um lágmarksfjarveru erlendis í opinberum erindum (þ.e. fimm þingdaga), fái eigi að síður greiðslur fyrir þá daga sem þeir kunna að vera við störf í opinberum erindum meðan þeir eru utan þings. Þess eru dæmi, og sum þeirra nýleg, að þingmenn hafa farið af þingi og kallað til varamenn sína þótt þeir séu fjarverandi skemmri tíma en fimm daga til þess að tryggja að atkvæðahlutföll á þinginu raskist ekki ef mikilvægar atkvæðagreiðslur standa fyrir dyrum. Í sumum tilfellum hafa þingmenn þó engu síður verið í opinberum erindum Alþingis hluta tímans og því verið kauplausir við störf á þess vegum. Getur slíkt ekki talist sanngjarnt og því er lagt til að í reglum forsætisnefndar séu sett ákvæði sem tryggi að þingmenn haldi greiðslum hlutfallslega þegar þannig er ástatt þótt þeir að öðru leyti uppfylli ekki skilyrði „fimm-daga-reglunnar“. Í ákvæði þessu felst því í framkvæmd sú skipan að taki þingmaður inn varamann, þótt hann t.d. eigi aðeins opinber erindi erlendis í tvo daga, missir hann aðeins þingfararkaups og annarra greiðslna í þrjá daga (fær greitt fyrir tvo daga) í stað tveggja vikna samkvæmt núgildandi reglum og einnar viku sem annars gilti samkvæmt frumvarpinu ef þessi undantekning væri ekki gerð.
    Með breytingu á 2. mgr. 11. gr. er alþingismönnum gert kleift að veita nánum aðstandanda, svo sem barni eða maka, nauðsynlega umönnun í alvarlegum veikindum eða eftir slys án þess að það leiði til missis þingfararkaups, sbr. 1. mgr. Lagt er til að í reglum forsætisnefndar verði þetta afmarkað nánar í samræmi við réttindi opinberra starfsmanna eins og þau eru ákvörðuð í kjarasamningum hverju sinni. Börn merkja hér eigið barn, kjörbarn, stjúpbarn og fósturbarn sem þingmaður hefur á framfæri sínu.
     Um b-lið 6. tölul.
    Lög gera ekki ráð fyrir því að þingmenn eigi sérstakan orlofstökurétt, þ.e. að þeir geti lagt niður störf í tiltekinn tíma og notið greiðslna á meðan. Á móti kemur að þeir fá greitt þingfararkaup og fastan kostnað mánaðarlega allt árið. Sama gildir um varaþingmann meðan hann situr á þingi. Það getur m.a. haft í för með sér að hafi hann fengið launalaust leyfi á meðan hann situr á þingi ávinnur hann sér ekki rétt til orlofslauna á meðan. Standi forföll þingmanns yfir í nokkurn tíma, t.d. vegna fæðingarorlofs eða alvarlegra veikinda aðalmanns, getur það haft verulega þýðingu fyrir fjárhagsstöðu varaþingmannsins þegar til orlofstöku kemur. Auk þess sem hér er rakið njóta varaþingmenn ekki biðlaunaréttar þegar þeir hverfa af þingi jafnvel þó að um umtalsverðan tíma geti verið að ræða. Telja verður sanngjarnt að í slíkum tilvikum verði sem minnst röskun á högum varaþingmanns og að hann verði sem líkast settur hvað viðkemur ávinnslu orlofsréttinda þegar hann tekur aftur við starfi sínu.
     Um c-lið 6. tölul.
    Með breytingunni er lagt til að í almennum reglum forsætisnefndar um þingfararkostnað megi ákveða að alþingismenn skuli eiga rétt á að fá greiddan ýmsan kostnað, svo sem við kaup á gleraugum eða heyrnartækjum, krabbameinsleit, líkamsrækt o.fl. Hér er farin sambærileg leið og kjararáð ákvað 19. desember 2006 og fól í sér að embættismenn skyldu eiga rétt á greiðslum úr Styrktarsjóði BHM. Ekki er þó lagt til að stofnaður verði sérstakur fjölskyldu- og styrktarsjóður fyrir alþingismenn heldur fari um rétt alþingismanna í þessum efnum með sambærilegum hætti og um rétt embættismanna. Jafnframt felur þetta ákvæði í sér rétt alþingismanna til fæðingarstyrks eins og á við um embættismenn. Er fyrirhugað að forsætisnefnd setji nánari reglur um hann.